Það er óhætt að segja að allt hafi orðið vitlaust í vikunni þegar tilkynnt var að laun stjórnarmanna hjá HB Granda myndu hækka um 33 prósent, beint ofan í þá ólgu sem er á vinnumarkaði, þar sem fiskverkafólkinu sem vinnur í frystihúsi félagsins stendur til boða 3,5 prósent launahækkun. Tíðindin hertu enn á þeim rembihnút sem er í kjaraviðræðunum sem stendur. Kjarninn ákvað að kanna laun stjórnarmanna allra skráðra félaga á Íslandi, hversu mikið þau munu hækka samkvæmt tillögum sem lagðar voru fyrir aðalfundi þeirra og hversu háar arðgreiðslur voru greiddar til hluthafa félaganna. Niðurstöðurnar eru áhugaverðar.
Fjögur af þeim fjórtán félögum sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað hækkuðu laun stjórnarmanna sinna um tíu prósent eða meira á milli ára. Mest var hækkunin hjá Vátryggingafélagi Íslands þar sem stjórnarmenn hækkuðu um 75 prósent í launum. Hæst launaði stjórnarmennirnir eru hjá Marel en sá lægstlaunaði hjá Nýherja. Meðallaun almennra stjórnarmanna í skráðum íslenskum félögum eru 279 þúsund krónur á mánuði, eða 21 þúsund krónum lægri en kröfur Starfsgreinasambands Íslands um lágmarkslaun fyrir fulla vinnu eru í yfirstandandi kjaradeilum. Meðallaun stjórnarformanna skráðra félaga eru töluvert hærri, eða 563 þúsund krónur á mánuði.
Skráð félög á Íslandi greiddu hluthöfum sínum samtals 20,5 milljarða króna í arð vegna frammistöðu félaganna á síðasta ári.
Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir 3,5 til 5,0 prósent hækkun launa þorra launþega landsins í þeim kjaradeilum sem nú standa yfir.
Gríðarlegar arðgreiðslur tryggingafélaga
Þrjú íslensk tryggingafélög eru skráð á markað. Hjá Sjóvá voru stjórnarlaun hækkuð úr 250 þúsund krónum á mánuði í 275 þúsund krónur á síðasta aðalfundi. Laun stjórnarformanns eru tvöföld og þar af leiðandi 550 þúsund krónur. Laun stjórnarmanna hækkuðu því um tíu prósent. Varamenn í stjórn fá greidda eingreiðslu upp á 275 þúsund krónur á ári auk þess sem þeir fá 100 þúsund krónur fyrir hvern fund sem þeir sitja. Hluthafar í Sjóvá fengu greidda fjóra milljarða króna í arðgreiðslu vegna frammistöðu ársins 2014.
Stjórnarlaun hækkuðu líka hjá Vátryggingafélagi Íslands, VÍS. Þar fóru laun óbreyttra stjórnarmanna úr 200 þúsund krónum í 350 þúsund krónur á mánuði. Formaður stjórnar hækkaði úr 400 í 600 þúsund krónur. Hækkun stjórnarlauna er því 75 prósent og hækkun stjórnarformanns nemur 50 prósentum. VÍS greiðir hluthöfum sínum 2,5 milljarða króna í arð vegna síðasta árs.
Hjá Tryggingamiðstöðinni eru kjör stjórnarmanna óbreytt á milli ára. Þar fær hver stjórnarmaður 350 þúsund krónur í laun á mánuði og stjórnarformaður tvöfalt það, alls 700 þúsund krónur. Varamenn fá 350 þúsund króna eingreiðslu árlega auk þess sem þeir fá 100 þúsund krónur fyrir hvern fund sem þeir sitja. Tryggingamiðstöðin greiddi hluthöfum sínum fjóra milljarða króna í arð vegna ársins 2014.
Önnur staða hjá Marel og Össuri
Smásölurisinn Hagar er með annarskonar uppgjörsár en önnur fyrirtæki sem skráð eru á markað. Uppgjör fyrir hluta árs 2014 liggur því ekki fyrir, heldur verður það birt næsta sumar. Þar fær almennur stjórnarmaður 250 þúsund krónur í mánaðarlaun en stjórnarformaðurinn 500 þúsund. Launin voru óbreytt á milli áranna 2013 og 2014.
Hluthafar í Högum fengu tæplega 1,2 milljarða króna greidda í arð vegna síðasta rekstrarárs sem gert hefur verið upp.
Marel og Össur eru í aðeins annarri stöðu en flest fyrirtæki sem skráð eru á íslenskan hlutabréfamarkað, þar sem eignarhald þeirra er að stórum hluta erlent og starfsemin alþjóðleg. Hjá Marel hækkuðu stjórnarlaun úr 2.500 evrum á mánuði í 2.750 (400 þúsund krónur) og laun stjórnarformanns úr 7.500 evrum (1.092 þúsund krónur) í 8.250 evrur (1.202 þúsund krónur). Alls hækkuðu því laun stjórnarmanna um tíu prósent.
