Myndir sem undanfarið hafa birst af Pútín forseta Rússlands hafa vakið mikla athygli. Fyrsta myndin af þessu tagi, sem sást í fjölmiðlum, var af fundi hans með Emmanuel Macron Frakklandsforseta við tæplega sex metra langt sporöskjulagað borð. Opinber skýring Rússa á þessu var að vel þyrfti að gæta að öryggi Pútíns, sem þar að auki væri illa við hringlaga borð. Frakklandsforseti hafði neitað að taka covid próf hjá rússneskum læknum við komuna til Moskvu, kærði sig ekki um að lífssýni úr honum kæmist í eigu Rússa, sögðu fréttamenn.
Önnur mynd sem mikla athygli hefur vakið sýnir Pútín á fundi með sínum æðstu embættismönnum síðastliðinn mánudag. Þar situr forsetinn við endann á borði, sem blaðamenn hafa reiknað út að sé að minnsta kosti 15 metra langt. Sitt hvoru megin við hinn endann sitja sex eða sjö menn, nánustu samstarfsmenn forsetans. Fréttamaður BBC sagði myndina ekki einungis sýna mann sem óttist kóróna veiruna, hún sýni fyrst og fremst mann sem sé einn og einangraður. Vegna veirunnar hafi Pútín einangrast enn meira en áður, hann dveljist lengstum á setri sínu fyrir utan Moskvu. Þar hittir hann fáa og þeir sem hann á annað borð ræðir við eru eingöngu „já menn“ sem segja forsetanum einungis það sem hann vill heyra, en ekki raunsanna mynd af því hvernig veröldin er skrúfuð saman, eins og fréttamaður BBC komst að orði.
Æska og uppvöxtur
Það er ekki hlaupið að því að draga upp mynd af persónunni Vladimir Putin þótt eitt og annað sé vitað um hann.
Vladimir Vladimirovitj Putin, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist í Leningrad (St. Pétursborg) 7.október 1952. Foreldrar hans, Maria Ivanovna Shelomova og Vladimir Putin, voru jafngömul fædd árið 1911, komin af bændum og unnu lengi í verksmiðju í Leningrad (St. Pétursborg) og bjuggu, ásamt annarri fjölskyldu, í lítilli íbúð í fjölbýlishúsi í borginni. Vladimir, faðir forsetans, hafði mikinn áhuga á tónlist og lagði mikla áherslu á að sonurinn lærði á hljóðfæri. Sonurinn hafði hins vegar meiri áhuga á glímu (wrestling) og síðar júdó. Foreldrarnir voru ekki sérlega hrifin af þessu áhugamáli en eftir að glímuþjálfarinn kom í heimsókn og sagði þeim að sonurinn ætti framtíðina fyrir sér í glímunni féllust þau á að hann fengi að stunda æfingar að vild. Skólabræður Vladimir yngri hafa í viðtölum greint frá því að hann hafi verið félagslyndur og þeir hafi ætíð verið velkomnir á heimili foreldra hans. Einn skólabróðir forsetans sagði í viðtali að móðir hans hafi lagt mikla áherslu á að sonurinn væri snyrtilegur til fara og iðulega látið hann fara í hreina skyrtu tvisvar, jafnvel þrisvar á dag. Foreldrarnir létust með árs millibili 1998 og 1999.
KGB og FSB
Að námi loknu hóf Pútín störf hjá sovésku leyniþjónustunni KGB, í erlendu njósnadeildinni. Á árunum 1985 – 1990 bjó hann í Dresden í Austur- Þýskalandi og starfaði þar á vegum KGB. Hann talar þýsku reiprennandi.
Eftir heimkomuna til Rússlands hélt Pútín áfram störfum hjá KGB og vann sig hægt og rólega upp metorðastigann þar. Nokkru eftir upplausn Sovétríkjanna árið 1991 skipti leyniþjónustan um nafn og heitir nú Öryggisstofnun sambandsríkisins, FSB. Árið 1998 varð Vladimir Pútín æðsti yfirmaður FSB, höfuðstöðvarnar eru í Moskvu.
