Hinn fótfrái Arnar Pétursson varð fyrstur Íslendinga í endamark Reykjavíkurmaraþonsins, sem fram fór í miðbæ Reykjavíkur laugardaginn 23. ágúst síðastliðinn. Sigur hans var afgerandi, en hann kom í mark rúmum níu mínútum á undan næsta samlanda hans, sem var langhlauparinn Pétur Sturla Bjarnason sem sigraði Reykjavíkurmaraþonið árið áður.
Við komuna í endamarkið var Arnar krýndur Íslandsmeistari karla í maraþoni. Skömmu eftir að hlaupinu lauk kærði Pétur Sturla úrslit hlaupsins til yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, þar sem hann sakaði Arnar um að hafa svindlað í hlaupinu og krafðist þess að þátttökuréttur hans í hlaupinu yrði ógiltur.
Reglur kveða á um bann við fylgd hjólreiðamanna
Í kærunni var Arnar sakaður um að hafa notið liðsinnis tveggja hjólreiðamanna í hlaupinu, svokallaðra héra, sem hafi hjólað með Arnari og hvatt hann áfram í hlaupinu. Með athæfinu hafi Arnar brotið reglur Reykjavíkurmaraþonsins og þar með ógilt þátttökurétt sinn.
Í 10. grein reglna Reykjavíkurmaraþonsins, sem aðgengilegar eru á heimasíðu hlaupsins segir: "Hlaupabrautin er eingöngu ætluð keppendum. Ekki er heimilt að fylgja hlaupurum gangandi, hlaupandi, á hjóli eða öðrum farartækjum (undanþága fyrir fylgdarmenn fatlaðra). Það er á ábyrgð þátttakenda að vísa frá þeim sem fylgja." Þá segir í 18. grein reglnanna: "Brot á ofangreindum reglum ógilda þátttökurétt í hlaupinu."
Samkvæmt heimildum Kjarnans var 10. greinin sett inn í reglur Reykjavíkurmaraþonsins, vegna þess að hjólreiðamenn höfðu truflað framgang hlaupsins í gegnum tíðina. Reyndir hlauparar sem Kjarninn hefur rætt við eru þó á einu máli um að nánast ómögulegt sé að framfylgja reglunni, þar sem hlaupabrautinn, sé ekki afgirt alla hlaupaleiðina og svo liggi hún um göngu- og hjólastíga. Þá eru hlaupararnir sammála um að það fylgi því óumdeilt forskot að hafa hjólreiðamenn með sér til að stjórna hlaupahraða og hvetja sig áfram.
[embed]https://vimeo.com/105774205[/embed]
Viðurkennt að reglur maraþonsins voru brotnar
Yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins tók kæru Péturs Sturla til efnislegrar meðferðar á fundi sínum 28. ágúst síðastliðinn. Á meðal gagna í málinu sem lágu til grundvallar niðurstöðu yfirdómnefndarinnar voru ásamt kæru málsins, ljósmyndir af Arnari Péturssyni ásamt hjólreiðamönnum á fimm mismunandi stöðum í hlaupinu, myndbandsupptaka af hinum kærða ásamt hjólreiðamönnum á göngustíg við Suðurlandsbraut, myndbrot úr þætti RÚV af hlaupurum við Hörpu á Geirsgötu þar sem hinn kærði sést hlaupa ásamt hjólreiðamönnum, og andmæli og greinargerð kærða og fulltrúa hans.
Pétur Hrafn Sigurðsson, faðir Arnars, skrifaði greinargerðina, sem lögð var fyrir yfirdómnefndina, fyrir hönd sonar síns. Pétur Hrafn hefur starfað innan íslensku íþróttahreyfingarinnar í fjölda ára og gegnir nú stöðu deildarstjóra hjá Íslenskri getspá. Í greinargerðinni er öllum ásökunum á hendur Arnari um svindl í Reykjavíkurmaraþoninu vísað á bug. Þó viðurkennir Pétur Hrafn í greinargerðinni að hann og bróðir Arnars hafi hjólað með Arnari hluta hlaupsins sér til skemmtunar.
Ekki sannað að Arnar hafi notið aðstoðar í hlaupinu
Yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins viðurkennir í niðurstöðu sinni að hjólreiðamenn hafi fylgt Arnari þrjá fjórðu hluta hlaupaleiðarinnar, sem sé vissulega óheimilt samkvæmt reglum Reykjavíkurmaraþons. Dómnefndinni þótti engu að síður ekki sannað að Arnar hafi notið aðstoðar hjólreiðamannanna og vísaði því kæru málsins frá. Í niðurstöðu dómnefndarinnar sagði jafnframt að borið hafi á því í hlaupinu að hjólað hafi verið með keppendum. "Svo virðist sem fylgd á hjólum sé atriði, sem stjórnendur Reykjavíkurmaraþons þurfi að taka á í framtíðinni. [...] Það er álit yfirdómnefndar að reglur hlaupsins mætti birta með skýrari hætti m.a. í leikskrá hlaupsins ásamt því að vara um að brot á þeim geti leitt til brottvísunar úr hlaupinu."
Pétur Sturla undi ekki niðurstöðu yfirdómnefndar og áfrýjaði henni til dómstóls ÍSÍ. Eftir að kæran barst dómstólnum óskaði hann eftir greinargerð frá yfirdómnefnd Reykjavíkurmaraþonsins. Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) skilaði inn umbeðinni greinargerð yfirdómnefndar Reykjavíkurmaraþonsins, en framkvæmd hlaupsins er á ábyrgð ÍBR. Þar segir: "Kæran lýtur að úrslitum í Íslandsmeistaramóti í maraþoni sem Reykjavíkurmaraþon tók að sér að framkvæmd fyrir hönd Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ). Slík keppni heyrir undir reglur Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) um framkvæmd götuhlaupa og maraþons sem við lítum svo á að séu reglum hlaupsins æðri. Yfirdómnefnd hlaupsins kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggi fyrir sannanir um að þeir sem hjóluðu með Arnari Péturssyni hafi veitt honum aðstoð."
Klúðursleg þýðing FRÍ á keppnisreglum IAAF
FRÍ hefur þýtt reglur IAAF yfir á íslensku margsinnis undanfarin ár og birtir þær bæði á ensku og íslensku á heimasíðu sinni. Reglur IAAF varða fyrst og síðast keppni á frjálsíþróttaleikvangi, það er keppnissvæði sem venjulega er afgirt og aðgengi takmarkað við keppendur og þá einstaklinga sem hafa leyfi til að vera innan svæðisins. Þar af leiðir að ekki er hægt að leggja að jöfnu afmarkað keppnissvæði eins og frjálsíþróttaleikvang annars vegar og hlaupabraut í kringum Reykjavík hins vegar.
Í íslenskri þýðingu reglnanna, nánar tiltekið í 144. grein um almennar keppnisreglur segir um aðstoð, ráðgjöf eða upplýsingar: "Hver sá keppandi sem veitir eða fær aðstoð innan keppnissvæðisins meðan á keppni stendur skal yfirdómari aðvara og benda á að ef slíkt endurtaki sig verði hann gerður leikrækur." Þá segir ennfremur í íslenskri þýðingu reglna IAAF: "Fyrir tilgang þessarar reglu er eftirfarandi talið aðstoð og því ekki leyft. a) Leiða hlaup í hlaupum af keppendum sem taka ekki þátt í keppninni eða ef hlauparar eða göngukeppendur sem hafa verið hringaðir eða eru um það bil að verða hringaðir, gera það eða tæknilegum hlutum (nema þeim sem eru leyfð skv. gr. 144.2(g)).
Í reglum IAAF er hvergi kveðið á um blátt bann við fylgdarmönnum á hjólum, enda svo augljóst að hjólreiðamenn eiga ekkert erindi inn á frjálsíþróttaleikvang að ekki hefur þótt tilefni til að taka það fram.
Ekki verður annað séð en að orðalag íslensku þýðingarinnar sé í besta falli einkennilegt, sér í lagi orðalagið: "Leiða hlaup í hlaupum af keppendum sem ekki taka þátt í keppninni..." Í sömu grein í reglum IAAF á ensku segir: "For the purpose of this rule, the following examples shall be considered assistance, and therefore not allowed: a) Pacing in races by persons not participating in the same race..."
Þýðandi, sem jafnframt er hlaupari, sem Kjarninn ræddi við gerir athugasemdir við íslenska þýðingu reglna IAAF. Hann segir fráleitt að orðið "pacing" hafi verið þýtt sem "leiða" í íslenskri þýðingu FRÍ. Hið rétta sé að orðið pacing merki hraðastjórnun. Umrædda setningu hefði því átt að þýða: "a) Hraðastjórn í keppni af hálfu aðila sem eru ekki þátttakendur í viðkomandi keppni." Reginmunur er á aðila og keppanda, þar sem hjólreiðamaður á brautinni er ekki keppandi og þar með undanþeginn reglunum. Ef hjólreiðamaður væri hins vegar skilgreindur sem aðili, það er "person" eins og segir í enskri útgáfu reglna IAAF, þá á hann ekkert erindi inn á hlaupabrautina.
Sorglegt mál fyrir Arnar Pétursson
Hlauparar sem Kjarninn hefur rætt við í tengslum við málið harma að málið hafi komið upp í tengslum við sigur Arnars Péturssonar í Reykjavíkurmaraþoninu og vona að málið muni ekki hafa neikvæð áhrif á feril hans. Arnar sé afbragðs hlaupari sem hefði að öllum líkindum sigrað í hlaupinu án fylgdar hjólreiðamanna. Þá hafi verið hægt að kæra úrslit Reykjavíkurmaraþonsins mörg árin á undan, þar sem fylgdarmenn á hjólum hafi verið áberandi í hlaupinu undanfarin ár. Þeirra mat er að Reykjavíkurmaraþon hafi sett reglur sem það geti ekki framfylgt, og að klúðursleg þýðing á reglum IAAF liggi að baki niðurstöðu dómstóls ÍSÍ.
Pétur Sturla Bjarnason, sem kærði úrslit Reykjavíkurmaraþonsins, hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hann áfrýjar dómi dómstóls ÍSÍ til áfrýjunardómstóls sambandsins. Frestur hans til þess rennur út á þriðjudaginn. Hins vegar er ljóst að málið er allt hið vandræðalegasta fyrir Reykjavíkurmaraþonið og til þess fallið að kasta rýrð á trúverðugleika hlaupsins á alþjóðavísu.