Lestur Fréttablaðsins, víðlesnasta dagblaðs landsins, mældist 50,01 prósent í september. Hann hefur aldrei mælst minni frá því að mælingar á lestri blaðsins hófust. Fréttablaðinu er dreift frítt í 90 þúsund eintökum inn á heimili landsins sex daga vikunnar. Lestur Morgunblaðsins, stærsta áskrifarblaðs landsins, lækkar einnig lítillega á milli mánaða en fækkun lesenda þess það sem af er ári er innan skekkjumarka. Lestur blaðsins hefur heldur aldrei verið lægri samkvæmt mælingum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun Gallup á lestri prentmiðla sem birt var í gær.
Lestur DV, Fréttatímans og Viðskiptablaðsins hækkaði lítillega í síðasta mánuði en sú hækkun er í öllum tilfellum innan skekkjumarka. Viðskiptablaðið er eini prentmiðill landsins sem virðist halda nokkuð stöðugum lestri þegar horft er yfir lengra tímabil. Sú þróun er í takt við það sem gerst hefur hjá sérhæfðari syllumiðlum í öðrum löndum, t.d. viðskiptablaðinu Börsen í Danmörku.
Staða prentmiðla á Íslandi er samt sem áður mjög sterk og lesturinn hár í alþjóðlegum samanburði. Hlutfall þeirra auglýsingatekna sem rata til prentmiðla hérlendis er einnig mun hærra en gerist á flest öllum öðrum markaðssvæðum.
Lestur lækkar mest hjá fólki undir fimmtugu
Lestur allra prentmiðla landsins lækkaði hjá fólki undir fimmtugu í september. Aldrei áður hefur lestur aldurshópsins 18 til 49 ára á DV (5,16 prósent) og Morgunblaðinu (17,38 prósent) verið lægri en í þeim mánuði. Og mikið fall hefur verið í lestri þess aldurshóps á Fréttatímanum á síðustu mánuðum. Í mars var hann 46,26 prósent en er nú 39,34 prósent, sem er það lægsta sem hann hefur nokkru sinni mælst. Lestur Fréttatímans hjá Íslendingum undir fimmtugu hefur því dregist saman um 15 prósent á hálfu ári.
Lestur Fréttablaðsins hefur fallið hraðar hjá fólki undir fimmtugu á undanförnum árum en hjá eldri lesendum. Þegar best lét árið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna Fréttablaðið og hlutfall lesenda undir fimmtugu var nánast það sama, eða 63,75 prósent. Um mitt ár í fyrra var lesturinn orðinn 55,18 prósent hjá yngri hluta landsmanna og í september 2015 lásu 46,54 prósent landsmanna undir fimmtugu Fréttablaðið. Lestur blaðsins hjá aldurshópnum hefur því dregist saman um 27 prósent á fimm árum.
Stór hluti auglýsinga til prentmiðla
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu prentmiðla í sögulegu samhengi í fréttaskýringu í september. Þar kom fram að lestur þeirra hefur minnkað hratt á undanförnum árum. Þannig hefur heildarlestur Morgunblaðsins dregist saman um 35 prósent á sex árum, lesendum Fréttablaðsins hefur fækkað um 22 prósent frá 2010 og lestur Fréttatímans hefur aldrei verið lægri en hann er um þessar mundir. Þá hefur lestur á DV aldrei verið lægri en hann mældist í ágúst 2015 í 40 ára sögu blaðsins.
Staða prentmiðla á Íslandi er samt sem áður afar sterk í alþjóðlegu samhengi og þeir taka enn til sín stóran hluta af ayglýsingabirtingum. Í tölum sem H:N Markaðssamskipti sendu frá sér í byrjun október um stöðuna á íslenskum auglýsingamarkaði kom fram að um sjö til átta milljarðar króna fari í auglýsingabirtingar á ári á Íslandi.
Samkvæmt tölum sem Fjölmiðlanefnd birti í september, og byggði á upplýsingum frá stærstu birtingarhúsum landsins, fer 37,4 prósent birtingarfjár á Íslandi til prentmiðla, 29,7 prósent fer til sjónvarpsstöða og 15,4 prósent til útvarpsstöðva. Tæplega 15 prósent fer til birtingar á auglýsingum á vef. Þar af fer 12,3 prósent til innlendra vefja og 2,6 prósent til erlendra, sérstaklega Facebook og Google. Um 50-60 prósent af allir veltu á auglýsingamarkaði fer í gegnum birtingarhús.
Allt önnur þróun en í Bretlandi og Bandaríkjunum
Þessi þróun er mjög í andstöðu við það sem er að gerast víðast hvar annarsstaðar í heiminum. Samkvæmt nýlegri spá eMarketer mun birtingafé dreifast þannig í Bretlandi að meira fé verður varið í auglýsingar í snjallsímum og spjaldtölvum en í blaðaauglýsingar á þessu ári. Alls gerir spáin ráð fyrir að 20 prósent auglýsingafjár fari í slíkar birtingar. Samkvæmt henni mun 49,6 prósent birtingarfjár í Bretlandi fara til stafrænna miðla á þessu ári og það hlutfall mun vaxa upp í 57,5 prósent árið 2019. Á sama tíma gerir spáin ráð fyrir að prentmiðlar fái 16,4 prósent af heildarkökunni í ár og að það hlutfall lækki niður í í 12,5 prósent árið 2019.
Í Bandaríkjunum gerir eMarketer rá ðfyrir að um 38 prósent af birtingarfé fari í sjónvarp á þessu ári, 31 prósent fari í stafræna miðla, tæp 16 prósent í prentmiðla og átta prósent í útvarp.