„Hárnálabeygjur“ og bratti. Snjóþyngsli sem loka veginum oft og ítrekað – jafnvel dögum saman. Hún er fögur akleiðin um Fjarðarheiði en getur verið hættuleg enda um að ræða hæsta fjallveg á landinu sem tengir saman byggðarlög. Í áratugi hefur staðið til að grafa göng en það er ekki fyrr en nú að loks hyllir undir að þau verði að veruleika.
Umhverfismatsskýrsla áformaðra Fjarðarheiðarganga Vegagerðarinnar hefur verið lögð fram til kynningar. Öllum er frjálst að skila inn umsögnum, eigi síðar en 5. júlí.
Til stendur að gera 13,3 kílómetra löng jarðgöng, þau lengstu á landinu og með þeim lengstu í heimi – hvorki meira né minna. Til viðbótar verða leiðir að göngunum beggja vegna lagfærðar eða færðar til. Heildarframkvæmdin myndi samkvæmt mati Vegagerðarinnar kosta á bilinu 44-47 milljarða króna á verðlagi desember 2021.
Göngin eiga að verða áfangi í tengingu allt frá Norðfirði til Seyðisfjarðar og þar með hluti af Hringvegi um Austfirði. Því í framhaldinu stendur til að gera göng frá Seyðisfirði suður til Mjóafjarðar og svo önnur þaðan og til Norðfjarðar. Fjarðarheiðargöng eru því aðeins þau fyrstu í jarðgangaþrennu sem áformuð er á þessum slóðum.
Vegurinn um Fjarðarheiði er í 620 metra hæð og er þar með hæsti fjallvegur til þéttbýlisstaðar á landinu þar sem aðeins er ein vegtenging. Við slíkar aðstæður þarf ekki mikinn vindhraða yfir vetrartímann til þess að aðstæður verði erfiðar fyrir samgöngur. Slíkt ástand getur verið viðvarandi dögum saman og hamlað för um heiðina. Á tímabilinu 2015-2020 var vegurinn lokaður frá 29-56 daga ár hvert.
Vegurinn tengir hinn tiltölulega unga kaupstað Egilsstaði við einn þann elsta, hinn sérstæða Seyðisfjörð, þar sem húsin lúra á takmörkuðu láglendinu undir snarbröttum fjöllum. Fjöllum sem við vitum að geta byrst sig rækilega við ákveðnar aðstæður með tilheyrandi aur- eða snjóskriðum.
Vegna snjóþyngsla og veðuraðstæðna fullnægir vegurinn um Fjarðarheiði alls ekki kröfum nútímans. Brattar brekkur beggja vegna heiðarinnar eru oft verulegur farartálmi fyrir flutningabíla og fólksbíla íbúa og ferðamanna á svæðinu, til að mynda þeirra sem koma með farþegaferjunni Norrænu. Fjarðarheiði er oft mesta eða jafnvel eina hindrunin sem þeir mæta í allri ferð sinni til Íslands, segir Vegagerðin í umhverfismatsskýrslu sinni.
Í brekkunum beggja vegna Fjarðarheiðar eru margar krappar beygjur og þar af fjórar svonefndar „hárnálabeygjur“ að vestanverðu og að austanverðu. Langhalli er merktur 10 prósent á skiltum, bæði í efstu brekkunni Héraðsmegin og í Efri- og Neðri- Staf Seyðisfjarðarmegin.
En það er fleira sem Vegagerðin vill ná fram með framkvæmdinni en að forða fólki frá því að þurfa að aka yfir heiðina. Hún vill einnig endurskoða að leiðin að henni liggi að hluta í gegnum miðbæ Egilsstaða sem veldur endurteknum umferðartöfum og hættu.
Þrír valkostir eru til skoðunar Héraðsmegin ganganna. Tveir gera ráð fyrir að Hringvegurinn verði færður út fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum og er annar þeirra, svonefnd Suðurleið, aðalvalkostur Vegagerðarinnar. Með þeirri leið yrði Hringvegurinn færður suður fyrir Egilsstaði með nýjum vegamótum frá Skriðdals- og Breiðdalsvegi. Samtals þarf 6,9 kílómetra langa vegagerð á Héraði og nýja 110 metra brú á Eyvindará.
Seyðisfjarðarmegin yrði gangamunni við Gufufoss í um 130 metra hæð og þaðan eru tveir valkostir í stöðunni: Lagfæring núverandi veglínu eða ný.
Þrátt fyrir að núverandi vegur yrði lagfærður telur Vegagerðin það ekki ákjósanlegan valkost með tilliti til umferðaröryggis. Nýja veglínan, sem er aðalvalkostur Vegagerðarinnar, yrði norðar en núverandi vegur. Gamli vegurinn myndi áfram þjóna svæðinu í dalnum og yrði því ekki aflagður.
Almennt er það mat stofnunarinnar að lítill munur sé á milli þessara tveggja kosta hvað varðar áhrif á samfélag og umhverfi. Helsti munurinn felist í landnotkun þar sem færa þyrfti golfvöll Golfklúbbs Seyðisfjarðar yrði nýr vegur ofan á.
Jarðgöngin undir heiðina yrðu tvíbreið og hámarkshraðinn í þeim 70 km/klst. Miðað er við að þau yrðu unnin frá báðum endum, 4-5 metrar boraðir og sprengdir í einu, efninu ekið út og bergið síðan styrkt eftir þörfum áður en næsta lota er tekin.
Reiknað er með að það líði rúmlega ár frá upphafi framkvæmda þar til göngin ná saman. Þá tekur við vinna við lokastyrkingar bergsins, uppsetningu frárennsliskerfis, lýsingar og loftræstingar sem og uppbygging vegar með malbiksslitlagi.
