Áhorf landsmanna á íslenskar sjónvarpsstöðvar hefur dregist saman um 38 prósent frá árinu 2008. Þegar horft er á áhorf þeirra sem eru á aldrinum 12 til 49 ára er samdrátturinn enn meiri, eða 46 prósent. Þetta er hægt að sjá út úr fjölmiðlamælingum Capacent sem aðgengilegar eru á vefnum. Um er að ræða meðalfjölda mínútna sem hver einstaklingur sem mælingarnar ná til horfir á sjónvarp.
Áhorf á RÚV dregst mikið saman
Kjarninn tók saman áhorf á sjónvarp í nóvember árin 2008, 2010, 2013 og 2014. Í samantektinni kemur í ljós að í nóvember 2008 horfði hver einstaklingur á aldrinum 12-80 ára á RÚV að meðaltali í 537,5 mínútur á viku, eða tæpa níu klukkutíma. Hlutdeild RÚV í heildaráhorfi á íslensku sjónvarpsstöðvarnar var á þeim tíma um 46 prósent. Tveimur árum síðar, í nóvember 2010, horfði hver Íslendingur í þessum aldurshópi á RÚV í 495,4 mínútur, og meðaláhorfið því dalað um átta prósent.
Í nóvember í fyrra var meðaláhorfið komið niður í 442 mínútur, sem er um ellefu prósentum minna en það var í sama mánuði árið 2010. Í ár náði það síðan nýjum lægðum þegar meðaláhorfið var 382,5 mínútur, um sex klukkutíma og 23 mínútur, á viku. Það er 13,5 prósentum minna en áhorfið var í nóvember í fyrra og 29 prósent minna en það var í nóvember 2008.
Samdrátturinn er enn meiri þegar horft er einvörðungu á yngri áhorfendur, á aldrinum 12 til 49 ára. Þá hefur áhorf á RÚV dregist saman um 35 prósent á síðustu sex árum. Á síðastliðnu ári hefur áhorfið dregist saman um 13,2 prósent í þessum aldurshópi.
Stöð 2 og SkjárEinn bæta við sig á milli ára
Stærsta sjónvarpsstöðin sem er í áskrift, Stöð 2, hefur líka upplifað töluverðan samdrátt í áhorfi, eða um 35 prósent í aldurshópnum 12 til 80 ára á síðustu sex árum. Árið 2008 var staða Stöð 2 þannig að meira meðaláhorf hvers einstaklings undir 50 ára var hærra en það var á meðal allra aldurshópa. Það hefur breyst töluvert enda hefur áhorf í aldurshopnum 12 til 49 ára nánast helmingast á þessum sex árum, eða um 46 prósent.
Athygli vekur hins vegar að Stöð 2 hefur bætt við sig áhorfi á milli 2013 og 2014 þrátt fyrir að færri horfi yfirhöfuð á sjónvarp. Alls hefur áhorfið þar í aldurshópnum 12 til 80 ára aukist um níu prósent. Áhorfið hjá fólki undir fimmtugu hefur hins vegar nánast staðið í stað.
Áhorf á SkjáEinn, næst stærstu áskriftarstöð landsins, hefur einnig dregist mikið saman á tímabilinu. Sá samdráttur er hins vegar ekki sambærilegur við hinar stöðvarnar þar sem SkjárEinn breyttist úr frístöð í áskriftarstöð í nóvember 2009. Ef horft er á breytingu á áhorfi á SkjáEinn á milli nóvembermánaðar 2013 og 2014 kemur í ljós að áhorf jókst um 13,2 prósent í aldurshópnum 12 til 80 ára. Hjá áhorfendum undir 50 ára jókst áhorfið um tæp 19 prósent. Vert er að taka fram að hlutdeild SkjásEins í heildaráhorfi í nóvembermánuði 2014 var 6,9 prósent á meða að hlutdeild RÚV var tæp 53 prósent og Stöðvar 2 rúm 27 prósent.
Kjarninn greindi frá því í byrjun október að áhorf á fréttatíma sjónvarpsstöðvanna hefði dregist mikið saman frá árinu 2008. Sá samdráttur virðist vera í samræmi við minnkandi sjónvarpsáhorf landsmanna, sérstaklega þeirra sem yngri eru.