Ísland og Ísrael örva bólusetta
Ísland og Ísrael eiga ýmislegt fleira sameiginlegt en fyrstu tvo stafina. Í báðum löndum er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði sáu smit nær þurrkast út en fjórðu bylgjuna svo rísa skyndilega. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum sínum örvunarskammta.
Yfirvöld í Ísrael hafa ákveðið að fara að leiðbeiningum sérfræðingaráðs síns og bjóða borgurum yfir sextugu þriðja skammt bóluefnis. „Hringið í foreldra ykkar og afa og ömmur núna og gangið úr skugga um að þau fái þriðja skammtinn,“ sagði forsætisráðherrann Naftali Bennett í sjónvarpsávarpi í gær. Örvunarherferðin myndi byrja þegar um helgina.
Í gær var einnig tekin svipuð ákvörðun af íslenskum yfirvöldum. Þeir sem fengið hafa bóluefni Janssen býðst örvunarskammtur (e. booster) af bóluefni Moderna eða Pfizer. Þeir fyrstu í röðinni eru kennarar og aðrir starfsmenn skóla og hafa þeir verið boðaðir til endurbólusetningar strax eftir verslunarmannahelgi. „Það er komin ákvörðun um að gefa örvunarskammt þeim sem að fengu Janssen bólusetningu og hafa ekki sögu um COVID,“ sagði Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær. „Þessar bólusetningar fara líklega af stað víðast hvar í næstu viku. Við munum nota Moderna eða Pfizer, eftir því sem tilefni er til. En það er til nóg af bóluefni til að klára þennan hóp á frekar stuttum tíma.“
Í fréttum ísraelskra fjölmiðla í gær kom fram að ríkið væri það fyrsta í heiminum þar sem ákveðið hefði verið að gefa örvunarskammt bóluefna. Það kann að vera rétt en líklega hefur þá munað klukkustundum, jafnvel aðeins mínútum, á milli þess sem ákvörðun þeirra og íslenskra yfirvalda var tilkynnt.
Munurinn á áformunum felst þó í því að í Ísrael er verið að tala um að gefa þriðja skammtinn af bóluefni Pfizer-BioNtech, þess efnis sem nær eingöngu hefur verið notað þar í landi, á meðan hér hefur verið ákveðið að bjóða þeim sem fengu bóluefni Janssen örvunarskammt af öðru efni.
En af hverju örvunarskammtur?
Í Ísrael, líkt og á Íslandi, er hlutfall bólusettra gegn COVID-19 sjúkdómnum með því hæsta sem gerist í heiminum. Í báðum löndunum dró verulega úr fjölgun smita samhliða framgangi bólusetninga en í kjölfar afléttinga takmarkana, bæði á landamærum og innanlands, sem og útbreiðslu hins bráðsmitandi delta-afbrigðis, varð smitsprenging. Fjórða bylgjan hófst og það af krafti. Afgerandi svar fékkst þar með við einni stærstu spurningu vísindanna þegar kemur að bólusetningum gegn COVID-19: Bólusettir geta sannarlega smitast og veikst og þeir geta smitað aðra. Svarsins við hinni stóru spurningunni, hversu alvarleg veikindi bólusettra verða almennt, er enn beðið.
Það er nokkuð síðan að vangaveltur um örvunarskammta bóluefna komu fram. Stór rannsókn við Cambrigde-háskóla hófst í lok júní á gagnsemi slíkra skammta. Niðurstaðna er enn beðið. Lyfjarisinn Pfizer hefur um hríð sagt örvunarskammta líklega. Á miðvikudag, sama dag og fyrirtækið birti óritrýnd rannsóknargögn um að bóluefni þess veitti enn „sterka vernd“ sex mánuðum eftir bólusetningu og allt að því fullkomna vörn gegn alvarlegum veikindum, sögðu forsvarsmenn þess að þörf yrði bráðlega á endurbólusetningu. Ætla þeir að sækja um leyfi fyrir henni til bandarísku lyfjastofnunarinnar (FDA) um miðjan ágúst í ljósi þess að þeir telja þriðja skammtinn þurfa til innan við ári eftir bólusetningu. „Það er mjög góð vörn í upphafi en svo minnkar hún,“ sagði Albert Bourla, forstjóri Pfizer, er ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins var kynnt um miðja vikuna. Sagði hann delta-afbrigðið breyta jöfnunni enn frekar. Hægt væri að tala um minnkandi vörn gegn því sex mánuðum eftir bólusetningu. Þar var hann fyrst og fremst að tala um væg einkenni en „það er augljóslega minnkuð vernd gegn innlögnum og alvarlegum veikindum“.
