Hundruð þúsunda hyggjast bíða stríðið af sér í Varsjá
Að minnsta kosti 300 þúsund flóttamenn frá Úkraínu eru taldir dveljast í Varsjá, höfuðborg Póllands, um þessar mundir, þar af um 100 þúsund börn. Blaðamaður Kjarnans heimsótti eina helstu miðstöð mannúðarstarfsins í borginni í gær.
Í afgreiðslu Novotel-hótelsins í miðborg Varsjár hangir uppi stórt plaggat skreytt úkraínska og sænska fánanum. Rúta til Svíþjóðar, stendur þar stórum stöfum.
Í gær birtist tíu manna hópur Svía í anddyrinu. Þau voru öll klædd gulum vestum, fólk á öllum aldri, ungir menn og eldri konur. Hópurinn er kominn á þremur rútum til Varsjár og í dag ætla þau að landamærum Úkraínu, sagði einn úr hópnum við blaðamann Kjarnans í stuttu spjalli í gær.
Með í för eru birgðir af lækningavörum sem skildar verða eftir við landamærin. Ráðgert er að aka aftur til Svíþjóðar með alls um 175 flóttamenn, sem er þó ekki nema lítið brotabrot af þeim þúsundum sem koma yfir landamærin til Póllands dag hvern.
Alls er áætlað að rúmlega 2,1 milljón flóttafólks hið minnsta hafi komið til Póllands af alls 3,5 milljónum sem yfirgefið hafa Úkraínu og haldið til nágrannaríkja í leit að skjóli undan árásarstríði Rússa.
Í Varsjá eru margir að leggja sitt af mörkum. Lestarstöðin í miðborginni er ein margra miðstöðva þess mannúðarstarfs sem fer fram hér í pólsku höfuðborginni, sem hefur tekið við hundruðum þúsunda úkraínskra flóttamanna á örfáum vikum.
Mat yfirvalda er að meira en 300 þúsund flóttamenn séu í borginni um þessar mundir, sem samsvarar hartnær tuttugu prósenta aukningu við þann fjölda fólks sem hér býr alla jafna.
Enn fleiri hafa svo dvalið hér um skemmri tíma á leið sinni á aðra áfangastaði. Borgaryfirvöld hér í Varsjá gera ráð fyrir því að það þurfi að koma allt að hundrað þúsund úkraínskum börnum og ungmennum fyrir í skólakerfinu, um einhvern tíma hið minnsta.
Stanslaus straumur
Í og við lestarstöðina í miðborginni eru tugir sjálfboðaliða við störf dag hvern við að taka á móti og útdeila nauðsynlegum varningi fyrir fólkið sem þurft hefur að skilja nánast allt eftir handan landamæranna.
Sjálfboðaliðarnir standa vaktina og sendingar koma með reglulegu millibili. Stundum á stórum sendiferðabílum, en einnig berast framlög frá fólki í smærri skömmtum, fullir haldapokar af hreinlætisvörum og öðrum nauðsynjum sem þörf er fyrir.
Ætla má að mörgum þeirra sem lögðu á flótta vanti einnig léttari yfirhafnir en þær sem teknar voru með skömmu eftir að innrásin hófst, þegar frostið sló í um tuttugu gráður á átakasvæðunum austast í Úkraínu.
Hitinn í Varsjá náði sautján gráðum í gær, vorið er svo gott sem komið.
Forðast óvissu ef hjá því verður komist
Ungur sjálfboðaliði sem blaðamaður ræddi við inni á lestarstöðinni sagði að gærdagurinn hefði verið hans fyrsti við sjálfboðastörfin, en hann talar rússnesku og getur því hjálpað til við þýðingar og aðstoðað rússneskumælandi flóttafólk varðandi skipulagningu áframhaldandi ferðalags, við að finna tímabundna gistingu í Varsjá eða jafnvel dvalarstað til lengri tíma í borginni eða nágrenni hennar.
Hann sagði aðallega þá sem eiga einhver tengsl til landa vestar í álfunni leitast eftir því að fara þangað. Fólk vilji síður fara út í algjöra óvissu og vera upp á yfirvöld komin ef það kemst hjá því.
Af þessum sökum ætli sér margir sem komnir eru til Póllands ekki að fara lengra – hér eiga margir Úkraínumenn skyldmenni og vinafólk, rétt eins og þennan unga sjálfboðaliða, sem sjálfur á fjölskyldu í Úkraínu.
Flestir flóttamenn hafa svo auðvitað ekki farið frá Úkraínu til þessa, en af þeim alls tíu milljónum sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín eru um 6,5 milljónir manna á vergangi í vesturhluta landsins, sem er að mestu ósnert af átökum til þessa.
Sjálfur segir sjálfboðaliðinn ungi að hann eigi frændfólk í Kænugarði, sem vilji ekki yfirgefa borgina og allt sem þau þekkja þar, þrátt fyrir sprengjuregn og hergný.
Þessu tengt
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
6. desember 2022Sjálfheldan í Úkraínu. Hatrið sigrar?
-
6. nóvember 2022Niðursoðin fiskilifur á meðal þess helsta sem selt hefur verið til Rússlands frá innrás
-
30. október 2022Flúði Hvíta-Rússland með röntgenmyndir særðra rússneskra hermanna