Íslenskur ævintýramaður stofnaði vinsælt brugghús í Úganda
Nokkrir vinir sem kynntust í Kampala stofnuðu bruggklúbb. Reglulega hittust þeir til að smakka og prófa nýjar aðferðir og „allt í einu áttuðum við okkur á því að bjórinn væri bara orðinn frekar góður,“ segir Páll Kvaran sem er búsettur í Úganda og stofnaði fyrsta handverksbrugghús landsins. Bjórinn nýtur sívaxandi vinsælda og fæst orðið á um hundrað stöðum. Og þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn er nú bjart framundan.
Ég flutti hingað fyrst til að vinna fyrir Þróunarsamvinnustofnun sem þá var og hét,“ segir Páll Kvaran sem búið hefur í Úganda í áratug. Hann er menntaður í þróunarfræðum og bauðst á sínum tíma að velja um starf í Malaví eða Úganda. Hann las sér til um þau bæði og fannst Úganda meira spennandi. „Og hér er ég enn,“ segir hann og brosir glettnislega.
Blaðamaður Kjarnans hitti Pál í Nakasero-hverfi Kampala, höfuðborgar Úganda, til að forvitnast um veru hans í landinu græna við miðbaug. Landi sem er ólíkt Íslandi á ótal vegu, hefur sína kosti og galla eins og gengur og gerist, þar sem hlutirnir eiga það til að gerast hægt, „stundum mjög hægt“ en er að sama skapi uppfullt af tækifærum og allslags ævintýrum.
Í fyrstu starfaði Páll að jafnréttis- og umhverfismálum á vegum Þróunarstofnunar. Eftir ár í því starfi réði hann sig í vinnu hjá úgönsku fyrirtæki sem sinnir verkefnum á sviði landbúnaðar. „Mig langaði að hafa meiri áhrif. Og landbúnaðurinn er mikilvægasta atvinnugreinin í mörgum löndum Afríku. Innan hans hafa margir spennandi hlutir verið að gerast sem hefur orðið og verður vonandi enn meiri lyftistöng fyrir samfélögin hér.“
Páll hélt m.a. utan um verkefni sem snéru að því að auka samvinnu bænda á ýmsum sviðum, innleiða nútímalegri aðferðir við ræktun og auðvelda þeim aðgengi að lánum og mörkuðum með afurðir sínar svo dæmi séu tekin. „Mér fannst ég sjá árangur af þessari vinnu, að þetta bætti kjör fólksins. Og það var einmitt það sem ég vildi gera.“
Saknaði Íslands
Að nokkrum árum liðnum var Páll farinn að sakna Íslands. Honum bauðst starf sem fréttamaður á RÚV og ákvað að slá til. Þar var hann í um fimm mánuði og færði sig svo yfir á vefmiðilinn Eyjuna. En eftir ár í fréttamennsku á Íslandi var Úganda aftur farið að toga í hann af krafti. Því var aftur pakkað ofan í tösku og flogið til Afríku.
Páll vann að landbúnaðarverkefnunum áfram eftir komuna til Úganda en hóf svo störf hjá rannsóknarstofnuninni Innovations for Poverty Action (IPA). „Sú stofnun sérhæfir sig í að rannsaka hvað virkar og hvað virkar ekki í þróunarmálum. Og sannleikurinn er sá að það er ýmislegt sem hefur verið reynt sem virkar ekki. Hjálpar ekki raunverulega fólkinu sem verkefnin beinast að og hefur jafnvel í sumum tilvikum haft neikvæð áhrif á nærsamfélagið.“
Í Úganda eru fjölmargar stofnanir og samtök ýmiskonar að störfum í verkefnum þar sem beitt er margvíslegri nálgun. Mikilvægt að þessir aðilar geti sótt sér þekkingu í þann reynslubanka sem til hefur orðið síðustu áratugi í þróunarmálum.
Um ítarlegar langtímarannsóknir er að ræða og beitt er aðferðum sem við erum farin að kannast vel við eftir faraldur COVID-19: Tveir hópar, sem í velst fólk af handahófi, eru rannsakaðir: Annar er innan þess þróunarverkefnisins sem um ræðir en hinn fær „lyfleysu“, þ.e. er utan verkefnisins.
