Húsbóndinn í Kreml

Er Vladimir Pútín með öllum mjalla eða er hann orðinn snarruglaður? Þetta er spurningin sem heimurinn spyr sig þessa dagana. Enginn veit svarið. Ýmsir sem til hans þekkja segja hann ekki sama mann og fyrir örfáum árum.

Pútín og Macron
Auglýsing

Myndir sem und­an­farið hafa birst af Pútín for­seta Rúss­lands hafa vakið mikla athygli. Fyrsta myndin af þessu tagi, sem sást í fjöl­miðl­um, var af fundi hans með Emmanuel Macron Frakk­lands­for­seta við tæp­lega sex metra langt spor­öskju­lagað borð. Opin­ber skýr­ing Rússa á þessu var að vel þyrfti að gæta að öryggi Pútíns, sem þar að auki væri illa við hring­laga borð. Frakk­lands­for­seti hafði neitað að taka covid próf hjá rúss­neskum læknum við kom­una til Moskvu, kærði sig ekki um að lífs­sýni úr honum kæm­ist í eigu Rússa, sögðu frétta­menn.

Önnur mynd sem mikla athygli hefur vakið sýnir Pútín á fundi með sínum æðstu emb­ætt­is­mönnum síð­ast­lið­inn mánu­dag. Þar situr for­set­inn við end­ann á borði, sem blaða­menn hafa reiknað út að sé að minnsta kosti 15 metra langt. Sitt hvoru megin við hinn end­ann sitja sex eða sjö menn, nán­ustu sam­starfs­menn for­set­ans. Frétta­maður BBC sagði mynd­ina ekki ein­ungis sýna mann sem ótt­ist kór­óna veiruna, hún sýni fyrst og fremst mann sem sé einn og ein­angr­að­ur. Vegna veirunnar hafi Pútín ein­angr­ast enn meira en áður, hann dvelj­ist lengstum á setri sínu fyrir utan Moskvu. Þar hittir hann fáa og þeir sem hann á annað borð ræðir við eru ein­göngu „já menn“ sem segja for­set­anum ein­ungis það sem hann vill heyra, en ekki raunsanna mynd af því hvernig ver­öldin er skrúfuð sam­an, eins og frétta­maður BBC komst að orð­i. 

Æska og upp­vöxtur

Það er ekki hlaupið að því að draga upp mynd af per­són­unni Vla­dimir Putin þótt eitt og annað sé vitað um hann.

Vla­dimir Vla­dimirovitj Put­in, eins og hann heitir fullu nafni, fædd­ist í Len­ingrad (St. Pét­urs­borg) 7.októ­ber 1952. For­eldrar hans, Maria Ivanovna Shelomova og Vla­dimir Put­in, voru jafn­gömul fædd árið 1911, komin af bændum og unnu lengi í verk­smiðju í Len­ingrad (St. Pét­urs­borg) og bjuggu, ásamt annarri fjöl­skyldu, í lít­illi íbúð í fjöl­býl­is­húsi í borg­inni. Vla­dimir, faðir for­set­ans, hafði mik­inn áhuga á tón­list og lagði mikla áherslu á að son­ur­inn lærði á hljóð­færi. Son­ur­inn hafði hins vegar meiri áhuga á glímu (wrest­ling) og síðar júdó. For­eldr­arnir voru ekki sér­lega hrifin af þessu áhuga­máli en eftir að glímu­þjálf­ar­inn kom í heim­sókn og sagði þeim að son­ur­inn ætti fram­tíð­ina fyrir sér í glímunni féllust þau á að hann fengi að stunda æfingar að vild. Skóla­bræður Vla­dimir yngri hafa í við­tölum greint frá því að hann hafi verið félags­lyndur og þeir hafi ætíð verið vel­komnir á heim­ili for­eldra hans. Einn skóla­bróðir for­set­ans sagði í við­tali að móðir hans hafi lagt mikla áherslu á að son­ur­inn væri snyrti­legur til fara og iðu­lega látið hann fara í hreina skyrtu tvisvar, jafn­vel þrisvar á dag. For­eldr­arnir lét­ust með árs milli­bili 1998 og 1999.

Auglýsing
Að lok­inni hefð­bund­inni skóla­göngu inn­rit­aði Vla­dimir Pútín sig í laga­deild­ina við háskól­ann í Len­ingrad og útskrif­að­ist þaðan árið 1975. 

KGB og FSB

Að námi loknu hóf Pútín störf hjá sov­ésku leyni­þjón­ust­unni KGB, í erlendu njósn­a­deild­inni. Á árunum 1985 – 1990 bjó hann í Dres­den í Aust­ur- Þýska­landi og starf­aði þar á vegum KGB. Hann talar þýsku reiprenn­andi.

Eftir heim­kom­una til Rúss­lands hélt Pútín áfram störfum hjá KGB og vann sig hægt og rólega upp met­orða­stig­ann þar. Nokkru eftir upp­lausn Sov­ét­ríkj­anna árið 1991 skipti leyni­þjón­ustan um nafn og heitir nú Örygg­is­stofnun sam­bands­rík­is­ins, FSB. Árið 1998 varð Vla­dimir Pútín æðsti yfir­maður FSB, höf­uð­stöðv­arnar eru í Moskvu. 