Svona smitandi er delta-afbrigðið
Delta-afbrigðið er mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar hingað til. Ekki aðeins samanborið við upprunalegu veiruna sem greindist í Kína fyrir einu og hálfu ári, heldur allt að 60 prósent meira smitandi en það sem átti þann vafasama heiður á undan: Alpha-afbrigðið – sem aftur var 60 prósent meira smitandi en upprunalega veiran.
Til útskýringar á smithæfni delta birti The Guardian þessa útreikninga nýverið: Tíu manneskjur smitaðar af upprunalega afbrigði veirunnar myndu smita 25 aðra (í samfélagi án takmarkana og bólusetninga). En tíu manneskjur smitaðar af delta-afbrigðinu myndu smita 60-70 aðra við sömu aðstæður.
En aftur að Ísrael.
Fjöldi alvarlegra veikra af völdum COVID-19 sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús var 20 á mánudag, 33 á þriðjudag og 41 á miðvikudag. Ekki er sundurliðað hvort sjúklingarnir eru bólusettir eða ekki. Fjölmiðlar greina svo frá því að heilbrigðisyfirvöld telji að haldi fram sem horfi gæti fjöldinn verið kominn upp í eitt þúsund í lok ágúst.
Sérfræðingaráð heilbrigðisyfirvalda hefur haft möguleika á örvunarskammti til athugunar í þessari viku. Meðal þeirra upplýsinga sem ráðið hafði til að meta þörfina á slíku á fundi sínum á miðvikudag voru að sögn fjölmiðla gögn sem benda til að vörn bóluefnisins gegn alvarlegum veikindum fólks yfir sextugu sem bólusett var í janúar hafði minnkað úr 97 prósent í apríl niður í 81 prósent í júlí.
Ráðið samþykkti að bjóða fólki í þessum aldurshópi örvunarskammt en heimildir dagblaðsins Haaretz herma að ekki hafi verið einhugur innan þess um ákvörðunina. Í fyrsta lagi voru skiptar skoðanir um við hvaða aldur ætti að miða; 60, 65 eða 70 ár. Í öðru lagi lýstu einhverjir sérfræðinganna því yfir að enn lægju ekki nægileg gögn fyrir til að taka ákvörðun um hvort þriðja skammtsins væri þörf. Aðrir töldu hins vegar að ef beðið yrði með ákvörðunina gæti það haft skelfilegar afleiðingar.
Óvíst um ávinning en koma ekki að sök
„Það er ekki víst að þeir virki,“ segir Michael Edelstein, ísraelskur faraldsfræðingur og prófessor við Bar Ilan-háskóla, um þriðju skammtana, „en þeir munu ekki koma að sök.“ Jonathan Gershoni, landi hans og sérfræðingur í ónæmisfræðum, segist ekki sannfærður um brýna nauðsyn örvunarskammta en ef bóluefnið sé til ætti endurbólusetning að gagnast fólki yfir sextugu og vörn þeirra gegn delta-afbrigðinu.
„Við munum þurfa að taka margar ákvarðanir í framtíðinni, meðal annars þá um endurbætt bóluefni gegn afbrigðunum, svo við verðum að byggja allar ákvarðanir okkar á gegnheilum gögnum,“ hefur fjölmiðillinn Times of India eftir Nadav Davidovitch faraldsfræðingi og formanni læknafélags Ísraels. Hann segir enn ekki ljóst hver raunverulegur ávinningur af örvunarskammti sé og óttast að sú herferð dragi áhersluna frá því forgangsmáli að bólusetja þá rúmu milljón Ísraela sem fengið hafa boð í bólusetningu en ekki þegið það.
Og yfir til Íslands.