Eftir ár hjá IPA færði hann sig yfir til ráðgjafafyrirtækis í stafrænum landbúnaði. Starfið þar gekk m.a. út á að aðstoða stór landbúnaðarfyrirtæki að borga bændum rafrænt fyrir afurðir sínar. Hann tekur dæmi af tefyrirtæki í Austur-Úganda sem borgaði bændum með því að henda peningasekkjum út úr flugvél niður á akrana. „Það var ekki aðeins hættulegt heldur kostnaðarsamt,“ segir Páll.
Páll vann með mörgum landbúnaðarfyrirtækjum um allt Úganda en einnig annars staðar í Afríku, m.a. í Gana, á Fílabeinsströndinni og í Sambíu. Hann sinnir enn ráðgjafastörfum, m.a. fyrir Alþjóðabankann og Sameinuðu þjóðirnar, en krafta sína nýtir hann nú einnig í fyrirtæki sem hann stofnaði ásamt vini sínum, Kanadamanninum Adam.
„Ég og vinir mínir hér í Kampala vorum með bruggklúbb,“ byrjar hann á að segja um tilurð fyrirtækisins. „Við hittumst reglulega til að brugga og smakka bjórinn. Fólk kemur og fer mikið hérna og allt í einu vorum við tveir eftir í klúbbnum. Þetta var bara tómstundagaman og átti aldrei að fara neitt lengra en það. En allt í einu áttuðum við okkur á því að bjórinn væri bara orðinn frekar góður.“
Banange! Time for a cold one. Available in Shoprite, Quality, Millennium, Jumia Party and dozens of bars and restaurants...
Posted by Banange Brewing Company on Friday, May 21, 2021
Þannig hófst það ævintýri sem endaði með stofnun Banange, fyrsta handverksbrugghúss Úganda.
Bjór hafði vissulega verið bruggaður í Úganda lengi en stóru fyrirtækin tvö sem réðu markaðnum framleiddu eingöngu lagerbjór.
Í nágrannalandinu Kenía er hins vegar nokkuð síðan að brugghús fóru að spretta upp. „Það er oft talað um að Kenía sé um það bil áratug á undan Úganda í framþróun,“ segir Páll. „Ég fór oft til Kenía og sá öll þessi brugghús og fór að velta þessu fyrir mér. Hvort að það væri ef til vill markaður fyrir að minnsta kosti eitt slíkt hér í Úganda.“
Páll og félagi hans gáfu sér góðan tíma eða um tvö ár í að setja saman viðskiptaáætlun og leita að fjárfestum. „Við þurftum að prófa okkur áfram á markaðnum áður en við færum af stað. Við urðum að vera þess fullvissir að fólk væri tilbúið að borga meira fyrir bjórinn okkar, sem er dýrari í framleiðslu en innlendi lagerbjórinn. Svo að allt gengi upp þurftum við að selja hann á tvöfalt hærra verði og spurningin var hvort að það væri yfir höfuð raunhæft.“
Á nokkurra mánaða tímabili brugguðu þeir Adam nokkur hundruð bjóra og auglýstu hann svo til sölu á því verði sem til þurfti. „Við hugsuðum með okkur að ef allt myndi seljast upp á tveimur vikum þá gætum við sagt áhugasömum fjárfestum að það væri næg eftirspurn. En svo seldist hann allur upp á tveimur dögum,“ segir Páll og breitt bros færist yfir andlitið. Þar með voru þeir komnir með sönnun fyrir því að bjórinn myndi rennan ljúflega ofan í hinn úganska markað. Eftir þetta fóru hjólin að snúast mjög hratt.
Um tuttugu fjárfestar ákváðu að slá til og bygging brugghússins hófst í Nakasero-hverfinu í Kampala á sömu lóð og finna má úrvals japanskan veitingastað sem var svo fyrstur til að taka bjórinn í sölu. Smám saman bættust fleiri veitingastaðir og barir í hóp viðskiptavina og áður en langt um leið var farið að selja bjórinn víða. Í fyrstu var hann aðeins seldur í kútum sem rúllað var út eins og heitum lummum.
