Íslendingar eru sólgnari í kjúkling og svínakjöt en þeir voru fyrir 30 árum. Alls hefur neysla á alifuglakjöti sexfaldast síðan þá og neysla á svínakjötsafurðum fjórfaldast. Meðalneysla Íslendinga á kjöti hefur aukist um tæplega fjórðung á tímabilinu en áhugi okkar á kindakjöti dregist skarpt saman. Áður fyrr var neysla á því um 70 prósent af allri kjötneyslu okkar, en er nú rétt um fjórðungur hennar. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar um árlega kjötneyslu Íslendinga.
Alífuglar og svín vinsæl á diskum landsmanna
Árið 1983 borðaði hver og einn Íslendingur 4,3 kiló af alifuglakjöti, aðallega kjúklingum, á ári. Fimmtán árum síðar, árið 1998, hafði neyslan rúmlega tvöfaldast og var árlega um 9,6 kíló á mann. Síðan þá hefur orðið sprenging á neyslu íslendinga á kjúklingum og öðru alífuglakjöti. Árið 2004 snæddum við 17,9 kíló hver. Í fyrra náði neysla okkar á þessu vinsæla hvíta kjöti nýjum hæðum. Þá borðuðum við 26,8 kíló af kjúklingum á haus, eða rúmlega sex sinnum meira en Íslendingar gerðu árið 1983.
Landinn hefur líka aukið svínakjötsát sitt mikið á undanförnum áratugum. Fyrir 30 árum borðaði hver Íslendingur að meðaltal um 4,9 kíló af svínakjöti.
Landinn hefur líka aukið svínakjötsát sitt mikið á undanförnum áratugum. Fyrir 30 árum borðaði hver Íslendingur að meðaltal um 4,9 kíló af svínakjöti. Í fyrra hafði svínakjötsátið næstum fjórfaldast frá því sem þá var, en hver íbúi setti um 19,2 kíló af svínaafurðum ofan í sig á árinu 2013.
Neysla Íslendinga á svínakjötsafurðum hefur aukist mikið á undanförnum áratugum.
Við erum líka orðin sólgnari í nautakjöt en áður var. Neysla þess hefur vaxið úr 8,8 kílóum árið 1983 í 13,4 kíló í fyrra. Áhugi okkar á að snæða hross fer hins vegar þverrandi. Þegar hrossakjötsátið náði hámarki, árið 1984, var meðalneysla hvers Íslendings um 3,7 kíló á ári. Í fyrra var sú tala komin niður í um tvö kíló og hefur verið nokkuð stöðug um margra ára skeið.
Borðum meira af kjöti en minna af kindum
Sú mikla aukning sem átt hefur sér stað á neyslu alifugla- og svínakjöts er að hluta til vegna þess að nútíma Íslendingurinn borðar mun meira kjöt en meðal Íslendingur gerði árið 1983. Þá var borðaði hver landsmaður að meðaltali um 66,5 kíló af kjöti. Í dag er sú tala um 81,9 kíló. Neyslan hefur því aukist um tæpan fjórðung á þessum 30 árum.
En ástæðuna er líka að finna í miklum samdrætti á neyslu kindakjöts. Árið 1983 var íslenska sauðkindin helsta matvara Íslendinga. Hver og einn okkar át að meðaltali 45,3 kíló af afurðum hennar það árið. Áhugi þjóðarinnar á kindakjötinu hefur hins vegar minnkað mikið. Í fyrra átum við einungis um 20,5 kíló hver af afurðum kindarinnar. Það er samdráttur upp á 120 prósent á 30 árum.