Í dag var haldinn þriðji blaðamannafundurinn í röð slíkra þar sem farið er yfir kosti skuldaniðurfellingaáforma ríkisstjórnarinnar, sem bera heitið „Leiðréttingin“. Á morgun munu þeir 91 þúsund einstaklingar, um 28 prósent þess mannfjölda sem býr á Íslandi, fá að vita hvað þeir fá í sinn hlut.
Þessi tímamót eru afleiðing mikils þrýstings, síbreytilegra loforða og auðvitað íslenska efnahagshrunsins. Kjarninn ákvað að rifja upp sögu skuldaniðurfellingakröfunnar.
Verðtryggð þjóð verður fyrir verðbólguskoti
Eftir bankahrunið virtist fremur svört mynd blasa við íslenskum almenningi. Krónan féll eins og steinn og verðbólga náði hæðum sem höfðu ekki sést frá því á níunda áratug síðustu aldar. Í janúar 2009 fór verðbólgan til að mynda upp í 18,6 prósent á ársgrundvelli.
Lán íslenskra heimila voru á þessum tíma að langmestu leyti verðtryggð. Því þýddi aukin verðbólga hækkun á höfuðstóli lána þeirra.
Lán íslenskra heimila voru á þessum tíma að langmestu leyti verðtryggð. Því þýddi aukin verðbólga hækkun á höfuðstóli lána þeirra. Sum heimili tóku lán sem sveifluðust til eftir gengi erlendra mynta með það fyrir augum að spara sér hinn mikla vaxtakostnað sem fylgdi séríslensku verðtryggðu lánunum. Slík lán voru mjög vinsæl sem fjármögnun á bílakaupum en þúsundir Íslendinga ákváðu líka að fjármagna húsnæðiskaup sín með þeim. Þegar krónan féll stökkbreyttust þessi lán.
Lán heimilanna voru að mestu hjá þremur aðilum: Íbúðalánasjóði, nýjum bönkum sem endurreistir voru á grunni hinna föllnu og lífeyrissjóðum landsins. Mikill þrýstingur skapaðist fljótt á að þessir aðilar, eða þeir sem stýrðu þeim, myndu beita sér fyrir því að laga þá mjög erfiðu skuldastöðu sem komin var upp hjá heimilum landsins. Skuldir heimilanna voru enda, þegar verst lét, hátt í 130 prósent af landsframleiðslu.
20 prósent loforðin
Fyrir alþingiskosningarnar 2009 komu fram kröfur um beinar skuldaniðurfellingaraðgerðir handa heimilum landsins. Framsóknarflokkurinn markaði sér sérstöðu með því að segjast ætla að bjóða upp á 20 prósent lækkun á skuldum heimila landsins.
Flokkurinn gerði líka myndbönd til að koma þessum áherslum á framfæri með öðrum hætti.
Framsóknarflokkurinn var ekki einn á þessari vegferð. Til urðu hin áhrifamiklu Hagsmunasamtök heimilanna (stofnuð 15. janúar 2009), auk þess sem fjölmargir álitsgjafar og stjórnmálamenn hófu að reka harðan áróður fyrir stórtækum skuldaniðurfellingum.
Ríkið afhendir kröfuhöfum tvo banka
Hið stóra loforð nægði ekki til að fleyta Framsóknarflokknum í ríkisstjórn árið 2009. Þar settust Samfylking og Vinstri-grænir. Sú ríkisstjórn réðist í að semja við slitastjórnir föllnu bankana um hvernig ætti að gera upp við þær vegna þeirra eigna sem íslenskra ríkið hafði fært yfir í nýja banka sem reistir voru á grunni þeirra gömlu.
Á móti missti ríkið yfirráð yfir tveimur bönkum og átti því erfiðara um vik að „skikka“ þá í skuldaniðurfellingaraðgerðir.
Á endanum samdi ríkisstjórnin um að kröfuhafar föllnu bankana eignuðust tvo þeirra, Arion banka og Íslandsbanka, að mestu en að ríkið myndi halda Landsbankanum gegn því að hann myndi greiða nokkur hundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri fyrir eignirnar sem hann erfði. Rökin fyrir þessu voru þau að samkomulagið myndi spara ríkinu gríðarlegt fjármagn sem það þyrfti annars að inna af hendi til þrotabúa þeirra föllnu. Auk þess átti ríkið ekki fé til að fjármagna alla bankana. Á móti missti ríkið yfirráð yfir tveimur bönkum og átti því erfiðara um vik að „skikka“ þá í skuldaniðurfellingaraðgerðir. Þessir samningar hafa alla tíð verið harðlega gagnrýnir úr ýmsum áttum.
44 prósent afsláttur af skuldum heimila
Í nóvember 2009 var greint frá því í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands, að nýju bankarnir þrír hefðu fengið 44 prósent afslátt á skuldum íslenskra heimila. Inni í þessari tölu voru allar skuldir þeirra. Íbúðalán, bílalán, yfirdrættir og jafnvel lán til hlutabréfakaupa. Ljóst var að hluti þessarra lána yrði aldrei innheimtanlegur.
