Root

Hver er „danska leiðin“ í málefnum fjölmiðla?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra fjölmiðlamála lýsti því yfir á dögunum að hún vildi horfa til Danmerkur sem fyrirmyndar við mótun fjölmiðlastefnu fyrir Ísland. En hvernig er þessi „danska leið“?

Lilja Dögg Alfreðs­dóttir ráð­herra menn­ing­ar- og við­skipta lýsti því yfir á mál­þingi um opin­bera styrki til einka­rek­inna fjöl­miðla, sem haldið var í síð­ustu viku, að hún vildi fara „dönsku leið­ina“ í mál­efnum fjöl­miðla hér á landi. Kjarn­inn skoð­aði danska fjöl­miðlaum­hverfið og þessa dönsku leið, sem ráð­herr­ann sér fyrir sér að inn­leiða á Íslandi.

Tveir rík­is­reknir stór­miðlar á ljós­vaka­mark­aðnum

Rétt eins og hér á landi er rík­is­út­varp í Dan­mörku, Dan­marks Radio (DR), sem heldur úti sjón­varps- og útvarps­rásum auk frétta­vefs á net­inu. Það selur ekki aug­lýs­ing­ar, heldur er alfarið fjár­magnað með fram­lögum frá hinu opin­bera.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð af fyr­ir­ferð danska rík­is­ins á fjöl­miðla­mark­aði, því það hefur frá því á önd­verðum níunda ára­tugnum einnig rekið TV2, áskrift­ar­sjón­varps­stöð sem er á aug­lýs­inga­mark­aði. Fram til árs­ins 2004 var rekstur aðal­rásar TV2 fjár­magn­aður með rík­is­fé, en í dag rennur ein­ungis opin­bert fé til stuðn­ings svæð­is­bundnum rásum TV2, sem eru all­nokkr­ar.

Til þess að fjár­magna rík­is­miðl­ana í Dan­mörku hefur lengi verið inn­heimt sér­stakt fjöl­miðla­gjald, en sú inn­heimtu­leið er reyndar slegin af frá og með þessu ári. Í stað­inn ákvað danska stjórnin að ráð­ast í það að lækka per­sónu­af­slátt skatt­greið­enda í Dan­mörku um ákveðna upp­hæð. Þessar breyt­ingar á skatt­kerf­inu eiga að duga fyrir öllum opin­berum fram­lögum til fjöl­miðla, bæði rík­is­miðla og svo fram­laga til einka­rek­inna miðla.

Fram­leiðslu- og nýsköp­un­ar­styrkir til einka­rek­inna fjöl­miðla

Ida Willig, pró­fessor í fjöl­miðla­fræðum við Hró­arskeldu­há­skóla, var með erindi um dönsku fjöl­miðla­stefn­una og það hvernig hið opin­bera stendur að styrk­veit­ingum við fjöl­miðla í Dan­mörku, á áður­nefndu mál­þingi, sem var á vegum Blaða­manna­fé­lags­ins og Rann­sókna­set­urs um fjöl­miðlun og boð­skipti við Háskóla Íslands.

Willig rakti í erindi sínu hvernig í Dan­mörku hefði löngum verið breiður stuðn­ingur á póli­tíska svið­inu við það að styðja við fjöl­miðla, til þess að leið­rétta þann mark­aðs­brest sem væri til staðar í fjöl­miðla­rekstri á litlu mál­svæði eins og því danska og tryggja öfl­uga lýð­ræð­is­lega umræðu í land­inu.

Dönsk stjórn­völd hafa stutt við einka­rekna fjöl­miðla með ein­hverjum hætti frá því um miðjan fyrsta ára­tug ald­ar­inn­ar. Upp­haf­legu fjöl­miðla­styrkirnir beindust ein­ungis að prent­miðl­um, en þar var um að ræða dreif­ing­ar­styrki til útgáfu­fyr­ir­tækj­anna.

Þegar komið var inn á síð­asta ára­tug var ákveðið að útvíkka styrki við einka­rekna miðla í Dan­mörku og formi styrkj­anna var breytt með lög­um, mediestøtteloven, sem tóku gildi árið 2014. Þá dreif­ing­ar­styrkjum fyrir prent­miðl­anna skipt út fyrir fram­leiðslu­styrki, sem gerði fjöl­miðla styrk­hæfa óháð því hvort þeim var dreift á prenti eða á net­inu. Ríkið byrj­aði að styrkja vinnslu fjöl­miðla­efn­is, en ekki papp­írs­kaup og dreif­ingu.

Þessir fram­leiðslu­styrkir eru langstærstur hluti styrkja­kök­unnar í Dan­mörku, en einnig eru sér­stakir nýsköp­un­ar­styrkir veittir til einka­rek­inna danskra miðla, sem bæði eru ætl­aðir til þess að styðja við nýja miðla og nýsköp­un­ar­verk­efni innan eldri miðla. Und­an­farin ár hefur fé verið veitt úr sjóðnum tvisvar á ári til nýmiðla og skil­greindra verk­efna hjá starf­andi fjöl­miðl­um.

Árið 2014 og nokkur ár þar á eftir voru líka veittir sér­stakir aðlög­un­ar­styrkir til fjöl­miðla sem höfðu verið styrk­hæfir sam­kvæmt eldra styrkja­kerfi, en þeir hafa fjarað út síð­an. Einnig voru skrif­aðir inn í lögin sér­stakir styrkir fyrir fjöl­miðla í alvar­legum rekstr­ar­vanda, en þeir hafa aldrei verið veitt­ir.

Stefnu­mörkun til fram­tíðar

Í upp­hafi febr­ú­ar­mán­aðar lagði danska rík­is­stjórnin fram til­lögur að breyttri fjöl­miðla­stefnu, sem felur í sér nokkur nýmæli. Í frétta­til­kynn­ingu var haft eftir ráð­herra menn­ing­ar­mála, Ane Hals­boe-Jørg­en­sen, að lýð­ræð­is­legt sam­tal og neysla á fjöl­miðla­efni stæði á kross­göt­um, ekki síst vegna staf­rænnar þró­un­ar. Nýr fjöl­miðla­samn­ingur þyrfti þannig að snú­ast um annað og meira en ein­ungis útdeil­ingu fjár­muna.

„Við þurfum að styrkja mjög tæki­færi fjöl­miðla til þess að rækja lýð­ræð­is­legt hlut­verk sitt. Við þurfum að veita fjöl­miðl­unum tól til að takast á við staf­ræna þróun sem skellur á okkur af auknum krafti, ekki síst stað­bundnum miðlum og hér­aðsmiðl­um, sem auka tengsl fólks í nær­sam­fé­lag­inu og auka sam­stöðu á lands­vís­u,“ sagði ráð­herr­ann.

Það sem danska stjórnin ætlar sér er meðal ann­ars það að veita meira fé til stað­bund­inna miðla, til þess að koma í veg fyrir að í land­inu mynd­ist það sem kall­aðar eru „frétta­eyði­merk­ur“ – svæði þar sem fáir eða jafn­vel engir fjöl­miðlar eru starf­andi. Áformað er að hjálpa miðlum sem starfa utan stærstu fjög­urra borga lands­ins sér­stak­lega að fara í staf­ræna þróun og koma dreif­ingu sinni yfir á netið í auknum mæli.

Einnig stendur til að útvíkka fjöl­miðla­styrk­ina og gera aðra hluti en ein­ungis miðlun hins rit­aða orðs styrk­hæfa. Þannig er t.d. stefnt að því að gera miðlun fjöl­miðla­efnis í hlað­varps­formi styrk­hæfa.

Danska stjórnin ætlar sér einnig að byrja að skatt­leggja streym­isveitur um 5 pró­sent af veltu þeirra í Dan­mörku. Þessi skatt­heimta er nefnd menn­ing­ar­fram­lag í til­kynn­ingu dönsku stjórn­ar­innar og á féð að nýt­ast til fram­leiðslu á „dönsku gæða­efn­i.“

Danska stjórnin ætlar sér einnig að setja upp sér­staka rann­sókn­ar­stofnun um tækni og lýð­ræði, sem á að auka við þekk­ingu á áhrifum tæknirisanna á lýð­ræði og líð­an, auk þess að fara með ráð­gef­andi hlut­verk við stefnu­mót­un.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar