Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er risastórt fyrirtæki. Árlega veltir það tæpum 30 milljörðum króna og ársreikningur fyrirtækisins sýnir að það skilar hagnaði upp á 1,3 milljarða króna á síðasta ári. Sá peningur, og raunar meira til, rennur óskiptur til ríkisins í formi arðgreiðslu.
Mikið hefur verið tekist á um framtíð ÁTVR undanfarin ár, sérstaklega eftir að frumvarp var lagt fram á Alþingi í fyrrahaust um að afnema einkaleyfi fyrirtækisins á sölu áfengis. Verði það frumvarp að lögum mun það kippa tilverugrundvellinum undan ÁTVR og fyrirtækið myndi, á endanum, heyra sögunni til ef svo verður.
Töluverður hiti hefur verið í samfélagsumræðunni um efni frumvarpsins. Stuðningsmenn þess benda margir á að það sé óréttlætanleg tímaskekkja að íslenska ríkið reki næstum 50 verslanir sem selji eina tegund vöru. Ef vara sé lögleg eigi að ríkja samkeppni um sölu hennar, líkt og með aðrar vörur. Andstæðingar frumvarpsins bera aðallega fyrir sig lýðheilsusjónarmið. Frelsi í sölu muni auka aðgengi og neyslu á þessu löglega vímuefni. Auk þess muni vöruframboð dragast saman og fullt af fólki sem í dag starfar hjá ÁTVR missa vinnuna.
En lítið hefur verið fjallað um raunverulegan rekstur og skipulag ÁTVR í þessari umræðu. Kjarninn ákvað því að rýna í nýbirta ársskýrslu fyrirtækisins til að reyna að útskýra hvernig ÁTVR græðir peninga og hvað það myndi þýða fyrir arðsemi ríkisins af áfengissölu ef það hætti að reka vínbúðir.
ÁTVR rekið með hagnaði, en hvaðan kemur hagnaðurinn?
Fyrr á þessu ári tók fyrirtækið Clever Data saman skýrslu um rekstur ÁTVR. Skýrslan var tekin saman fyrir aðila sem vilja að framlagt frumvarp um að afnema einokun ríkisins á smásölu áfengis verði að lögum.
Niðurstaðan var sú að ekki væri eiginlegur hagnaður af starfsemi fyrirtækisins. Ein helsta ástæða þess væri sú að langtum meiri rekstrarhagnaður væri af sölu tóbaks en sölu áfengis, enda sé tóbakinu dreift í heildsölu á meðan að áfengið sé selt í verslunum sem ÁTVR á og rekur út um allt land.
ÁTVR brást við skýrslunni með því að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem fyrirtækið hafnaði niðurstöðu hennar. Þar stóð m.a.: „Niðurstöður hennar eru vangaveltur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum og ÁTVR hafnar þeim alfarið. ÁTVR hefur aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar. “
Í tilkynningunni svaraði ÁTVR því ekki hvort rétt væri að tóbakssala væri að niðurgreiða mjög víðferma, og kostnaðarsama, áfengissölustarfsemi fyrirtækisins. Þar sagði einungis að ÁTVR sé lögum samkvæmt rekin sem ein heild og smásala áfengis og heildsala tóbaks sé því ekki aðgreind í rekstri fyrirtækisins né bókhaldi. „Ljóst er að aðgreindur rekstur hefði í för með sér verulega óhagkvæmni, enda eru veigamiklir rekstrarliðir sameiginlegir báðum þáttum starfseminnar. Nægir hér til dæmis að nefna húsnæðiskostnað, kostnað við meðhöndlun vöru í vöruhúsi, rekstur tölvukerfa, vöruinnkaup, vörudreifingu og launakostnað. Í bókhaldi ÁTVR er ekki sundurgreint hvernig slíkur kostnaður deilist á milli áfengis- og tóbakshlutans og því eru engin gögn til um kostnaðarskiptingu.“
Ástæðan er líkast til sú að allar líkur eru á því að svo sé. Tóbakssalan niðurgreiðir áfengissöluna.
Vilja ekki upplýsa um aðskilinn kostnað
ÁTVR birti ársskýrslu sína fyrir árið 2014 í síðasta mánuði. Líkt og áður er rekstrarkostnaður vegna tóbakssölu ekki gefin sérstaklega upp í bókhaldi ÁTVR. Öll tóbaksdreifing ÁTVR er miðlæg og fer því fram á einum og sama staðnum, Útgarði, dreifingarmiðstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Þannig hefur hún verið frá því í janúar 2014. Í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2013 segir að mikið hagræði hafi fylgt breytingunni þar sem „birgðahald og vörumeðhöndlun minnkar og dreifingarkostnaður lækkar. Samhliða hefur verið lögð áhersla á rafrænar pantanir til hagsbóta fyrir alla aðila“.
