Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, var lækkaður í fyrra úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna. Alls borga fimm fjármálafyrirtæki skattinn en þorra hans greiða stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Áður hafði verið stefnt að því að lækka skattinn niður í skrefum á fjögurra ára tímabili og að sú lækkun myndi að fullu verða komin til framkvæmda árið 2024. Þessari lækkun var flýtt með vísun í að efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins hefðu kallað á það.
Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu vegna álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2020 sem birt var í gær.
Skörp lækkun bankaskattsins, hefur ekki skilað því að vaxtamunur banka hafi lækkað sem neinu nemur en spilað inn í miklar hækkanir á virði hlutabréfa í þeim bönkum sem skráðir eru á markað.
Frestað til að tryggja ríkinu meiri tekjur
Síðasta ríkisstjórn, sem nú er við það að endurnýja samstarf sitt, hafði lengi stefnt að því að lækka skattinn, sem hafði skilað ríkissjóði miklum tekjum í kjölfar bankahrunsins, fyrst með að leggjast af krafti á þrotabú föllnu bankanna og síðan með því að leggjast á starfandi íslenska viðskiptabanka.
Frumvarp um að lækka bankaskattinn í skrefum var lagt fram 2018 og samkvæmt því átti það ferli að eiga sér stað milli 2020 og 2023. Í lok þess tímabils átti skatturinn að verða 0,145 prósent.
Í júní 2019 var ákveðið að fresta þessum áformum um eitt ár og að lækkun skattsins myndi hefjast 2021 en yrði komin að öllu leyti til framkvæmda á árinu 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Sagði að skatturinn yrði að fara
Síðla árs 2019 var frumvarp um að lækka bankaskatt í þrepum svo samþykkt. Samkvæmt því átti að lækka skattinn niður í 0,145 prósent í þremur áföngum á árunum 2021 til 2024.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði meðal annars í aðdraganda þess í stöðuuppfærslu á Twitter að skatturinn þyrfti að fara. Það væri grundvallaratriði að íslenskir bankar myndu búa við eðlileg og samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum.
Þetta er mikilvægt. Grundvallaratriði er einnig að bankarnir búi við eðlileg, samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum. Þessi sérstaki skattur þarf því að fara. https://t.co/U8yrQZ7ayQ
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) October 30, 2019
Þar hlekkjaði Bjarni í frétt Fréttablaðsins sem birst hafði sama dag þar sem kom fram að ef sérstakur bankaskattur yrði afnumin með öllu myndi söluandvirðið sem ríkissjóður gæti vænst að fá fyrir hlutafé í Íslandsbanka og Landsbanka, yrðu þeir seldir að fullu, hækka um 70 milljarða króna.
Í greinargerð frumvarpsins segir að með því yrði komið til móts við gagnrýni hagsmunasamtaka fjármálafyrirtækja á fjárhæð bankaskattsins „í því skyni að liðka fyrir lækkun útlánavaxta og hækkun inneignarvaxta til hagsbóta fyrir almenning.“
Gríðarlegur hagnaður í heimsfaraldri
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins var lækkuninni svo flýtt og gjaldhlutfallið var fært niður í 0,145 prósent vegna skulda í árslok 2020. Hún kom því öll til framkvæmda í fyrra í stað þess að verða í skrefum á fjórum árum.
Auk þessa var sveiflujöfnunarauki á eigið fé banka afnumin tímabundið og stýrivextir lækkaðir niður í 0,75 prósent, sem hratt af stað mikilli aukningu á virði eigna sem bankar sýsla með og fjármagna, sérstaklega hlutabréfa og íbúða. Breytinguna má glöggt sjá í uppgjörum bankanna síðan að þetta var ákveðið.
Eftir að hafa tapað samtals 7,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 enduðu stóru bankarnir þrír með sameiginlegan hagnað upp á 29,8 milljarða króna á öllu síðasta ári.
Þegar markaðsvirði þeirra þriggja banka sem skráðir eru á markaði er skoðað er ljóst að ákvarðanir stjórnvalda og seðlabanka, meðal annars skörp lækkun bankaskatts, hefur leitt af sér miklar hækkanir á virði hlutabréfa. Á einu ári hafa hlutabréf í Arion banka hækkað um 131 prósent, hlutabréf í Kviku banka um 107 prósent og bréf í Íslandsbanka hafa hækkað um 60 prósent frá því í sumar, þegar hann var skráður á markað.
Sagðir hafa svigrúm til að lækka vaxtamun
Bankarnir hafa hins vegar ekki nýtt þetta svigrúm til að bjóða viðskiptavinum sínum stórlega bætt kjör, líkt og hagsmunagæsluarmur þeirra boðaði að myndi gerast ef bankaskattur myndi lækka. Þótt vaxtakjör hafi snarbatnað á síðasta ári, og fram á vorið 2021, þá er ástæða þess lægri stýrivextir Seðlabanka Íslands.
Vaxtamunur stóru bankanna þriggja var á bilinu 2,4-2,7 prósent á fyrri helmingi yfirstandandi árs, sem er mjög svipað og hann var á sama tímabili árið 2020 og sem hann var að meðaltali allt árið 2019, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent í fyrra. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.
Stjórn VR, stærsta stéttarfélag landsins, sendi frá sér áskorun til stóru bankanna þriggja í byrjun september síðastliðins þar sagði að það væri „holur hljómur í þeirri fullyrðingu bankanna, sem auðvitað allir hafa orðmiklar stefnur um samfélagsábyrgð, að hinn mikli hagnaður skili viðskiptavinum betri kjörum.“ Í
tölum sem VR birti kom meðal annars fram að meðalvextir útlána bankanna væru 5,22 prósent á móti aðeins eitt prósent meðalvöxtum innlána sem gerði mismun uppá heil 4,22 prósentustig. „Álagning íslenskra banka er hreinlega allt of mikil og hana verður að lækka. Það mætti vel lækka vaxtamuninn um 1,25 prósentustig svo hann sé nær því sem gerist í nágrannalöndunum og með því mætti skila 40 milljörðum króna árlega til fyrirtækja og einstaklinga í landinu.“