Leiðrétting: Endurtalning í Norðvesturkjördæmi nú undir kvöld hefur leitt í ljós misræmi í talningu atkvæða. Síðdegis var ákveðið að telja þar aftur og niðurstaðan breytir miklu: Konur eru ekki meirihluti þingmanna.
Þrjátíu konur náðu kjöri til Alþingis í kosningunum í gær og 33 karlar. Í níu klukkustundir leit út fyrir að niðurstaðan væri einmitt öfug og að konur hefðu í fyrsta sinn í sögunni náð meirihluta á þinginu. Konur eru einnig innan við helmingur þingmanna stjórnarflokkanna þriggja, eða átján af þeim 37 sem samanlagt náðu kjöri en voru nítján fyrir endurtalninguna. Engin glerþök voru því brotin í morgun líkt og talið var.
Á þing fyrir stærsta flokk landsins, Sjálfstæðisflokk, setjast sjö konur en flokkurinn fékk sextán þingmenn kjörna. Framsókn fékk þrettán þingmenn kjörna, þar af sex konur. Vinstri græn náðu átta þingmönnum og af þeim eru fimm konur.
Af sex þingmönnum Samfylkingar eru fjórar konur. Af sex þingmönnum Pírata eru þrjár konur og þrjár eru sömuleiðis í fimm manna þingmannahópi Viðreisnar. Tvær konur munu setjast á þing fyrir Flokk fólksins af sex þingmönnum sem náðu kjöri. Miðflokkurinn náði þremur inn á þing. Engin kona er í þeim hópi.
Konur leiddu 28 af 61 framboðslista þeirra ellefu stjórnmálaflokka sem voru í kjöri fyrir Alþingiskosningarnar eða tæp 46 prósent þeirra. Af þeim 305 sem raðað var í efstu fimm sæti allra þessara lista voru 147 skipuð konum eða rúm 48 prósent.
Á þeim 99 árum sem liðin eru frá því að fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason, var kosin til setu á Alþingi, hefur fjöldi þingkvenna verið allt frá engri upp í 33 og höfðu þær aldrei, fyrr en nú, náð að verða fleiri en karlar. Fyrir þessar kosningar höfðu konur samtals verið um fimmtungur allra þingmanna. Eftir kosningarnar í gær eru þær hins vegar orðnar tæp 24,5 prósent þingmanna á þessari tæpu öld.
Fyrir komu Kvennalistans hafði hlutfall kvenna á Alþingi verið um eða undir 5 prósent í yfir 60 ár. Með tilkomu framboðsins varð fjöldi kvenna á Alþingi í fyrsta sinn yfir 10 prósent og aðeins fjórum árum síðar var hlutfallið orðið 20 prósent. Því hlutfalli héldu konur í 12 ár og náði það í fyrsta sinn yfir 30 prósent árið 1999. Síðan þá hefur hlutfall kvenna á þingi ávallt verið yfir 30 prósent og hefur nú þrívegis náð yfir 40 prósentin; árin 2009, 2016 og 2021 en 47,6 prósent þeirra sem náðu kjöri í gær eru konur.
Eftir alþingiskosningarnar árið 2016 hlutu konur einnig 47,6 prósent þingsæta og höfðu aldrei verið fleiri. Ári síðar urðu stjórnarslit og kosið var að nýju. Í þeim kosningum náðu 24 konur kjöri, hlutu því um 38 prósent þingsæta sem var þá lægsta hlutfall kjörinna kvenna á Alþingi í áratug. Á kjörtímabilinu sagði einn karl af sér þingmennsku og í hans stað kom kona. Þar með urðu þingkonur 25 og hlutfall þeirra á þingi 39,6 prósent.
Ingibjörg H. Bjarnason var landskjörin í kosningum 8. júlí árið 1922 og sat hún á þingi til ársins 1930 og var allan þann tíma eina þingkonan. Guðrún Lárusdóttir var landskjörin árið 1930 og árið 1934 varð hún fyrsta konan til að vera kjörin á Alþingi í almennum þingkosningum. Hún lést árið 1938 og engin kona sat á Alþingi frá 1938 til 1946. Þremur árum síðar, 1949, voru í fyrsta skipti tvær konur kjörnar. Þær sátu báðar til ársins 1953 en í kosningum það ár náði engin kona kjöri. Næstu árin voru því ýmist engin, ein eða tvær konur á Alþingi Íslendinga. Fyrsta konan sem varð ráðherra var Auður Auðuns árið 1970.
Árið 1971 var komið að tímamótum er þrjár konur voru í fyrsta skipti kjörnar: Auður Auðuns, Ragnhildur Helgadóttir (sem hafði setið á þingi frá 1956) og Svava Jakobsdóttir. Árið 1978 settist Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi og sat þar allt til ársins 2013 eða í tæp 35 ár, lengst allra kvenna.
Stórt stökk varð í kosningunum vorið 1983 er Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum. Framboðið hafði einnig þau áhrif að aðrir flokkar fjölguðu einnig konum á framboðslistum sínum. Kvennalistinn hlaut 5,5 atkvæða á landsvísu og þrjá fulltrúa inn á Alþingi. Sex aðrar konur hlutu þingsæti í þessum kosningum, tvær fyrir Bandalag jafnaðarmanna, ein fyrir Alþýðubandalagið, tvær fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ein fyrir Alþýðuflokkinn. Konur á Alþingi urðu níu talsins og hlutfall þeirra hækkaði úr 5 í 15 prósent. Á næsta kjörtímabili varð enn mikil fjölgun og sautján konur settust á þing. Enn ein tímamótin urðu svo í lok kjörtímabilsins sem hófst árið 1995 er nítján konur sátu samtímis á þingi og voru þá í fyrsta sinn 30 prósent allra þingmanna. Á þessu sama kjörtímabili var kona svo einnig kjörin formaður stjórnmálaflokks beggja kynja í fyrsta sinn, Margrét Frímannsdóttir, sem varð formaður Alþýðubandalagsins árið 1995.
Þrír kvenráðherrar voru svo í fyrsta sinn í ríkisstjórn sem mynduð var eftir kosningarnar 1999 er 22 konur náðu kjöri (35 prósent þingsæta): Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra. Valgerður Sverrisdóttir tók svo við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra 31. desember 1999 og kvenráðherrar þá orðnir fjórir.
Hlutfall kvenna á Alþingi lækkaði eftir alþingiskosningarnar 2003, í fyrsta sinn síðan að Kvennalistinn bauð fram, tveimur áratugum fyrr. Þeim átti reyndar eftir að fjölga er leið á kjörtímabilið og urðu að endingu 23.
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók fyrst kvenna við embætti forsætisráðherra í febrúar 2009. Í þessari minnihlutastjórn með Vinstri grænum, sem sat þar til í maí þetta ár, voru tíu ráðherrar, þar af helmingurinn konur í fyrsta skipti í stjórnmálasögunni. 27 konur voru kjörnar á þing í kosningunum vorið 2009 en þeim fækkaði svo lítillega eftir kosningarnar árið 2013 eða í 25. Við lok kjörtímabilsins hafði þeim hins vegar fjölgað, voru orðnar 29 og þar með 46 prósent þingmanna.
Enn ein jákvæðu tímamótin urðu svo í kosningunum haustið 2016 er sá sögulegi viðburður átti sér stað að 30 konur voru kjörnar á Alþingi Íslendinga. Þær skipuðu því 47,6 prósent þingsæta.
Ekki tókst að mynda ríkisstjórn fyrr en í janúar 2017. Í henni voru ellefu ráðherrar, þar af fjórar konur. Upp úr þessu stjórnarsamstarfi slitnaði hins vegar sama haust og kosið var að nýju í lok október. Þá kom enn eitt bakslagið og aðeins 24 konur náðu kjöri og fækkaði um sex frá hinum sögulegu kosningum árið áður. Ellefu ráðherrar tóku sæti í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar af fimm konur. Ein kona vék úr ráðherrastóli á kjörtímabilinu, Sigríður Andersen, og í stað hennar kom Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Áslaug er yngsti kvenráðherra sögunnar en hún var 28 ára er hún tók við embætti dómsmálaráðherra.
Samantekt um sögu þingkvenna er m.a. fengin af vef Alþingis og úr BA-ritgerð Ásdísar Bjargar Björgvinsdóttur.