Margir þekkja máltækið „Róm var ekki byggð á einum degi“ sem gjarna er notað um verk sem vandað er til og taka langan tíma. Hið síðarnefnda á sannarlega við um Legoland Korea en frá því að samningur um framkvæmdir við garðinn var undirritaður og þangað til opnað var liðu 11 ár.
Skemmtigarðurinn er á Hajung-eyju í Geumho-fljóti um 150 kílómetrum fyrir sunnan höfuðborgina Seúl. Í Gangwondo-héraði. Legoland Korea er fyrsti erlendi skemmtigarðurinn, ef svo má að orði komast, sem stofnsettur hefur verið í Suður-Kóreu.
Legoland Korea er tíundi Lego-skemmtigarðurinn í heiminum og sagður sá næststærsti. Svæðið er samtals um 280 þúsund fermetrar, til samanburðar má nefna að gólfflötur Smáralindar er 62 þúsund fermetrar. Í skemmtigarðinum eru meðal annars 150 „hótelherbergi“ gerð úr Legokubbum.
Sáu fyrir sér þúsundir starfa
Stofnun skemmtigarðs eins og Legoland Korea krefst mikils undirbúnings. Árið 2010 komu fyrst fram hugmyndir um að reisa Lego-skemmtigarð á Hajung-eyju. Stjórnvöld sáu þarna tækifæri til að efla atvinnulífið á svæðinu, margir myndu fá vinnu í skemmtigarðinum og við ýmis konar þjónustu, á veitingastöðum, hótelum o.s.frv.
Áætlanir gerðu ráð fyrir að samtals yrðu til um níu þúsund störf í kringum starfsemi Legoland Korea. Áætlanir gerðu jafnframt ráð fyrir að tvær milljónir gesta kæmu árlega í skemmtigarðinn fyrstu tvö til þrjú árin en færi svo fjölgandi ár frá ári.
Fornminjar í jörðu
Íbúar á svæðinu í nágrenni hins fyrirhugaða skemmtigarðs töldu sig vita að á Hajung-eyjunni, þar sem Legoland Korea átti að rísa, væru fornminjar í jörðu. Frásagnir um þær höfðu borist milli kynslóða öldum saman.
Þegar jarðvegsrannsóknir vegna fyrirhugaðra framkvæmda hófust kom í ljós að sá grunur var á rökum reistur. Og fornminjarnar reyndust bæði meiri og merkilegri en nokkurn hafði grunað. Eitt merkilegasta fornminjasvæði í landinu var að finna nákvæmlega þar sem Legoland Korea hafði verið valinn staður. Þúsundir mörg hundruð ára gamalla gripa var að finna í jörðu á svæðinu. Kóreskir fornleifafræðingar sögðu svæðið ómetanlegan menningararf sem ekki mætti fyrir nokkurn mun eyðileggja.
Fjölmörg samtök áhugafólks víða um heim mótmæltu fyrirhuguðum framkvæmdum og sögðu það ganga glæpi næst að leggja svæðið á Hajung eyju undir skemmtigarð. „Hverjum dytti í hug að ryðja burt Stonehenge risabjörgunum, nú eða Parthenon á Akropolishæð í Aþenu, eða píramídunum í Egyptalandi, til að reisa Legoland? Ekki nokkrum lifandi manni. Og slíkar hugmyndir myndu kalla á mótmæli um allan heim,“ sagði í samþykkt samtaka áhugafólks í Suður-Kóreu.
Mótmæli og tafir
Samtökin Voluntary Agency Network of Korea (Vank) með 120 þúsund meðlimi í Suður-Kóreu og 30 þúsund til viðbótar víða um heim skoruðu á Unesco, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, að kanna hvort hægt væri með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir að Legoland Korea yrði reist á Hajung-eyjunni.
Allt kom fyrir ekki. Hart var deilt um skemmtigarðinn í héraðsstjórninni (þar sitja 46) sem á endanum samþykkti framkvæmdirnar, sem þá voru reyndar löngu hafnar.