Kjarninn sendi fyrirspurn á ÁTVR í ágúst 2014 og óskaði eftir upplýsingum um hver kostnaður við sölu á tóbaki væri. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, sagði þá að kostnaðurinn væri ekki skilgreindur sérstaklega í bókhaldi fyrirtækisins.
Tóbakssalan virðist niðurgreiða áfengisverslanirnar
Einfaldur hugareikningur sýnir hins vegar að miklar líkur séu á því að tóbakssalan greiði allan þann arð sem rennur til íslenska ríkisins ár hvert. Tekjur ÁTVR af tóbakssölu í fyrra voru 9,5 milljarðar króna. Vörunotkun tóbaks var átta milljarðar króna og af henni var 5,7 milljarðar króna tóbaksgjald sem greiðist til ríkisins.
Þegar vörugjöld hafa verið dregin frá tekjum ÁTVR af tóbakssölu stendur eftir 1,5 milljarður króna. Mjög erfitt er að ímynda sér að kostnaður við hinn hagkvæma miðlæga rekstur tóbakssölu fyrirtækisins, sem er allur á einum stað þar sem allar vörur eru pantaðar er rafrænt, sé nema brotabrot af þeirri upphæð.
Það sem meira er þá eru tekjurnar af tóbakssölu að aukast á milli ára þrátt fyrir mikinn samdrátt í sölu á reyktóbaki. Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar auknar álögur á tóbak, sem skila ríkinu meiri tekjum, og hins vegar sprengin í framleiðslu og sölu á íslensku neftóbaki, oft kallað „Ruddi“, sem nú er aðallega notað í vörina. Sala á því jókst um 19 prósent í fyrra og ÁTVR hefur aldrei í sögunni áður selt jafn mikið af neftóbaki. Alls skilaði neftóbakssalan 692,5 milljónum krónum í kassann, eða 115,6 milljónum krónum meira en árið áður.
Því er með rökum hægt að draga þá ályktun að þorri þess hagnaðar sem ÁTVR sýndi í fyrra, 1,3 milljörðum króna, sé tilkomin vegna tóbakssölu.
Rekur miklu fleiri verslanir en Bónus
Áfengissala ÁTVR er mun umfangsmeiri rekstur en tóbakssalan. Raunar er fyrirtækið einn stærsti smásali landsins. Það rekur 49 verslanir út um allt land, þar af tólf á höfuðborgarsvæðinu, og veltir 23,9 milljörðum króna árlega vegna sölu á áfengi. Til samanburðar rekur Bónus, sem er með 39 prósent markaðshlutdeild á dagvörumarkaði, 29 verslanir um land allt.
Hjá ÁTVR fengu 684 starfsmenn greidd laun á síðasta ári, en margir þeirra eru í hlutastarfi. Alls eru ársverkin 282 talsins og fjölgaði um tólf milli ára. Þorri þessa starfsfólks vinnur í vínbúðum 49, eða við umsýslu áfengis. Þar sem ÁTVR aðgreinir ekki kostnað vegna tóbaks- og áfengissölu er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hver launakostnaður vegna áfengissölunnar er. Heildarlaunakostnaður ÁTVR, ásamt launatengdum gjöldum, var hins vegar 1,7 milljarðar króna á árinu 2014 og hækkaði um 9,3 prósent milli ára. Mest munaði um laun forstjórans Ívars J. Arndal, en árslaun hans námu 16,5 milljónum króna og hækkuðu um 700 þúsund krónur milli ára. Ívar fær því 1.375 þúsund krónur á mánuði.
Bónus er stærsta matvöruverslunarkeðja landsins. Alls eru 29 Bónusverslanir reknar um allt land. ÁTVR rekur 49 verslanir.
Forstjórinn með 16,5 milljónir á ári
Rekstrartekjur ÁTVR voru 28,6 milljarðar króna og jukust um 1,2 milljarða króna á milli ára. Af þeim runnu 23,7 milljarðar króna til ríkissjóðs vegna tóbaksgjalds (5,7 milljarðar króna), áfengisgjalds (9,2 milljarðar króna), virðisaukaskatts (7,3 milljarðar króna) og arðgreiðslu (1,4 milljarðar króna).
