InDefence hópurinn gagnrýnir þá leið stjórnvalda að bjóða slitabúum föllnu bankanna að mæta stöðugleikaskilyrðum og klára nauðasamninga sína gegn því að sleppa undan álagningu stöðugleikaskatts. Sú leið, að semja um að mæta stöðugleikaskilyrðum, felur í sér lægri greiðslur frá slitabúunum til ríkissjóðs en álagning stöðugleikaskatts, sem yrði 39 prósent á allar eignir búanna. Þess í stað vill InDefence að tryggt verði í frumvörpum til laga um stöðugleikaskatt og nauðasamninga fjármálafyrirtækja að samningar um mætingu stöðugleikaskilyrða skili jafn miklu í ríkiskassann og stöðugleikaskattur, en að teknu tilliti til frádráttarliða ætti hann að geta skilað 682 milljörðum króna í tekjur fyrir ríkið leggist hann á. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn hópsins um frumvarp um stöðugleikaskatt sem skilað var inn til Alþingis í vikunni.
Mat á því hversu miklu samkomulag um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda skilar er mismunandi. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur talað um 450 milljarða króna. Sérfræðingar sem Kjarninn fékk til að reikna út mögulegar tekjur sögðu að þær yrðu líkast til á bilinu 300 til 400 milljarðar króna. Aðrir hafa komist að hærri niðurstöðu. Hver endanleg fjárhæð verður mun þó ekki liggja fyrir fyrr en búið verður að selja viðskiptabankanna tvo, Íslandsbanka og Arion banka, sem eru í eigu slitabúa föllnu bankanna og endanlegt virði krafna sem framseldar verða til stjórnvalda verður ljóst.
Forsætisráðherra og nánustu samstarfsmenn voru í InDefence
InDefence-hópurinn hefur verið mjög áberandi í íslensku samfélagi undanfarin ár. Hópurinn varð fyrst til í október 2008 þegar nokkrum einstaklingum ofbauð framganga breskra stjórnvalda gagnvart Íslandi þegar landið beitti hryðjuverkarlögum gegn Íslandi vegna bankahrunsins. InDefence barðist síðan hatrammlega gegn Icesave-samningunum og stóð meðal annars fyrir undirskriftarsöfnunum gegn samþykkt þeirra.
Sigurður Hannesson.
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður hans, voru áberandi í starfi InDefence hér á árum áður. Sigurður Hannesson, einn varaformanna framkvæmdahóps um losun hafta, sem vann tillögur um stöðugleikaskilyrði og mögulegan stöðugleikaskatt, kom einnig að starfi hópsins. Sigurður er einn nánasti efnahagsráðgjafi og trúnaðarmaður forsætisráðherra. Hann tekur auk þess virkan þátt í flokksstarfi Framsóknarflokksins.
Telja ágalla á nauðasamningsleið
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Ólaf Elíasson, tónlistarmann og meðlim InDefence, um gagnrýni hópsins á frumvörp um stöðugleikaskatt og nauðasamninga fjármálafyrirtækja. Þar segir hann afstöðu InDefence hafa verið þá að þeir sem ábyrgir eru fyrir því tjóni sem þjóðfélagið hafi orðið fyrir vegna bankahrunsins, slitabúin, bæru kostnaðinn af þeim skaða, frekar en almennir borgarar landsins.
Þetta sjónarmið segir Ólafur ekki virðast hafa orðið ofan á og að ríkisstjórnin hafi talið auðveldara að fara fram með markmið um stöðugleika. Það sé nokkurs konar framhald á samkomulaginu sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í lok árs 2008. Leið stöðugleikaskatts sé auðskiljanleg og hún verji almannahagsmuni. Ágallar séu hins vegar á nauðsamningsleið.
Auk þess setur InDefence-hópurinn sig upp á móti því að Seðlabanki Íslands geri svokallaðað stöðugleikamat. Að sögn Ólafs sýni sagan að þótt Seðlabankinn njóti trausts í efnahagsmálum þá sé hann ekki óskeikull. Það hafi komið í ljós með vanhugsaðri afstöðu hans til Icesave. „Hann byggir allt sitt á langtímamati sem hingað til hefur ekki oft staðist og þess vegna er fráleitt að láta þetta alfarið í hendurnar á Seðlabankanum," segir Ólafur við Fréttablaðið.
Hann tekur þó fram að hann telji að ríkisstjórnin sé "búin að ná ævintýralegum árangri umfram það sem til stóð og ástæða til að halda því til haga.“ Það hversu fljótir kröfuhafarnir hafi verið til að samþykkja samningaleiðina ætti þó að nægja til að vekja upp spurningar.