Shein var stofnaði árið 2008 og hét þá SheInside og ku aðallega hafa selt brúðarkjóla. Árið 2012 breytti eigandinn, Chris Xu, áherslum fyrirtækisins og byrjaði að selja tískufatnað fyrir unglingsstúlkur og breytti síðar nafninu í Shein (borið fram she-in). Chris Xu var enginn sérstakur tískufrömuður en hann sérhæfði sig í leitarvélabestun (e. search engine optimization) og er tæknimiðuð nálgun í markaðssetningu talin ein helsta ástæða þess hvað fyrirtækið hefur vaxið hratt.
Shein er í dag metið á 100 milljarða Bandaríkjadala. Það er meira en samanlagt virði tískurisanna H&M og Zara. Árið 2021 tók snjallforrit Shein fram úr Amazon sem vinsælasta innkaupa-appið í Bandaríkjunum og er heimasíða Shein einnig mest heimsótta fatasíða í heimi. Stærsti markaður Shein er í Bandaríkjunum, Brasilíu, Frakklandi og Spáni.
Ef þú, lesandi góður, hefur aldrei heyrt fyrirtækisins getið fyrr en nú þarf það ekki að koma á óvart. Markhópur Shein er kynslóð Z (einstaklingar fæddir milli áranna 1997 og 2012), einna helst unglingsstúlkur og fer hin árangursríka markaðssetning fyrst og fremst fram á samfélagsmiðlum eins og TikTok, Instagram og Youtube.
Uppgangur Shein er ekki án vandkvæða en lítið er vitað um starfshætti fyrirtækisins og hefur Shein verið sakað um umhverfisspjöll, slæmar vinnuaðstæður og stuld á hönnun frá stórum tískufyrirtækjum og minni sjálfstæðum hönnuðum.
Úr hraða í háhraða
Hraðtíska (e. fast fashion) vísar til þess að tískufyrirtæki framleiða mikið magn af flíkum og selja á mjög lágu verði. Flíkurnar eru yfirleitt úr gæðalitlum efnum og framleiddar í löndum þar sem vinnuskilyrði eru slæm, fólkið sem býr flíkurnar til fær ekki mannsæmandi laun og jafnvel eru börn að störfum.
Í umfjöllun Neytendablaðsins um Shein segir að hugtakið hraðtíska hafi fyrst verið notað yfir viðskiptamódel spænska tískuvörumerkisins Zara. „Á sínum tíma fór Zara úr því að hanna árstíðabundnar tískulínur yfir í að bjóða neytendum upp á stöðugan straum af nýjum fatnaði allan ársins hring. Hraðinn átti þó eftir að aukast til muna og nú væri nær að tala um háhraðatísku (e. ultra fast fashion),“ segir í umfjölluninni.
Lauren Bravo, höfundur bókarinnar How to Break Up with Fast Fashion segir í samtali við the Guardian að það sem skilji Shein að öðrum fyrirtækjum sem stunda hraðtísku sé óeðlilega lágt verð. Verðið á þeim varningi sem Shein selur er allt að helmingi lægri en hjá öðrum fyrirtækjum í sama bransa. „Shein hefur tekið hlutina stiginu lengra með því að selja föt á svo lágu verði að þau hvetja neytendur til að líta á þau sem einnota,“ segir Lauren Bravo.
Í umfjöllun the Guardian segir Zainab Mahmood, blaðamaður og talsmaður sjálfbærrar tísku, að hraðtískufyrirtæki líkt og Shein séu að nota öll trixin í bókinni til að gera neytendur háða því að kaupa föt.
Viðskiptamódel Shein
Shein rekur ekki eina einustu verslun heldur fara öll viðskipti fram á netinu. Fyrirtækið á heldur ekki fataverksmiðjur heldur gerir Shein samning við þriðja aðila í Kína, nokkur þúsund fataverksmiðjur, sem framleiða fá eintök af flíkum. Takmarkað magn af vörum er síðan birt á heimasíðu Shein og algrímar (e. algorithms) fylgjast með viðbrögðum neytenda. Ef ákveðið bikiní slær til dæmis í gegn á TikTok gerir Shein stærri pantanir og framleiðir meira. Þetta módel hefur verið kallað „test and repeat“. Matthew Brennan, rithöfundur og sérfræðingur í kínverskum tæknimálum, segir í samtali við Vox að Shein sé stöðugt að safna og greina gögn viðskiptavina og noti síðan upplýsingarnar til að hanna fatnað eftir því sem er í tísku hverju sinni.