En svo kom COVID og allt breyttist og það frekar hratt.
„Það eru liðin rétt rúmlega þrjú ár síðan að við opnuðum og í tvö þeirra hefur geisað heimsfaraldur,“ segir Páll. Faraldurinn hafi vissulega sett strik í reikninginn hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki.
„Sett var á útgöngubann í Úganda,“ útskýrir hann, „og þetta var allsherjar útgöngubann í fyrstu. Allir veitingastaðir, barir og hreinlega allt var lokað. Engir bílar eða skellinöðrur á götunum. Ekkert. Einhvers konar útgöngubann var í gildi í heil tvö ár, því var aðeins nýlega aflétt. Þetta þýddi í raun að á þessum tíma mátti ekki selja áfengi á þessum stöðum“.
Þetta varð til þess að salan hjá Banange minnkaði um heil 85 prósent fyrst í stað.
Og þá voru góð ráð dýr. „Við fórum strax að reyna að finna leiðir til að halda viðskiptunum gangandi,“ rifjar Páll upp. Þeir Adam ákváðu svo að bregðast við með því að hefja átöppun á flöskur og bjóða heimsendingu. Einnig lögðu þeir mikið á sig við að koma bjórnum í sölu í stærstu matvöruverslununum.
Þessi skjótu viðbrögð skiluðu árangri og um átta mánuðum eftir að útgöngubannið var sett á var salan komin á svipað ról og hún hafði verið fyrir faraldurinn.
Get your friday grove on sipping on some IPA and Amber 🥂 Have you checked out some of the new Banange...
Posted by Banange Brewing Company on Friday, September 17, 2021
En þetta hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Að selja bjór á kútum er nokkuð einfalt en að selja bjór í flöskum kallar á fleiri starfsmenn, nýjar vélar og fleira í þeim dúr og svo dúkkuðu upp ýmis vandamál sem kunna að koma Íslendingum spánskt fyrir sjónir.
„Við þurftum við að læra að gerilsneyða bjórinn,“ byrjar Páll á að lýsa en í hitanum í Úganda er allt annað en einfalt mál að halda bjór á flöskum í góðum gæðum. „Á Vesturlöndum er hægt að tryggja að flöskubjór sé kældur nær allan tímann frá því að hann kemur út úr verksmiðjunni og þar til hann er kominn í ísskáp neytandans. En hér þarf að gera ráð fyrir að hann sé sjaldnast geymdur í kæli frá því að hann er framleiddur og þar til hann er opnaður. Að hann þoli að vera í 25 stiga hita í allt að sex mánuði án þess að flöskurnar fari að springa. Þess vegna verður að gerilsneyða hann.“
Fleiri hindranir þurfti að yfrstíga. „Að kaupa flöskur var eitt og sér vandamál. Það er ekki hægt að kaupa þær hér nema í gríðarlegu magni og við þurfum því að panta þær frá Tansaníu.“
Og ýmislegt hefur svo komið upp á sem ekki var fyrirséð. „Það hefur kviknað í öllu sem er brennanlegt í brugghúsinu,“ segir hann og hlær. Annað dæmi er öllu undarlegra. „Einn daginn byrjuðu allar vélar að ganga afturábak í brugghúsinu. Ég leit ofan í einn ketilinn, sá þetta og hugsaði hvað í ósköpunum væri í gangi.“
Hann komst svo að því að starfsmaður rafmagnsveitu ríkisins hafði verið að störfum í nágrenninu og tengt svo allt heila klabbið öfugt saman. „Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að þetta gæti einu sinni gerst – að þetta væri raunveruleg áhætta!“
Sóttuð þið bætur?
„Ertu að grínast! Það hefði verið hlegið að okkur.“
Útbúa varð sérstaka vél í verksmiðjunni til að tryggja að þetta myndi ekki endurtaka sig.