Arf­taki Jeltsín

Boris Jeltsín varð for­seti Rúss­lands árið 1991. Tíundi ára­tugur síð­ustu aldar var mik­ill umbrota­tími í rúss­nesku þjóð­lífi og for­set­inn umdeild­ur. Þegar leið að alda­mótum gerð­ust nánir sam­starfs­menn for­set­ans áhyggju­full­ir, Jeltsín var bæði heilsu­veill og drykk­felldur og eng­inn aug­ljós arf­taki í sjón­máli.

Pútín var var valinn maður ársins hjá tímairitinu Time árið 2007.

Oft hefur heyrst að auð­jöf­ur­inn Boris Ber­ezovski hafi fyrstur hreyft þeirri hug­mynd að Vla­dimir Pútín væri kannski rétti mað­ur­inn til að verða arf­taki Jeltsín á for­seta­stóli. Jeltsín leist að sögn vel á þennan 47 ára yfir­mann FSB og í ágúst 1999 gerði hann Vla­dimir Pútín að for­sæt­is­ráð­herra. Það reynd­ist þó aðeins milli­leikur því á gaml­árs­dag þetta sama ár til­kynnti Boris Jeltsín nokkuð óvænt afsögn sína og útnefndi Vla­dimir Pútin sem starf­andi for­seta þangað til nýr for­seti yrði kjör­inn. Pútin sigr­aði með yfir­burðum í for­seta­kosn­ing­unum vorið 2000 og tók form­lega við emb­ætti 7. maí sama ár. 

Hefur haldið fjöl­skyld­unni frá sviðs­ljós­inu

1983 gift­ist Vla­dimir Putin Ljud­milu Sjkrebneva. Ljud­mila fædd­ist árið 1958 og ólst upp í Kal­in­ingrad. Þegar Ljud­mila og Pútín kynnt­ust lagði hún stund á spænsk mál­vís­indi við háskól­ann í Len­ingrad, hún hafði um tíma starfað sem flug­freyja hjá rík­is­flug­fé­lag­inu Aer­of­lot. Ljud­mila flutti með Pútin til Þýska­lands árið 1985 og þar fædd­ust dætur þeirra, Marija Put­ina 1985 og Jeka­ter­ina Put­ina ári síð­ar. Eftir heim­kom­una til Rúss­lands gengu þær í þýska skól­ann í Moskvu og lærðu síðar hag­fræð­i. 

Ljud­mila sást mjög sjaldan með Pútín og lengi vel voru á kreiki sögur um að þau Pútín væru ein­ungis hjón að nafn­inu til. Árið 2013 birt­ist frá þeim til­kynn­ing um að gengið hefði verið frá skiln­aði þeirra. Ljud­mila gift­ist aftur árið 2015, eig­in­mað­ur­inn var sagður versl­un­ar­mað­ur, 21 ári yngri en Ljud­mila. 

Lengi hafa verið á kreiki sögur um að Pútín eigi dóttur í Þýska­landi og enn­fremur eina dóttur búsetta í Rúss­landi. Sjálfur hefur hann aldrei rætt sín fjöl­skyldu­mál. 

Lagði mikið upp úr eigin ímynd

Þótt mörgum Rússum hafi þótt ferskur andi fylgja hinum unga for­seta (á rúss­neskan mæli­kvarða) var Pútín lítt þekktur meðal almenn­ings. Með myndum af sér, iðu­lega berum að ofan, vildi hann styrkja ímynd sína sem hins sterka leið­toga. Myndir og frá­sagnir af leið­tog­anum hafa iðu­lega vakið athygli: hann hefur með deyfipílu bjargað sjón­varps­fólki frá því að lenda í klóm tígris­dýrs, myndir sem sýna hann byrja dag­inn með sund­spretti, við veiðar þar sem hann heldur á risa­geddu sem vóg 21 kíló.

Pútín ber að ofan með hesti.

Mynd af Pútin þar sem hann heldur á brotnum alda­gömlum leir­krúsum sem hann hafði fundið á botni Svarta­hafs­ins. Á svæði sem kaf­arar höfðu árum saman kannað en aldrei fundið neitt. Síðar við­ur­kenndi Pútín að mynd­irnar af leir­ker­a­fund­inum og fleiri afrekum hefðu verið svið­sett­ar. Ætíð í góðum til­gangi. Þótt mynd­irnar hafi fyrst og fremst þótt hlægi­legar víða um heim féllu þær í góðan jarð­veg heima fyr­ir. Sem var til­gang­ur­inn.    