Tíu manns liggja nú á Landspítalanum með COVID-19. Tveir þeirra eru á gjörgæsludeild og báðir eru óbólusettir. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að flestir þeir sem eru bólusettir og hafa smitast af veirunni síðustu vikur hafi fengið bóluefni Janssen. Hann hefur samtímis tekið fram að Janssen, sem er gefið í einni sprautu, hafi aðallega verið gefið ungu fólki, þeim sama hópi sem orðið hefur hvað útsettastur fyrir smiti, t.d. á skemmtistöðum þar sem hópsýkingar hafa komið upp.
Rúmlega 53 þúsund íbúar landsins eru bólusettir með Janssen. Rúmlega 37 prósent allra fullbólusettra á aldrinum 16-29 ára hafa fengið það bóluefni. Um 17 prósent fólks á þessum aldri er enn óbólusettur.
Í gær voru 966 manns í einangrun með COVID-19 á Íslandi. Tæplega 42 prósent þeirra eru á aldrinum 18-29 ára.
Engar rannsóknir enn birtar
„Það eru engar vísindarannsóknir sem hafa verið birtar um örvun Janssen bólusetningar,“ segir Kamilla Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, spurð hvaða vísindi búi að baki þeirri ákvörðun um að endurbólusetja fólk. Í skriflegu svari til Kjarnans á miðvikudag sagðist hún færa rök fyrir ákvörðuninni í minnisblaði til ráðherra sem yrði „væntanlega birt þegar og ef sátt næst um þessa framkvæmd“.
Í ljósi þess að Kamilla upplýsti á upplýsingafundi í gær að ákvörðunin lægi fyrir óskaði Kjarninn eftir því með tölvupósti, bæði til hennar og heilbrigðisráðuneytisins, að fá minnisblaðið afhent þar sem það hafði ekki verið birt á vef ráðuneytisins. Engin svör höfðu borist við þessari beiðni Kjarnans kl. 10 í morgun, föstudag.
Kamilla sagði ennfremur í svari sínu á miðvikudag að ekki væri búið að mæla með öðrum örvunarbólusetningum, „en sama verður um þær, rökin fyrir þriðja skammti fyrir ákveðna hópa eru að styrkjast með vísindarannsóknum sem verður vitnað í þegar (og ef) við birtum slíkar leiðbeiningar“. Sagði hún hægt að finna greinar um þetta með Google leit. „Það eru komin fram gögn sem er ekki búið að birta fyrir örvun aldraðra í sumum Evrópulöndum og fleiri rannsóknir sem mér skilst að verði birtar, m.a. frá Pfizer, í ágúst.“
Stóri samningurinn
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni með einstökum samningi í byrjun árs. Með samningnum voru tryggðir milljónir skammta og hröð bólusetning þjóðarinnar, ein sú hraðasta í heimi, og að rannsóknir yrðu gerðar á virkni bóluefnisins.
Samningurinn vakti gríðarlega athygli, ekki síst hér á landi, þar sem þreifingar höfðu átt sér stað milli yfirvalda á Íslandi og lyfjafyrirtækisins um slíkt hið sama. Það kom þó ekki að sök og þegar bóluefni fóru að skila sér hingað, þótt tafir hafi stundum orðið á afhendingu frá einstaka framleiðendum, tóku Íslendingar fljótt fram úr flestum þjóðum hvað bólusetningarhlutfall varðar. Í byrjun júní höfðum við tekið fram úr Ísrael og í dag eru um 74 prósent íbúa landsins óháð aldri bólusett en 62 prósent Ísraela.
Þörf eða ekki?
Í upphafi vikunnar lýsti forsætisráðherrann Naftali Bennett því yfir að Ísrael væri „mjög nálægt“ því að taka ákvörðun um örvunarskammt af bóluefni sem og að tryggja sér þá aukaskammta sem til þarf. Tveimur vikum fyrr sögðu bæði Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna (CDC) að það væri ekki þörf á slíkum skömmtum. Í sameiginlegri tilkynningu Lyfja- og Sóttvarnastofnunar Evrópu sem birt var 14. júlí sagði að of snemmt væri að staðfesta hvort og þá hvenær þörf yrði á örvunarskammti. Enn væru ekki komin fram nægjanlega góð gögn um hversu lengi vörn bóluefna vari að teknu tilliti til útbreiðslu afbrigða á borð við delta.
