Tæplega 72 prósent af þeim fjármunum sem varið var til lækkunar á höfuðstól þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, hin svokallaða leiðrétting, fór til heimila í Reykjavík og á Suðvesturlandi. Alls eru landsmenn 329 þúsund talsins og af þeim búa rúmlega 211 þúsund á þessum tveimur landssvæðum eða 64 prósent.
Því rann um 72 prósent leiðréttingarinnar til svæða þar sem 64 prósent íbúa landsins búa eða 28 prósent hennar til landsbyggðarinnar, þar sem 36 prósent hennar búa.
Ef þeim 50,1 milljarði króna yrði dreift á alla íbúa höfuðborgarsvæðisins myndi hver og einn fá um 237 þúsund krónur. Ef þeim 19,7 milljarðar króna sem fóru til landsbyggðarinnar í leiðréttingunni myndu dreifast á alla íbúa hennar fengi hver og einn þeirra um 167 þúsund krónur.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána sem var gerð opinber í gær. Athygli vekur að í þeim skýringarmyndum um skiptingu leiðréttingarinnar á milli hópa er heildarupphæðin tæplega 70 milljarðar króna, en ekki 80,4 milljarðar króna líkt og hún á að vera samkvæmt skýrslunni. Kjarninn hefur óskað eftir upplýsingum um hvað valdi þessari skekkju og verið er að vinna svar við fyrirspurninni í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Frétt um það verður birt þegar svarið berst. Vert er að taka fram að allar tölur sem birtar eru í þessari samantekt sýna einungis skiptingu á milli þeirra sem fengu leiðréttingu, um 94 þúsund manns. Aðrir Íslendingar, sem fengu hana ekki, koma ekki fyrir í tölunum.
Yngri skulda meira en fengu minna
Þegar horft er á skiptingu milljarðanna 70 milli aldurshópa kemur fram í skýrslunni að þeir sem eru 35 ára og yngri fengu 4,4 milljarða króna, eða 6,4 prósent heildarupphæðarinnar. Þeir sem eru eldri en 46 ára fengu 68,4 prósent hennar, samtals um 47,7 milljarða króna.
Meðaleftirstöðvar húsnæðisskulda eru mun hærri hjá þeim sem fengu leiðrétt og eru undir 45 ára aldri, en þeim sem eru yfir þeim aldri. Að meðaltali skuldaði leiðréttur aðili undir 45 ára að meðaltali 19,8 milljónir króna í húsnæðislán. Þeir sem voru eldri en 45 ára skulduðu um 15,3 milljónir króna að meðaltali. Samt fór einungis 31,6 prósent heildarupphæðarinnar til yngri hópsins.
Tvær af hverjum þremur krónum til hinna tekjuhærri
Í skýrslunni eru einnig birtar upplýsingar um hvernig leiðréttingin skiptist milli tekjuhópa. Samkvæmt því fær tekjuhærri helmingur þeirra sem fá leiðréttingu 62 prósent heildarupphæðarinnar en þeir tekjuminni 38 prósent hennar. Þeir sem þéna meira skulda þó einnig meira en hinir tekjulægri. Alls er meðaltal eftirstöðvar húsnæðisskulda um 15 milljónir króna hjá tekjulægri helmingi leiðréttra Íslendinga en um 19,6 milljónir króna hjá tekjuhærri helmingnum.
Tveir tekjuhæstu hóparnir, þar sem árstekjur heimila eru frá 14 til 21,2 milljónir króna annars vegar og yfir 21,2 milljónir króna hins vegar, fá samtals 29 prósent heildarupphæðarinnar, en sá hópur er 22 prósent þeirra sem fá leiðréttingu.
Fjórðungur þeirra sem greiddu auðlegðarskatt leiðréttir
Í skýrslunni kemur fram að 1.250 heimili sem sem greiddu auðlegðarskatt vegna ársins 2013 hafi fengið höfuðstólslækkun. Alls nam upphæðin sem rann til þessa hóps um 1,5 milljörðum króna. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslunni eru þetta fjórðungur þeirra sem greiddu auðlegðarskatt, en það gerðu allir einstaklingar sem eiga meira en 75 milljónir krónur í hreina eign og hjón sem eiga meira en 100 milljónir króna í hreina eign. Auðlegðarskattur hefur nú verið aflagður, en samtals námu tekjur ríkisins af honum og viðbótarauðlegðarskatti á hlutabréfaeign 10,9 milljörðum króna vegna ársins 2013.