Það þýðir að um 83 prósent allra tekna ÁTVR renna í ríkissjóð. Allar þessar tekjur myndu skila sér þangað óháð því hver það væri sem seldi áfengi og tóbak, utan arðgreiðslunnar.
Þetta háa hlutfall tekna fyrirtækisins sem rennur til ríkissjóðs ætti ekki að koma mörgum á óvart. Álögur á áfengi á Íslandi eru þær hæstu í Evrópu að Noregi undanskildu.
Tveir þriðju hlutar allra rekstrartekna ÁTVR, alls 19,1 milljarðar króna, koma til vegna sölu áfengis. Þær hækkuðu um 4,7 prósent á síðasta ári.Tæpur helmingur áfengissöluveltunnar er vegna bjórsölu og um 72 prósent af öllum bjór sem seldur er í vínbúðunum er innlendur bjór. Þar er talin með sá einkaleyfiskyldi bjór sem innlendir aðilar framleiða með leyfi aðalframleiðanda.
Rekstrartekjur ÁTVR voru 28,6 milljarðar króna og jukust um 1,2 milljarða króna á milli ára. Af þeim runnu 23,7 milljarðar króna til ríkissjóðs vegna tóbaksgjalds (5,7 milljarðar króna), áfengisgjalds (9,2 milljarðar króna), virðisaukaskatts (7,3 milljarðar króna) og arðgreiðslu (1,4 milljarðar króna).
Ríki í ríkinu
Þrátt fyrir þessu miklu umsvif stofnunarinnar, og ÁTVR er skilgreind sem stofnun í lögum, þá er engin stjórn yfir fyrirtækinu. Slík hefur ekki verið til staðar í nokkur ár heldur heyrir stofnunin beint undir fjármálaráðherra. Yfirstjórn fyrirtækisins, sem samanstendur af Ívari J. Arndal forstjóra og framkvæmdastjórum, tekur þess í stað ákvarðanir tengdar rekstri ÁTVR. Fyrirtækið sker sig þannig frá öðrum stórum fyrirtækjum í opinberri eigu, eins og til dæmis orkufyrirtækjum, þar sem eigandinn kemur ekki að beinni stjórn þess.
Þótt um sé að ræða ríkisstofnun með algjöra einokun á sínum markaði eru íslenskir neytendur mjög ánægðir með þá þjónustu sem ÁTVR veitir. Fyrirtækið skoraði raunar hæst allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni á síðasta ári.
"Einhverjir aðrir hagsmunir á ferðinni"
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, skrifaði inngang í ársskýrslu fyrirtækisins sem vakið hefur töluverða athygli. Þar segir hann síðastliðinn vetur hafa verið erfiður fyrir starfsfólk ÁTVR vegna neikvæðrar umræðu um ríkisstarfsmenn og frumvarps um afnám einkaleyfis ÁTVR á smásölu áfengis. Þar segir Ívar: „Frumvarpið hefur valdið starfsfólki ÁTVR hugarangri því það gerir ráð fyrir að sala á öllu áfengi færist frá ÁTVR til einkaaðila, Vínbúðum ÁTVR verði lokað og flestu starfsfólki sagt upp störfum. [...]Greinilegt er að það eru ekki viðskiptavinir ÁTVR sem eru að biðja um breytingar á fyrirkomulagi áfengissölu. Þar eru einhverjir aðrir hagsmunir á ferðinni.“
Hann segir erfitt að standa á hliðarlínunni þegar verið sé að fjalla um málefni sem snerti hann persónulega þótt ákvörðunin um fyrirkomulag áfengissölu sé í eðli sínu pólitísk og í réttum höndum hjá alþingismönnum. ÁTVR sendi umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem tilvera fyrirtækisins og núverandi laga um áfengissölu er varin. Þar er farið yfir skoðun stjórnenda ÁTVR á því hvað muni gerast ef fyrirtækið verður lagt niður. Á meðal þess sem kemur fram í umsögninni er að aðgengi að áfengi muni aukast, vöruframboð muni minnka, sérstaklega á landsbyggðinni, líklegt er að áfengisverð muni hækka, neysla áfengis muni aukast, sérstaklega hjá ungu fólki, með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir samfélagið, smygl og sviknar vörur munu eiga greiðari aðgang að markaðnum, áfengisþjófnaður úr verslunum mun aukast og fjöldi starfsmanna ÁTVR mun missa vinnuna verði frumvarpið að lögum.