Sérfræðingar WHO sögðu á blaðamannafundi síðast í fyrradag að þeir teldu ekki þörf á örvunarskömmtum. Ekki væru komin fram nógu ítarleg gögn hvað það varðaði. „Þetta er skýrt hjá okkur, það eru ekki nægar upplýsingar til mæla með [örvunarskammti] á þessum tímapunkti,“ sagði Kate O’Brien, sem fer fyrir bólusetningum innan WHO, við blaðamenn á miðvikudag. Hún sagði umræðuefnið „heitt“ og að margar rannsóknir væru í gangi sem myndu nýtast við ákvarðanatökuna.
Nú eru komin fram gögn frá heilbrigðisráðuneyti Ísraels sem virðast, að því er fram kemur í ísraelskum fjölmiðlum, benda til dvínandi verndar bóluefnis Pfizer gegn smiti sem og gegn alvarlegum veikindum. Og bæði Ísland og Ísrael ætla að bjóða örvunarskammta.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur hvatt Pfizer, Moderna og önnur fyrirtæki sem framleiða bóluefni gegn COVID-19 til að einbeita sér að því að bæta aðgengi að bóluefnum um allan heim, áður en farið verði að dreifa þriðja og jafnvel fjórða skammti til þeirra sem þegar hafa verið bólusettir.
Græðgi vestrænna ríkja
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO sagði nýverið að græðgi væri drifkrafturinn í mismunun í bólusetningu milli heimshluta. „Við erum að taka meðvitaðar ákvarðanir núna um að vernda ekki þá sem þurfa mest á því að halda,“ sagði hann og að þeir sem ekki hefðu enn fengið einn einasta skammt af bóluefni ættu að ganga fyrir, áður en kæmi að því að gefa örvunarskammta á Vesturlöndum. Bóluefnaframleiðendur ættu að gera allt sem þeir gætu til að styðja við COVAX-samstarfið og almennt við dreifingu bóluefna til fátækari ríkja heims.
Soumya Swaminathan, helsti vísindasérfræðingur WHO, sagði svo nýlega að stofnunin myndi gefa út tilmæli varðandi örvunarskammta byggð á vísindum – ekki yfirlýsingum einstakra lyfjaframleiðenda.
Michael Ryan, sem fer fyrir bráðaaðgerðum WHO, sagði að ef ríku löndin ákveða að gefa örvunarskammta í stað þess að gefa bóluefni til fátækari ríkja myndum við síðar „líta til baka í reiði og ég held að við myndum líta til baka með skömm“.
Einn af hverjum 76
Í ríkustu löndum jarðar, sem Ísland tilheyrir, hefur að meðaltali annar hver maður verið bólusettur. Í fátækari löndum hefur aðeins einn af hverjum 76 fengið bólusetningu eða um 1,32 prósent íbúa þeirra.
Innan Evrópu er misskiptingin einnig mikil. Smitsjúkdómastofnun Evrópu benti nýverið á að í tíu aðildarríkjum ESB ætti enn eftir að bólusetja yfir 30 prósent af íbúum sem væru áttatíu ára og eldri.
„Varðandi spurninguna um siðferði bólusetninganna þá væri hægt að ræða það lengi og hafa á því margar skoðanir,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á dögunum við Kjarnann. „Sú stefna hefur hins vegar verið tekin hér að reyna að bólusetja sem flesta og gera það á eins áhrifaríkan hátt og mögulegt er,“ hélt hann áfram. „Þar undir fellur sú ákvörðun að gefa þeim sem fengu Janssen örvunarskammt.“
Því hefur ítrekað verið haldið fram af íslenskum sérfræðingum, heilbrigðisyfirvöldum og stjórnvöldum að heimsfaraldrinum ljúki ekki fyrr en heimsbyggðin öll hafi verið bólusett. Í óbólusettum samfélögum sé hætta á stökkbreytingum veirunnar mest. Því sé það allra hagur að bólusetja alla.