Reiknað er með að við gerð Fjarðarheiðarganga verði unnið með tveimur gengjum og að meðal starfsmannafjöldi yfir árið verði um 75 manns.
Áætlaður framkvæmdatími er 7 ár.
Allir valkostir Héraðsmegin koma til með að fara um svæði á C-hluta náttúruminjaskrár og svæði sem var sett á náttúruverndaráætlun 2009–2013, mismikið þó. Seyðisfjarðarmegin eru engin friðlýst svæði.
Innan áhrifasvæða valkosta beggja vegna við göngin má hins vegar finna birkiskóg en sérstæðir eða vistfræðilega mikilvægir birkiskógar og leifar þeirra njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Forðast skal að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. Valkostir við Egilsstaði fara einnig um votlendi sem nýtur sömu verndar.
Á stefnuskránni frá árinu 1987
Í vel á fjórða áratug hafa stjórnvöld haft það á stefnuskrá sinni að bæta samgöngur til og frá Seyðisfirði með jarðgöngum. Í skýrslu sem kom út á vegum samgönguráðuneytisins árið 1987 kom fram að göng um Fjarðarheiði og Oddsskarð ættu að vera ofarlega á forgangslistanum. En leiðin undir heiðina til Egilsstaða hefur þó ekki alltaf verið efst á blaði.
Á árunum 1988-1993 vann nefnd sem skipuð var af samgönguráðherra að mati á jarðgangakostum á Austurlandi. Í skýrslu hennar voru lögð fram og bornar saman þrjár mismunandi leiðir, svonefnd samgöngumynstur.
Mynstur A var eins og þáverandi vegakerfi nema að því leyti að vegir um Fjarðarheiði og Oddsskarð færu í jarðgöng. Í mynstri B var lögð áhersla á sjávarsíðuna og því göng úr Seyðisfirði í Mjóafjörð, önnur þaðan í Norðfjörð og þau þriðju síðan undir Oddsskarð til Eskifjarðar. Mynstur C tengdi síðan saman Seyðisfjörð og Neskaupstað með tvennum göngum til Mjóafjarðar og síðan reiknað með tengingu þaðan til Héraðs með göngum undir Mjóafjarðarheiði. Nefndin lagði til að mynstur C yrði valið.
Vegagerðin segir að síðan þá hafi kröfur til jarðganga tekið breytingum. Til að mynda sé nú talið eðlilegt að göng liggi lægra í landinu. Á síðari árum hafa fulltrúar Seyðisfjarðar og ályktanir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi einnig lagt mesta áherslu á göng undir Fjarðarheiði.
Í kringum 2005 var ákveðið að hefja rannsóknir á aðstæðum til gangagerðar milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og nokkrum árum síðar var ákveðið að ráðast í framkvæmdir. Norðfjarðargöng voru loks opnuð fyrir umferð árið 2017. Þar með var það samgöngumynstur á Austurlandi sem nefndarinnar frá 1993 aðhylltist, ekki lengur talið raunhæft.
Árið 2011 vann verkfræðistofan EFLA skýrslu þar sem fram kom að með tengingu byggðarlaganna við Hérað með göngum undir Fjarðarheiði fengist mun betri hringtenging milli þeirra allra en eingöngu með tengingu undir Mjóafjarðarheiði því með henni einni saman hefði Seyðisfjörður orðið endastöð.
Fimm árum síðar skipaði samgönguráðherra verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Meðal verkefna hópsins var að vega og meta mögulegar samgöngubætur fyrir Seyðisfjörð með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífs á svæðinu. Skýrslan kom út 2019 og í henni var lögð til svokölluð hringtenging sem fæli í sér þrenn göng: Fjarðarheiðargöng, Mjóafjarðargöng og Seyðisfjarðargöng. Að mati hópsins myndi slík tenging ná miklum samfélagslegum ávinningi fyrir Seyðisfjörð og Austurland í heild. Ávinningurinn fælist helst í bættum samgöngum og sveigjanleika sem væri líklegt til að styðja við búsetu á svæðinu, atvinnuveg og aðgang að þjónustu.
Og fleiri göng
Í samgönguáætlun 2020-2034 kemur fram að gert sé ráð fyrir að í framhaldi af Fjarðarheiðargöngum verði ráðist í gerð ganga milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og Mjóafjarðar og Fannardals í Norðfirði (Mjóafjarðargöng).
Seyðisfjarðargöng yrðu um 5,4 kílómetrar að lengd og myndu liggja í grennd við Gufufoss á Seyðisfirði til Mjóafjarðar, við bæinn Fjörð.
Mjóafjarðargöng yrðu um 6,9 kílómetra löng og eru fyrirhuguð frá Fannardal í Norðfirði með munna í sunnanverðum Mjóafirði, á móts við bæinn Fjörð. Lengd milli Mjóafjarðarganga og Seyðisfjarðarganga yrði um 800 metrar.
Þótt Fjarðarheiðargöng yrðu meðal lengstu vegganga í heimi yrðu þau ekki lengstu göng á Íslandi. Á heiðum Austurlands er að finna göng sem eru mun lengri, göng sem flytja vatn úr Jöklu úr Hálslóni að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar. Þau eru tæplega 40 kílómetrar að lengd.
Tilgangurinn með Fjarðarheiðargöngum er að sögn Vegagerðarinnar að bæta samgöngur á Austurlandi og hafa þar með jákvæð áhrif á samfélagið. „Með jarðgöngum undir Fjarðarheiði verða samgöngur áreiðanlegri og öruggari.“ Að loknum framkvæmdum verður mögulegt að halda veginum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar opnum allan ársins hring. „Framkvæmdin mun styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.“