Kaupfélag Skagfirðinga hefur hagnast um 18,3 milljarða króna á síðustu fjórum árum. Í fyrra nam hagnaður félagsins 5,4 milljörðum króna sem er mesti hagnaður þess frá upphafi í krónum talið. Hann bættist við þriggja milljarða króna hagnað árið 2020, 4,8 milljarða króna hagnað árið 2019 og 5,1 milljarða króna hagnað árið 2018.
Undirliggjandi rekstur Kaupfélagsins hefur líka verið að batna mikið. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta var 6,1 milljarður króna á árinu 2021 og jókst um 1,6 milljarð króna milli ára. Hann hefur aldrei verið meiri.
Fyrir vikið var eigið fé Kaupfélags Skagfirðinga orðið 49,5 milljarðar króna um síðustu áramót, að meðtöldu hlutdeild minnihluta. Til samanburðar var eigið fé þess 26,4 milljarðar króna í lok árs 2015 og 15,5 milljarðar króna í lok árs 2010. Það hefur því rúmlega þrefaldast á síðust ellefu árum og næstum tvöfaldast frá 2015.
Þetta má lesa út úr ársreikningi Kaupfélagsins sem birtur var nýverið.
Samvinnufélag með tæplega 1.500 félagsmenn
Kaupfélag Skagfirðinga, samvinnufélag með 1.465 félagsmenn, er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri en hann hefur setið í því sæti frá árinu 1988. Starfsemi þess er að mestu leyti í landbúnaði og sjávarútvegi. Samvinnufélög geta ekki greitt út arð með sama hætti og hlutafélög. Kaupfélag Skagfirðinga greiddi til að mynda út 80 milljónir króna í arð í fyrra vegna þriggja milljarða króna hagnaðar sem féll til árið 2020. Vegna þessara takmarkana á arðgreiðslum vex eigið féð mikið ár frá ári samhliða bættri afkomu.
Á meðal viðskipta Kaupfélagsins sem hafa vakið verulega athygli á undanförnum árum voru kaup dótturfélagsins FISK Seafood, sjávarútvegsarms Kaupfélagsins, á hlut í Brimi þann 18. ágúst 2019.
Strax í kjölfar þeirra viðskipta bætti FISK Seafood við sig um tvö prósent hlutafjár til viðbótar og eignaðist þannig alls 10,18 prósent hlut fyrir ríflega 6,6 milljarða króna.
Þann 8. september sama seldi FISK Seafood Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem nátengt er eignarhaldi Brims, þessa sömu hluti í félaginu fyrir tæplega átta milljarða króna. Hagnaðurinn var um 1,4 milljarðar króna á örfáum vikum.
Risastór leikandi í sjávarútvegi
Verðmætasta bókfærða eign Kaupfélags Skagfirðinga eru aflaheimildir, en virði þeirra er bókfært á 25,5 milljarða króna í ársreikningi síðasta árs. Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum eru 12,6 milljarða króna virði og eignarhlutir í öðrum félögum voru metnir á 5,8 milljarða króna, en heildareignir félagsins voru bókfærðar á 79,7 milljarða króna um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall Kaupfélags Skagfirðinga er því 62 prósent.
Nýjasta viðbótin í eignasafnið er Gunnars Majónes, sem Kaupfélagið keypti í sumar. Kaupfélagið keypti einnig rekstrarfélag Metro-hamborgarastaðanna á árinu 2021.
Samkvæmt síðasta birta yfirliti Fiskistofu um samþjöppun í sjávarútvegi, sem var birt í nóvember í fyrra, hélt FISK Seafood á 3,4 prósent heildarkvótans. FISK á auk þess 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem var með sjö prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem hélt á 1,1 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki hélt á um 0,17 prósent kvótans. Samtals nam heildarkvóti þessara þriggja 11,7 prósentum.
Skiluðu ríkisstyrk
Það vakti umtalsverða athygli í maí 2020, skömmu eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á, þegar tilkynnt var að eitt dótturfélaga Kaupfélags Skagfirðinga, kjötvinnslan Esja Gæðafæði, hefði ákveðið að endurgreiða um 17 milljónir króna sem það fékk í stuðning úr ríkissjóði eftir að hafa sett starfsfólk á hina svokölluðu hlutabótaleið.
Í tilkynningu frá Kaupfélagi Skagfirðinga vegna þessa sagði að það myndi veita Esju sérstaka fjárhagsaðstoð til þess að gera endurgreiðsluna mögulega. „Að gefnu tilefni skal tekið fram að kjötvinnslan hefur aldrei greitt kaupfélaginu arð. Vegna umræðu um arðgreiðslur er áréttað að Kaupfélag Skagfirðinga starfar á grundvelli laga um samvinnufélög. Af þeirri ástæðu hefur það alla tíð, eða í 130 ár, nýtt langstærstan hluta framlegðar starfseminnar til innri uppbyggingar í stað hefðbundinna arðgreiðslna hlutafélaga til eigenda sinna.“
Félagið sagðist enn fremur ætla að einbeita sér að því að verja þau rúmlega þúsund störf sem voru á þessum tíma innan samstæðu þess. „Með þessari ákvörðun er sú stefna kaupfélagsins undirstrikuð að leita allra leiða til þess að ná því markmiði innan samstæðunnar án sértækrar aðstoðar frá íslenska ríkinu. Þess vegna verður fenginn ríkisstuðningur á grundvelli hlutabótarleiðar endurgreiddur.“
Borga með Morgunblaðinu svo RÚV leiði ekki skoðanamyndun
Kaupfélagið hefur einnig gefið sig að fjölmiðlarekstri á undanförnum árum með fjárfestingu í Þórsmörk, eiganda Árvakurs sem heldur úti Morgunblaðinu og tengdum miðlum. Sem stendur eru Íslenskar sjávarafurðir, dótturfélag Kaupfélagsins, stærsti einstaki eigandi Þórsmerkur með 19,5 prósent eignarhlut. Frá 2019 hefur fjölmiðlasamsteypunni verið lagðar til alls 600 milljónir króna í nýtt hlutafé til að mæta viðvarandi taprekstri. Kaupfélagið er sá aðili innan eigendahópsins sem hefur lagt til stærstan hlut þeirra fjármuna.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 17,4 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist 8,4 prósent.
Í viðtali við Morgunblaðið í apríl 2019 var Þórólfur spurður um það hvað varð til þess Kaupfélagið ákvað að fjárfesta í fjölmiðlarekstri. Þar sagði hann: „Við lítum þannig á að það sé mikilvægt að til staðar séu vandaðir fjölmiðlar sem ekki eru ríkisreknir. Ríkið er fyrirferðarmikið á þessum markaði sem er ekki hollt til lengdar, og í raun mjög umhugsunarvert, enda þörfin ekki eins brýn og áður var. Ríkið rak einu sinni dreifikerfi á kartöflum, en er hætt því sem dæmi. Þessi mikli rekstur ríkisins á fjölmiðlum býður upp á ákveðna hættu. Að fjölmiðillinn verði ríki í ríkiskerfinu og leiði skoðanamyndun. Við þekkjum það í löndum þar sem ekki er virkt lýðræði, að þar eru ríkisfjölmiðlar mjög fyrirferðarmiklir.“