Umsátursástandinu í Frakklandi er lokið eftir að ráðist var til atlögu gegn hryðjuverkamönnum seinni partinn í dag. Hryðjuverkamennirnir voru drepnir, og minnst fjórir gíslar í verslun í París létust einnig. Kjarninn fer yfir atburðina undanfarið í París.
Cherif og Said Kouachi, sem voru grunaðir um morðin á tólf manns á miðvikudag, þar af tíu á ritstjórnarskrifstofum skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. Þeir flúðu frá París og rændu bensínstöð í nágrenni Villers-Cotterets. Vitni sögðu bræðurna hafa verið þungvopnaða.
Franska lögreglan segir að bræðurnir Said Kouachi og Cherif Kouachi hafi framið ódæðisverkin í og við höfuðstöðvar skopmyndablaðsins Charlie Hebdo í gærmorgun.Tólf létust, þar á meðal ritstjóri blaðsins og þekktustu skopmyndateiknarar þess.
Í morgun bárust fréttir af því að skotum hefði verið hleypt af í Dammartin-en-Goele, sem er norðaustur af París og mjög nálægt alþjóðaflugvellinum Charles de Gaulle. Flugvöllurinn er opinn en umferð stýrt þannig að ekki sé flogið yfir umsáturssvæðið. Skólar og vinnustaðir í nágrenninu hafa verið rýmdir og öllum ráðlagt að halda sig innandyra frá gluggum.
Lögregla hefur rætt við bræðurna um að leysa gíslinn úr haldi, en franskir fjölmiðlar hafa greint frá því að gíslinn sé 26 ára gamall karlmaður. Þingmaður á svæðinu hefur sagt fjölmiðlum að bræðurnir hafi sagt við lögreglu að þeir vildu deyja sem píslarvottar.
Fyrir hádegi var svo greint frá því að náin tengsl væru á milli árásarinnar á Charlie Hebdo á miðvikudag og annarrar skotárásar á fimmtudag. Þá var lögreglukona skotin til bana og karlmaður særður alvarlega í suðurhluta Parísar. Áður hafði verið greint frá því að engin tengsl væru talin á milli.
Rétt eftir hádegi var svo greint frá því að önnur gíslataka væri í gangi í verslun í austurhluta Parísar. Verslunin er rekin af gyðingum. Fljótt kom í ljós að gíslatökumaður þar væri talinn sá sami og grunaður væri um morðið á lögreglukonunni í gær. Gíslarnir eru minnst sex talsins.
Skömmu síðar voru nöfn hinna grunuðu í seinni árásunum tveimur birt. Það eru Amedy Coulibaly og Hayat Boumeddiene.
Fréttir hermdu um tíma að minnst tveir gíslar hefðu verið myrtir af gíslatökufólkinu en þær fréttir voru dregnar til baka.
Lögreglan segir að Coulibaly hafi hótað því að drepa gísla sína ef reynt yrði að handsama Kouachi bræður.
BREAKING: Paris police: Market gunman threatens to kill hostages if police storm terrorist brothers.
— The Associated Press (@AP) January 9, 2015
Ráðist til atlögu á báðum stöðum
Lögregla réðst til atlögu gegn öllum hryðjuverkamönnunum seinni partinn í dag. Þeir voru allir drepnir og margir gíslar frelsaðir. Hins vegar kom í ljós seinni partinn í dag að minnst fjórir gíslar hafi látist. Aðgerðirnar gegn þeim voru samhæfðar og fregnir herma að tekist hafi að ná sambandi við gísl í París í gegnum farsíma auk þess sem hægt var að fylgjast með gíslatökunni þar í gegnum öryggismyndavélar.
Several hostages freed at Jewish supermarket in Paris. Photo Thomas Samson #AFP pic.twitter.com/C9ltgMT0Wl
— AFP Photo Department (@AFPphoto) January 9, 2015
Ekki er vitað hvar Boumeddiene er, en hún var kærasta Coulibaly.
Voru þekktir hryðjuverkamenn
Að sögn dagblaðsins Le Monde voru Amedy Coulibaly og Cherif Kouachi tveir helstu fylgismenn dæmda hryðjuverkamannsins Djamel Beghal. Beghal var handtekinn árið 2001 fyrir að leggja á ráðin um að sprengja upp sendiráð Bandaríkjanna í París. Hann og fimm aðrir voru dæmdir árið 2005. Hann viðurkenndi meðal annars að hafa farið til Afganistan að hitta Osama bin Laden og skipuleggja árásir.
Kouachi bræðurnir og Coulibaly eru sagðir hafa tilheyrt sömu hryðjuverkasellunni. Að sögn dagblaðsins Le Monde voru Amedy Coulibaly og Cherif Kouachi tveir helstu fylgismenn dæmda hryðjuverkamannsins Djamel Beghal. Beghal var handtekinn árið 2001 fyrir að leggja á ráðin um að sprengja upp sendiráð Bandaríkjanna í París. Hann og fimm aðrir voru dæmdir árið 2005. Hann viðurkenndi meðal annars að hafa farið til Afganistan að hitta Osama bin Laden og skipuleggja árásir.
Cherif var dæmdur árið 2008 fyrir hlutdeild í hryðjuverkaneti sem sendi bardagamenn til Íraks til að berjast fyrir Al-Kaída. Þá er Said sagður hafa dvalið í Jemen árið 2011 þar sem hann var í þjálfun hjá Al-Kaída. Bræðurnir voru báðir í bandarískum gagngrunni yfir grunaða hryðjuverkamenn og á flugbannlista.