Óhætt er að segja að tvísýn staða og mikil spenna sé nú í dönskum stjórnmálum, en kosið er til þings í landinu í dag. Síðustu sjónvarpskappræður leiðtoga flokkanna fjórtán sem bjóða fram á landsvísu fóru fram á sunnudagskvöld.
Þar reyndu bæði Mette Frederiksen forsætisráðherra og leiðtogi Sósíaldemókrataflokksins og Jakob Ellemann-Jensen formaður Venstre að byggja brýr til Lars Løkke Rasmussen sem mest þau gátu, en nýr flokkur Lars Løkke, Moderaterne, stendur utan þeirra tveggja blokka sem ýmist halla sér til vinstri eða hægri, þeirrar rauðu og þeirra bláu.
Líklegt þykir að eftir kosningar muni Lars Løkke, sem er fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Venstre, verða í oddastöðu við ríkisstjórnarmyndun, en flokkur hans mælist með 8-10 prósenta fylgi og hátt á annan tug þingmanna í nýjustu könnunum á sama tíma. Þetta talsverða fylgi við Moderaterne þýðir að hvorki rauða blokkin né sú bláa er líkleg til að enda með meirihluta þingsæta.
Eins og Frederiksen forsætisráðherra sagði er hún boðaði til kosninga í upphafi október er hún þeirrar skoðunar að aðstæður dagsins í dag kalli á breiða ríkisstjórn yfir miðjuna, út fyrir blokkapólitíkina. Jafnvel þótt rauða blokkin næði þingmeirihluta verður það ekki hennar fyrsta val að mynda minnihlutastjórn með stuðningi annarra flokka á vinstri kantinum.
Síðast var mynduð ríkisstjórn með flokkum úr báðum blokkum árið 1993, en því samstarfi var slitið eftir kosningarnar árið 1994. Áður höfðu verið gerðar tilraunir til breiðs samstarf yfir miðjuna á áttunda áratugnum og gekk það misjafnlega.
Lars Løkke hefur til þessa ekki viljað gefa neitt út um það hvern hann vilji helst sjá sem næsta forsætisráðherra og ýmsum stjórnmálaskýrendum þykir líklegt að hann muni reyna að mála sjálfan sig inn í það hlutverk gefist tækifæri til. Það hvernig Lars Løkke spilar úr niðurstöðum kosninganna mun sennilega hafa úrslitaáhrif á það hvernig ríkisstjórn verður í Danmörku næstu árin.
Lágflug á Venstre
Ellemann-Jensen virðist nú eina raunhæfa forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar, eftir fylgishrun Íhaldsflokks Sören Pape Poulsen það sem af er í kosningabaráttunni, en ýmis vandræðamál hristu af formanninum fylgið í þessum stutta kosningaslag.
Þrátt fyrir að hann gæti endað sem forsætisráðherra í kjölfar kosninga sér Ellemann-Jensen þó fram á að vera að fara að leiða Venstre til verstu kosningaútkomu flokksins í heil 32 ár, eða síðan árið 1990 er flokkurinn hlaut 11,8 prósent atkvæða, undir stjórn föður hans, Uffe Ellemann-Jensen. Flokkurinn hefur verið að mælast með um og yfir 13 prósent atkvæða í könnunum.
Fylgishrun Venstre stafar af því að flokkurinn hefur tvístrast með stjórnmálafólki sem hefur yfirgefið flokkinn. Ekki einungis hafa fylgismenn Venstre fylkt sér að baki nýjum flokki Lars Løkke, heldur hefur annar fyrrverandi ráðherra flokksins, Inger Støjberg, einnig sópað einhverju fylgi til sinnar nýju hreyfingar, Danmerkurdemókratanna, sem mældist með 8,6 prósent í nýjustu könnun Epinion.
Fáir vilja þó í ríkisstjórn með Støjberg, og Lars Løkke hefur sagt að hann telji að Støjberg eigi aldrei að verða ráðherra aftur, en í desember í fyrra var hún sakfelld fyrir í landsdómi fyrir að hafa brotið af sér í ráðherraembætti.
Komdu heim, Lars Løkke
Í kappræðunum á sunnudagskvöld gerðu bæði Frederiksen og Ellemann-Jensen hosur sínar grænar fyrir Lars Løkke. Í yfirferð stjórnmálaskýranda DR, Jens Ringberg, segir að Mette Frederiksen hafi til dæmis opnað á að gera umtalsverðar breytingar á stjórnsýslu heilbrigðismála í landinu, en Lars Løkke hefur boðað að hans flokkur vilji gera stórar breytingar þar á.
Hún talaði þó ekki jafn beint til Lars Løkke og Ellemann-Jensen, sem sagði hreinlega fyrrverandi formanni flokksins sem hann nú leiðir að „koma heim“. Á Ellemann-Jensen var að heyra að í samstarfi við Venstre gæti Lars Løkke komið þeim breytingum sem hann boðar, hlutunum sem þeirra „fyrrverandi sameiginlega bakland“ þráir, en síður í samstarfi við Sósíaldemókrata.
Ellemann-Jensen hefur sjálfur tekið fyrir það að vinna með Sósíaldemókrötum í ríkisstjórn, og það hefur Søren Pape Poulsen formaður Íhaldsflokksins einnig gert. Draumur þeirra beggja er um stjórn borgaralegra afla, en Pape Poulsen hefur þó viðurkennt að möguleikinn á slíkri stjórn fari mjög eftir því hversu fast Lars Løkke heldur í kröfu sína um að mynduð verði breið ríkisstjórn yfir miðjuna.
Draumaríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen væri stjórn yfir miðjuna með þátttöku Sósíaldemókrata, Venstre, Íhaldsflokksins og hans eigin Moderaterne. Hvort slíkt stjórnarsamstarf komi til álita virðist þó ekki líklegt í dag, vegna andstöðu borgaralegu aflanna við samvinnu við Sósíaldemókrata.
Lars Løkke hefur sagt að hann vilji að jafnaðarmenn sitji við ríkisstjórnarborðið, en segir þó ekki sjálfgefið að þeir sem stærsti flokkurinn í breiðri stjórn fái embætti forsætisráðherra. Hann hefur þó einnig sagt að það væri auðveldara að styðja stjórn undir forsæti Sósíaldemókrata ef leiðtogi flokksins væri einhver annar en Mette Frederiksen, en Moderaterne gerir skýlausa kröfu um það að ný ríkisstjórn fái óháð lögfræðiálit á þætti forsætisráðherrans í minkamálinu.
Einhver muni þurfa að gefa sig
Ljóst þykir að það gæti orðið ærið verk að koma saman stjórn í Danmörku, ef niðurstöður kosninganna verða með þeim hætti sem nýjustu skoðanakannanir benda til. Rikke Gjøl Mansø stjórnmálaskýrandi hjá DR segir að ef allir ætli að standa fast á sínum hugmyndum um ríkisstjórnarsamstarf verði með öllu ómögulegt að mynda stjórn, ef úrslit kosninga nálgist skoðanakannanir.
„Það mun einhver þurfa að gefa sig. Spurningin er, hver?“ skrifar hún.