Rússland hefur verið meira í fréttum hérlendis en venjulega undanfarið, vegna innflutningsbanns og viðskiptaþvingana. Fyrir tæpum tveimur árum síðan birtist eftirfarandi fréttaskýring í útgáfu veftímarits Kjarnans og Kjarninn ákvað að rifja hana upp í tilefni af Rússlandsumræðunum. Rússnesk stjórnmál eru flókin og margþætt. Ýmislegt hefur gerst síðan fréttaskýringin var skrifuð en segja má að umrædd klíkustjórnmál og deilur milli ólíkra klana hafi enn frekar komið upp á yfirborðið síðan.
Undanfarna mánuði hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti sýnt tilburði til þess að herða tök sín enn frekar á rússnesku samfélagi. Meðal ástæðna þess eru fjölmenn mótmæli gegn honum og stjórnvöldum. Raunveruleg stjórnarandstaða er komin upp á yfirborðið og við því ætla stjórnvöld að bregðast af hörku.
Á sama tíma og þetta á sér stað fer fram valdabarátta sem sumir lýsa sem stríði milli klíkanna í kringum forsetann. Fréttaskýrendur þykjast í það minnsta margir sjá að sitthvað skrýtið eigi sér nú stað á bak við tjöldin í Kreml.
Mál stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny er besta dæmið um það, en hann var handtekinn og dæmdur í fimm ára fangelsi í sumar. Eftir mikil mótmæli var honum sleppt úr haldi innan við sólarhring eftir að dómur var kveðinn upp yfir honum. Honum var einnig leyft að bjóða sig fram til borgarstjóra í Moskvu, á meðan áfrýjun á málinu var til meðferðar fyrir dómstólum. Hann tapaði kosningunum, eins og búist var við, en hlaut tæplega þrjátíu prósent atkvæða. Það telst stórsigur fyrir stjórnarandstæðing. Fyrr í þessum mánuði komst áfrýjunardómstóll að þeirri niðurstöðu að Navalny væri sekur um þjófnað en dómurinn yfir honum var skilorðsbundinn. Það þýðir að hann er frjáls ferða sinna en má ekki bjóða sig fram í kjörið embætti.
Flestir eru sammála um að stjórnvöld hafi haft mikið um einkennilega framvindu málsins að segja, og er hún talin til merkis um breytingar á baráttunni milli valdahópa.
Sergei Ivanov, starfsmannastjóri Pútíns, er samstarfsmaður Pútíns til fjölda ára, allt frá því að Pútín réði Ivanov til öryggislögreglunnar FSB.
Hverjar eru klíkurnar?
Á bak við tjöldin í Kreml takast á flóknir hópar valdamanna, sem hafa áhrif á Pútín forseta með ýmsum hætti. Hóparnir eru oft uppnefndir klön og margir hafa reynt að skilgreina hópana. Flestir eru sammála um tilvist að minnsta kosti tveggja valdaklíka en sumir telja þær allt að tíu. Mikill hluti stjórnmála í Rússlandi myndi flokkast sem óformleg stjórnmál og fer fram bak við luktar dyr en ekki í þinginu. Hlutir eru ákveðnir á reglulegum en óformlegum fundum með forsetanum, sem engar fundargerðir eða önnur sönnunargögn eru til um. Aðeins hluti ríkisstjórnarinnar situr fundi af þessu tagi, auk þeirra sem eru í innsta hring starfsfólks forsetans. Klönin svokölluðu koma að mörgu leyti í stað hefðbundinna stjórnmálaflokka, sem hafa veika stöðu.
