Útdeiling fjármuna á grundvelli skuldaniðurfellingarpakka ríkisstjórnarinnar er að hefjast, eftir að aðgengi að umsóknarkerfinu var opnað í gær. Í gegnum kerfið mun sá hluti Íslendinga sem var með verðtryggt húsnæðislán á ákveðnum tímabili sækja sér allt að 80 milljörðum króna. Sá hluti Íslendinga sem er með séreignarsparnað mun geta notað nokkra tugi milljarða króna hans til að greiða niður húsnæðislánin sín næstu árin hið minnsta. Til stendur jafnvel að gera þann möguleika varanlegan.
En ekki hagnast bara sumir íbúðaeigendur á skuldaniðurfellingarferðalagi ríkisstjórnarinnar. Í kringum þessa miklu aðgerð er gríðarlegt umstang og alls kyns sérfræðivinna sem þarf að sinna. Nánast undantekningarlaust hefur sú vinna ekki verið boðin út.
Ríkisskattstjóri kaupir þjónustu
Í skuldaniðurfellingarfrumvörpunum sem nú bíða samþykkis Alþingis kemur fram að áætlaður heildarkostnaður embættis ríkisskattstjóra við umsjón og framkvæmd þessarra verkefna sé 285 milljónir króna. Þar af eru 235 milljónir króna vegna niðurfærslna á verðtryggðum húsnæðislánum og 50 milljónir króna vegna ráðstöfunar á séreignarlífeyrissparnaði. Ekki fengust sundurliðaðar upplýsingar frá embættinu um hvernig kostnaðurinn skiptist niður á verkseljendur.
Þó liggur fyrir að Ríkisskattstjóri kaupir töluvert af þjónustu af Reiknistofu bankanna vegna skuldaniðurfellinganna, en eigendur hennar eru helstu fjármálafyrirtæki landsins. Auk þess var gerður rammasamningur við Advania, sem sér um gerð þess vefs sem hægt verður að sækja um skuldaniðurfellinguna á og gagnagrunna. Ríkisskattstjóri gerði líka samning við Libra, íslenskt fyrirtæki sem smíðar hugbúnað fyrir íslenskan fjármálamarkað. Með virðisaukaskatti er samningurinn við Libra um 14 milljónir króna og innan útboðsskyldu. Því bar ríkisskattstjóra ekki að bjóða verkefnið út heldur gat valið sér þann samstarfsaðila sem hann vildi notast við.
Tvíhliðasamningar við fjármálastofnanir
Til viðbótar við þann kostnað sem fellur á hið opinbera fellur töluverður kostnaður á þá aðila sem veita verðtryggð lán. Það eru bankar, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir. Sá kostnaður er mest vegna aðkeyptrar þjónustu og vegna þeirrar vinnu sem tölvudeild hvers banka fyrir sig þarf að leggja út í. Á meðal þeirra sem selja þessum aðilum þjónustu er áðurnefnt Libra. Þar sem um tvíhliða samninga á milli einkaaðila er að ræða fæst ekki uppgefið hjá fjármálaráðuneytinu hvert umfang þeirra er en heimildir Kjarnans herma að virði samninga Libra í heild vegna skuldaniðurfellinganna sé á bilinu 50 til 60 milljónir króna.
Mörg hundruð milljóna kostnaður bankanna
Kjarninn beindi fyrirspurn um ætlaðan kostnað vegna skuldaniðurfellinga til stóru bankanna þriggja: Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Í svari Arion banka er sérstaklega tiltekið að erfitt sé á þessum tímapunkti að meta þann kostnað sem þessu muni fylgja, enda enn margt óljóst um framkvæmdina. „Kostnaðaráætlanir okkar, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag og þær forsendur sem við gefum okkur, gera ráð fyrir að kostnaðurinn fyrir bankann geti verið á bilinu 180 til 230 milljónir króna,“ segir enn fremur í svarinu.