26. mars síðastliðinn fór fram, í ausandi rigningu, sérstök opnunarathöfn í Legoland Korea, meðal gesta þar var danski sendiherrann í Suður- Kóreu. Allan aprílmánuð var svo verið að „prufukeyra“ tæki og tól í skemmtigarðinum sem var formlega opnaður 5. maí.
Fjölmiðlar í Suður-Kóreu fjölluðu ítarlega um opnunina en gagnrýnin hélt líka áfram. Meðal annars lýstu margir efasemdum um að tilkoma Legoland Korea myndi draga úr atvinnuleysi á svæðinu þar sem næstum 90 prósent starfa í skemmtigarðinum væru bundin við sumartímann. Sömuleiðis að gestir myndu ekki sækja veitingastaði utan Legoland Korea eða versla í búðum heimamanna.
Ekki allt í lukkunnar velstandi
Fljótlega eftir að Legoland Korea var opnað kom í ljós að áætlanir um aðsóknina voru byggðar á mikilli bjartsýni, íbúar landsins flykktust ekki í skemmtigarðinn. Margir voru ósáttir við staðarvalið, aðgöngumiðarnir sagðir alltof dýrir, sömuleiðis gjald í einstök tæki og verð á veitingum himinhátt, eins og komist var að orði í dagblaðinu The Korea Times.
Það hafa sem sé ekki komið jafn miklir peningar í kassann og vonast hafði verið til. Nýlega hafa komið fram upplýsingar sem reitt hafa íbúa Gangwondo-héraðs til reiði. Gangwondo er eitt fámennasta hérað Suður-Kóreu, íbúarnir innan við tvær milljónir.
Ábyrgð og gjaldþrot
Fyrirtækið sem byggði Legoland Korea heitir Iwon Jeil Cha. Það var stofnað til að byggja skemmtigarðinn. Gangwondo hérað er eigandi að tæplega helmings hlut í fyrirtækinu og til að fjármagna byggingu skemmtigarðsins fékk fyrirtækið lán frá Seðlabanka Suður-Kóreu.
Lánsupphæðin samsvaraði 22 milljörðum íslenskra króna. Bankinn samþykkti lánið vegna þess að stjórn Gangwondo héraðs gekkst í ábyrgð fyrir láninu og það þýddi að lánshæfismatið var A1 sem er það hæsta í landinu. Lánið átti að greiða upp fyrir lok september sl. en Iwon Jeil Cha gat ekki borgað og nú hefur fyrirtækið verið lýst gjaldþrota.
Alvarlegar afleiðingar
Gjaldþrot Iwon Jeil Cha hefur að líkindum mikil áhrif. Það hefur lengi tíðkast að stór fyrirtæki í Suður-Kóreu fái lán frá seðlabanka landsins með ábyrgð ríkisrekins ábyrgðasjóðs, Korea Credit Guarantee Fund. Í könnun meðal forsvarsmanna 600 stærstu fyrirtækja landsins kom fram að þeir teldu að framvegis yrði mun erfiðara að fá lán, sem þó væru bráðnauðsynleg til að „halda hjólunum“ gangandi.
Skömmu eftir að upplýsingarnar um gjaldþrot Iwon Jeil Cha komu fram í dagsljósið var tilkynnt að Legoland Korea yrði lokað í vetur en opnað aftur í mars. Stjórnendum skemmtigarðsins hafði láðst að tilkynna starfsfólkinu um lokunina og það yrði launalaust í vetur. Og fékk ekki loforð um áframhaldandi störf þegar aftur yrði opnað.
Forsvarsmenn Merlin-fyrirtækisins sem rekur Legoland Korea sögðu í tölvupósti til danska dagblaðsins Politiken að vandræði byggingafyrirtækisins Iwon Jeil Cha hefðu engin áhrif á rekstur skemmtigarðsins. „Við erum bjartsýnir“.