Arftaki Jeltsín
Boris Jeltsín varð forseti Rússlands árið 1991. Tíundi áratugur síðustu aldar var mikill umbrotatími í rússnesku þjóðlífi og forsetinn umdeildur. Þegar leið að aldamótum gerðust nánir samstarfsmenn forsetans áhyggjufullir, Jeltsín var bæði heilsuveill og drykkfelldur og enginn augljós arftaki í sjónmáli.
Oft hefur heyrst að auðjöfurinn Boris Berezovski hafi fyrstur hreyft þeirri hugmynd að Vladimir Pútín væri kannski rétti maðurinn til að verða arftaki Jeltsín á forsetastóli. Jeltsín leist að sögn vel á þennan 47 ára yfirmann FSB og í ágúst 1999 gerði hann Vladimir Pútín að forsætisráðherra. Það reyndist þó aðeins millileikur því á gamlársdag þetta sama ár tilkynnti Boris Jeltsín nokkuð óvænt afsögn sína og útnefndi Vladimir Pútin sem starfandi forseta þangað til nýr forseti yrði kjörinn. Pútin sigraði með yfirburðum í forsetakosningunum vorið 2000 og tók formlega við embætti 7. maí sama ár.
Hefur haldið fjölskyldunni frá sviðsljósinu
1983 giftist Vladimir Putin Ljudmilu Sjkrebneva. Ljudmila fæddist árið 1958 og ólst upp í Kaliningrad. Þegar Ljudmila og Pútín kynntust lagði hún stund á spænsk málvísindi við háskólann í Leningrad, hún hafði um tíma starfað sem flugfreyja hjá ríkisflugfélaginu Aeroflot. Ljudmila flutti með Pútin til Þýskalands árið 1985 og þar fæddust dætur þeirra, Marija Putina 1985 og Jekaterina Putina ári síðar. Eftir heimkomuna til Rússlands gengu þær í þýska skólann í Moskvu og lærðu síðar hagfræði.
Ljudmila sást mjög sjaldan með Pútín og lengi vel voru á kreiki sögur um að þau Pútín væru einungis hjón að nafninu til. Árið 2013 birtist frá þeim tilkynning um að gengið hefði verið frá skilnaði þeirra. Ljudmila giftist aftur árið 2015, eiginmaðurinn var sagður verslunarmaður, 21 ári yngri en Ljudmila.
Lengi hafa verið á kreiki sögur um að Pútín eigi dóttur í Þýskalandi og ennfremur eina dóttur búsetta í Rússlandi. Sjálfur hefur hann aldrei rætt sín fjölskyldumál.
Lagði mikið upp úr eigin ímynd
Þótt mörgum Rússum hafi þótt ferskur andi fylgja hinum unga forseta (á rússneskan mælikvarða) var Pútín lítt þekktur meðal almennings. Með myndum af sér, iðulega berum að ofan, vildi hann styrkja ímynd sína sem hins sterka leiðtoga. Myndir og frásagnir af leiðtoganum hafa iðulega vakið athygli: hann hefur með deyfipílu bjargað sjónvarpsfólki frá því að lenda í klóm tígrisdýrs, myndir sem sýna hann byrja daginn með sundspretti, við veiðar þar sem hann heldur á risageddu sem vóg 21 kíló.
Mynd af Pútin þar sem hann heldur á brotnum aldagömlum leirkrúsum sem hann hafði fundið á botni Svartahafsins. Á svæði sem kafarar höfðu árum saman kannað en aldrei fundið neitt. Síðar viðurkenndi Pútín að myndirnar af leirkerafundinum og fleiri afrekum hefðu verið sviðsettar. Ætíð í góðum tilgangi. Þótt myndirnar hafi fyrst og fremst þótt hlægilegar víða um heim féllu þær í góðan jarðveg heima fyrir. Sem var tilgangurinn.
