Félag í eigu Landsbankans hefur eignfært kaup- og sölurétt sinn í félagi um rekstur Húsasmiðjunnar á 225 milljónir króna. Félagið, Holtavegur 10 ehf., seldi rekstur Húsasmiðjunnar til Bygma Gruppen A/S fyrir 760 milljónir króna í byrjun árs 2012. Samhliða sölunni hélt félagið eftir 30 prósent kauprétti í félagi Bygma um rekstur Húsasmiðjunnar. Sá réttur, ásamt sölurétt á hlutnum, er nú metinn á 225 milljónir króna í bókum félagsins. Þetta kemur fram í ársreikningi Holtavegs 10 ehf. fyrir árið 2014 sem skilað var inn til ársreikningarskráar í vikunni.
Um tólf milljarða króna afskriftir
Landsbankinn tók yfir Húsasmiðjuna í október 2009. Þá var allt hlutafé afskrifað og bankinn breytti 10,2 milljörðum króna af skuldum í nýtt hlutafé. Um var að ræða 70 prósent af öllum vaxtaberandi skuldum Húsasmiðjunnar við lánastofnanir. Fyrirtækinu var síðan komið fyrir innan Vestia ehf. sem var síðar selt til Framtakssjóðs Íslands (FSÍ). Í janúar 2012 breytti Landsbankinn einum milljarði króna til viðbótar af skuldum Húsasmiðjunnar í nýtt hlutafé og við það eignaðist Hömlur ehf., félag í eigu bankans, eignarhlut í fyrirtækinu. Það keypti síðar hlut FSÍ og átti þá Holtaveg 10 að öllu leyti.
Rekstur fyrirtækisins var loks seldur til danska byggingarvörurisans Bygma í upphafi árs 2012 fyrir 760 milljónir króna auk þess sem Bygma tók yfir 2,5 milljarða króna skuldir. Samhliða var nafni gömlu Húsasmiðjunnar breytt í Holtaveg 10 ehf. og töluvert af draugum fortíðar skildir eftir þar inni. Á meðal þess var möguleg endurálagning skatta og mögulega samkeppnissekt. Þessir draugar hafa kostað félagið skildinginn. Á undanförnum árum hefur Holtavegur 10 greitt rúman milljarð króna í endurálagningu skatta og vegna samkeppnissektar. Því hafa allar eignir félagsins, að meðtöldu söluandvirðinu vegna reksturs Húsasmiðjunnar, farið í að greiða skatta og sektir.
Landsbankinn er endanlegur eigandi Holtavegs 10 ehf. Bankinn á því kaup- og sölurétt á 30 prosent hlut í Húsasmiðjunni.
Söluandvirðið allt í skatta og sektir
Fyrsta stóra áfallið reið yfir í lok árs 2011 þegar embætti ríkisskattstjóra tilkynnti að Húsasmiðjan skuldaði rúmlega 700 milljónir króna í skatta vegna svokallaðs öfugs samruna sem fyrrum eigendur hennar höfðu ráðist í. Í slíkum samruna felst að eignarhaldsfélag er sett á fót og það kaupir rekstrarfélag með lánsfé. Eignarhaldsfélagið er síðan látið renna inn í rekstrarfélagið og þar með er skuldunum sem stofnað var til við kaupin komið inn í reksturinn sem þær voru notaðar til að kaupa.
Tilkynning um endurálagningu skattanna kom þegar langt var liðið á söluferli Húsasmiðjunnar, en Bygma var þá við að kaupa hana. Vegna skattavandkvæðanna var rekstur Húsasmiðjunnar settur yfir á nýja kennitölu, 2,5 milljarðar króna af skuldum hennar líka og nýja kennitalan seld til Bygma fyrir 760 milljónir króna.
Eftir í gömlu Húsasmiðjunni voru skildar eignir sem voru metnar á 240 milljónir króna og kaupverðið, 760 milljónir króna. Þetta var meðal annars skilið eftir til að borga skattaskuldina og mögulega sekt vegna samkeppnisbrota. 2011.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti síðan í fyrrasumar að gamla Húsasmiðjan hefði náð sátt við samkeppnisyfirvöld sem fól í sér að hún viðurkenndi að hafa brotið samkeppnislög með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Byko. Þar sem gamla Húsasmiðjan viðurkenndi brot sitt og var tilbúin að gera sátt taldi Samkeppniseftirlitið réttlætanlegt að leggja á félagið lægri stjórnvaldssekt en ella. Það var því ákveðið að hún yrði 325 milljónir króna. Málið er afrakstur margháttaðra aðgerða, meðal annars húsleita og símhleranna, sem Samkeppniseftirlitið réðst í vorið 2011 vegna gruns um samkeppnisbrot hjá Húsasmiðjunni, Byko og Úlfinum.
Þessi sekt var greidd á árinu 2014, samkvæmt ársreikningi Holtavegs 10 ehf.
Vildu endurheimta hluta afskrifta ef betur gengi
Samhliða sölunni á rekstri Húsasmiðjunnar til Bygma var gert samkomulag um að Holtasel 10, félag í eigu ríkisbankans Landsbanka, ætti kauprétt á 30 prósent hlut í félaginu sem stofnað var utan um reksturinn. Hægt er að nýta réttinn á tímabilinu 1. maí 2015 til 30. apríl 2020.
Tilgangurinn var sá að gefa Landsbankanum tækifæri til að endurheimta hluta af þeim milljarðaskuldum gömlu Húsasmiðjunnar sem hann hafði afskrifað ef reksturinn á nýju kennitölunni gengi betur. Útfærslan er bæði með kauprétti og kaupskyldu og því kemur ekki til að Landsbankinn, eða félög í hans eigu, eigi þennan tæpa þriðjungshlut til langframa.
Rekstur Húsasmiðjunnar hefur ekki verið mjög ábatasamur þessi fyrstu ár eftir að Bygma keypti hann. Árið 2012 tapaði fyrirtækið 179 milljónum króna og árið 2013 175 milljónum króna. Fyrirtækið hefur ekki skilað inn ársreikningi vegna ársins 2014.
Í nýbirtum ársreikningi Holtavegs 10 er þessi kaup- og söluréttur eignfærður í fyrsta sinn og sagður 225 milljón króna virði. Verðmiðinn miðar við 18 prósent ávöxtunarkröfu.