Google afhenti bandarískum stjórnvöldum aðgang að tölvupóstum og öðrum gögnum þriggja starfsmanna Wikileaks í tengslum við rannsókn á Wikileaks og stofnanda þess, Julian Assange. Blaðamennirnir sem um ræðir eru Sarah Harrison, Joseph Farrel og Kristinn Hrafnsson.
Þetta kemur fram í gögnum sem Wikileaks hefur undir höndum og birtast nú í Kjarnanum einum íslenskra fjölmiðla, ásamt völdum erlendum fjölmiðlum.
Samkvæmt skjölunum sem birtast nú, sem eru meðal annars dómsúrskurðir um leitarheimildir, beinist málið að „stofnendum, stjórnendum og eigendum Wikileaks.“ Leitarheimildirnar eru meðal annars byggðar á grun um njósnir, samsæri og þjófnaði á eigum bandarískra stjórnvalda, og telur Wikileaks að málið beinist að Julian Assange en mögulega einnig gegn fleiri starfsmönnum Wikileaks.
Lestu skjölin hér:
Leitarheimild í tölvupósti Kristins Hrafnssonar
Leitarheimild í tölvupósti Sarah Harrison
Leitarheimild í tölvupósti Joseph Farrel
Bréf lögmanna Wikileaks til Google
Gríðarlega miklar upplýsingar látnar af hendi
Eftir dómsúrskurð lét Google bandarísku alríkislögreglunni, FBI, í té öll gögn tengd reikningum blaðamannanna þriggja hjá Google. Á meðal gagnanna eru allir tölvupóstar þeirra og allt sem þeim tengist, þar með talið allir eyddir póstar og drög að póstum sem og upplýsingar um hvenær og hvert póstar voru sendir og hversu stórir og langir þeir voru.
Þá fengu stjórnvöld fullt nafn, heimilisfang, símanúmer og annars konar auðkenni sem tengdust reikningum þeirra, gögn um það hversu oft og lengi þau notuðu reikningana, IP-tölur sem notaðar voru til að komast inn á þá og banka- og kreditkortaupplýsingar. Einnig var veittur aðgangur að dagatölum, myndum og skjölum sem tengdust Google-reikningum.
Fengu ekkert að vita í tæp þrjú ár
Kristinn Hrafnsson og Julian Assange.
Google greindi blaðamönnunum frá aðgerðunum gegn þeim þann 23. desember síðastliðinn. Samkvæmt skjölunum voru leitarheimildirnar þó samþykktar tæpum þremur árum fyrr, eða þann 22. mars 2012, af John F. Anderson, dómara í Alexandriu í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum. Anderson þessi gaf út handtökuskipun á hendur uppljóstraranum Edward Snowden á sínum tíma. Google þurfti samkvæmt úrskurðinum að afhenda lögreglu gögnin um blaðamennina fyrir 5. apríl sama ár.
Fyrirtækið segist í bréfum sem send voru til blaðamannanna þriggja þann 23. desember að samkvæmt úrskurðinum hafi það ekki mátt greina þeim frá því að aðgangur var veittur að öllum gögnum þeirra þegar það átti sér stað. Nú hafi hins vegar annar úrskurður genginn þar sem fyrirtækinu hafi verið heimilað að segja frá málinu. Þó virðist ekki vera ljóst hvenær nákvæmlega fyrirtækið mátti segja þeim frá málinu.
Krefjast upplýsinga um málið
Lögmenn Wikileaks og blaðamannanna þriggja hafa sent Google bréf þar sem þess er krafist að þremenningarnir fái allar upplýsingar um málið, hvað bandarísk stjórnvöld fengu nákvæmlega frá Google og hvers vegna þeim var ekki greint frá málinu fyrr. Einnig hvort einhverjar aðrar kröfur hafi komið fram frá stjórnvöldum um að veita upplýsingar um blaðamennina.
Þá er þess krafist að Google upplýsi um það hvort fyrirtækið hafi gert einhverjar tilraunir til að hnekkja dómsúrskurðinum til þess að þurfa ekki að veita aðgang að gögnunum eða að mega láta blaðamennina vita af málinu.
Sarah Harrison.
Bent er á það í bréfinu að samfélagsmiðillinn Twitter hafi barist fyrir því að upplýsa fólk tengt Wikileaks um það þegar bandarísk stjórnvöld vildu aðgang að reikningum þeirra á miðlinum árið 2011. Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hafi komið þessum ábendingum á framfæri við forsvarsmenn Google og óskað eftir því að fyrirtækið gerði slíkt hið sama. Það hafi því komið á óvart að fyrirtækið hafi ekki brugðist við þessu.
Wikileaks segir bandarísk stjórnvöld beina spjótum sínum að blaðamönnum með þessum aðgerðum og líklega hafi útgáfa aldrei verið rannsökuð með svo umfangsmiklum hætti og verið hefur með Wikileaks. Sakamálarannsókn hefur verið í gangi í meira en fjögur ár. Rannsókninni á Wikileaks hefur verið mótmælt af blaðamönnum og mannréttindasamtökum. Í júní síðastliðnum hvöttu rúmlega fimmtíu samtök til þess að málið yrði látið niður falla, enda gæti áframhaldandi rannsókn á Wikileaks gert fréttaöflun að glæp og gert alla blaðamenn og ritstjóra berskjaldaða fyrir málsóknum.