Þegar búið var að semja um bankana, og þar með fjármagna þá, var hægt að byrja að taka til í þeim gríðarlega skuldahaug sem þurfti að grisja eftir fall fjármálakerfisins, enda búið að vera morgunljóst lengi að fjöldi einstaklinga, heimila og fyrirtækja myndi aldrei geta greitt þær skuldir sem þau hefðu stofnað til. Og það var gert með ýmsum hætti.
Hinar sértæku aðgerðir
Í lok árs 2012 var búið að færa niður lán til heimila vegna 110 prósent leiðarinnar um 46 milljarða króna, vegna sértækrar skuldaaðlögunar um 7,3 milljarða króna, vegna sértækra vaxtaniðurgreiðslna um 12,3 milljarða króna, vegna greiðslujöfnunar hjá Íbúðalánasjóði um 7,6 milljarða króna, vegna greiðslufresta um 33,1 milljarð króna og vegna vaxtabóta um 9,2 milljarða króna.
Árni Páll Árnason var efnahags- og viðskiptaráðherra á þeim árum sem flestum aðgerðum síðustu ríkisstjórnar var hrint í framkvæmd. Lög um endurútreikninga gengistryggðra lána, sem síðar voru hrakin fyrir dómstólum, eru meðal annars kennd við hann.
Stærsta niðurfellingin var hins vegar ekki valkvæð, heldur til komin vegna þess að íslenskir dómstólar dæmdu fjöldamörg erlend lán ólögmæt. Í lok árs 2012 var búið að færa niður erlend fasteignalán hjá bönkunum 109,6 milljarða króna vegna þessa og endurútreikningur erlendra bílalána hafði skila 38,6 milljörðum króna.
En það sem mestu máli skipti var að landið tók að rísa. Frá byrjun árs 2009 hófst hlutfallsleg skuldalækkun heimilanna sem staðið hefur síðan. Eignarverð tók að hækka, bönd komust á verðbólguna og samhliða skánaði staða heimilanna mikið.
Framsóknarsigurinn og 300 milljarðarnir
En þrýstingurinn á frekari aðgerðir í þágu heimilanna minnkaði samt sem áður ekkert. Fyrir síðustu kosningar, sem fram fóru í apríl 2013, voru þónokkrir þrýstihópar og framboð með það á stefnuskrá sinni að stuðla að frekari niðurfærslu skulda heimilanna með sértækum eða almennum hætti.
Sá flokkur sem stal hins vegar algjörlega senunni í þessum efnum var Framsóknarflokkurinn. Flokkurinn lagði alla áherslu á tvö mál í aðdraganda kosninga: skuldaniðurfærslur og afnám verðtryggingar.
Í viðtali við Fréttablaðið í mars 2013 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að það væri „óhjákvæmilegt að ráðast í þessar aðgerðir því eins og staðan er núna er nánast heil kynslóð á Íslandi eignalaus og með neikvætt eigið fé. Það er mjög hættulegt ástand fyrir samfélag, bæði félagslega og efnahagslega, því þessar kynslóðir eru þær sem viðhalda þurfa vextinum. Því segjum við að það sé á endanum dýrara að bregðast ekki við vandanum heldur en að gera það. Það er nokkuð á reiki um hvaða tölur er að ræða en verðtryggð fasteignalán eru í kringum 1.200 milljarða króna. Ef við notum 20 prósentin sem viðmið, þó að það sé ekki endilega niðurneglt, erum við að tala um 240 milljarða króna.
Það er hins vegar ekki þar með sagt að þessir 240 milljarðar séu eitthvað sem komi til greiðslu í einu lagi. Ávinningurinn af leiðréttingu skulda getur farið að skila sér áður en kostnaðurinn fellur allur til“.
Í Forystusætinu, kosningaþætti RÚV, skömmu síðar var Sigmundur Davíð þráspurður um fyrirætlanir sínar um að lækka skuldir heimila um 300 milljarða króna, sem eru sú upphæð sem ansi margir töldu flokkinn vera að lofa.
Í þættinum nefndi Sigmundur Davíð aldrei töluna 300 milljarðar króna. En hann neitar henni heldur aldrei þegar spyrlarnir tveir endurtaka hana í sífellu.
Á baki þessa kosningaloforðs vann Framsóknaflokkurinn hins vegar glæsilegan kosningasigur og hlaut rúmlega 24 prósent atkvæða. Árangurinn fleytti formanni flokksins í stól forsætisráðherra og fljótlega fór að bera á miklum þrýstingi gagnvart flokknum um að hann efndi stóra loforðið.
80 milljarða úr ríkissjóði
Þrátt fyrir að væntingar margra kjósenda Framsóknarflokksins hafi staðið til þess að ráðist yrði í niðurfellingar á skuldum þeirra strax í kjölfar kosninganna gerðist ekki mikið fyrstu mánuðina.Það var í raun ekki fyrr en 30. nóvember í fyrra sem dró til tíðinda. Þá var boðað til blaðamannafundar í Hörpu þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána voru kynntar. Formaður sérfræðingahóps hennar, Sigurður Hannesson, kynnti þar forsendur og framkvæmd aðgerðanna. Í stuttu máli áttu þær að fela í sér að 80 milljarðar króna yrðu greiddir inn á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána á fjögurra ára tímabili og að Íslendingum yrði gert kleift að nota séreignarsparnað sinn til að niðurgreiða húsnæðislán á sama tímabili skattfrjálst.