For­seta­tíð með milli­leik

Þegar Pútín tók við sem for­seti vorið 2000 var bundið í lög að for­seti gæti ekki setið lengur en tvö kjör­tíma­bil sam­fellt, það er átta ár. Pútín var end­ur­kjör­inn árið 2004 en hafði ekki í huga að segja skilið við stjórn­málin þegar kjör­tíma­bil­inu lyki. Þegar kosn­ingar 2008 nálg­uð­ust til­kynnti Pútín að hann styddi for­seta­fram­boð aðstoð­ar­manns síns Dmitri Med­vedev. Stuðn­ingur Pútíns við Med­vedev vakti nokkra athygli, hann var tal­inn frjáls­lynd­ari en Pútín. Med­vedev laun­aði Pútín greið­ann með því að gera hann að for­sæt­is­ráð­herra. For­sæt­is­ráð­herra­tíð Pútíns var aðeins milli­leikur því árið 2012 bauð hann sig aftur fram til for­seta, þar bar hann sigur úr býtum og sagan end­ur­tók sig árið 2018. Pútín hafði hins­vegar ekki ætlað sér að láta þar við sitja, laga­breyt­ing sem gerð var í apríl á síð­asta ári, og sam­þykkt í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu, gerir honum kleift að sitja á for­seta­stóli til ársins 2036.

Auglýsing
Af Med­vedev er það að segja að hann sett­ist í for­sæt­is­ráð­herra­stól­inn árið 2012 og gegndi því emb­ætti til árs­ins 2020 en hefur síðan verið vara­for­maður rúss­neska örygg­is­ráðs­ins. 

Hefur breyst

Margir stjórn­mála­skýrendur segja Pútín hafa breyst. Fyrstu átta árin í emb­ætti for­seta leit­að­ist hann við að halda jafn­vægis milli íhalds­samra afla og frjáls­lyndra. Í for­seta­tíð Med­vedev fjölg­aði óánægju­röddum vegna spill­ingar í stjórn­málum og atvinnu­lífi. Mót­mæla­fundum fjölg­aði og dag­inn sem Pútín tók aftur við for­seta­emb­ætt­inu 2012 kom til átaka mót­mæl­enda og lög­reglu. Mörg hund­ruð voru hand­tek­in. Á fyrstu árum hans á for­seta­stóli lagði hann sig fram um að eiga góð sam­skipti við marga þjóð­ar­leið­toga, ekki síst Banda­ríkja­menn og Þjóð­verja. Þannig er það ekki leng­ur. Svo virð­ist sem sann­fær­ing hans sé að hrun Sov­ét­ríkj­anna hafi verið harm­leikur og að Rúss­land þurfi, og verði, að end­ur­heimta þau áhrif og vægi sem Sov­ét­ríkin höfðu áður.

Merkel sagði Pútín gjör­breyttan

Eftir að Rússar her­námu Krím­skaga árið 2014 og fóru að kynda undir ófriði í aust­ur­hluta Úkrínu árið 2014 hafa vest­rænir fjöl­miðlar fjallað mikið um þær breyt­ingar sem margir telja sig skynja að orðið hafi á Pútín. Hann sé ekki lengur sá glað­væri og við­ræðu­góði for­seti sem hann var áður. Ang­ela Merkel, fyrr­ver­andi kansl­ari Þýska­lands sagði, eftir langt sím­tal við Pútín vorið 2014 að svo virt­ist sem for­set­inn hefði tapað öllu veru­leika­skyni. Fjöl­margir sér­fræð­ingar undr­ast þann hörku­lega reiði­tón sem ein­kennir for­set­ann, og sumir hafa bein­línis velt því fyrir sér hvort hann sé hrein­lega eitt­hvað veik­ur.

Danski rit­höf­und­ur­inn Leif Dav­id­sen, sem lengi starf­aði sem frétta­maður í Rúss­landi og höf­undur margra bóka um Rúss­land, segir Pútin bitran gamlan mann sem nú hafi látið skyn­sem­ina lönd og leið. Í löngum ræðum sínum und­an­farið noti hann sögu­fals­anir til að rétt­læta inn­rás­ina í Úkra­ínu. Lars Løkke Rasmus­sen fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Dan­merkur kynnt­ist Pútín vel. Hann segir Pútín gjör­breyttan mann og bein­línis hættu­leg­an. „Pútín umgengst ein­ungis örfáa menn og þegar sá hópur er ein­göngu jábræður verður útkoman iðu­lega að sá sem situr á toppnum tekur ákvarð­anir sem reyn­ast svo rang­ar“.

Hefur kastað grímunni

Þýski blaða­mað­ur­inn Christ­ian Neef hefur í ára­tugi fylgst með og skrifað um sov­ésk og rúss­nesk mál­efni. Í nýrri grein í frétta­tíma­rit­inu Der Spi­egel segir hann að Pútín hafi árum saman leikið tveim skjöldum í sam­skiptum við aðrar þjóð­ir. Hann nefnir sem dæmi ræðu Pútíns í þýska þing­inu, þar tal­aði for­set­inn um frið og sam­vinnu á sama tíma og hann stóð í blóð­ugu stríði við aðskiln­að­ar­sinna í Tsjetsjen­íu. Christ­ian Neef líkir Pútín við Ívan grimma og vitnar í nýlega kvik­mynd, þar sem Ívan grimmi segir „þegar við höfum sigr­ast á fjand­mönnum í eigin landi getum við tek­ist á við aðra fjand­menn okk­ar“. Christ­ian Neef segir að nú sýni Vla­dimir Pútín sitt rétta and­lit „hann hefur kastað grímunn­i“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar