Ólígarkar, í nútímalegum skilningi, samanstanda af fámennri stétt rússneskra auðmanna sem efnuðust verulega á umfangsmikilli einkavæðingu ríkisfyrirtækja eftir hrun Sovétríkjanna á tíunda áratug síðustu aldar.
Hugtakið sjálft, ólígarkí, er komið úr grísku og merkir „fámennisstjórn“. Með ólígarkí er því átt við stjórn hinna fáu, ólíkt orðinu demókratí, eða lýðræði, sem vísar til stjórnarfars þar sem almenningur eða lýðurinn ræður, að því er segir í umfjöllun Vísindavefsins um ólígarka.
Ólígarkar eru „gríðarlega ríkir viðskiptamenn sem hafa mikil pólitísk og félagsleg áhrif,“ segir Elise Giuliano, lektor við stjórnmálafræðideild í Columbia-háskólanum sem sérhæfir sig í rússneskum stjórnmálum eftir hrun Sovétríkjanna. „Þeir eru oft í góðum tengslum við helstu stjórnmálaleiðtoga landsins, en ekki alltaf.“
Jeltsín-ólígarkar og Pútín-ólígarkar
Fyrstu rússnesku ólígarkarnir komu fram á sjónarsviðið í stjórnartíð Mikhaíl Gorbatsjev, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, á árunum 1985-1991. Áætlun Gorbatsjev sem sneri að opnun (glasnost) og endurskipulagningu (perestrojka) stjórnmála- og efnahagskerfis Sovétríkjanna greiddi leið ólígarkanna sem sölsuðu undir sig eignum við einkavæðingu um 15 þúsund ríkisfyrirtækja, ekki síst auðlindum líkt og olíu og málmum.
Þróunin hélt áfram og eftir fall Sovétríkjanna má í raun skipta ólígörkum í tvennt: Þeim sem urðu til undir lok stjórnartíðar Gorbatsjevs og í upphafi forsetatíðar Jeltsíns við hrun Sovétríkjanna og þeir sem urðu ríkir vegna tengsla sinna við Vladimír Pútín þegar hann tók við embætti Rússlandsforseta um aldamótin.
Ólígarkar sem hösluðu sér völl á „Jeltsín-tímabilinu“ eru meðal annars Mikhaíl Fridman, einn af stofnendum Alfa-Bank, sem er einn stærsti einkarekni banki Rússlands og Vladimír Potanín, næst ríkasti maður Rússlands á eftir Mordashov-fjölskyldunni, og 58. ríkasti maður heims.
Frá Berezovskí til Abramovich
Boris Berezovskí varð einnig áberandi í stjórnartíð Jeltsín og er af mörgum talinn einn umdeildasti ólígarki fyrr og síðar. Berezovskí átti hlut í nokkrum olíufélögum og öðrum fyrirtækjum og var í innsta hring Jeltsíns. Sagt er að Berezovskí hafi fyrstur stungið upp á Pútín sem arftaka Jeltsíns. Eftir að Pútín varð hins vegar kjörinn forseti um aldamótin snerist Berezovskí gegn honum, flúði land og fékk pólitískt hæli í Bretlandi árið 2003. Berezovskí var síðar dæmdur fyrir svik og fjárdrátt í Rússlandi en var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Berezovskí á skrautlegan feril að baki sem endaði með óhugnanlegum hætti þegar hann fannst látinn á heimili sínu í London árið 2013 eftir að hafa tapað stóru dómsmáli gegn fyrrverandi viðskiptafélaga, Roman Abramovich. Samkvæmt krufningarskýrslu tók Berezovskí eigið líf með því að hengja sig en sögur þess efnis að stjórnvöld í Kreml hafi átt þátt í dauða hans ganga enn.
Tengsl rússneskra ólígarka í dag við Rússlandsforseta eru mismunandi, en allir treysta þeir á verndarvæng Pútíns með einum eða öðrum hætti og varð fljótt ljóst eftir að Pútín tók við völdum að áframhaldandi auðsöfnun þeirra myndi krefjast dyggrar hlýðni við Pútín. Svo lengi sem pólitískir hagsmunir Pútíns og fjárhagslegir hagsmunir ólígarkanna náðu saman væri allt í himna lagi. Það sást bersýnilega þegar Mikhaíl Borisovich Khodorkovski, sem var eitt sinn ríkasti maður Rússlands, og Pútín lenti saman og Khodorkovski var í kjölfarið dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir fjárdrátt og peningaþvætti.
