Landsbankinn, sem er 98 prósent í eigu íslenska ríkisins, neitar að gefa upp á hvað bankinn seldi 0,41 prósent hlut í Borgun, sem hann auglýsti til sölu í maí síðastliðnum og seldi að lokum til félagsins Fasteignafélagið Auðbrekka 17 ehf. Þrír aðilar sýndu því áhuga að eignast hlutinn og komu þrjú tilboð í hann. Hluturinn var að lokum seldur hæstbjóðanda, að því er bankinn hefur upplýst, en eins og áður segir neitar bankinn að gefa upp á hvaða verði hluturinn var seldur, og ber því við að samkvæmt sölusamningi þá geti bankinn ekki upplýst um verðið nema með samþykki kaupanda. Sem ekki liggi fyrir.
Svar Landsbankans við fyrirspurn Kjarnans var þetta: „Hlutabréfin voru seld hæstbjóðanda. Verðið var í samræmi við verð í sölu Landsbankans á hlutabréfum í Borgun árið 2014, að teknu tilliti til arðgreiðslu og ávöxtunar á hlutabréfamarkaði í millitíðinni.“ Engar frekari eða nákvæmari upplýsingar fengust frá bankanum um hvert söluverðið hefði verið.
Þann 29. mars 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. sameinaður Landsbankanum hf. Við sameininguna eignaðist bankinn 1.806.611 hluti í Borgun hf. Eignarhluturinn nam um 0,41 prósent af heildarhlutafjár í félaginu.
Verðið var gefið upp þegar selt var bak við luktar dyr
Í lok árs í fyrra, í nóvembermánuði, seldi Landsbankinn Íslands 31,2 prósent hlut sinn í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem stofnað var skömmum fyrir kaupin á hlutnum. Ákveðið var að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð vegna reksturs fyrirtækisins í fyrra á aðalfundi fyrirtækisins, en hann fór fram í febrúar. Þetta var fyrsta arðgreiðslan úr félaginu frá árinu 2007 og komu tæplega 250 milljónir króna koma í hlut nýrra hluthafa.
Umdeild sala
Salan á Borgun var umdeild en hluturinn var ekki auglýstur til sölu. Íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með um 98 prósent hlut. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landsbankans að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli. Þá voru einnig sterkar vísbendingar um það að verðið hefði verið í lægri kantinum miðað við hefðbundna mælikvarða verðmata á sambærilegum fyrirtækjum. Eins og áður segir er bankinn ekki tilbúinn að gefa upp söluverðið eftir að hluturinn var auglýstur til sölu.
Stofnað í október í fyrra
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð, samkvæmt stofnskjölum félagsins.
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.