Mynd: Pexels

Kostnaður vegna aksturs þingmanna eykst um fjórar milljónir milli ára

Vilhjálmur Árnason er sá þingmaður sem taldi fram mesta aksturkostnað á fyrri hluta ársins. Hann sker sig einnig úr þar sem hann notar nánast einvörðungu eigin bíl á meðan að aðrir þingmenn nýta bílaleigubíla að uppistöðu.

Þing­menn lands­ins keyrðu fyrir alls 17,7 millj­ónir króna á fyrstu sex mán­uðum árs­ins. Það er fjórum millj­ónum krónum meira en þing­menn keyrðu á fyrri hluta árs í fyrra, en vert er að hafa í huga að ýmsar ferða­tak­mark­anir voru í gildi á þeim tíma vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins sem tak­mörk­uðu ferða­lög þing­manna sem ann­arra og höfðu marg­þætt áhrif á þing­störf. Meðal ann­ars jókst tíðni þess að þing­menn sátu nefnd­ar­fundi í gegnum fjar­fund­ar­búnað umtals­vert á meðan að far­ald­ur­inn geis­að­i. 

Þetta má lesa út úr tölum um kostn­að­ar­greiðslur til þing­manna á fyrri hluta árs­ins 2021 sem birtar eru á vef Alþing­is. 

Allt árið 2020 keyrðu þing­menn fyrir 23,2 millj­­ónir króna, sem var umtals­vert minna en árið 2019 þegar akstur þeirra sem greiddur var úr sam­eig­in­­legum sjóðum kost­aði 30,2 millj­­ónir króna. Kostn­að­­ur­inn var mjög svip­aður árið 2018, eða 30,7 millj­­ónir króna, og árið 2017, þegar hann var 29,2 millj­­ónir króna. Allar tölur eru á gengi þess árs sem við á.

Ef þing­menn keyra jafn mikið á síð­ari hluta árs­ins 2022 og þeir gerðu á fyrri hluta þess má ætla að kostn­að­ur­inn í krónum talið verði sá mesti frá því að Alþingi fór að birta tölur um akst­ur­kostnað opin­ber­lega, eða rúm­lega 35 millj­ónir króna. Vert er að taka fram að elds­neyt­is­verð var afar hátt á fyrri hluta þessa árs og það hefur haft áhrif á akst­ur­kostn­að­inn.

Vil­hjálmur trónir á toppnum

Alþingi end­­ur­greiðir þing­­mönnum kostnað sem fellur til vegna akst­­urs þeirra sem skil­­greindur er vinn­u­tengd­­ur. Þing­­menn­irnir þurfa að sækja þessar end­­ur­greiðslur sér­­stak­­lega með því að leggja fram gögn sem sýna fram á akstur hafi átt sér stað. Greiðsl­­urnar eru skatt­frjáls­­ar.

Í þess­ari sam­an­tekt er akst­ur­kostn­aður sam­an­tal­inn kostn­aður Alþingis vegna notk­unar þing­manna á eigin bíl­um, leigu þeirra á bíla­leigu­bíl­um, elds­neytis­kostn­aður og annar til­fallandi kostn­aður eins og gjald í jarð­göng. 

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Mynd: Bára Huld Beck

Sá þing­maður sem keyrði fyrir mest fé á fyrri hluta árs­ins 2022 var Vil­hjálmur Árna­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks. Heild­ar­kostn­aður vegna keyrslu hans var 1.114 þús­und krónur á tíma­bil­inu. Skammt á eftir kom Haf­dís Hrönn Haf­steins­dótt­ir, þing­maður Fram­sókn­ar­flokks, en sam­an­lagður kostn­aður hennar var 1.090 þús­und krónur á tíma­bil­inu.

Ásmundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks hefur verið sá þing­maður sem keyrt hefur fyrir mest fé á und­an­förum árum. Í fyrra nam sam­an­lagður akst­ur­kostn­aður hans 2,6 millj­ónum króna en hann hefur verið hóf­sam­ari í ár og keyrt fyrir 1.044 þús­und krónur á fyrri hluta árs. Sam­an­lagt hefur kostn­aður Alþingis vegna akst­urs Ásmundar frá því að hann sett­ist á þing árið 2013 numið um 35 millj­ónum króna. 