Valdameiri hópurinn er yfirleitt nefndur siloviki, sem gæti á íslensku útlagst sem völd eða styrkur. Hópurinn dregur nafn sitt af því að langflestir þeirra sem honum tilheyra störfuðu í leyniþjónustunni, lögreglunni eða hernum eins og forsetinn sjálfur. Þessi hópur manna var farinn að hafa áhrif á meðan Boris Jeltsín var forseti en völdin jukust til muna í fyrri forsetatíð Pútíns. Undir stjórn Dimitrís Medvedev dró aðeins úr fjölda þeirra í stjórnunarstöðum en þeir hafa sótt í sig veðrið á ný eftir að Pútín hóf þriðja kjörtímabil sitt. Þessi hópur ber ábyrgð á því að risastór auðlindafyrirtæki, sem voru einkavædd í tíð Jeltsíns, voru aftur færð í eigu ríkisins. Óligarkar Jeltsíns voru hraktir á brott og menn úr siloviki-hópnum stjórna nú flestum fyrirtækjanna. Siloviki-menn vekja ótta margra, enda hafa þeir alla burði til að notfæra sér leyniþjónustuna og aðra slíka innviði samfélagsins sér til framdráttar, og þá gegn keppinautum sínum.
Hinn hópurinn er kallaður frjálslyndur, þótt hann teljist það ekki á vestrænan mælikvarða. Uppistaðan í þessum hópi er lögfræðingar, hagfræðingar og embættismenn sem margir hverjir eru frá Sankti Pétursborg og þekkja forsetann þaðan. Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra og fyrrverandi forseti, tilheyrir þessum hópi manna. Hópurinn er hlynntari alþjóðavæðingu, opnu markaðshagkerfi og einkavæðingu upp að vissu marki.
Dimitri Medvedev forsætisráðherra og Viktor Ivanov, yfirmaður fíkniefnamála. Þeir tilheyra hvor sinni klíkunni í stjórn landsins. MYND: EPA
Áframhaldandi barátta um yfirráð
Hafa ber í huga að þessir tveir hópar breytast ört og eru langt frá því að vera samrýmdir og einhuga. Þrátt fyrir að þeir berjist um völdin eru þeir ekki gjörólíkir. Það sem þá greinir helst á um eru efnahagslegir þættir. Báðir hóparnir eru fylgjandi mjög sterku ríki, sem sýnir jafnvel einræðistilburði og hefur sterkan leiðtoga.
Leiðtoginn Pútín er það sem sameinar þá og veitir þeim völdin, og hann er yfir flokkadrættina hafinn. Báðir hóparnir þarfnast hans og hann þarfnast þeirra beggja og hefur reynt að halda nokkurs konar jafnvægi á milli þeirra.
Undanfarið hefur forsetinn þó verið talinn hallast enn meira að siloviki-mönnum. Það skýrist að einhverju leyti af mótmælunum og tilraunum til að stemma stigu við þeim og annarri andstöðu gegn honum. Þá hefur fjöldi ríkra þingmanna hætt störfum á árinu, eftir að nýjar reglur um takmörkun á eignum þeirra erlendis voru samþykktar. Sú ráðstöfun hefur opinberlega verið sögð til að stöðva spillingu, sem enn er gríðarleg í rússneskum stjórnmálum, en sérfræðingar segja margir að hún sé í raun hluti af tilraunum forsetans til að herða tök sín og draga úr tengslum við útlönd.
Staða forsætisráðherrans Medvedevs hefur einnig veikst mikið frá því að hann þurfti að víkja sem forseti fyrir Pútín. Ráðgjafar sem hann réði til forsetaembættisins hafa verið látnir hætta og yfirheyrðir vegna meintra lögbrota. Margir skipta klíkunum tveimur upp í þá sem eru með og á móti Medvedev, og völd andstæðinga hans hafa aukist undanfarið.
Áframhaldandi mótmæli og háværari andstaða gegn stjórnvöldum mun aðeins halda áfram að auka á spennuna milli valdaklíkanna í Rússlandi. Það gæti þó liðið langur tími þar til spennan kemst enn meira upp á yfirborðið, ef það gerist, enda enn fjögur og hálft ár eftir af kjörtímabili Pútíns. Ekki er langt síðan hann gaf í skyn að hann hygðist bjóða sig fram til fjórða kjörtímabilsins og þá gæti hann verið forseti Rússlands allt til ársins 2024.