Sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar hefur fækkað um átta þúsund á síðustu tíu árum, eða um 3,2 prósent. Þau eru nú 242.743 en voru 250.759 þúsund árið 2005. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um 35.523, en sú fjölgun hefur ekki skilað neinni aukningu á sóknarbörnum Þjóðkirkjunnar. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Hagstofu Íslands um trú- og lífsskoðunarfélög sem birtar voru í morgun.
Í byrjun þessa árs voru 73,8 prósent þjóðarinnar skráð í Þjóðkirkjunni. Hlutfallið var 85,4 prósent árið 2005. Langflestar breytingar á trú- og lífsskoðunarfélagi sem áttu sér stað á árinu 2014 voru vegna þess að Íslendingar sögðu sig úr Þjóðkirkjunni, eða 2.533. Alls gengu 2.079 fleiri úr Þjóðkirkjunni en í hana. Það er töluverð aukning frá árinu 2013 þegar brottskráðir umfram nýskráða í Þjóðkirkjunni voru 1.716 talsins.
Þeim sem skráðu sig utan trú- og lífsskoðunarfélaga fjölgaði á síðasta ári um 1.255. Þeim hefur fjölgað um rúmlega ellefu þúsund á áratug og erum nú 18.458, eða 5,6 prósentAf trúfélögum varð mest fjölgun í Kaþólsku kirkjunni (469 fleiri skráðu sig en sögðu sig úr) og í Siðmennt (409 fleiri skráðu sig en sögðu sig úr).
Flóttinn varað lengi
Fækkun þeirra sem kjósa að vera í Þjóðkirkjunni hefur verið mjög stöðug um nokkurt langt skeið. Lengi vel var skipulag á Íslandi með þeim hætti að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Nú er fyrirkomulagið þannig að nýjum foreldrum er gert að velja hvaða trúfélagi þau vilja að börn þeirra tilheyri þegar nafn þeirra er skráð, eða hvort þau vilji að börnin standi utan trúfélags, ef foreldrarnir eru ekki skráðir í sama trúfélag og eru skráðir í sambúð eða hjúskap.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í Þjóðkirkjuna. Um aldarmótin var það hlutfall komið niður í 89 prósent og í dag er það 73,8 prósent. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan Þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Í byrjun þessa árs voru þeir 86.357 talsins. Þeim hefur því fjölgað um rúmlega 55 þúsund á 15 árum.
Mun færri börn skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu
Innan við 60 prósent þeirra barna sem fæddust í fyrra voru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu. Hlutfallið hefur lækkað verulega frá árinu 2005, þegar það var rúmlega 80 prósent. Á sama tímabili hefur börnum sem eru skráð með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunaraðild fjölgað mikið, eða úr tæpum sex prósentum barna sem fæddust árið 2005 í rúmlega 26 prósent barna sem fæddust árið 2014.
Þetta er hægt að sjá út úr tölum sem birtust í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög. Svarið var lagt fram á Alþingi í lok febrúar síðastliðins.
45.560 lifandi fædd börn komu í heiminn á Íslandi á árunum 2005 til 2014. 1.716 börn voru skráð utan trú- eða lífsskoðunarfélaga og 4.774 börn voru skráð með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunarfélagsaðild. Eftir að ný lög tóku gildi í byrjun árs 2013 eru börn skráð með stöðuna „ótilgreind trúfélags- eða lífsskoðunarfélagsaðild“ ef foreldrar þeirra eru í hjúskap eða sambúð en ekki í sama trúfélagi. Foreldrar þurfa þá að taka sameiginlega ákvörðun um trúfélag en fram að því er barnið skráð með ótilgreinda stöðu.
Traust til kirkjunnar hefur minnkað mikið frá aldarmótum
Traust til Þjóðkirkjunnar hefur einnig dalað mjög skarpt frá aldarmótum. Árið 1999 treystu 61 prósent landsmanna Þjóðkirkjunni samkvæmt könnun Þjóðarpúlsi Capacent. Traustið hrundi næstu árin og fór lægst í 28 prósent í febrúar 2012. Það hefur síðan aukist lítillega og í nýjasta Þjóðarpúlsinum sem mældi traust til stofnana, sem var framkvæmdur í febrúar 2015, mældist traustið 36 prósent. Það er 25 prósentustigum minna en það var fyrir 16 árum síðan.