Shein býður upp á öll heitustu „trendin“ á ómótstæðilegu verði. Úrvalið af fatnaði og fylgihlutum er margfalt meira en almennt gerist en á hverjum degi bætir Shein við 2.000 til 10.000 nýjum flíkum og tískuvarningi á heimasíðu sína. Á þriggja mánaða tímabili, frá janúar til apríl 2022, bætti Shein við 315.000 nýjum vörum á heimasíðu sína. Til samanburðar bætti H&M „einungis“ við 4.400 nýjum vörum.
Fyrir utan stöðugt flæði af hræódýrum fötum eykur Shein stöðugt framboð á klæðnaði á útsölu. Fyrirtækið heldur reglulega svokallaðar skyndiútsölur (e. flash sales). Skyndiútsölur virka þannig að takmarkað framboð af vörum er á útsölu í takmarkaðan tíma. Útsölutíminn er sýndur efst á heimasíðunni í klukkutímum, mínútum og sekúndum.
Gagnrýnendur hafa bent á að þessi aðferðafræði ýti undir hugmyndina að neytendur þurfi að kaupa vörur strax til að missa ekki af „einstöku tækifæri“. Þetta er vel þekkt trikk í markaðsfræðunum og kallast FOMO (e. Fear of Missing Out).
TikTok, áhrifavaldar og afsláttarkóðar
Líkt og áður sagði á markaðsherferð Shein sér fyrst og fremst stað á samfélagsmiðlum eins og Instagram, Tiktok og Youtube. Shein hefur verið í samstarfi við óteljandi áhrifavalda stóra og smáa, tískubloggara og fræga einstaklinga á borð við Katy Perry, Hailey Bieber, Khloe Kardashian og Lil Nas X. Shein treystir þó einnig á viðskiptavini sína til að auglýsa fyrirtækið.
Viðskiptavinir Shein geta sett inn umsögn um flíkur sem þeir hafa keypt og fá fyrir það afsláttarstig. Fyrir góða umsögn er hægt að fá fimmtíu stig og hægt er að næla sér í enn fleiri stig ef mynd af flíkinni er látin fylgja með. Viðskiptavinir geta síðan notað stigin til að kaupa fleiri vörur frá Shein á afslætti. Viðskiptavinir fá ekki einungis stig fyrir að setja inn umsögn heldur er nóg að staðfesta að ákveðin pöntun hafi skilað sér og að fötin séu komin í réttar hendur.
Einnig treystir Shein á svokölluð „hauls“ í markaðssetningu sinni og mætti þýða það sem „fatahólsmyndbönd“ á íslensku. Það eru myndbönd sem viðskiptavinir deila á samfélagsmiðlum af öllum þeim fötum sem þeir hafa verslað frá fyrirtækinu. Á TikTok er myllumerkið #sheinhaul með hvorki meira né minna en 5,3 milljarða áhorf.
@mynamesmillicent69 The part two no one asked for <3 #foryoupage #fyp #foryou #shein #sheinhaul ♬ original sound - bhaddiebeats🎵
Í grófum dráttum lýsa fatahólsmyndbönd sér þannig að ungur einstaklingur, yfirleitt ung kona, situr fyrir framan myndavélina og heldur uppi stórum plastpoka merktum Shein. Hún rífur upp pokann og úr flæða margir minni plastpokar með vörum frá fyrirtækinu. Konan sýnir fötin, mátar þau og gefur jafnvel sitt álit. Áhorfendur myndbandsins fá síðan afsláttarkóða og upphaflegi viðskiptavinurinn fær þóknun.
