Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært Hreiðar Má Sigurðsson, Sigurð Einarsson og Magnús Guðmundsson, fyrrum stjórnendur Kaupþings, vegna kaupa á skuldabréfu tengdum skuldatryggingarálagi Kaupþings og lánveitinga vegna þeirra kaupa. Grunur leikur á umboðssvik og hlutdeild í slíku broti. Ákærurnar voru birtar mönnunum þremur í vikunni og málið verður þingfest 11. júní næstkomandi. Þetta er þriðja ákæran sem embættið birtir mönnunum þremur. Þeir hafa þegar hlotið dóm í svokölluðu Al-Thani máli.
Í aðdraganda falls Kaupþings veitti bankinn lán til nokkurra viðskiptamanna sinna vegna fjárfestinga í afleiðusamningum, skuldabréfum, tengdum skuldatryggingarálagi Kaupþings. Tjón Kaupþings vegna lánanna er að minnsta kosti 510 milljónir evra, samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni frá árinu 2010, en málið hefur verið til rannsóknar árum saman.
Gerum þetta, „ekki spurning“
Í byrjun febrúar 2008 fékk Kaupþing þýska stórbankann Deutsche Bank sér til ráðgjafar um hvernig bankinn gæti haft áhrif á síhækkandi skuldatryggingarálag á sig. Sumarið eftir sendi starfsmaður Deutsche Bank hugmynd um viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf sem hann taldi að gætu hjálpað til við þetta. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að „í tölvubréfum sem gengu á milli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar í framhaldinu komu þeir sér saman um að ekki þurfti að fá lífeyrissjóði með í planið en að þetta skuli þeir gera „ekki spurning“.
Alls var skuldatryggingin sem um ræðir 750 milljónir evra, sem á þeim tíma var á bilinu 80-90 milljarðar króna, en væri í dag um 117 milljarðar króna. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:„Í upphafi var ætlunin að þrjú félög tækju þátt í þessu en þau voru í eigu sex einstaklinga sem voru í miklum viðskiptum við Kaupþing. Þessi þrjú félög áttu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf að nafnvirði 125 milljónir evra hvert, með tryggingu upp á 250 milljónir hvert. Svo virðist þó sem viðskiptin hafi ekki átt sér stað við eitt félagið þegar á hólminn var komið. Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk.“
Vildarviðskiptavinir gátu grætt, en aldrei tapað
Frá 29. ágúst til 8. október 2008 lánaði Kaupþing alls 510 milljónir evra, sem í dag eru tæplega 80 milljarðar króna, í þessi skuldatryggingaviðskipti. Ekkert eigið fé var lagt í viðskiptin heldur voru þau að fullu fjármögnuð af Kaupþingi. Félögin sem fengu lánin hétu Trenvis Limited, Holly Beach S.A.,Charbon Capital LTd. og Harlow Equities S.A. Þau félög lánuðu 250 milljónir evra til félaganna Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group til að þau gætu keypt skuldabréf tengd skuldatryggingarálagi Kaupþings. Auk þess lánaði Kaupþing 250 milljónir evra til Chesterfield og Partridge til að mæta veðköllum frá Deutsche Bank vegna kaupanna. Öll umrædd félög voru eignarlaus og eigendur þeirra voru vildarviðskiptavinir Kaupþings, sem hefðu grætt ef viðskiptin hefðu skilað arði en gátu aldrei tapað krónu. Þeir voru Skúli Þorvaldsson, Ólafur Ólafsson, Kevin Stanford og Karen Millen og Antonious Yerolemou. Auk þess stóð til að hinn nú þekkti Sjeik Al-Thani myndi líka taka þátt í samskonar viðskiptum. Ekkert varð af þeim viðskiptum annað en að félagið Brooks, í eigu Al-Thani, fékk 50 milljónir dala lánaðar.
Hreiðar Már Sigurðsson sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis „að það hefði ekki verið neitt nema hagnaðarvon hjá viðskiptavinum bankans sem seldu þessar skuldatryggingar, það er ef bankinn færi í greiðsluþrot þá væri hagnaður núll en ef hann væri enn í rekstri í október 2013 þá myndu þessir viðskiptavinir hagnast. Því til viðbótar sagði Hreiðar: "Ja, þetta var, við töldum að þetta væri þess virði að gera þetta, eins og ég segi, við töldum að við værum að nota fjármuni bankans á ágætlegan hátt, fá ágætis tekjur af þeim fjármunum.Við töldum að það væri mikilvægt að athuga hvort þessi markaður væri raunverulegur eða ekki og við töldum að þetta væri gott fyrir þessa viðskiptavini, sem voru stórir viðskiptavinir og borguðu okkur fullar þóknanir og skulduðu okkur náttúrulega peninga, svo það að staða þeirra mundi batna væri gott fyrir bankann."
Síðustu lánin veitt eftir gildistöku neyðarlaga og veiting neyðarláns
Í áðurnefndum gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni kemur fram að sérstakur saksóknari telji „að umræddar lánveitingar hafi falið í sér mjög mikla fjártjónshættu fyrir Kaupþing banka hf. Gríðarlega háar fjárhæðir hafi verið lánaðar eignarlausum félögum til afar áhættusamra viðskipta og hagsmunum hluthafa og kröfuhafa með því stefnt í stórfellda hættu. Síðustu lánveitingarnar hafi átt sér stað eftir gildistöku neyðarlaganna og veitingu Seðlabanka Íslands á 500.000.000 EUR neyðarláni til Kaupþings banka hf.“
Við rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um að æðstu stjórnendur Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, og Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefðu tekið ákvarðanir um umræddar lánveitingar og viðskipti. Þeir hafa nú verið ákærðir vegna þeirra. Þetta er þriðja ákæran sem mönnunum þremur er birt vegna verka þeirra fyrir Kaupþing fyrir hrun. Auk þess eru fleiri mál á hendur þeim enn í rannsókn.
Í desember síðastliðnum var Hreiðar Már dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Al-Thani málinu svokallaða. Sigurður hlaut fimm ára dóm í sama máli og Magnús þriggja ára dóm. Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar. Auk þess eru mennirnir þrír allir á meðal þeirra lykilstarfsmanna Kaupþings sem hafa verið ákærðir fyrir umfangsmikla markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008.