Icelandair hefur lækkað sérstakt eldsneytisgjald sitt um 15 prósent frá miðju ári í fyrra. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á olíu fallið um 57 prósent. Hið sérstaka eldsneytisgjald hefur verið hluti af verðlagningu ýmissa flugfélaga í heiminum frá árinu 2004 og hefur sögulega ekki fylgt sveiflum heimsmarkaðsverðs á olíu.
Heimsmarkaðsverð á olíu fór niður fyrir 50 dali á hverja tunnu, eða fat, af Brent-olíu í fyrradag. Þegar þetta er skrifað er verðið 50,24 dalir á tunnu. Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Hún hefur því, líkt og áður sagði, lækkað um 57 prósent í verði á rúmu ári. Verðið hefur ekki verið lægra síðan á árinu 2009.
Kjarninn greindi frá því í gær að verð á eldsneyti til neytenda á Íslandi hafi ekki fylgt þróun á heimsmarkaðsverði og fór yfir þær ástæður sem liggja þar að baki.
Lækkaði um 15 prósent í lok síðasta árs
Icelandair lækkaði eldsneytisgjaldið sitt um 15 prósent um mánaðarmótin nóvember-desember 2014. Gjaldið er hluti af farmiðaverði margra flugfélaga og hjá Icelandair nemur þetta gjald stundum meira en helmingi af verði flugmiðans. Við þetta lækkaði eldsneytisgjaldið fyrir Evrópuferðir úr 9.200 krónum í 7.900 krónur og úr 16.400 krónum í 13.900 krónur ef flokið er til Norður- Ameríku.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að fyrirtækið hafi ekki lækkað eldsneytisgjaldið síðan í lok síðasta árs. „Eldsneytisálag flugfélaga var sett á vorið 2004 þegar flugeldsneyti hafði hækkað hratt, og var komið í 370 dollara á tonnið. Verðið hefur síðan sveiflast upp og niður, fór hæst í meira en 1400 dollara 2008, lækkaði svo niður í um 500 dollara 2009, hækkaði aftur í 1400 dollara og er nú komið í kringum 500 dollara á tonnið. Eldsneytisálag hefur ekki fylgt þessum sveiflum, en hefur farið lækkandi.“
Gjaldið barn síns tíma
Ástæður þess að eldsneytisgjaldið fylgir ekki sveiflum eru nokkrar. Þar ber fyrst að nefna þá að stærri flugfélög verja sig vanalega gagnvart sveiflum í eldsneytisverði með því að gera framvirka samninga um kaup á því. Því hafa sveiflur yfir skemmri tíma ekki áhrif á eldsneytiskaup flugfélaga. Þetta er að mörgu leyti svipuð rök og íslensk olíufélög nota þegar þau benda á að þau eigi oft uppsafnaðar birgðir af eldsneyti sem keyptar hafi verið á hærra verði. Því taki tíma fyrir lækkanir á heimsmarkaðsverði að skila sér út í verðlagið.
Önnur ástæða er sú að álagning hins sérstaka eldsneytisgjalds skiptir í raun engu máli í verðlagningu á flugmiðum. Kaup á eldsneyti eru risastór breyta í rekstri flugfélaga og því blasir við að þróun þess mun alltaf hafa áhrif á það verð sem flugfélög geta boðið viðskiptavinum sínum. Það er enda svo að þegar flug er pantað kemur fram fullt verð, með eldsneytisgjaldinu. Þ.e. að leggst ekki ofan á eftir að pantað hefur verið.
Því hefur lengi verið rætt um það innan fluggeirans að þetta gjald sé tilgangslaust og að löngu tímabært sé að taka það út úr verðinu til að það valdi ekki ruglingi. Það hefur hins vegar ekki verið gert.