Hver er „danska leiðin“ í málefnum fjölmiðla?
Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra fjölmiðlamála lýsti því yfir á dögunum að hún vildi horfa til Danmerkur sem fyrirmyndar við mótun fjölmiðlastefnu fyrir Ísland. En hvernig er þessi „danska leið“?
Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra menningar- og viðskipta lýsti því yfir á málþingi um opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla, sem haldið var í síðustu viku, að hún vildi fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla hér á landi. Kjarninn skoðaði danska fjölmiðlaumhverfið og þessa dönsku leið, sem ráðherrann sér fyrir sér að innleiða á Íslandi.
Tveir ríkisreknir stórmiðlar á ljósvakamarkaðnum
Rétt eins og hér á landi er ríkisútvarp í Danmörku, Danmarks Radio (DR), sem heldur úti sjónvarps- og útvarpsrásum auk fréttavefs á netinu. Það selur ekki auglýsingar, heldur er alfarið fjármagnað með framlögum frá hinu opinbera.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð af fyrirferð danska ríkisins á fjölmiðlamarkaði, því það hefur frá því á öndverðum níunda áratugnum einnig rekið TV2, áskriftarsjónvarpsstöð sem er á auglýsingamarkaði. Fram til ársins 2004 var rekstur aðalrásar TV2 fjármagnaður með ríkisfé, en í dag rennur einungis opinbert fé til stuðnings svæðisbundnum rásum TV2, sem eru allnokkrar.
Til þess að fjármagna ríkismiðlana í Danmörku hefur lengi verið innheimt sérstakt fjölmiðlagjald, en sú innheimtuleið er reyndar slegin af frá og með þessu ári. Í staðinn ákvað danska stjórnin að ráðast í það að lækka persónuafslátt skattgreiðenda í Danmörku um ákveðna upphæð. Þessar breytingar á skattkerfinu eiga að duga fyrir öllum opinberum framlögum til fjölmiðla, bæði ríkismiðla og svo framlaga til einkarekinna miðla.
Framleiðslu- og nýsköpunarstyrkir til einkarekinna fjölmiðla
Ida Willig, prófessor í fjölmiðlafræðum við Hróarskelduháskóla, var með erindi um dönsku fjölmiðlastefnuna og það hvernig hið opinbera stendur að styrkveitingum við fjölmiðla í Danmörku, á áðurnefndu málþingi, sem var á vegum Blaðamannafélagsins og Rannsóknaseturs um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands.
Willig rakti í erindi sínu hvernig í Danmörku hefði löngum verið breiður stuðningur á pólitíska sviðinu við það að styðja við fjölmiðla, til þess að leiðrétta þann markaðsbrest sem væri til staðar í fjölmiðlarekstri á litlu málsvæði eins og því danska og tryggja öfluga lýðræðislega umræðu í landinu.
Dönsk stjórnvöld hafa stutt við einkarekna fjölmiðla með einhverjum hætti frá því um miðjan fyrsta áratug aldarinnar. Upphaflegu fjölmiðlastyrkirnir beindust einungis að prentmiðlum, en þar var um að ræða dreifingarstyrki til útgáfufyrirtækjanna.
Þegar komið var inn á síðasta áratug var ákveðið að útvíkka styrki við einkarekna miðla í Danmörku og formi styrkjanna var breytt með lögum, mediestøtteloven, sem tóku gildi árið 2014. Þá dreifingarstyrkjum fyrir prentmiðlanna skipt út fyrir framleiðslustyrki, sem gerði fjölmiðla styrkhæfa óháð því hvort þeim var dreift á prenti eða á netinu. Ríkið byrjaði að styrkja vinnslu fjölmiðlaefnis, en ekki pappírskaup og dreifingu.
Þessir framleiðslustyrkir eru langstærstur hluti styrkjakökunnar í Danmörku, en einnig eru sérstakir nýsköpunarstyrkir veittir til einkarekinna danskra miðla, sem bæði eru ætlaðir til þess að styðja við nýja miðla og nýsköpunarverkefni innan eldri miðla. Undanfarin ár hefur fé verið veitt úr sjóðnum tvisvar á ári til nýmiðla og skilgreindra verkefna hjá starfandi fjölmiðlum.
Árið 2014 og nokkur ár þar á eftir voru líka veittir sérstakir aðlögunarstyrkir til fjölmiðla sem höfðu verið styrkhæfir samkvæmt eldra styrkjakerfi, en þeir hafa fjarað út síðan. Einnig voru skrifaðir inn í lögin sérstakir styrkir fyrir fjölmiðla í alvarlegum rekstrarvanda, en þeir hafa aldrei verið veittir.
Stefnumörkun til framtíðar
Í upphafi febrúarmánaðar lagði danska ríkisstjórnin fram tillögur að breyttri fjölmiðlastefnu, sem felur í sér nokkur nýmæli. Í fréttatilkynningu var haft eftir ráðherra menningarmála, Ane Halsboe-Jørgensen, að lýðræðislegt samtal og neysla á fjölmiðlaefni stæði á krossgötum, ekki síst vegna stafrænnar þróunar. Nýr fjölmiðlasamningur þyrfti þannig að snúast um annað og meira en einungis útdeilingu fjármuna.
„Við þurfum að styrkja mjög tækifæri fjölmiðla til þess að rækja lýðræðislegt hlutverk sitt. Við þurfum að veita fjölmiðlunum tól til að takast á við stafræna þróun sem skellur á okkur af auknum krafti, ekki síst staðbundnum miðlum og héraðsmiðlum, sem auka tengsl fólks í nærsamfélaginu og auka samstöðu á landsvísu,“ sagði ráðherrann.
Það sem danska stjórnin ætlar sér er meðal annars það að veita meira fé til staðbundinna miðla, til þess að koma í veg fyrir að í landinu myndist það sem kallaðar eru „fréttaeyðimerkur“ – svæði þar sem fáir eða jafnvel engir fjölmiðlar eru starfandi. Áformað er að hjálpa miðlum sem starfa utan stærstu fjögurra borga landsins sérstaklega að fara í stafræna þróun og koma dreifingu sinni yfir á netið í auknum mæli.
Einnig stendur til að útvíkka fjölmiðlastyrkina og gera aðra hluti en einungis miðlun hins ritaða orðs styrkhæfa. Þannig er t.d. stefnt að því að gera miðlun fjölmiðlaefnis í hlaðvarpsformi styrkhæfa.
Danska stjórnin ætlar sér einnig að byrja að skattleggja streymisveitur um 5 prósent af veltu þeirra í Danmörku. Þessi skattheimta er nefnd menningarframlag í tilkynningu dönsku stjórnarinnar og á féð að nýtast til framleiðslu á „dönsku gæðaefni.“
Danska stjórnin ætlar sér einnig að setja upp sérstaka rannsóknarstofnun um tækni og lýðræði, sem á að auka við þekkingu á áhrifum tæknirisanna á lýðræði og líðan, auk þess að fara með ráðgefandi hlutverk við stefnumótun.
Lestu meira
-
11. janúar 2023Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist