Kostnaður vegna aksturs þingmanna eykst um fjórar milljónir milli ára
Vilhjálmur Árnason er sá þingmaður sem taldi fram mesta aksturkostnað á fyrri hluta ársins. Hann sker sig einnig úr þar sem hann notar nánast einvörðungu eigin bíl á meðan að aðrir þingmenn nýta bílaleigubíla að uppistöðu.
Þingmenn landsins keyrðu fyrir alls 17,7 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er fjórum milljónum krónum meira en þingmenn keyrðu á fyrri hluta árs í fyrra, en vert er að hafa í huga að ýmsar ferðatakmarkanir voru í gildi á þeim tíma vegna kórónuveirufaraldursins sem takmörkuðu ferðalög þingmanna sem annarra og höfðu margþætt áhrif á þingstörf. Meðal annars jókst tíðni þess að þingmenn sátu nefndarfundi í gegnum fjarfundarbúnað umtalsvert á meðan að faraldurinn geisaði.
Þetta má lesa út úr tölum um kostnaðargreiðslur til þingmanna á fyrri hluta ársins 2021 sem birtar eru á vef Alþingis.
Allt árið 2020 keyrðu þingmenn fyrir 23,2 milljónir króna, sem var umtalsvert minna en árið 2019 þegar akstur þeirra sem greiddur var úr sameiginlegum sjóðum kostaði 30,2 milljónir króna. Kostnaðurinn var mjög svipaður árið 2018, eða 30,7 milljónir króna, og árið 2017, þegar hann var 29,2 milljónir króna. Allar tölur eru á gengi þess árs sem við á.
Ef þingmenn keyra jafn mikið á síðari hluta ársins 2022 og þeir gerðu á fyrri hluta þess má ætla að kostnaðurinn í krónum talið verði sá mesti frá því að Alþingi fór að birta tölur um aksturkostnað opinberlega, eða rúmlega 35 milljónir króna. Vert er að taka fram að eldsneytisverð var afar hátt á fyrri hluta þessa árs og það hefur haft áhrif á aksturkostnaðinn.
Vilhjálmur trónir á toppnum
Alþingi endurgreiðir þingmönnum kostnað sem fellur til vegna aksturs þeirra sem skilgreindur er vinnutengdur. Þingmennirnir þurfa að sækja þessar endurgreiðslur sérstaklega með því að leggja fram gögn sem sýna fram á akstur hafi átt sér stað. Greiðslurnar eru skattfrjálsar.
Í þessari samantekt er aksturkostnaður samantalinn kostnaður Alþingis vegna notkunar þingmanna á eigin bílum, leigu þeirra á bílaleigubílum, eldsneytiskostnaður og annar tilfallandi kostnaður eins og gjald í jarðgöng.
Sá þingmaður sem keyrði fyrir mest fé á fyrri hluta ársins 2022 var Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Heildarkostnaður vegna keyrslu hans var 1.114 þúsund krónur á tímabilinu. Skammt á eftir kom Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en samanlagður kostnaður hennar var 1.090 þúsund krónur á tímabilinu.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur verið sá þingmaður sem keyrt hefur fyrir mest fé á undanförum árum. Í fyrra nam samanlagður aksturkostnaður hans 2,6 milljónum króna en hann hefur verið hófsamari í ár og keyrt fyrir 1.044 þúsund krónur á fyrri hluta árs. Samanlagt hefur kostnaður Alþingis vegna aksturs Ásmundar frá því að hann settist á þing árið 2013 numið um 35 milljónum króna.
Þeir þrír þingmenn sem raða sér í efstu sætin á listanum yfir þá sem keyra mest eru allir þingmenn Suðurkjördæmis. Sá eini utan þeirra sem keyrt hefur fyrir meira en eina milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins er Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, en samanlagður aksturkostnaður hans er 1.032 þúsund krónur á tímabilinu.
