Spár breskra ljósvakamiðla benda allar til þess að Íhaldsflokkurinn hafi náð hreinum meirihluta í bresku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Samkvæmt spá Sky News nær flokkurinn 326 sætum á breska þinginu og þar með tveggja sæta meirihluta, en alls eru 650 sæti í neðri deild breska þingsins. Talningu atkvæða í Bretlandi er nánast lokið.
David Cameron verður því áfram forsætisráðherra Bretlands og þarf ekki að reiða sig á samstarf við aðra flokka, líkt og hann þurfti á síðasta kjörtímabili. Árangur Íhaldsflokksins er mun betri en skoðanakannanir gerðu ráð fyrir í aðdraganda kosninganna, en samkvæmt þeim átti flokkurinn að fá mjög svipað magn þingsæta og Verkamannaflokkurinn og vera nokkuð fjarri því að ná hreinum meirihluta. Hann er líka betri en útgönguspá gærkvöldsins benti til, en samkvæmt henni átti flokkurinn að ná 316 sætum.
Því er um mikinn kosningasigur að ræða fyrir Íhaldsflokkinn og David Cameron.
Afhroð Frjálslyndra demókrata og léleg útkoma Verkamannaflokksins
Frjálslyndir demókratar, sem mynda í dag samsteypustjórn með Íhaldsflokknum, biðu sögulegt afhroð í kosningunum. Þeir fá að öllum líkindum einungis átta þingsæti en voru með 57 áður. Búist er við því að Nick Clegg, formaður flokksins og núverandi aðstoðarforsætisráðherra, hætti eftir það afhroð sem flokkur hans beið í kosningunum.
Stopp hér. Ed Milliband er líklega á útleið sem formaður Verkamannaflokksins.
Verkamannaflokkurinn beið líka mikinn ósigur í kosningunum. Flokkurinn var með 258 sæti í neðri deild breska þingsins fyrir kosningarnar og miklar vonir voru innan hans um að Ed Milliband væri að stýra flokknum aftur í valdastól, mögulega í samsteypuríkisstjórn með annað hvort Frjálslyndum demókrötum eða Skoska þjóðarflokknum. Kannanir í aðdraganda kosninganna sýndu að flokkurinn og væri nánast hnífjafn Íhaldsflokknum þegar kom að fjölda þingsæta. En raunin var önnur.
Samkvæmt spám, nú þegar nánast öll atkvæði hafa verið talin, fær flokkurinn einungis 235 þingsæti og tapar því 25 slíkum. Búist er við því að Ed Miliband, formaður flokksins, segi af sér því embætti á næstu dögum í kjölfar kosningaósigursins.
Skoski þjóðarflokkurinn sigurvegari kvöldsins
Stærsta ástæðan fyrir tapi flokksins er einföld, hún heitir Skoski þjóðarflokkurinn (SNP). Skotland er með 59 þingsæti á breska þinginu. Sögulega hefur landið verið mjög sterkt vígi fyrir Verkamannaflokkinn og á því kjörtímabili sem er að ljúka var hann með 41 sæti. Nú er hann með eitt. Skoski þjóðarflokkurinn vann nefnilega ótrúlegan kosningasigur, líklega einn þann ótrúlegasta í breskri kosningasögu, með því að ná 56 af 59 sætum sem í boði voru í Skotlandi. Hann var með sex sæti á þinginu á því kjörtímabili sem er að líða. Hinir flokkarnir þrír, Verkamannaflokurinn, Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demókratar fá eitt sæti hver í Skotlandi. Á meðal þeirra sem misstu sæti sitt í landinu eru margir nafntogaðir menn, meðal annars nokkrir núverandi ráðherrar Frjálslynda demókrata.
Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins, og fylgismenn hennar höfðu ærna ástæðu til að fagna í gærkvöldi. Hún mun sjálf ekki setjast á breska þingið. Alex Salmond, fyrrum formaður flokksins, mun leiða þann hóp. MYND:EPA
Einna mesta athygli vakti sigur Mhairi Black í kjördæminu Paisley í Skotlandi. Hún er tvítug að aldri og bauð fram fyrir Skoska þjóðarflokkinn. Þar var helsti andstæðingur hennar Douglas Alexander, þungavigtarmaður í Verkamannaflokknum sem talið er að hefði orðið utanríkisráðherra Bretlands ef Verkamannaflokkurinn hefði komist til valda. Black sigraði hann með miklum yfirburðum.
Fylgi UKIP eykst en skilar bara tveimur sætum
Breski sjálfstæðisflokkurinn UKIP, sem hefur upplifað mikla fylgisaukningu undanfarin ár, fær einungis tvö þingsæti. Kosningakerfið í Bretlandi, þar sem öll kjördæmi eru einmenningskjördæmi, kemur í veg fyrir að fylgisaukning flokksins skili sér í fleiri þingsætum. Hinn umdeildi leiðtogi flokksins, Nigel Farage, náði ekki kjöri en hann var búinn að heita því að bjóða sig ekki aftur fram ef hann næði ekki inn í þessum kosningum. Ljóst er þó að málstaður UKIP, sem vill ganga úr Evrópusambandinu og herða mjög innflytjendalög til að takmarka þann fjölda sem sest að í Bretlandi, á fylgi að fagna.
En það verður því David Cameron sem fer á fund Elísabetar Bretlandsdrottningar að loknum þingkosningum til að óska eftir umboði til að stjórna landinu næstu fimm árin, líkt og hann hefur gert síðustu fimm ár. Það þýðir líka að breska þjóðin mun kjósa um áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu árið 2017, en það var eitt af helstu kosningaloforðum Camerons.