Abramovich, aðaleigandi fótboltaliðsins Chelsea, er líklega á meðal þekktustu ólígarkanna í dag. Abramovich var 34 ára þegar Pútín tók við völdum og er með yngstu ólígörkunum. Abramovich hagnaðist á olíuviðskiptum og átti hlut í rússneska olíufyrirtækinu Sibneft ásamt Berezovskí.
Viðskiptasamband þeirra endaði með dómsmáli þar sem Berezovskí sagði Abramovich hafa átt í hótunum við hann og hafi neytt hann til að selja sinn hlut í Sibneft. Berezovskí krafði Abramovich um þrjá milljarða evra í skaðabætur. Dómarinn sagði Berezovskí óáreiðanlegt vitni og Abramovich hafði betur í einu dýrasta dómsmáli Bretlands en áætlaður kostnaður vegna málarekstursins var um 100 milljónir punda.
Eignir Abramovich eru í dag metnar á 9,4 milljarða punda og má rekja þær að mestu leyti til sölunnar á Sibneft til ríkisorkurisans Gazprom árið 2005. Hann hefur reynt að slíta á tengslin við Pútín, að minnsta kosti þannig að svo blasi það við Vesturlöndum, en hefur ekki haft erindi sem erfiði.
Skammarlegt að stríð þurfi til að afhjúpa ólígarkanna
Rússneskir ólígarkar eru margir umsvifamiklir í Bretlandi og er Abramovich í hópi rússneskra viðskiptamanna sem eru með tengsl við rússnesk stjórnvöld sem sæta skulu viðskiptaþvingunum.
Allar eignir Abramovich í Bretlandi hafa verið frystar, þar á meðal fótboltalið Chelsea. Abramovich tilkynnti í byrjun mars að hann ætlaði sér að selja knattspyrnufélagið og láta ágóðann renna til „fórnarlamba stríðsins í Úkraínu“, en ljóst virðist að ekkert geti orðið af þeim áformum á næstunni. Hið minnsta mun Abramovich ekki fá að hafa neitt að gera með ráðstöfun ágóðans af mögulegri sölu, samkvæmt breskum miðlum.
David Conn, rannsóknarblaðamaður The Guardian, sem hefur meðal annars fjallað um spillingarmál innan FIFA, segir það gagnrýnisvert að stríðsátök þurfi til að Bretar átti sig loks á hvernig ólígarkar eins og Abramovich auðguðust jafn mikið og raun ber vitni. Conn segir sögu ólígarkanna í Rússlandi eina stóra sorgarsögu og að hún ætti að vera mun þekktari meðal almennings en hún er í raun og veru. Skömm sé af því að stríð þurfti að brjótast út svo fólk geri sér raunverulega grein fyrir umsvifum og áhrifum ólígarkanna.
Slóð ólígarka nær alla leið til litla Íslands
Ólígarkar eru ekki einskorðaðir við Rússland og dæmi eru um að ólígarkar hafi tengsl við litla Ísland. Þó svo að einkavæðing eftir hrun Sovétríkjanna hafi ekki verið með sama hætti í nágrannaríkinu Hvíta-Rússlandi er þar hópur manna sem hefur auðgast á tengslum sínum við Alexander Lukashenko, sem hefur verið forseti landsins frá því að það varð sjálfstætt árið 1994. Sjálfur hefur Lukashenko lýst sér sem „síðasta einræðisherra Evrópu“.
Einn þessara manna er Aleksander Moshensky, kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi. Í umfjöllun Stundarinnar sem birtist á föstudag eru íslensk stjórnvöld sögð hafa beitt sér gegn því að Evrópusambandið beitti Moshensky viðskiptaþvingunum.
Moshensky er einn ríkasti maður Hvíta-Rússlands og umsvifamikill viðskiptajöfur. Geir H. Haarde undirritaði skipunarbréf Moshensky haustið 2006 og hefur hann verið kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi síðan þá.