Marel greiddi hluthöfum sínum um 510 milljónir króna í arð vegna ársins 2014.
Hjá Össuri hækkuðu stjórnarlaunin lítillega, eða um rúmlega þrjú prósent á milli ára. Þau eru greidd í dölum en yfirreiknuð í íslenskar krónur fær stjórnarformaðurinn um 975 þúsund krónur á mánuði, varaformaður stjórnar 585 þúsund krónur og almennir stjórnarmenn 390 þúsund krónur.
Össur greiddi hluthöfum sínum tæpan milljarð króna í arð á síðasta ári.
Alls eru 14 félög skráð í kauphöll Íslands sem stendur. Þau greiddu samtals út 20,5 milljarða króna í arð.
Fasteignafélögin stöðug
Tvö fasteignafélög eru skráð í kauphöllina. Annað þeirra, Reitir, var fyrst skráð á markað fyrr í þessum mánuði. Hjá því fær stjórnarmaður 260 þúsund krónur mánaðarlega og stjórnarformaður tvölfalda þá upphæð, eða 520 þúsund krónur á mánuði. Engin arður var greiddur út til hluthafa vegna síðasta árs.
Fasteignafélagið Reginn hefur verið á markaði frá því í júlí 2012. Það félag greiðir heldur ekki út arð vegna síðasta árs. Þóknun stjórnarmanna hjá Reginn er 250 þúsund krónur á mánuði og stjórnarformaður fær tvöfalda þá þóknun. Kjör stjórnarmanna eru óbreytt milli ára.
Meint taktleysi HB Granda
Líkt og áður sagði varð allt vitlaust í vikunni þegar spurðist út að laun stjórnarmanna í HB Granda, sem skráð var á markað í fyrra, myndu hækka um 33 prósent. Stjórnarmenn í félaginu fá nú 200 þúsund krónur greiddar á mánuði í stað 150 þúsund króna og stjórnarformaðurinn tvöfalda þá upphæð. HB Grandi greiddi hluthöfum sínum 2,7 milljarða króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Eldsneytisþjónusturisinn N1 hækkar líka launagreiðslur stjórnarmanna sinna á milli ára. Áður fékk almennur stjórnarmaður 275 þúsund krónur á mánuði, varaformaður stjórnar 412.500 krónur og stjórnarformaðurinn 550 þúsund. Á aðalfundi í vor voru greiðslur stjórnarmanna hækkaðar í 290 þúsund, greiðslur varaformanns í 435 þúsund og laun stjórnarformanns í 580 þúsund krónur. Alls er um að ræða 5,5 prósent hækkun. N1 greiddi hluthöfum sínum 840 milljónir króna í arð vegna frammistöðu félagsins á síðasta ári.
Tæknifyrirtækin hófstilltari
Eitt fjarskiptafyrirtæki er skrá á íslenskan hlutabréfamarkað, Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone á Íslandi. Félagið greiddi hluthöfum sínum 219 milljónir króna í arð vegna ársins 2014. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að hækka laun stjórnarmanna um tæp þrjú prósent. Stjórnarformaður félagsins fær nú 421.500 krónur á mánuði en almennir stjórnarmenn 210.700 krónur. Nýherji greiðir hluthöfum sínum ekki út arð vegna frammistöðu síðasta árs, þótt mikill viðsnúningur hafi orðið á rekstri félagsins. Það hækkar hins vegar laun stjórnarmanna sinna lítillega. Stjórnarmenn fá nú 130 þúsund krónur á mánuði, eða fimm þúsund krónum meira en áður, og stjórnarformaðurinn 390 þúsund krónur í stað 375 þúsund króna áður.
Fjöreggin græða á tá og fingri
Fjöregg Íslands, Icelandair og Eimskip, eru bæði skráð í kauphöll. Icelandair hefur gengið mjög vel undanfarin ár samhliða sprengingu í íslenskri ferðaþjónustu og á síðasta aðalfundi var samþykkt að greiða 2,5 milljarða króna til hluhafa í arð. Þar var líka samþykkt að halda launum stjórnarmanna óbreyttum milli ára. Stjórnarformaður félagsins fær því áfram 550 þúsund krónur, varaformaðurinn 412.500 krónur og almennir stjórnarmenn 275 þúsund krónur.
Eimskip borgar hluthöfum sínum 933 milljónir króna í arð vegna síðasta árs. Á síðasta aðalfundi var ákveðið að hækka laun stjórnarmanna um fjögur prósent. Stjórnarformaðurinn fær nú 550 þúsund krónur, varaformaðurinn 415 þúsund krónur og almennir stjórnarmenn 275 þúsund króna.
Viðbót 16. apríl:
Rangt var farið með laun stjórnarmanna í Marel í upphaflegri frétt. Það hefur verið leiðrétt og fréttinn uppfærð í takt við réttar upplýsingar.