Íbúðalánum skóflað út en framboð á húsnæði dregst hratt saman
Húsnæðisverð hefur hækkað um rúmlega átta prósent á einu ári. Heimili landsins hafa tekið hátt í 300 milljarða króna í ný útlán til að kaupa sér húsnæði frá því að faraldurinn skall á. Á sama tíma er skortur á húsnæði framundan. Skilyrði fyrir eignabólu eru fyrir hendi.
Frá byrjun desember og út febrúarmánuð fengu heimili landsins alls 88,4 milljarða króna í ný útlán með veði í fasteign hjá bönkum landsins þegar búið er að draga upp- og umframgreiðslur þeirra frá. Frá því apríl í fyrra og út nóvembermánuð sama ár námu nettó útlánin 245,6 milljörðum króna. Það þýðir að heimili landsins hafa tekið ný útlán hjá viðskiptabönkunum í landinu til að kaupa sér húsnæði fyrir alls 334 milljarða króna á tíu mánaða tímabili.
Hluti af þessum lánum hafa farið í að greiða niður íbúðalán sem tekin höfðu verið hjá lífeyrissjóðum, en eftir að stýrivextir voru lækkaðir skarpt skall á flótti lántaka frá sjóðunum yfir til bankanna, sem geta nú boðið mun betri kjör en áður. Alls drógust ný útlán lífeyrissjóða, að teknu tilliti til upp- og umframgreiðslna, saman um 40 milljarða króna frá aprílbyrjun í fyrra og út janúar 2021. Vænta má að sá samdráttur hafi haldið áfram í febrúar. Það þýðir að heimili landsins hafa tekið sér ný útlán, þar sem fasteign er sett að veði, fyrir hátt í 300 milljarða króna frá því að kórónuveiran skall á af fullum krafti.
Nýjum íbúðum fækkar hratt
Á sama tíma og þetta er að eiga sér þá er verulegur samdráttur í byggingu íbúða. Ein birtingarmynd þess er að bankarnir í landinu eru ekki að lána til byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerðar. Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands hafa útlán, að teknu tilliti til upp- og umframgreiðslna, til þess málaflokks dregist saman um 30,3 milljarða króna frá því í byrjun apríl í fyrra.
Á höfuðborgarsvæðinu, í nágrenni þess og á Norðurlandi hafa ekki verið jafn fáar íbúðir í byggingu í fjögur ár, samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt talningunni, sem birt var í liðinni viku, eru nú 4.610 íbúðir í byggingu og hefur fækkað um 1.131 milli ára. Það er mesta fækkun íbúða sem átt hefur sér stað milli ára síðan að samtökin hófu að telja íbúðir í byggingu snemma árs 2010.
Í greiningu Samtaka iðnaðarins segir að staðan boði að veruleg fækkun gæti orðið á íbúðum á síðustu byggingarstigum á næstunni. „Mjög fáar íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum og er það áhyggjuefni vegna væntanlegs framboðs á fullbúnu íbúðarhúsnæði á næstu árum.“
Samdrátturinn mælist mestur á höfuðborgarsvæðinu, þar sem næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum búa og fasteignaverð er hæst, en eru 3.523 íbúðir eru í byggingu. Þær hafa ekki verið færri síðan í mars 2017, eða í fjögur ár.
Margir að bæta stöðu sína á húsnæðismarkaði
Afleiðingin þess að íbúðalán verða ódýrari, eftirspurn eftir þeim eykst verulega og heimsfaraldur kemur í veg fyrir að fólk geti eytt sparnaði sínum í ýmislegt annað sem áður þótt sjálfsagt er að fasteignaviðskiptum hefur fjölgað verulega. Með öðrum orðum þá eru margir að skipta um húsnæði í faraldrinum og tölurnar benda til þess að fjöldi Íslendingar sem er ekki að verða fyrir beinum fjárhagslegum áhrifum af faraldrinum sé að skuldsetja sig meira en áður til að kaupa sér betra húsnæði en þeir voru í.
Þegar framboðið á markaðnum er enn langt frá því að mæta eftirspurninni, og fyrirliggjandi er enn meiri samdráttur í byggingu íbúðarhúsnæðis, þá blasa við frekari verðhækkanir. Skilyrði eru til staðar fyrir eignabólu að blásast upp.
Frá byrjun síðasta ár hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu til að mynda hækkað um rúmlega átta prósent. Síðastliðinn áratug hefur það hækkað um 124 prósent. Það þýðir að sá sem keypti íbúð á höfuðborgarsvæðinu snemma árs 2011 á 30 milljónir króna getur haft væntingar um að hún seljist nú á á um 67 milljónir króna.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði