Skotárásin í grunnskóla í smábænum Uvalde Texas á þriðjudag er sú mannskæðasta í bandarískum grunnskóla frá því að 20 börn og sex fullorðnir voru skotin til bana í Sandy Hook grunnskólanum fyrir áratug. Reiði og angist ríkir vegna árásarinnar í Texas og eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að ekkert hafi í raun breyst á þessum áratug.
5-11 ára börn stunda nám í Robb-grunnskólanum. 19 börn og tveir kennarar voru myrt í skotárásinni. Árásamaðurinn var 18 ára, vopnaður skammbyssu og riffli, og skaut á börnin af handahófi þegar þau reyndu að flýja. Árásarmaðurinn var inni í skólanum í um 40 mínútur áður en lögregla skaut hann til bana. Börnin sem létu lífið í árásinni voru á aldrinum sjö til tíu ára. Eitt fórnarlambanna var 10 ára strákur sem elskaði að dansa. Annað var ung stúlka sem var skotin þegar hún reyndi að hringja á lögregluna.
„Þeir brugðust börnunum okkar aftur“
Bandaríkjamenn sem hafa misst nákomna í skotárásum eru fyrir löngu komnir með nóg. Faðir sem missti 14 ára son sinn í skotárásinni í Parkland-framhaldsskólanum er kominn með nóg og spyr hversu margar skotárásir þurfi til að eitthvað verði gert í raun og veru?
Jaime, sonur Fred Guttenberg, var 14 ára þegar hann lét lífið í skotárásinni sem gerð var í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland í Flórída árið 2018. Guttenberg segir stjórnmálamenn sem „stjórnmálavæða byssur og ofbeldi hafi leitt til þessa dags“.
„Þeir brugðust börnunum okkar aftur. Ég er hættur. Ég get ekki meira. Hversu oft þarf þetta að gerast?“ sagði Guttenberg í samtali við MSNBC-sjónvarpsstöðina eftir skotárásina.
Endurtekin orð Bandaríkjaforseta
Barack Obama var Bandaríkjaforseti þegar skotárásin í Sandy Hook átti sér stað og hét hann því í tilfinningaþrunginni ræðu að nú yrði byssulöggjöf hert. Málið dagaði hins vegar uppi í þinginu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt sömuleiðis tilfinningaþrungna ræðu eftir skotárásina í Uvalde á þriðjudag. „Af hverju látum við bjóða okkur að búa við þetta blóðbað?“ spurði Biden. „Af hverju höldum við áfram að leyfa þessu að gerast?“ spurði Biden jafnframt og sagði að tími væri kominn til að standa uppi í hárinu á þeim sem berjast fyrir byssueign í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að demókratar séu með meirihluta bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, sem og forsetaembættið, virðist það ekki ætla að duga til að knýja fram breytingar. Áskoranirnar eru enn til staðar og það sem meira er, nýjar bætast við:
Gamlar hindranir á þinginu
Nokkrum vikum eftir skorárásina í Sandy Hook grunnskólanum studdi meirihluti öldungadeildarþingmanna frumvarp þar sem bakgrunnsathuganir þeirra sem hyggja á byssukaup voru hertar til muna. Það dugði hins vegar ekki til þar sem einfaldur meirihluti dugir ekki til að fá lagafrumvörp samþykkt heldur þarf samþykki frá 60 af 100 þingmönnum öldungadeildarinnar. Það sama virðist vera uppi á teningnum núna, það er að aðeins örfáir þeirra 50 repúblikana sem eiga sæti á þinginu eru fylgjandi að herða byssulöggjöf.
Umræðan er hins vegar til staðar, bæði hjá demókrötum og repúblikunum, og líklegasta breyting til að fá hljómgrunn snýr að lagasetningu sem kemur í veg fyrir að einstaklingar sem glíma við andleg veikindi eða eru á sakaskrá geti keypt skotvopn (e. Red flag law).
Breytingar í stökum ríkjum
Nokkrar breytingar í átt að hertri byssulöggjöf hafa verið gerðar í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna eftir árásina í Sandy Hook. Í ríkjum þar sem demókratar hafa verið við völd síðustu ár, til dæmis Connecticut, New York, Maryland og Kaliforníu, hefur löggjöf varðandi byssueign verið hert.
Í ríkjum þar sem repúblikanar eru við stjórnvölinn er staðan allt önnur og stefnan frekar að liðka fyrir byssueign en herða. Þannig er staðan í Texas, þar sem skotárásin varð í vikunni. Beto O'Rourke, frambjóðandi demókrata til ríkisstjóra í Texas í kosningum sem fram fara í nóvember, lét Greg Abbott heyra það á blaðamannafundi í gær þar sem hann gagnrýndi stefnu hans, og ríkisins, um byssulöggjöf. „Tíminn til að stöðva næstu skotárás er núna og þú ert ekki að gera neitt,“ sagði O'Rourke.
Beto O’Rourke, who is running for governor of Texas, interrupted a news conference hosted by Gov. Greg Abbott on Wednesday and accused Republicans of "doing nothing" to address gun violence in the aftermath of the Uvalde school shooting. https://t.co/SyMyQbynnA pic.twitter.com/vf2hTzzgOF
— The New York Times (@nytimes) May 25, 2022
Viðbrögðin í Texas hafa verið á þá leið að auka fjármagn til öryggisgæslu í skólum og hefur Ken Paxton, ríkissaksóknari í Texas, lagt til að kennurum verði veittur greiðari aðgangur að skotvopnum.
Hindranir fyrir dómstólum
Jafnvel þó stjórnmálalandslagið breytist á þingi eða í einstökum ríkjum í átt að frekari vilja til hertrar byssulöggafar eru fleiri hindranir í veginum, meðal annars fyrir dómstólum.
Í naumum meirihlutaúrskurði, fimm gegnum fjórum, í Hæstarétti Bandaríkjanna árið 2008, í máli Washington-borgar gegn Dick Heller komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að annar viðauki stjórnarskrárinnar veiti einstökum borgurum skýran rétt til að eiga skotvopn og nota slík vopn til þess sem telst hefðbundinn löglegur tilgangur, til að mynda til sjálfsvarnar innan heimilis.
Sama hversu margar skotárásir í skólum verða á næstunni virðist lítið ætla að hagga stjórnarskrárvörðum rétti til byssueignar í Bandaríkjunum.