Krafa um að kostnaðurinn yrði gerður opinber
Akstursgreiðslur þingmanna komust í hámæli í byrjun árs 2018 þegar forseti Alþingis svaraði í fyrsta sinn fyrirspurn um þá tíu þingmenn sem þáðu hæstu endurgreiðslurnar vegna aksturs fimm árin á undan. Svarið var ekki persónugreinanlegt en í ljós kom að fjórir þingmenn hefðu þegið samtals 14 milljónir króna í akstursendurgreiðslur, sem var tæplega helmingur allra endurgreiðslna. Síðar staðfesti Ásmundur Friðriksson að hann væri sá sem keyrði mest.
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Það var gert og þær upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bílaleigubíla, gert skýrara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þingmenn séu að nota eigin bifreiðar. Breytingarnar náðu einkum til þingmanna sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, varð eftir breytingarnar bundinn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda á skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl.
Mesta breytingin sem orðið hefur síðastliðin ár er því sú að þingmenn keyra nú mun meira á bílaleigubílum en áður. Sú tilhneiging hefur stökkbreyst eftir að akstursgreiðslurnar voru opinberaðar í fyrsta sinn í byrjun árs 2018.
Vilhjálmur Árnason er nú eini þingmaðurinn sem sker sig úr hópnum þar sem hann notast nær einvörðungu við eigin bíl og fær svo endurgreiddan kostnað vegna þeirrar notkunar frá Alþingi.
Þeir tíu þingmenn sem keyrðu mest á fyrri hluta ársins 2022:
Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki 1.114.687 krónur
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Framsóknarflokki 1.089.999 krónur
Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki 1.043.516 krónur
Þórarinn Ingi Pétursson Framsóknarflokki 1.031.844 krónur
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum 971.698 krónur
Birgir Þórarinsson Sjálfstæðisflokki 958.615 krónur
Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokki 942.122 krónur
Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki 907.360 krónur
Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki 841.957 krónur
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir Framsóknarflokki 827.980 krónur.
Bjarkey í efsta sæti yfir ferðakostnað innanlands
Kjarninn tók einnig saman kostnað vegna flugferða þingmanna innanlands og kostnað sem Alþingi greiðir vegna gistingar og fæði. Samanlagt flugu, gistu og borðuðu þingmenn fyrir um 8,2 milljónir króna á fyrri hluta árs. Tæplega 80 prósent kostnaðar vegna þessa er tilkominn vegna flugferða innanlands. Þar, líkt og með aksturskostnaðinn, eru landsbyggðarþingmenn fyrirferðamestir þegar kemur að kostnaði enda þurfa þeir að sækja vinnu sína til Reykjavíkur á sama tíma og þorri þeirra heldur heimili í heimabyggð.
inn þingmaður kostaði Alþingi meira en eina milljón króna vegna þessa á fyrstu sex mánuðum ársins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Alls nam kostnaður hennar vegna flugferða, gistingar og fæðis 1.062 þúsund krónum á tímabilinu.
Þeir tíu þingmenn sem flugu/gistu/borðuðu mest á fyrri hluta ársins 2022:
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum 1.062.449 krónur
Ingibjörg Isaksen Framsóknarflokki 971.865 krónur
Þórarinn Ingi Pétursson Framsóknarflokki 884.235 krónur
Njáll Trausti Friðbertsson Sjálfstæðisflokki 826.160 krónur
Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki 746.902 krónur
Logi Einarsson Samfylkingunni 658.499 krónur
Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki 398.095 krónur
Jódís Skúladóttir Vinstri grænum 281.197 krónur
Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki 254.425 krónur
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn 214.725 krónur
Þrír þingmenn komast bæði á listann yfir þá þingmenn sem keyra mest og þá þingmenn sem fljúga, gista og borða fyrir mest fé frá Alþingi. Bjarkey er sú eina sem nær að vera með ferðakostnað innanlands yfir tveimur milljónum króna á fyrstu sem mánuðum ársins, en hún ferðaðist samtals fyrir 2.034.147 krónur innanlands á tímabilinu. Þórarinn Ingi kom þar næstur með með ferðakostnað innanlands upp á samtals 1.916.079 krónur og kostnaður Ingibjargar flokkssystur hans var samanlagt 1.813.822 krónur. Öll þrjú eru þingmenn Norðausturkjördæmis.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars