Íslenskir skattgreiðendur hafa tapað um 35 milljörðum króna vegna neyðarláns sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, þann 6. október 2008. Alls var lánið upp á 500 milljónir evra, um 76 milljarða króna á núverandi gengi, og ljóst að tæpur helmingur þess er nú tapaður. Ástæðan er sú að danskur banki sem var tekinn sem veð fyrir láninu, FIH, reyndist mun verra veð en upphaflega var haldið fram að bæði Seðlabanka Íslands og þáverandi stjórnendum Kaupþings.
Eftir að Kjarninn greindi frá þessu tapi hefur lánveitingin, og hvernig var staðið að henni, verið nokkuð í sviðsljósinu. Sérstaklega símtal sem átti sér stað milli Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans, þennan saman dag þar sem þeir ræða lánveitinguna. Seðlabankinn á upptöku af samtalinu. Hún hefur hins vegar ekki verið gerð opinber vegna þess að Geir hefur ekki viljað heimila það. Ástæðan er sú að hann vissi ekki að verið væri að taka hann upp og hann er þeirrar skoðunar að ekki eigi að taka upp símtöl sem forsætisráðherra á við aðra.
Rétt ákvörðun segir Geir
Geir var í viðtali við sjónvarpsþáttinn Eyjuna á Stöð 2 í gær. Þar sagðist hann enn vera þeirrar skoðunar að veiting lánsins til Kaupþings hefði verið rétt ákvörðun. „Sú ákvörðun var að sjálfsögðu tekin í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru uppi. Það verður að meta hana í ljósi þeirra aðstæðna, ekki þess sem að menn vita núna. Það var auðvitað tilraun til að bjarga Kaupþingi og ef það hefði tekist, að Kaupþing hefði lifað þetta af, stærsti bankinn, þá hefði þessi mynd orðið allt önnur og miklu viðráðanlegri,“ sagði Geir við Björn Inga Hrafnsson, þáttarstjórnanda Eyjunnar.
„Það verður að meta hana í ljósi þeirra aðstæðna, ekki þess sem að menn vita núna. Það var auðvitað tilraun til að bjarga Kaupþingi“
Ekkert rætt á morgunfundi
Ljóst er að ákvörðun um veitingu lánsins var tekin samdægurs, þann 6. október 2008, og að lokaákvörðun um það hafi legið hjá þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru nokkrir vitnisburðir sem varpa frekara ljósi á hvernig ákvörðun um lánveitinguna var tekin.
Þar kemur til að mynda fram að klukkan 8:30 að morgni þessa örlagaríka daga hafi verið haldinn ríkisstjórnarfundur. Samkvæmt fundargerð lagði Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, fram og kynnti frumvarp sem síðar varð þekkt undir heitinu neyðarlögin.
Í því frumvarpi sem var kynnt á þeim fundi var ekki ákvæði sem heimilaði Seðlabanka Íslands að eiga og reka fjármálafyrirtæki. Slíkt ákvæði var talið nauðsynlegt til að Seðlabankinn gæti tekið FIH sem veð fyrir láninu.
Viðskiptaráðuneytið beðið um að bæta við ákvæði
Klukkan 13:34 sama dag bárust skilaboð frá forsætisráðuneytinu, þar sem Geir H. Haarde sat, til Jónínu S. Lárusdóttur, þáverandi ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytisins, um að setja ætti inn ákvæði í neyðarlagafrumvarpið „um að Seðlabankanum væri heimilt að eiga og reka fjármálafyrirtæki. Tölvubréf frá ritara forsætisráðherra staðfestir þetta“.
Jóninu fannst þetta ákvæði þó ekki samrýmast efni neyðarlagafrumvarpsins. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að hún hafi látið viðskiptaráðherra vita af því og hafi síðan haft samband „við ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu sem benti mér á að tala við Seðlabankann. Þá fékk ég þær skýringar að þetta væri út af því að Seðlabankinn væri búinn að taka allsherjarveð, þarna út af FIH[...]Þetta fer sem sagt inn í þingskjalið og það gerðist nú þarna um daginn, sem hefur aldrei gerst hvorki fyrr né síðar, að við fengum opið þingskjal frá þinginu. Það er alltaf læst og [...] þá var sett ákvæði til bráðabirgða að honum væri heimilt að eiga þetta [...] og þetta var mjög mikill titringur út af þessu og formaður bankastjórnar Seðlabankans [Davíð Oddsson] sem sagt [...] hann var mjög ákveðinn og ég var að tala við Sigríði Loga [yfirlögfræðing Seðlabankans] og hann fékk símann og talaði um að þetta þyrfti að vera svona“.
Ráðuneyti Björgvins. G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, tók þátt í að skrifa neyðarlögin. Ráðuneytisstjóri þess bætti inn ákveðinu um heimild Seðlabankans til að eiga FIH. Það ákvæði var síðar fellt út úr lögunum.