Leiðréttingin var kynnt með viðhöfn í Hörpu þann 30. nóvember 2013. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson héldu tölu.
Fjármögnun niðurfellingarinnar yrði með þeim hætti að íslenska ríkið notar skattheimtuvald sitt til að leggja sérstakan bankaskatt á fjármálafyrirtæki. En á eftir að koma í ljós hvort slík skattlagning standist lög.
Tímabilið þrengt og ekkert verðbólgumarkmið lengur
Í mars síðastliðnum var blásið til annars blaðamannafundar til að kynna útfærslurnar. Í þetta sinn var stríðsletrið fyrir aftan ráðamennina „150 milljarðar króna“. Ástæðan var sú að búið var að reikna sig niður á að landsmenn myndu eyða um 50 milljörðum króna af séreignasparnaði sínum í að borga niður húsnæðislán og þegar við bættust þeir 20 milljarðar króna sem ríkið myndi gefa þeim hópi í skattafslátt var hægt að setja fram þá tölu.
Í mars síðastliðnum voru kynnt tvö lagafrumvörp um skuldaniðurfellingu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson voru vitaskuld með tölu.
Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stóð að flokkarnir ætluðu „að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010[...]um verður að ræða almenna óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði“.
Þegar frumvarp til laga um leiðréttingu fasteignaveðlána var lagt fram í lok mars hafði það tímabil verið þrengt töluvert, og náði nú til verðtryggðra húsnæðislána til eigin nota sem voru til staðar á árunum 2008 og 2009.
Í frumvarpinu var ekki heldur lengur neitt um hvaða verðbólguviðmiði yrði gengið út frá við leiðréttinguna „heldur er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði það með reglugerð“. Með þeim hætti var hægt að stýra því að upphæðin færi ekki yfir 80 milljarða króna. Verðbólguviðmiðið var einfaldlega valið eftirá.
Þriðji fundurinn á innan við ári
Síðustu skrefin í skuldaniðurfellingarsögunni voru svo stígin í dag, þegar blásið var til þriðja blaðamannafundarins á innan við ári til að kynna áformin. Það sem var nýtt á fundinum í dag var tvennt: annars vegar að fjármála- og efnahagsmálaráðherra var búinn að ákveða hvert verðbólguviðmiðið átti að vera svo nákvæmlega 80 milljarðar króna myndu fara úr ríkissjóði til skuldara. Miðað er við að verðbólga umfram fjögur prósent á árunum 2008 og 2009 verði leiðrétt.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru mættir í þriðja sinn á innan við ári til að kynna skuldaniðurfellingaráform sín í Hörpu í dag.
Hins vegar er búið að flýta greiðslum úr ríkissjóði vegna aðgerðanna. Nú verða milljarðarnir 80 greiddir út á þremur árum í stað fjögurra.
Um 91 þúsund einstaklingar fá niðurfellingu og meðal fjárhæð þeirra er 1.350 þúsund krónur.
Á morgun, þriðjudag, fá þessi einstaklingar svo að vita hvað fellur þeim í skaut.
Markaðurinn þegar búinn að leiðrétta sig
Þegar verst lét voru skuldir heimila á Íslandi hátt í 130 prósent af landsframleiðslu. Skaplegt hlutfall þykir undir 100 prósent. Í júní síðastliðnum var hlutfallið komið niður í 99 prósent, samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands.
Þetta þykir, að mati Seðlabankans, vel viðunandi skuldahlutfall í alþjóðlegum samanburði, einkum þegar hofr væri til þjóða sem væru með húsnæðiskerfi sem byggði mikið á séreignarstefnu líkt og hér tíðkast.
Auk þess hefur fasteignaverð hækkað mjög mikið undanfarin ár og þar af leiðandi lagað eiginfjárstöðu fjölmargra. Markaðurinn hefur leiðrétt sig sjálfur.
Í sömu kynningu Seðlabankans og greint er frá hér að ofan, sem fór fram í október, kom líka í ljós að „forsendubresturinn“ sem fólk taldi sig hafa orðið fyrir vegna verðtryggingarinnar, og ríkið er í dag að bæta þeim, hefur ekki ýtt fólki frá því að taka verðtryggð lán. Þvert á móti.
Verðbólga hefur verið lág á Íslandi í töluvert langan tíma og undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í níu mánuði í röð. Þetta hefur leitt til þess að um 70 prósent af nýjum íbúðarlánum eru verðtryggð. Og þau vinsælustu eru 40 ára jafngreiðslulán, sem bera lægstu greiðslubyrðina. Það þýðir að lántakendur eru mun frekar að horfa til greiðslubyrði ekki eignarmyndunar.
Nú er bara að vona að það komi ekki verðbólguskot svo það þurfi að leiðrétta öll þessi nýju lán líka.