Landsbankinn bætti langmestu við sig af íbúðalánum allra á síðasta ári. Alls jukust íbúðalán bankans til einstaklinga um 39 milljarða króna. Á sama tíma jukust íbúðalán Arion banka til einstaklinga um 13,6 milljarða króna og íbúðalán Íslandsbanka til einstaklinga um 11,0 milljarða króna.
Almenn íbúðalán Íbúðalánasjóðs drógust hins vegar saman um 21,6 milljarða króna á árinu 2014. Fyrir hverja krónu sem hann lánar út þá greiða viðskiptavinir sjóðsins upp rúmlega fimm krónur af lánum. Hlutdeild Íbúðalánasjóðs á íbúðalánamarkaðinum er samt sem áður um 50 prósent. Þetta kemur fram í samantekt Kjarnans um íbúðalánamarkaðinn.
Landsbankinn bætir langmestu við sig
Mikil barátta stendur nú yfir milli viðskiptabankanna um að heilla nýja íbúðalántakendur. Líkast til hefur enginn bankanna lagt meira í þá vegferð undanfarin misseri en Landsbankinn. Auglýsingar hans sem beinast að fyrstu kaupendum eða þeim sem ætla að endurfjármagna virtust á tímabili vera allstaðar. Kjarninn sendi fyrirspurn á viðskiptabankanna þrjá og spurði þá um aukningu íbúðalána á síðasta ári. Landsbankinn svaraði því til að aukning íbúðalána hjá honum á síðasta ári hafi verið 39 milljarðar króna. Um 65 prósent lánanna voru verðtryggð en 35 prósent óverðtryggð.
Alls nema íbúðalán bankans um 164,5 milljörðum króna og hann er því enn minnstur viðskiptabankanna þriggja á þessum markaði, þótt hann eigi ekki langt í land við að ná Íslandsbanka með þessu áframhaldi. Íslandsbanki bætti við sig um ellefu milljörðum króna af íbúðalánum á árinu 2014 og heildarumfang íbúðarlána hans til einstaklinga í lok þess árs nam 187 milljörðum króna.
Arion banki stærstur af viðskiptabönkunum
Út úr ársreikningum Arion banka má lesa að útlán hans jukust um 13,6 milljarða króna á síðasta ári. Bankinn er langstærstur viðskiptabankanna á íbúðalánamarkaði, en heildaríbúðarlán hans til einstaklinga námu 271,6 milljörðum króna um síðustu áramót. Sú stærð ræðst meðal annars af því að Kaupþing, sem Arion banki byggir á, var stórtækari en aðrir viðskiptabankar fyrir hrun að ná til sín viðskiptum íbúðarkaupenda. Auk þess yfirtók bankinn íbúðalán á fimmta þúsund einstaklinga þegar bankinn tók yfir 56 milljarða króna útlánasafn frá slitastjórn Dróma í lok árs 2013. Um var að ræða lán sem áður tilheyrðu Spron, Frjálsa fjárfestingarbankanum og eignasafni Seðlabanka Íslands.
Markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs hrynur
Íbúðalánasjóður er hins vegar stærstur allra á markaði. Hann birtir ekki ársreikning sinn fyrir árið 2014 fyrr en í næstu viku og því miðast tölur yfir útlán hans í þessari samantekt við stöðu útlána sjóðsins um mitt síðasta ár.
Alls voru útlán sjóðsins til einstaklinga 623,5 milljarðar króna í lok júní 2014. Staða hans á markaði hefur hins vegar farið hríðversnandi undanfarin ár. Á síðasta ári lánaði sjóðurinn til að mynda einungis 4,7 milljarða króna út í ný útlán, samkvæmt mánaðarskýrslum hans. Viðskiptavinir hans borguðu hins vegar upp 26,3 milljarða króna af lánum sínum á árinu 2014. Viðskiptavinir sjóðsins eru því að greiða upp rúmlega fimm krónur af lánum fyrir hverja eina krónu sem er tekin að láni hjá sjóðnum.
Markaðshlutdeild Íbúðalánasjóð í íbúðarlánum var talin vera á bilinu 55 til 60 prósent árið 2011, samkvæmt umsögn sem Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu inn til Alþingis það ár. Hún er nú um 44 prósent.
Lífeyrissjóðirnir standa í stað
Lífeyrissjóðir landsins eru líka stórir leikendur á íbúðalánamarkaði. Þeir lána skjólstæðingum sínum svokölluð sjóðsfélagalán sem að lang stærstu leyti ertu notuð til íbúðarkaupa. Umfang þeirra lána var 171,3 milljarðar króna í lok síðasta árs, sem var 4,8 milljörðum krónum lægra en það var í árslok 2013.
Umfang þessarra sjóðsfélagalána hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin ár. Það er til að mynda svipað í dag og það var fyrir sex árum síðan. Ein ástæða þess er sú að bannað var að taka svokallað lánsveð, þar sem foreldrar eða aðrir vildarmenn lána fólki veð í sinni eign gegn láni frá lífeyrissjóði.