Vatnið er svo enn eitt sem ekki er hægt að stóla á. „Vatnsveitan skellir stundum klór út í vatnið án þess að láta nokkurn vita. Mælarnir okkar fóru einu sinni að sýna mikið magn af klór og þar sem ekki er hægt að fá þá til að tilkynna þetta fyrirfram urðum við að kaupa vél til að filtera vatnið.“
En núna eru þessi vandræði úr sögunni og allt gengur smurt fyrir sig í brugghúsinu. Starfsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt og eru nú orðnir tólf.
Í dag er hægt að kaupa Bangange-bjór á yfir hundrað stöðum. Og þar sem útgöngubanninu hefur loks verið aflétt er fyrirséð að salan eigi eftir að taka kipp og sölustöðum fjölga. „Það er mikill vöxtur framundan,“ spáir Páll.
Banange (borið fram nákvæmlega eins og það er skrifað) er upphrópun á lúganda, tungu meirihluta Úgandamanna. „Þetta þýðir eitthvað eins og „guð minn góður!“ eða „vá!“ Orð sem fólk notar þegar eitthvað kemur því skemmtilega á óvart og það vill vekja athygli á því,“ útskýrir Páll sem segir orðið mikið notað í almennu tali. „Úgandamenn fíla þetta nafn á bjórnum mjög vel og hlæja þegar þeir sjá það og heyra.“ Litskrúðugir miðarnir á flöskunum, lógóin, hafa ekki síður vakið lukku bæði heimamanna og annarra. Á þeim má sjá nokkur af þekktustu dýrum landsins, þau hin sömu og fólk flykkist hingað til að sjá.
Hjá Banange hafa verið bruggaðar átta tegundir af bjór en núna, í ljósi fenginnar reynslu, hefur þeim verið fækkað niður í fjórar.
Bragð sem þarf að venjast
Í Úganda starfa margir útlendingar frá öllum heimshornum. Sumir starfa hjá alþjóðastofnunum, aðrir hjá hjálparsamtökum og enn aðrir hjá ýmsum fyrirtækjum. Þá eru ótaldir ferðamenn sem og fólk sem dvelur í Úganda en er í fjarvinnu frá heimalandinu. Þetta fólk er alla jafna kallað „expatar“ – og meirihluti þess staldrar aðeins tímabundið við, í nokkra mánuði eða örfá ár. Í þessum hópi er fólk sem þekkir vel til handverksbrugghúsa í sínum heimalöndum og eru „nokkuð augljós markaður“ fyrir Banange-bjórinn að sögn Páls.
En þar sem Banange er fyrsta slíka brugghúsið í Úganda þekktu heimamenn fæstir til framleiðslu þeirra. „Þetta eru bragðtegundir sem þarf aðeins að venjast. Þær vinna á með tímanum. Það eru ekkert svo mörg ár síðan að fyrstu brugghúsin voru opnuð á Íslandi. Annars höfðu Íslendingar sem bjuggu í útlöndum verið þeir sem komist höfðu á bragðið. Og það er sama sagan hér.“
Eftir faraldurinn er fjárhagur margra enn þrengri en hann var. Ferðaþjónustan, ein arðbærasta atvinnugreinin, hreinlega lagðist af svo dæmi sé tekið og það mun að mati Páls taka tíma fyrir hagkerfið að jafna sig. „Premium bjór er því skiljanlega ekki efstur á innkaupalista fólks.“
Páll segir stórundarlegt ástand hafa skapast er útgöngubannið var sett á í byrjun faraldursins. Fólk mátti t.d. ekki fara á milli borgarhluta og lögreglan setti upp vegatálma. Aðeins þeir sem voru með sérstök leyfi máttu yfir höfuð aka og fara í gegn. „Kampala varð allt önnur borg,“ rifjar hann upp. Göturnar tómar, aðeins fótgangandi á ferð þar sem áður var iðandi mannlíf og alveg svakalegar umferðarteppur.
Og talandi um umferðarteppur.
Er eitthvað sem þú saknar frá Íslandi?
„Ég sakna umferðarinnar,“ segir Páll. „Mitt persónulega met á leiðinni í vinnuna, sem er spölkorn frá heimili mínu, er um fjórir tímar.“
Þá segist hann einnig sakna skilvirkninnar á Íslandi. „Hér tekur flest langan tíma. Stundum mjög langan,“ bætir hann við kíminn.