„Þetta má ekki vera inni, þetta má ekki vera inni“
Í kjölfarið fór heimildin inn í frumvarpið og Jónína hélt að málið væri frágengið. Svo var þó ekki. Í skýrslunni er haft eftir Jónínu að þegar hún hafi komið niður á Alþingi síðar um daginn „þá kemur ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu [Bolli Þór Bollason] til mín og segir: Er þetta inni frá FIH? Er þetta inni frá FIH? Og ég segi: Þetta er inni með FIH, það kom melding frá ykkur. Það kom frá þeim upphaflega að þetta ætti að fara inn í frumvarpið. Þetta má ekki vera inni, þetta má ekki vera inni“. Á þeim tíma var hins vegar búið að prenta út frumvarpið og dreifa því til þingmanna. Þar er ákvæði sem heimilar Seðlabankanum sérstaklega að eignast FIH bankann í Danmörku og að halda á honum í tvö ár.
Lánið ákveðið á hádegi
Sigríður Logadóttir, yfirlögfræðingur Seðlabankans, sagði í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni að mánudagsmorguninn 6. október hafi „það komið upp að Kaupþing er í vandræðum og það endar með því að Seðlabankinn ákveður að lána Kaupþingi gegn veði í öllu FIH-bankanum og það er sem sagt ákveðið á hádegi. „Jónína Lár er að hringja í mig og spyrja nákvæmlega út í heitið á FIH-bankanum og ég hugsa með mér: Bíddu, af hverju er hún að spyrja að þessu? En ég lét hana samt hafa það, af hverju ætti ég ekki að gera það, ég meina þetta er ráðuneytisstjóri í ráðuneytinu, nema það að eitthvað var svona í hausnum á mér þannig að ég geng á eftir því við hana að fá frumvarpið, þau voru mjög svona „reluctant“ að senda okkur frumvarpið. Svo kemur frumvarpið og þá stendur bara skýrum stöfum í frumvarpinu að Seðlabanka Íslands sé heimilt að yfirtaka FIH-bankann. [...] það er ekki almenn heimild, það er bara nafngreindur þessi sérstaki banki og við bara hugsuðum: Hvað er að ráðuneytinu? Eru þau gersamlega gengin af göflunum? Þú getur ekki sett svona í frumvarp, ég meina hvað heldurðu að markaðurinn mundi...? Þú ert búinn að eyðileggja bankann um leið og þú setur svona í frumvarp.“
Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, var eðlilega í aðalhutverki í lánveitingunni til Kaupþings.
Davíð trompaðist
Sigríður segir við skýrslutöku að ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins hafi síðan sent sér frumvarpið og hringt í hana um leið. „Þá er Davíð akkúrat hér inni á skrifstofunni hjá mér og við sjáum þetta og náttúrulega bara fengum „sjokk“ og Davíð náttúrulega trompaðist, þannig að hann hérna talar við Jónínu og bara gjöra svo vel að taka þetta út „med det samme“.
Nema það þetta er þarna seinni partinn 6. október þegar menn eru að fara að renna út á tíma með það að koma þessu í gegn á þessum sólarhring. Og Seðlabankinn var búinn að leggja það til að það yrði þessi almenna heimild í frumvarpinu sem sagt að við gætum átt banka. Nema það, kannski brá henni svona rosalega, þetta bara féll gjörsamlega út. [...] Þetta féll gjörsamlega út, þetta er ekkert í lögunum, fór bara algjörlega út. [...] maður setur ekki inn nafn á bankanum. [...]Og það komst inn á netið með þessari grein og þegar það uppgötvaðist þá náttúrulega trompaðist náttúrulega liðið hérna uppi á 5. hæðinni í Seðlabankanum. Ég fékk bara símtal frá Kaupþingi sem segir: Heyrðu, við erum að lesa það hérna á netinu að þið ætlið að taka yfir FIH-bankann. Þannig að það var hringt niður á Alþingi og bara snarlega beðið um að þetta yrði tekið út og þetta er sem sagt allt að gerast á sama hálftímanum eða klukkutímanum þannig að það fór aldrei inn í frumvarpið þessi almenna heimild, sem hefði náttúrulega eiginlega þurft að vera“.
Óvissa um forræði
Þar sem heimildin var ekki til staðar í lögunum skapaðist mikil óvissa um það eftir fall Kaupþings hvort Seðlabankinn gæti raunverulega gengið að veðinu. Mikil átöku áttu sér stað milli hans og slitastjórnar Kaupþings um hvor færi með forræði yfir FIH sem stuðaði dönsk stjórnvöld mikið.
Á endanum var FIH seldur til danskra fjárfesta haustið 2010 fyrir staðgreiðslu á rúmum helming þeirra upphæðar sem Seðlabankinn lánaði Kaupþingi. Auk þess „lánaði“ Seðlabankinn nýjum eigendum seljendalán upp á nokkra tugi milljarða króna sem átti að endurgreiðast ef FIH bankinn myndi ganga vel. Það gerði hann ekki og því endurgreiddist einungis brotabrot af seljendaláninu. Fyrir vikið nemur tap íslenskra skattgreiðenda vegna neyðarlánsins til Kaupþings um 35 milljörðum króna.