Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, segir í orðsendingu til Kjarnans, í tilefni af skrifum um mikinn mun á hagvaxtarspá Hagstofunnar, frá 14. nóvember, og síðan raungögnum um hagvöxt sem birtust 5. desember, að munur sé á hlutverkum rannsóknardeildar Hagstofu Íslands annars vegar og síðan Hagstofunnar sjálfrar hins vegar. „Af því tilefni er rétt að benda á að rannsóknardeildin sem m.a. sér um að gera þjóðhagsspá er aðskilin annarri starfsemi Hagstofunnar og hefur sama aðgang að hagskýrslum og aðilar utan Hagstofunnar,“ segir Ólafur, og leggur áherslu á að það sem oft er nefnt Kínamúr, þegar upplýsingaflæði er annars vegar, eigi við um rannsóknardeildina og aðra starfsemi Hagstofunnar. Þetta skýri meðal annars, hvers vegna himinn og haf er á milli spárinnar, sem birtist í nafni Hagstofu Íslands 14. nóvember, og síðan mælingarinnar 5. desember.
Titringur
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa nýjustu upplýsingar Hagstofunnar um hagvöxt, frá 5. desember valdið þó nokkrum titringi. Margir aðilar á markaði hafa sett sig í samband við Hagstofuna og spurt hvernig standi á því að hagtölurnar sýni allt aðra þróun en flestar spár gerðu ráð fyrir, og þar á meðal spá rannsóknardeildar Hagstofunnar sömuleiðis. Hinn 14. nóvember kom fram spá hennar um 2,7 prósent hagvöxt en þremur vikum síðar, 5. desember, sýndu raungögnin 0,5 prósent hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins og 0,2 prósent neikvæðan vöxt á þriðja ársfjórðungi.
Myndin er fengin úr nýlegri hagspá Landsbankans.
Spár helstu greiningaraðila á markaði, þar á meðal Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gera ráð fyrir mun meiri hagvexti á þessu ári en mælst hefur til þessa. Sérstaklega er það mikil dýfa í einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi sem hefur valdið mörgum heilabrotum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þykjast sumir þeirra sem greina stöðu á markaði ekki sjá þessa dýfu í algengum mælikvörðum á einkaneyslu, til dæmis í kortaveltu. Hæstu spárnar gera ráð fyrir 3,1 prósent hagvexti á þessu ári, frá greiningu Íslandsbanka og ASÍ.
Seðlabankinn tjáir sig á morgun
Kjarninn leitaði viðbragða hjá Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands, í gær vegna hagtalnanna frá Hagstofunni og síðan spátalnanna sem birst hafa. Þórarinn sagðist því miður ekki geta tjáð sig um þetta mál þar sem reglur banna það svo stuttu fyrir vaxtaákvörðun Seðlabankans, en hún verður kynnt í fyrramálið. Á morgun megi búast við að stjórnendur hjá Seðlabankanum tjái sig um þetta, eins og önnur atriði sem spurt verður um. Margir búast við vaxtalækkun, en stýrivextir eru í dag 5,75 prósent á meðan verðbólga mælist 1 prósent.