Íslandsbanki sagði að kostnaður bankans lægi ekki fyrir eins og er og hann yrði ekki ljós fyrr en endanleg útfærsla aðgerðarinnar lægi fyrir og búið væri að ganga frá samningum við ríkið. „Þá er ekki enn ljóst hversu mikið af lánum bankans falla undir aðgerðirnar.“
Landsbankinn lét leggja mat á þann viðbótarkostnað sem hann áætlar að verða fyrir vegna skuldaniðurfellinganna. Með viðbótarkostnaði er átt við breytilegan kostnað. Fastur kostnaður er undanskilin í áætluninni. „Beinn kostnaður Landsbankans við þessa aðgerð er á bilinu 70-100 milljónir króna, það veltur á útfærslu ákveðinna þátta hver endaleg tala verður. Þá er ekki meðtalinn beinn og/eða óbeinn kostnaður, t.d. vegna tapaðra vaxtatekna af fyrirframgreiddum lánum eða þeir skattar sem lagðir hafa verið á fjármálafyrirtækja til að mæta kostnaði við leiðréttinguna,“ segir í svari Landsbankans.
Af svörum bankanna má ljóst vera að heildarkostnaður þeirra allra hleypur á mörg hundruð milljónum króna.
Analytica valið til verka
En ekki hefur einvörðungu skapast kostnaður vegna tæknilegs hluta útfærslunnar. Sérfræðingahópur forsætisráðherra um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, undir forystu Sigurðar Hannessonar, kynnti niðurstöður sínar um aðgerðir í skuldamálum heimila 30. nóvember síðastliðinn. Í skýrslu hópsins var meðal annars fráviksspá frá vetrarspá Hagstofunnar sem unnin var af Analytica að beiðni sérfræðingahóps forsætisráðherra. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu hafði sérfræðinganefndin samband við nokkur greiningarfyrirtæki og „gaf þeim kost á að bjóða í verkefnið“. Í svarinu kemur ekki fram hvaða fyrirtæki er um að ræða.
Analytica var á endanum ráðið til verksins og fékk 6,9 milljónir króna fyrir. Spá Analytica var á þá leið, miðað við gefnar forsendur, að hagræn áhrif skuldaniðurfellinganna yrðu jákvæð. Flestallir aðrir greiningaraðilar sem lagst hafa yfir tillögurnar síðan, meðal annars Seðlabanki Íslands, hafa komist að öfugri niðurstöðu. Þó verður að taka fram að þeir hafa ekki unnið sínar greiningar miðað við sömu forsendur og lagðar voru fyrir Analytica.
Unnu líka að úttekt á húsnæðismálum
Þetta er ekki eina verkefnið sem Analytica hefur unnið fyrir ríkisstjórnina á undanförnum mánuðum. Fyrirtækið vann líka úttekt á áhrifum afnáms verðtryggingar fyrir sérfræðinganefnd um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum sem starfaði á vegum forsætisráðuneytisins. Sú vinna kostaði tvær milljónir króna.
Analytica var líka, ásamt KPMG, fengið til að framkvæma sviðsmyndagreiningar fyrir verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála, sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í byrjun maí. Í skýrslunni segir að verkefnisstjórnin hafi „leitað eftir tilboðum þar til gerðra aðila til sviðsmyndagreiningar. Þegar tímafresti lauk, þann 23. október 2013, hafði verkefnisstjórn borist tilboð fimm aðila. Var það ákvörðun verkefnisstjórnar að ganga til samninga við Analytica og KPMG á grundvelli tilboða þeirra“.
Kjarninn leitaði eftir upplýsingum hjá Velferðarráðuneytinu um hversu mikið þessir aðilar hefðu fengið greitt fyrir vinnu sína. Í svarinu kemur fram að heildarkostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu vegna úttektarinnar sé 37,4 milljónir króna. Þar af fékk KPMG 22,3 milljónir króna, Analytica 13,7 milljónir króna og tveir minni aðilar það sem upp á vantar.
Fréttaskýringin birtist í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.