Mary Elizabeth Truss verður nýr forsætisráðherra Bretlands frá og með morgundeginum. Það varð ljóst eftir að hún bar sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins gegn Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, sem sagði af sér embætti í aðdraganda afsagnar Boris Johnson forsætisráðherra í júlí.
Óhætt er að fullyrða að Truss var ekki fyrsta val flokksmanna Íhaldsflokksins eftir að Boris Johnson sagði af sér í kjölfar fjölda hneykslismála. Eftir fimm umferðir af atkvæðagreiðslu þar sem frambjóðendum var fækkað úr átta í tvo stóð valið á milli Truss og Sunak og sigur hennar var í raun aldrei í hætti, þó munurinn hafi verið minni en spár gerðu ráð fyrir.
Truss fékk 57 prósent atkvæða. 172.437 voru með kosningarétt í kjörinu, rúmlega þrettán þúsund fleiri en í leiðtogakjörinu 2019 þegar Boris Johnson var kjörinn. Það gefur vísbendingu um fjölda flokksmanna en Íhaldsflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn í Bretlandi sem gefur ekki reglulega út fjölda flokksmanna. Miðað við þessar upplýsingar hefur flokksmönnum fjölgað en þeir voru 159.320 árið 2019.
En hver er Liz Truss?
Ung Liz hefði líklega ekki gert sér í hugarlund að hún ætti síðarmeir eftir að ganga inn um dyr númer tíu í Downingstræti sem forsætisráðherra. Það verður hins vegar raunin, frá og með morgundeginum, þegar Elísabet II Englandsdrottning mun formlega skipa hana sem forsætisráðherra. Truss verður þriðja konan sem gegnir embætti forsætisráðherra í sögu Bretlands, á eftir Margaret Thatcher og Theresu May.
Mary Elizabeth Truss er 47 ára, fædd 26. júlí 1975. Hún er elst fjögurra systkina og ólst upp á heimili frjálslyndra demókrata. Faðir hennar var prófessor í stærðfræði og móðir hennar hjúkrunarfræðingur. Truss fæddist í Oxford en fjögurra ára gömul flutti fjölskyldan til Paisly, í nágrenni við Glasgow. Fjölskyldan flutti síðar til Leeds.
Mótmælti aðgerðum Thatcher en lýsir henni síðar sem fyrirmynd
Priscilla, móðir Truss, barðist ötullega fyrir afvopnavæðingu kjarnorku og Truss var ekki há í loftinu þegar hún fór með móður sinni í „ban the bomb“-göngur þar sem hún kyrjaði slagorð sem beindust gegn Margaret Thatcher, sem hún hefur í seinni tíð lýst sem fyrirmynd hennar í stjórnmálum.
Truss lýsir foreldrum sínum sem „til vinstri við Verkamannaflokkinn“. Móðir hennar hafi þó stutt baráttu hennar í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins en hún er ekki viss hvort faðir hennar muni nokkurn tímann greiða henni atkvæði.
Truss stundaði nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði við Merton-háskólann sem heyrir undir Oxford-háskólann. Á námsárunum var hún virk í stúdentapólitíkinni fyrir Frjálslynda demókrata þar sem hún gegndi formennsku og lagði til að konungsstjórnin yrði lögð niður. „Við, frjálslyndir demókratar, trúum því ekki að fólk sé fætt til að stjórna,“ sagði Truss í ræðu á landsfundi Frjálslyndra demókrata árið 1994.
Ekki leið á löngu þar til hún sagði skilið við flokkinn og söðlaði um yfir til Íhaldsflokksins. Hún hefur lýst tímabili sínu sem frjálslyndur demókrati sem mistökum á hennar yngri árum. „Sumir stunda kynlíf, nota eiturlyf og hlusta á rokk, ég var frjálslyndur demókrati. Fyrirgefið,“ sagði Truss á framboðsfundi í sumar.
Að loknu námi starfaði hún í bókhaldi hjá Shell og síðar hjá fjarskiptafyrirtækinu Cable & Wireless þar sem hún kynntist Hugh O'Leary. Þau gengu í hjónaband árið 2000 og eiga tvö börn sem eru nú á táningsaldri.
Umhverfis-, dómsmála- og utanríkisráðherra
Truss reyndi fyrst að komast á þing árið 2001. Hún náði ekki kjöri og heldur ekki árið 2005. Fyrir þingkosningarnar 2010 var hún á svokölluðum A-lista David Cameron, þáverandi leiðtoga Íhaldsflokksins, sem samanstóð af Íhaldsmönnum sem hann vildi gjarnan að næðu kjöri. Truss bauð sig fram í Suðvestur Norfolk, þar sem talið var að Íhaldsflokkurinn ætti öruggt sæti, og það reyndist rétt.
Ráðherraferill Truss hófst árið 2012 þegar hún varð undirráðherra í menntamálaráðuneytinu. Tveimur árum síðar varð hún umhverfisráðherra og árið 2016 varð hún dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Theresu May. Truss vakti athygli í umræðu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og kaus hún gegn Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2016 þar sem hún talaði fyrir mikilvægi þess að vera hluti af sameiginlegum markaði Evrópusambandsins.
Truss skipti fljótlega um skoðun eftir að niðurstaðan var ljós og sá hag sinn í því að fylgja Boris Johnson þegar hann tók við sem leiðtogi árið 2019 og var hún meðal þeirra fyrstu sem studdu hann sem leiðtoga Íhaldsflokksins. Truss gegndi embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Johnson en þarf nú að finna nýjan í það embætti þegar hún tekur við sem forsætisráðherra.
Nýkjörnum forsætisráðherra ber ekki að boða til kosninga en hefur þó vald til að gera svo. Kosningar verða í síðasta lagi í janúar 2025. Truss fullyrti í sigurræðu sinni í dag að áætlað sé að næstu þingkosningar fari fram 2024.
Boðar skattalækkanir og aðgerðir vegna hækkandi orkuverðs
Truss bíður vandasamt verk sem forsætisráðherra en hún hyggst bregðast við verðbólgu, hækkandi orkuverði og öðrum efnahagsáskorunu með því að kynna áætlun síðar í vikunni sem felst að öllum líkindum í frystingu orkureikninga. Þá hefur hún lofað að lækka skatta.
Truss heldur til Skotlands í fyrramálið þar sem Elísabet Englandsdrottning dvelur þessa dagana. Þar mun drottningin skipa Truss formlega í embætti og er það í fyrsta sinn í 70 ára valdatíð drottningarinnar sem hún skipar forsætisráðherra, sem er sá fimmtándi frá því að hún tók við völdum, annars staðar en í Buckingham-höll.