Þeir þrír þing­menn sem raða sér í efstu sætin á list­anum yfir þá sem keyra mest eru allir þing­menn Suð­ur­kjör­dæm­is. Sá eini utan þeirra sem keyrt hefur fyrir meira en eina milljón króna á fyrstu sex mán­uðum árs­ins er Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, þing­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norð­aust­ur­kjör­dæmi, en sam­an­lagður akst­ur­kostn­aður hans er 1.032 þús­und krónur á tíma­bil­in­u. 

Krafa um að kostn­að­ur­inn yrði gerður opin­ber

Akst­­ur­s­greiðslur þing­manna komust í hámæli í byrjun árs 2018 þegar for­­seti Alþingis svar­aði í fyrsta sinn fyr­ir­­spurn um þá tíu þing­­menn sem þáðu hæstu end­­ur­greiðsl­­urnar vegna akst­­urs fimm árin á und­­an. Svarið var ekki per­­són­u­­grein­an­­legt en í ljós kom að fjórir þing­­menn hefðu þegið sam­tals 14 millj­­ónir króna í akst­­ur­­send­­ur­greiðsl­­ur, sem var tæp­­lega helm­ingur allra end­­ur­greiðslna. Síðar stað­­festi Ásmundur Frið­riks­son að hann væri sá sem keyrði mest. 

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Mynd: Bára Huld Beck

Í kjöl­farið varð það krafa þings, þjóðar og fjöl­miðla að allar greiðslur vegna akst­­­­urs yrðu gerðar opin­berar og að þær yrðu per­­­­són­u­­­­grein­an­­­­leg­­­­ar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þing­­­­menn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opin­ber­­­­ar, sund­­­­ur­lið­aðar og mörg ár aftur í tím­ann. Hvort sem um væri að ræða hús­næð­is­­­­styrk, greiðslur vegna flugs eða kostn­aður vegna bíla­­­­leig­u­bíla. Allt ætti að koma upp á borð­ið.

Það var gert og þær upp­­lýs­ing­­arnar vöktu upp mikla reiði og ásak­­­­anir um mög­u­­­­lega sjálftöku þing­­­­manna.

For­­­sæt­is­­­nefnd ákvað að bregð­­­­ast við og allar upp­­­­lýs­ingar um kostnað sem fylgir störfum þing­­­­manna er nú birtur mán­að­­­­ar­­­­lega. Auk þess var ákvæði í reglum um ­­þing­fara­kostn­að, sem fjallar um bíla­­­­leig­u­bíla, gert skýr­­­­ara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þing­­­­menn séu að nota eigin bif­­­­reið­­­­ar. Breyt­ing­­­­arnar náðu einkum til þing­­­­manna sem falla undir svo­­­­­kall­aðan heim­an­akst­­­­­ur, þ.e. akstur til og frá heim­ili dag­­­­­lega um þing­­­­­tím­ann. Það eru þing­­­­­menn sem búa í nágrenni Reykja­víkur (á Suð­­­­­ur­­­­­nesjum, Vest­­­­­ur­landi, Árnes­­­­­sýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bif­­­­­reið­um, sem kemur til end­­­­­ur­greiðslu, varð eftir breyt­ing­­­­arnar bund­inn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kíló­­­­metra­­­­fjölda á skrif­­­­stofa Alþingis láta umræddum þing­­­­manni í té bíla­­­­leig­u­bíl.

Mesta breyt­ingin sem orðið hefur síð­­­ast­liðin ár er því sú að þing­­­menn keyra nú mun meira á bíla­­­leig­u­bílum en áður. Sú til­­­hneig­ing hefur stökk­breyst eftir að akst­­­ur­s­greiðsl­­­urnar voru opin­ber­aðar í fyrsta sinn í byrjun árs 2018. 

Vil­hjálmur Árna­son er nú eini þing­mað­ur­inn sem sker sig úr hópnum þar sem hann not­ast nær ein­vörð­ungu við eigin bíl og fær svo end­ur­greiddan kostnað vegna þeirrar notk­unar frá Alþing­i. 

Þeir tíu þing­menn sem keyrðu mest á fyrri hluta árs­ins 2022:

Vil­hjálmur Árna­son Sjálf­stæð­is­flokki 1.114.687 krónur

Haf­dís Hrönn Haf­steins­dóttir Fram­sókn­ar­flokki 1.089.999 krónur

Ásmundur Frið­riks­son Sjálf­stæð­is­flokki 1.043.516 krónur

Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son Fram­sókn­ar­flokki 1.031.844 krónur

Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir Vinstri grænum 971.698 krón­ur 

Birgir Þór­ar­ins­son Sjálf­stæð­is­flokki 958.615 krónur

Stefán Vagn Stef­áns­son Fram­sókn­ar­flokki 942.122 krónur

Har­aldur Bene­dikts­son Sjálf­stæð­is­flokki 907.360 krónur

Ingi­björg Isak­sen Fram­sókn­ar­flokki 841.957 krónur

Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dóttir Fram­sókn­ar­flokki 827.980 krón­ur. 

Bjarkey í efsta sæti yfir ferða­kostnað inn­an­lands

Kjarn­inn tók einnig saman kostnað vegna flug­ferða þing­manna inn­an­lands og kostnað sem Alþingi greiðir vegna gist­ingar og fæði. Sam­an­lagt flugu, gistu og borð­uðu þing­menn fyrir um 8,2 millj­ónir króna á fyrri hluta árs. Tæp­lega 80 pró­sent kostn­aðar vegna þessa er til­kom­inn vegna flug­ferða inn­an­lands. Þar, líkt og með akst­urs­kostn­að­inn, eru lands­byggð­ar­þing­menn fyr­ir­ferða­mestir þegar kemur að kostn­aði enda þurfa þeir að sækja vinnu sína til Reykja­víkur á sama tíma og þorri þeirra heldur heim­ili í heima­byggð. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Mynd: Bára Huld Beck

inn þing­maður kost­aði Alþingi meira en eina milljón króna vegna þessa á fyrstu sex mán­uðum árs­ins, Bjarkey Olsen Gunn­ars­dótt­ir, þing­maður Vinstri grænna. Alls nam kostn­aður hennar vegna flug­ferða, gist­ingar og fæðis 1.062 þús­und krónum á tíma­bil­in­u. 

Þeir tíu þing­menn sem flug­u/g­ist­u/­borð­uðu mest á fyrri hluta árs­ins 2022:

Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir Vinstri grænum 1.062.449 krónur

Ingi­björg Isak­sen Fram­sókn­ar­flokki 971.865 krónur

Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son Fram­sókn­ar­flokki 884.235 krónur

Njáll Trausti Frið­berts­son Sjálf­stæð­is­flokki 826.160 krónur

Líneik Anna Sæv­ars­dóttir Fram­sókn­ar­flokki 746.902 krónur

Logi Ein­ars­son Sam­fylk­ing­unni 658.499 krónur

Halla Signý Krist­jáns­dóttir Fram­sókn­ar­flokki 398.095 krónur

Jódís Skúla­dóttir Vinstri grænum 281.197 krónur

Diljá Mist Ein­ars­dóttir Sjálf­stæð­is­flokki 254.425 krónur

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir Við­reisn 214.725 krónur

Þrír þing­menn kom­ast bæði á list­ann yfir þá þing­menn sem keyra mest og þá þing­menn sem fljúga, gista og borða fyrir mest fé frá Alþingi. Bjarkey er sú eina sem nær að vera með ferða­kostnað inn­an­lands yfir tveimur millj­ónum króna á fyrstu sem mán­uðum árs­ins, en hún ferð­að­ist sam­tals fyrir 2.034.147 krónur inn­an­lands á tíma­bil­inu. Þór­ar­inn Ingi kom þar næstur með með ferða­kostnað inn­an­lands upp á sam­tals 1.916.079 krónur og kostn­aður Ingi­bjargar flokks­systur hans var sam­an­lagt 1.813.822 krón­ur. Öll þrjú eru þing­menn Norð­aust­ur­kjör­dæm­is.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar