Forstjórar á Norðurlöndunum, þar á meðal Íslandi, eru miklu líklegri til að segja upp starfsfólki á árinu 2015 en forstjórar á flestum öðrum stöðum í heiminum. Alls segjast fjórir af hverjum tíu forstjórum á Norðurlöndum að það sé sennilegt að þeir fækki starfsfólki sínu á árinu á meðan að heimsmeðaltal þeirra forstjóra sem búast við að reka fólk á árinu 2015 er 21 prósent. Einungis 36 prósent Norðurlandaforstjóranna segja að það sé líklegt að þeir fjölgi starfsfólki á árinu á meðan að heimsmeðaltalið fyrir jákvætt svar við þeirri spurningu er 50 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri stjórnendarannsókn PwC sem kynnt var á árlegri ráðstefnu samtakanna World Economic Forum, sem haldin er í Davos í Sviss, í dag. Hægt er að fylgjast með kynningunni í beinni útsendingu frá klukkan 18:45 hér.
Á Davos ráðstefnunni hittast þjóðarleiðtogar, áhrifamestu seðlabankastjórar heims, fjöldi embættismanna og forstjórar margra af stærstu fyrirtækjum heims auk annarra áhrifamanna til að ræða ástandið í efnahagsmálum heimsins.
PwC hefur árum saman framkvæmt alþjóðlega stjórnendakönnun þar sem forstjórar fyrirtækja allstaðar að úr heiminum svara spurningalistum og eru teknir í viðtöl til að meta hvað þeir telji að sé framundan í efnahagsmálum heimsins. Sú nýjasta er númer 18 í röðinni. Alls voru tekin 1.322 viðtöl við forstjóra frá 77 löndum fyrir stjórnendakönnunina. 93 prósent þeirra sem rætt var við eru karlar en einungis sjö prósent konur. Alls voru tíu viðtöl tekin við íslenska forstjóra.
Minni bjartsýni en í fyrra
Forstjórar heimsins eru ekki jafn bjartsýnir á vöxt í alþjóðlega hagkerfinu og þeir voru í lok árs 2013. Þá töldu 44 prósent þeirra að það yrði alþjóðlegur vöxtur á árinu sem var framundan en nú segjast einungis 37 prósent þeirra telja að bjart sé framundan árið 2015.
Forstjórar heimsins eru ekki jafn bjartsýnir á vöxt í alþjóðlega hagkerfinu og þeir voru í lok árs 2013. Þá töldu 44 prósent þeirra að það yrði alþjóðlegur vöxtur á árinu sem var framundan en nú segjast einungis 37 prósent þeirra telja að bjart sé framundan árið 2015.
Töluverður munur er á sýn forstjóra á árið 2015 eftir heimshlutum. Þannig eru forstjórar í Asíu, Miðausturlöndum og Norður-Ameríku bjartsýnastir en forstjórar frá löndum í Mið- og Austur Evrópu svartsýnastir. Einungis 16 prósent þeirra telja að það verði vöxtur í efnahagi heimsbyggðarinnar á árinu sem er ný gengið í garð.
Þegar niðurstöður könnunarinnar eru brotnar niður á lönd kemur í ljós að forstjórar á í nýmarkaðsríkjum á borð við Indland (59 prósent jákvæðir), Kína (46 prósent jákvæðir) og Mexíkó (42 prósent jákvæðir) eru mun bjartsýnni á að hagkerfi heimsins muni blómstra á árinu en forstjórar í löndum þar sem markaðir eru þróaðri. Í Bandaríkjunum eru til dæmis einungis 29 prósent forstjóra bjartsýnir á árið 2015 og í Þýskalandi er það hlutfall 33 prósent.
Líkt og alltaf eru forstjórarnir bjartsýnni á að fyrirtækin sem þeir stýra muni hagnast vel á árinu sem var að ganga í garð en þegar spurt er um afkomu hagkerfisins í heild. Alls segjast 39 prósent þeirra búast við því að fyrirtækin þeirra skili hagnaði á árinu 2015. Það er nánast sama hlutfall og í fyrra og aðeins hærra en í könnuninni fyrir árið 2013.
Alþjóðlegur forstjóri PwC, Dennis Nally, kynnti niðurstöður úr stjórnendakönnuninni á Davos ráðstefnunni í dag.
Bandaríkin mikilvægari en Kína
Það vekur athygli að í könnuninni í ár svara fleiri forstjórar því til að Bandaríkjamarkaður verði þeim mikilvægari næsta árið en Kínamarkaður. Alls svöruðu 38 prósent forstjóranna því til að Bandaríkin væru á meðal þriggja mikilvægustu markaða þeirra á árinu 2015 á meðan að 34 prósent sögðu Kína. Það er í fyrsta sinn síðan að PwC hóf að spyrja um mikilvægustu markaðina í huga forstjóranna fyrir fimm árum sem Kína trónir ekki á toppnum.
Alls settu 19 prósent aðspurðra Þýskaland í efstu þrjú sætin yfir mikilvægustu markaðina og ellefu prósent nefndu Bretland.
Forstjórar hjá fyrirtækjum á Norðurlöndunum voru mun svartsýnni á gott gengi á árinu 2015 en forstjórar heimsins voru að meðaltali. Alls sögðust 26 prósent þeirra mjög bjartsýnir á vöxt á árinu, sem er þrettán prósent lægra en heimsmeðaltalið. Norðurlandaforstjórarnir eru hins vegar bjartsýnni en aðrir þegar horft er til langstíma. Um 54 prósent þeirra sögðust horfa björtum augum á næstu fimm ár í heimsbúskapnum á meðan að heimsmeðaltalið í langtímabjartsýni var 49 prósent.
84 prósent forstjóra á Norðurlöndunum sáu fyrir sér að gripið yrði til sparnaðaraðgerða hjá þeim á árinu 2015, sem er langt yfir heimsmeðaltalinu, 71 prósent. Fjórir af hverjum tíu sögðust búast við því að fækka fólki á árinu og einungis 36 prósent sögðust líklegir til að fjölga starfsfólki. Í heiminum öllum var hlutfall þeirra f0rstjóra sem bjuggust við því að þurfa að fækka fólki 21 prósent og helmingur þeirra bjóst við því að ráða.