Forsetatíð með millileik
Þegar Pútín tók við sem forseti vorið 2000 var bundið í lög að forseti gæti ekki setið lengur en tvö kjörtímabil samfellt, það er átta ár. Pútín var endurkjörinn árið 2004 en hafði ekki í huga að segja skilið við stjórnmálin þegar kjörtímabilinu lyki. Þegar kosningar 2008 nálguðust tilkynnti Pútín að hann styddi forsetaframboð aðstoðarmanns síns Dmitri Medvedev. Stuðningur Pútíns við Medvedev vakti nokkra athygli, hann var talinn frjálslyndari en Pútín. Medvedev launaði Pútín greiðann með því að gera hann að forsætisráðherra. Forsætisráðherratíð Pútíns var aðeins millileikur því árið 2012 bauð hann sig aftur fram til forseta, þar bar hann sigur úr býtum og sagan endurtók sig árið 2018. Pútín hafði hinsvegar ekki ætlað sér að láta þar við sitja, lagabreyting sem gerð var í apríl á síðasta ári, og samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, gerir honum kleift að sitja á forsetastóli til ársins 2036.
Hefur breyst
Margir stjórnmálaskýrendur segja Pútín hafa breyst. Fyrstu átta árin í embætti forseta leitaðist hann við að halda jafnvægis milli íhaldssamra afla og frjálslyndra. Í forsetatíð Medvedev fjölgaði óánægjuröddum vegna spillingar í stjórnmálum og atvinnulífi. Mótmælafundum fjölgaði og daginn sem Pútín tók aftur við forsetaembættinu 2012 kom til átaka mótmælenda og lögreglu. Mörg hundruð voru handtekin. Á fyrstu árum hans á forsetastóli lagði hann sig fram um að eiga góð samskipti við marga þjóðarleiðtoga, ekki síst Bandaríkjamenn og Þjóðverja. Þannig er það ekki lengur. Svo virðist sem sannfæring hans sé að hrun Sovétríkjanna hafi verið harmleikur og að Rússland þurfi, og verði, að endurheimta þau áhrif og vægi sem Sovétríkin höfðu áður.
Merkel sagði Pútín gjörbreyttan
Eftir að Rússar hernámu Krímskaga árið 2014 og fóru að kynda undir ófriði í austurhluta Úkrínu árið 2014 hafa vestrænir fjölmiðlar fjallað mikið um þær breytingar sem margir telja sig skynja að orðið hafi á Pútín. Hann sé ekki lengur sá glaðværi og viðræðugóði forseti sem hann var áður. Angela Merkel, fyrrverandi kanslari Þýskalands sagði, eftir langt símtal við Pútín vorið 2014 að svo virtist sem forsetinn hefði tapað öllu veruleikaskyni. Fjölmargir sérfræðingar undrast þann hörkulega reiðitón sem einkennir forsetann, og sumir hafa beinlínis velt því fyrir sér hvort hann sé hreinlega eitthvað veikur.
Danski rithöfundurinn Leif Davidsen, sem lengi starfaði sem fréttamaður í Rússlandi og höfundur margra bóka um Rússland, segir Pútin bitran gamlan mann sem nú hafi látið skynsemina lönd og leið. Í löngum ræðum sínum undanfarið noti hann sögufalsanir til að réttlæta innrásina í Úkraínu. Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur kynntist Pútín vel. Hann segir Pútín gjörbreyttan mann og beinlínis hættulegan. „Pútín umgengst einungis örfáa menn og þegar sá hópur er eingöngu jábræður verður útkoman iðulega að sá sem situr á toppnum tekur ákvarðanir sem reynast svo rangar“.
Hefur kastað grímunni
Þýski blaðamaðurinn Christian Neef hefur í áratugi fylgst með og skrifað um sovésk og rússnesk málefni. Í nýrri grein í fréttatímaritinu Der Spiegel segir hann að Pútín hafi árum saman leikið tveim skjöldum í samskiptum við aðrar þjóðir. Hann nefnir sem dæmi ræðu Pútíns í þýska þinginu, þar talaði forsetinn um frið og samvinnu á sama tíma og hann stóð í blóðugu stríði við aðskilnaðarsinna í Tsjetsjeníu. Christian Neef líkir Pútín við Ívan grimma og vitnar í nýlega kvikmynd, þar sem Ívan grimmi segir „þegar við höfum sigrast á fjandmönnum í eigin landi getum við tekist á við aðra fjandmenn okkar“. Christian Neef segir að nú sýni Vladimir Pútín sitt rétta andlit „hann hefur kastað grímunni“.