Með þessari afar snjöllu markaðssetningu tekst Shein ekki einungis að láta viðskiptavini sjá um að auglýsa fyrirtækið heldur tryggir þetta stanslausa eftirspurn eftir vörum.
Umhverfisáhrif og vinnuaðstæður
Fataiðnaðurinn er ábyrgur fyrir um það bil tíu prósent af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum en það er meiri losun en allt flug og allar skipasiglingar í heiminum samanlagt. Gríðarleg orka fer í að framleiða fötin og kolefnisfótspor fylgir því að ferja fötin milli landa.
Hraðtíska hefur ekki einungis leitt til þess að fleiri föt eru framleidd með tilheyrandi áhrifum á umhverfið heldur veldur gríðalegt framboð því að fólk kaupir mun meira af endingarlitlum fatnaði. Í umfjöllun Neytendablaðsins kemur fram að fatasóun á heimsvísu samsvari því að fullur sorpbíll af fötum endi á ruslahaug á hverri sekúndu.
Þar sem verðið á fötunum er ofurlágt er ekki að undra að lítið fari fyrir gæðum. Sérfræðingar í tískubransanum hafa sagt að flíkurnar sem Shein framleiðir séu úr það gæðalitlu efni að erfitt væri að selja viðskiptavinum þær úti í búð.
Í október 2021 sýndi kanadíska sjónvarpsstöðin CBC fréttaskýringaþátt um skaðleg efni í vörum frá Shein. Af þeim vörum sem rannsakaðar voru innihélt ein vara af hverjum fimm umtalsvert magn eiturefna, meðal annars blý, PFAS og þalöt. Flíkurnar sem CBC rannsakaði voru meðal annars ætluð börnum og ófrískum konum. Rannsakendur komust að því að jakki fyrir ungabarn, keyptur af heimasíðu Shein, innihélt nánast 20 sinnum meira blý en heilbrigðisstofnun Kanada telur öruggt fyrir börn. Taska frá Shein innihélt efni sem var fimm sinnum yfir viðmiðunarmörkum.
„Við erum að leitast eftir skammvinnri ánægju með fatakaupum sem eru þó mjög dýrkeypt ef við horfum til heilsu okkar og umhverfis,“ segir Miriam Diamond, umhverfisefnafræðingur og prófessor við háskólann í Toronto, sem leiddi rannsóknina.
Líkt og mörg önnur fyrirtæki í hraðtískubransanum hefur Shein verið sakað um slæmar vinnuaðstæður. Í nóvember 2021 birti Public Eye skýrslu um vinnuaðstæður í verksmiðjum sem Shein er í viðskiptum við í Kína. Starfsfólkið í verksmiðjunum vann allt að 75 klukkustunda vinnuviku og fengu mörg hver aðeins einn dag í frí í mánuði. Í verksmiðjunum sem voru rannsakaðar var ekki einn einasti neyðarútgangur og var starfsfólki borgað fyrir hverja flík, sem hvetur til enn lengri vinnudaga.
Ofgnótt af notuðum fötum
Á vefsíðu Shein kemur fram að Shein bjóði upp á „hvetjandi endurvinnsluprógram”. Neytendur eru hvattir til að skila flíkum sem þeim hugnast ekki í pop-up verslanir þeirra í skiptum fyrir Shein gjafakort. Flíkurnar sem viðskiptavinir skila inn eru síðan sendar til góðgerðasamtaka til að hjálpa fólki „í neyð“.
Fjöldi rannsókna hefur hins vegar sýnt fram á að hið óhóflega magn af notuðum (og ónotuðum) fötum sem gefin eru til góðgerðamála eru yfirleitt úr svo litlum gæðum að þau enda strax í urðun í viðkomandi landi með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Í hverri viku senda til dæmis Evrópa og Bandaríkin um 15 milljónir af notuðum flíkum til Accra, höfuðborg Ghana. Um 40% af flíkunum sem eru sendar til borgarinnar Accra eru úr það litlum gæðum að þau eru talin verðlaus við komu og enda strax í urðun.