En líf Páls í Úganda hefur svo sannarlega ekki eingöngu einkennst af vinnu.
Hann er mikill útivistarmaður og hefur lagt stund á ýmsar jaðaríþróttir. Í Úganda hefur hann til dæmis reynt fyrir sér í klettaklifri og „kitesurfing“, stundum nefnt sjódrekaflug á íslensku, í Kenía.
En þetta er bara brot af því sem Páll hefur haft ástríðu fyrir á árunum í Afríku og líklega eru það kayak-siglingar sem standa upp úr en þær hóf hann fljótlega eftir komuna til Úganda og varð fljótt hugfanginn af þeirri iðju. Að fara á kayak um flúðir Nílarfljóts undir heitri Afríkusól er engu líkt að hans sögn.
Hefur þú farið á kayak á Íslandi?
„Já,“ svarar hann, hlær og segir vart hægt að líkja þessu saman. „Þegar þú flippar kayak á Íslandi færðu „brainfreeze“ en hér flippar maður til að kæla sig!“
Og margt fleira hefur Páll haft fyrir stafni. Hann hefur spilað á trommur í nokkrum hljómsveitum sem skipaðar voru bæði heimamönnum og útlendingum. „Við vorum svona að reyna að koma með rokk og blús inn í tónlistarmenninguna hér og spiluðum víða.“
Að auki iðkaði Páll og kenndi jiu-jitsu um tíma og það var einmitt í því sporti sem hann kynntist kærustunni sinni, Kylu Longman frá Bandaríkjunum. Nú búa þau saman á Kololo-hæð í Kampala ásamt hundi sem þau tóku að sér.
Íslendingasamfélagið í Úganda er ekki stórt en þó er lítill vísir að slíku til staðar. Á hverjum tíma eru alltaf einhverjir Íslendingar að vinna í sendiráðinu í Kampala. Þá rekur Íslendingur hótel í borginni Entebbe og annar fyrirtæki í grænmetis- og ávaxtaútflutningi. Svo koma annað slagið Íslendingar að vinna í hjálparstarfi sem og hjá alþjóðastofnunum. „Síðasti Íslendingahittingurinn var þegar Hatari keppti í Eurovision. Þá komum við saman til að horfa.“
Holur sem gleyptu bíla
En hvað hefur breyst í Úganda á þessum tíu árum?
„Kampala hefur breyst svakalega mikið,“ svarar Páll og nefnir þegar í stað vegina. Núna eru þeir flestir malbikaðir (!) og oft (ekki alltaf) sæmilega við haldið. „Þegar ég kom hingað fyrst var risastór hola í götunni rétt hjá íslenska sendiráðinu. Hola sem var stærri en bíllinn minn. Þegar ég keyrði fyrst fram hjá henni þá átti ég ekki orð! En ég var heppinn að sjá hana áður en það rigndi. Því þegar það rigndi þá barmafylltist hún af vatni og virtist ekki vera nema stór drullupollur. Ég sá einu sinni bíl fljóta um í holunni. En þannig var það, í fínasta hverfinu í Kampala voru holur sem gátu gleypt bíla.“
Önnur augljós breyting á ásýnd Kampala eru allar stóru verslunarmiðstöðvarnar sem nú hafa risið. „Þegar ég kom fyrst voru þær tvær en núna eru þær örugglega að nálgast tuttugu.“
Tvennt hefur hins vegar lítið eða ekkert breyst: Stjórnmálin og veðrið. Sami forseti hefur setið á valdastóli frá árinu 1986 og er meðal þaulsetnustu þjóðhöfðingja veraldar. Veðrið í hitabeltinu þarf svo vart að útskýra. Það er alltaf gott og oftast mjög gott.
Að auki má segja að á flesta mælikvarða hafi orðið umtalsverð framþróun í landinu sem Páll segir að sé miklu öruggara og rólegra en marga Íslendinga eflaust gruni. „Það eru ýmis merki á lofti um að Úganda eigi bjarta framtíð fyrir sér.“
Fyrir því er viðeigandi að skála. Og þá auðvitað í Banange-bjór.