Hann er talinn mjög handgengur Lukashenko og hefur hagnast gríðarlega í einu miðstýrðasta efnahagskerfi Evrópu, sem byggir mjög á nánu sambandi við ráðamenn. Veldi hans veltir um 220 milljörðum króna á ári. Fyrir vikið er Moshensky oft kallaður„veski Lukashenkos“.
Á meðal þeirra sem Moshensky stundar viðskipti við eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Hann kaupir mikið magn sjávarafurða héðan, sérstaklega loðnu, síld og makríl, og hagsmunir íslenskra útgerða í viðskiptum við hann hlaupa á milljörðum króna. Þau viðskipti eru meðal annars við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum en í Stundinni segir að náin vinátta hafi skapast milli Moshensky og forstjóra Vinnslustöðvarinnar, Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að nafn Moshensky hafi ítrekað verið á lista yfir þá sem Evrópusambandið hafi ætlað að setja á lista yfir fólk sem refsiaðgerðir nái til, en að það hafi ætíð verið fjarlægt skömmu áður en listarnir voru formlega samþykktir.
Munu „sílógarkar“ taka við af ólígörkum?
Þrátt fyrir að vera „fámenn stétt“ hefur ólígörkum farið fjölgandi, á því leikur enginn vafi. Árið 2001 voru átta milljarðamæringar í Rússlandi og voru eignir þeirra metnar samtals á 12,4 milljarða dollara. Tíu árum síðar voru milljarðamæringarnir orðnir 101 og samanlagt virði þeirra 432,7 milljarðar dollarar samkvæmt gögnum frá Forbes.
Mikil óvissa ríkir um framtíð ólígarkanna meðan Vesturlönd beita refsiaðgerðum og efnahagsþvingunum vegna stríðsins í Úkraínu. Um miðjan þennan mánuð voru að minnsta kosti 22 ólígarkar, auk Abramovich, fyrir beinum áhrifum af refsiaðgerðunum.
Á sama tíma er ákveðin þróun að eiga sér stað meðal ólígarkanna. Með sterkri valdastöðu Pútíns og hertu taki rússneskra stjórnvalda á einkafyrirtækjum hefur nokkurs konar afkvæmi ólígarkanna litið dagsins ljós: Sílógarkar.
Sílógarkar (e. silovarch) er samsett úr orðinu ólígarki og rússneska orðinu siloviki, sem notað er um þá sem tilheyra elítu landsins í hernaðar- og öryggismálum. Margir sílógarkanna tengjast Pútín persónulega frá árum hans í rússnesku leyniþjónustunni eða störfuðu með honum í Sankti Pétursborg í upphafi stjórnmálaferilsins.
Nokkuð hefur verið skrifað um sílógarkanna, meðal annars í ritrýndum fræðitímaritum. Einn þeirra er Stanislav Markus, prófessor í alþjóðaviðskiptum við háskólann í Suður-Karólínu. Segir hann að „hinir svokölluðu sílógarkar samanstandi af viðskiptaelítu sem nýttu áhrif sín í rússnesku leyniþjónustunni, FSB, eða hernum til að raka saman auði og völdum“.
Sílógarkar eru ekki undanþegnir refsiaðgerðum en þeir hafa, líkt og ólígarkar, ratað á lista Vesturlanda yfir einstaklinga sem sæta efnahagsþvingunum. Bæði ólígarkar og sílógarkar hafa því fylgst með auði og eignum sínum hríðfalla á meðan Pútín heldur stríðsrekstri Rússlands áfram.
Ólígarkar fá enga samúð hjá almenningi, að minnsta kosti ekki í Bretlandi þar sem hópur fólks tók yfir glæsihýsi Oleg Deripaska, náins bandamanns Pútíns, í miðborg London í vikunni. Deripaska er á lista breskra stjórnvalda yfir ólígarka sem sæta efnahagsþvingunum vegna innrásarinnar í Úkraínu. Hópurinn sem yfirtók húsið sagðist vera að sinna vinnu stjórnvalda með því að gera glæsihýsið, sem inniheldur að minnsta kosti 200 herbergi, að samastað fyrir flóttamenn frá Úkraínu. „Heimili þeirra hafa verið lögð í rúst og þessi maður [Deripaska] styður stríðið,“ sagði einn úr hópnum.