Kjarninn birtir leyniskjöl úr TISA-viðræðunum í samstarfi við Wikileaks. Viðræðunum er ætlað að auka frelsi í þjónustuviðskiptum. Mikil leynd hvílir yfir þeim.
Vilji er til þess að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun, liðka fyrir veru lykilstjórnenda og sérfræðinga í fjármálageiranum í öðrum löndum en þeirra eigin umfram aðra og setja upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóða í framtíðinni.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skjölum úr yfirstandandi TISA-viðræðum um aukið frelsi fjármálaþjónustu á alþjóðamörkuðum.
Skjölin eru dagsett 14. apríl 2014 og hafa aldrei birst opinberlega áður. Wikileaks komst yfir skjölin og ýmsir fjölmiðlar víðs vegar um heiminn greina nú frá þeim. Kjarninn er eini íslenski fjölmiðillinn sem það gerir.
Lestu skjölin í heild sinni hér.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/8[/embed]
Hyglar ríkum alþjóðafyrirtækjum
Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (PSI) hafa gagnrýnt TISA-viðræðurnar harðlega. Í skýrslu sem þau gáfu út vegna þeirra í lok apríl síðastliðins segir meðal annars að viðræðurnar séu vísvitandi tilraun til að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það. Verði samkomulagið að veruleika muni það auka ójöfnuð gríðarlega.
Með TISA-samkomulaginu, og öðrum slíkum yfirþjóðlegum viðskiptasáttmálum, sé verið að festa í sessi rétt fjárfesta og koma í veg fyrir að ríkisstjórnir geti gripið til aðgerða á fjölmörgum sviðum sem tengist viðskiptum. Á meðal þess sem PSI segir að TISA-samkomulagið muni hafa í för með sér er að ríkisstjórnir muni ekki geta tekið aftur yfir opinbera þjónustu ef einkavæðing hennar hafi mistekist, reglugerðir þjóða sem snúa að öryggi verkamanna verði takmarkaðar, sömuleiðis umhverfisverndarregluverk, neytendavernd og eftirlitsstarfsemi með heilbrigðisþjónustu, orkuverum, úrgangslosun og faggildingu í menntakerfinu. „Þetta samkomulag mun koma fram við farandverkamenn (e. migrant workers) sem vörur og takmarka getu ríkisstjórna til að tryggja réttindi þeirra,“ segir enn fremur í skýrslu PSI.
Ísland þátttakandi
Mikil leynd hvílir yfir umræddum skjölum og viðræðunum í heild. Þær þykja gríðarlega viðkvæmar, enda verið að sýsla með grundvallarréttindi á vettvangi sem lýtur í raun engum reglum. Á forsíðu skjalanna segir meðal annars að ekki megi aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TISA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki. Á skjölunum stendur að þau verði að „vera vistuð í lokaðri eða öruggri byggingu, herbergi eða hirslu“.
Viðræðurnar fara líka fram utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lúta því ekki þeim reglum sem gilda um þá stofnun.
Ljóst er á skjölunum að vilji er til þess að auka frelsi fjármálaþjónustu til að stunda sína starfsemi allverulega. Um fimmtíu ríki taka þátt í samningsviðræðunum. Ísland er þar á meðal. Samkvæmt þeim skjölum sem Kjarninn hefur undir höndum gerðu Íslendingar engar athugasemdir við þær tillögur sem settar voru fram.
Afregluvæðing aðalatriði
TISA-viðræðurnar hafa staðið yfir frá því vorið 2013 og samkvæmt þeim litlu tíðindum sem borist hafa af framvindu þeirra hafa þær gengið vel. Sjöttu viðræðulotu lauk í byrjun maí síðastliðins.
Viðræðurnar snúast um alla anga þjónustu og frelsisvæðingu þeirra á alþjóðavettvangi. Skjölin sem Wikileaks hefur undir höndum, og Kjarninn segir nú frá, snúast einvörðungu um þær áherslur sem stefnt er á að ná í gegn varðandi fjármálaþjónustu. Tilgangur viðræðnanna er að tryggja algjört aðgengi á milli markaða þeirra um fimmtíu landa sem að samkomulaginu myndu koma, verði það að veruleika.
Á undanförnum árum – eftir efnahagshrunið sem skall á haustið 2008 – hafa reglur um fjármálaþjónustu verið hertar töluvert á ýmsum sviðum víðs vegar um heiminn. Í þeim samningsdrögum sem Kjarninn er með virðist stefnan með TISA-samkomulaginu að draga töluvert úr þeim reglum. Auk þess er þar að finna ákvæði sem eiga að heimila stjórnendum og sérfræðingum sem starfa í fjármálageiranum betra aðgengi að því að dvelja í samningslöndunum en þeir hafa í dag, enda innflytjendamál og hertar kvaðir í þeim mjög ofarlega á baugi víða um heim um þessar mundir.
Í skjölunum er líka lagt til að settur verði upp nokkurskonar yfirþjóðlegur dómstóll til að útkljá deilumál sem kunna að koma upp á milli þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu. Þangað gætu til dæmis fjármálafyrirtæki skotið skorðum sem þjóðríki reyndu að setja þeim.
Úttektin birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana í heild hér.