Mörg lönd í hinu hnattræna suðri hafa fengið sig fullsödd á að vera ruslahaugur Vesturlanda. Lönd í austurhluta Afríku eins og Kenía, Rúanda, Tanzanía, Búrúndi og Úganda gerðu á sínum tíma tilraunir til að stöðva innflutning á notuðum fötum þar sem þau valda umhverfisskaða og grafa undan innlendri fataframleiðslu. Bandaríkin hótuðu þá viðskiptaþvingunum og að draga löndin úr viðskiptasamningnum The African Growth and Opportunity Act (AGOA), sem ætlað er að bæta viðskiptasamband milli Bandaríkjanna og Afríkuríkja, meðal annars með frjálsu flæði á vörum.
Eftirlíking af eftirlíkingu
Undanfarið hafa heilu samfélögin sprottið upp á TikTok, Reddit og Facebook þar sem viðskiptavinir Shein deila ábendingum um hvernig hægt er að finna föt sem líkjast ákveðnum tískuvörum en á mun lægra verði á heimasíðu Shein. Þessi „næst-besti valmöguleiki“ er þekktur sem „dupe“ í TikTok heiminum og þýðir í raun eftirlíking.
Hefðbundin hraðtískufyrirtæki fá hugmyndir frá sýningarpöllum hátískuhúsa og hraða síðan framleiðsluferlinu úr mánuðum í nokkrar vikur. Shein er hins vegar ekki að eltast við tískustrauma frá sýningarpöllum heldur framleiðir eftirlíkingar af vörum sem sést hafa á Tiktok eða Instagram. Þannig er ekki verið að leita að eftirlíkingu að nýjustu Balenciaga töskunni heldur eftirlíkingu af kjól frá Zöru.
Undir myllumerkjunum #zaravsshein og #zaradupe á TikTok sýna notendur og máta keimlík föt frá annars vegar Zöru og hins vegar Shein og eru myllumerkin með 39 milljón áhorf.
Bent hefur verið á að viðskiptavinir Shein séu ekki endilega að kaupa sér flíkur til að klæðast heldur til að deila á Instagram. „Dupe” samfélagið sé fyrst og fremst að auðvelda ungum stúlkum að næla sér í Instagram-samþykkt lúkk fyrir eins lítinn pening og mögulegt er.
Fyrirtæki eins og Levi Strauss, Dr. Martens og Ralph Lauren hafa kært Shein fyrir höfundaréttarbrot. En Shein er ekki einungis þekkt fyrir að stela hönnun frá tískurisum heldur einnig frá minni, sjálfstæðum hönnuðum. Hönnuðurinn Bailey Prado greindi frá því á Instagram síðu sinni að Shein hafi stolið hönnun á yfir 45 vörum af sér. Vörurnar sem Bailey Prado hannar og selur á heimasíðu sinni kosta á milli 12.000 og 40.000 krónur en hægt var að kaupa flíkurnar á Shein á undir 2.500 krónur.
Prado segir í samtali við the Guardian að sú staðreynd að Shein bæti við tugþúsundum af nýjum vörum daglega á heimasíðuna gefi til kynna að verið sé að stela hönnun. „Við þurfum að spyrja okkur að því hvernig Shein tekst að framleiða svona mikið af hönnun á hverjum degi,” segir Prado.
Viðskiptamódel Shein ýtir óhjákvæmilega undir aukna eftirspurn, framleiðslu og sóun. Shein býður upp á ódýrustu flíkurnar úr litlum gæðum, afsláttarkóða er að finna á hverju strái og viðskiptavinir fá gjafakort fyrir að skila inn flíkum. Allt er þetta gert til að tryggja stanslausa eftirspurn eftir vörum frá Shein. Hraðtíska er vandamál út af fyrir sig en hraðinn sem Shein býður upp á getur aldrei talist umhverfivænn né réttlátur. Líkt og Elizabeth Shobert, sérfræðingur í markaðsfræðum og stafrænni stefnumótun, sagði í samtali við the Guardian: „Maður spyr sig hvar endar þetta eiginlega?“