Nokkrir hópar eru áhugasamir um að kaupa Íslandsbanka. Viðræður standa yfir við þá. Þeir sem hafa sýnt mestan áhuga koma annars vegar frá löndunum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða risastór fyrirtæki.
Einhver hópana ritaði undir viljayfirlýsingu í síðustu viku. DV segir að það sé Mið-Austurlandahópurinn og að um sé að ræða ríkisfjárfestingasjóði. Ekkert skuldbindandi tilboð liggur hins vegar enn fyrir en innan slitabús Glitnis standa vonir til þess að það muni geta valið úr tilboðum þegar upp er staðið. Áhuginn á Íslandsbanka, sem gæti selst á um 150 milljarða króna, sé það mikill.
Ef allt gengur samkvæmt áætlun er búist við því að hægt verði að ganga frá sölu á 95 prósent hlut slitabús Glitnis til nýs erlends eiganda fyrir mitt þetta ár.
Taka þarf pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til erlendra fjárfesta. Sú pólitíska afstaða er talin verða eitt erfiðasta úrlausnarefnið í söluferlinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Búið að kynna áformin fyrir íslenskum stjórnvöldum
Heimildir Kjarnans herma að allir þeir aðilar sem viðræður hafa átt sér stað við séu þess eðlis að ekki verði neinn vafi á að þeir séu hæfir til að eiga fjármálastofnun á Íslandi. Að minnsta kosti hluti þeirra á þegar hluti í alþjóðlegum fjármálastofnunum.
Kjarninn greindi frá því í lok janúar að söluferlið á hlutnum væri langt komið og að viljayfirlýsing um áhuga á kaupum gæti legið fyrir í febrúar. Það hefur nú gengið eftir. Gangi áformin eftir mun slitastjórn Glitnis fá erlendan gjaldeyri fyrir hlut sinn í bankanum og innlendar eignir þrotabús Glitnis lækka um það sem nemur kaupverðinu. Miðað við bókfært virði á hlut Glitnis í Íslandsbanka gæti það verið um 150 milljarðar króna. Gangi áformin eftir gæti sölunni á Íslandbanka lokið um mitt þetta ár. Áformin voru kynnt fyrir ráðgjöfum stjórnvalda á fundi með þeim í desember síðastliðnum.
Kaupin yrðu enda bundin því að íslensk stjórnvöld myndu blessa þau. Auk þess þyrfti að semja um hvers kyns hömlur yrðu settar á arðgreiðslur bankanna til erlendra eigenda á meðan að fjármagnshöft eru við lýði. Þá þarf að taka pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til erlendra fjárfesta.Sú pólitíska afstaða er talin verða eitt erfiðasta úrlausnarefnið í söluferlinu.
Stærstu kröfuhafar Glitnis eru erlendir vogunar- og fjárfestingasjóðir.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Bankinn gæti fengið nýja eigendur á næstu mánuðum.
Skráning í Osló kom líka til greina
Slitastjórn Glitnis hefur unnið að því í langan tíma að reyna að selja Íslandsbanka. Í lok árs 2012 bjó hún til hóp utan um verkefnið sem gengur undir nafninu „Project Puffin“. Um miðjan janúar 2013 fór sá hópur í ferð um Osló, Stokkhólm og Kaupmannahöfn til að kanna áhuga fjárfesta á því að kaupa hlut í Íslandsbanka ef hann yrði tvískráður, annars vegnar á markað á Norðurlöndunum og hins vegar á Íslandi.
Fundirnir staðfestu að Osló væri besti staðurinn til að skrá bankann, en áður hafði Stokkhólmur líka verið skoðaður. Ástæður þessa voru fyrst og fremst þær að fjárfestar í Noregi eru taldir opnari fyrir óvenjulegum tækifærum auk þess sem bankar þar í landi hafa mikla þekkingu á kjarnaatvinnuvegum Íslendinga (sjávarútvegi, orku og ferðamennsku). Þeir atvinnuvegir eru líka uppistaðan í viðskiptavinaneti Íslandsbanka. Samkvæmt heimildum Kjarnans er ekki búið að slá tvískráningu út af borðinu. Íslandsbanki yrði þá skráður í kauphöllina í Osló og íslensku kauphöllina. Þorri hlutabréfa í honum yrði seldur í gegnum kauphöllina í Osló en 10 til 20 prósent hlutur yrði seldur í gegnum íslensku kauphöllina.
Heimildir Kjarnans herma hins vegar að asíski fjárfestahópurinn sé það áhugasamur um að kaupa Íslandsbanka, að bein sala sé mun líklegri en tvískráning eins og staðan er í dag. Bæst hefur í hóp fjárfestanna frá því í haust. Það er þó, líkt og áður sagði, alltaf bundið samþykki stjórnvalda.
Kaupþing reynir að losna við Arion banka
Slitastjórn Kaupþings hefur líka unnið að því að losa um 87 prósent eignarhlut sinn í Arion banka, enda er sá hlutur uppistaðan í innlendum eignum þrotabús Kaupþings. Ef slitastjórninni tækist að losna við Arion banka, annað hvort í skiptum fyrir kröfur eða fyrir erlendan gjaldeyri, telur hún að ekkert sé því til fyrirstöðu að ljúka nauðasamningum við kröfuhafa búsins. Búið á um 162 milljarða í íslenskum krónum og þar af er eignarhluturinn í Arion banka um 140 milljarða króna virði. Afgangurinn eru innstæður í reiðufé sem búið reiknar með að fari í að greiða íslenska ríkinu bankaskatt.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson situr í slitastjórn Kaupþings.
Ef hægt yrði að losna við Arion fyrir annað en íslenskar krónur telur slitastjórnin ekkert í vegi fyrir því að nauðasamningurinn yrði kláraður, enda myndi honum ekki fylgja neitt útflæði á krónum sem gæti ógnað greiðslujöfnuði.
Samkvæmt heimildum Kjarnans lagði slitastjórnin margvíslegar tillögur um lausn á „Arion-vandamálinu“ fyrir ráðgjafa stjórnvalda á fundi sem haldinn var með þeim 9. desember síðastliðinn. Ein þeirra hugmynda var sú að Kaupþing myndi afhenda Eignarsafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) eignarhlut sinn í Arion banka í skiptum fyrir þær samþykktu kröfur sem ESÍ á á búið. Þær eru metnar á um 35 milljarða króna. Þannig myndi ESÍ eignast bankann með um 85 milljarða króna afslætti frá bókfærðu virði hans. DV greindi fyrst frá þessu tilboði í janúarmánuði.