Frá því í nóvember 2015 og fram á mitt síðasta ár jukust ný útlán lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna, aðallega vegna íbúðarkaupa, um alls 397,4 milljarða króna. Á því tímabili tóku þeir til sín sífellt stærri hlutdeild á íbúðalánamarkaðinum, á kostnað viðskiptabankanna sem sátu aðallega uppi með að lána þeim sem uppfylltu ekki skilyrði lífeyrissjóða fyrir lánum. Þetta gerðu þeir aðallega með því að bjóða upp á verðtryggð lán á mun lægri vöxtum sem bankarnir gerðu, en fram á síðasta ár var verðbólga lág og verðtryggðu lánin því í flestum tilvikum mun hagstæðari en óverðtryggð. Þeir sem gátu ekki tekið lán hjá sjóðunum voru aðallega þeir sem þurftu að taka hærra hlutfall að kaupverði að láni en 70 prósent. Þeir sátu eftir í hærri vöxtum hjá bönkunum.
Ásóknin í lán sjóðanna var svo mikil að á árinu 2019 fóru stærstu sjóðirnir flestir að þrengja lánsskilyrði sín. Í tilfelli lífeyrissjóðs verzlunarmanna, næst stærsta sjóðs landsins, var sú skýring gefin að hann væri kominn út fyrir þolmörk þess sem hann réð við að lána til íbúðarkaupa. Annað hvort þyrfti sjóðurinn að fara að selja aðrar eignir til að lána sjóðsfélögum eða takmarka útlán.
Bankarnir tóku yfir
Þessi staða breyttist hratt þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti niður í 0,75 prósent og afnám sveiflujöfnunarauka á bankana til að hvetja þá til frekari útlána. Þeir völdu að lána aðallega til íbúðakaupa og þar sem verðbólga fór hækkandi voru óverðtryggðu lán bankanna skyndilega orðin hagstæðustu lánin á markaðnum. Fólk flykktist frá lífeyrissjóðum og til þeirra, aðallega í óverðtryggð lán. Í lok apríl 2021 var hlutdeild þeirra komin upp í 46 prósent. Til samanburðar var hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána 23 prósent, eða helmingi minni, í byrjun árs 2019.
Á sama tíma drógust ný útlán lífeyrissjóða til íbúðarkaupa, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, saman um 65,4 milljarða króna og markaðshlutdeild þeirra skrapp skarpt saman.
Stórir sjóðir farnir að hreyfa sig á ný
Samhliða nokkuð þrálátri verðbólgu hafa stýrivextir tekið að hækka, og kjör á óverðtryggðum lánum orðið verri, hvort sem um er að ræða breytilega eða fasta vexti.
Kórónuveirufaraldurinn hefur hins vegar farið með með heildareignarsafn lífeyrissjóðanna, aðallega vegna þess að hlutabréf jafnt innanlands sem erlendis hafa hækkað mikið í verði. Alls hafa sameiginlega eignir sjóðanna aukist um 944,2 milljarða króna frá því í lok ágúst í fyrra. Það hefur aukið svigrúm þeirra til að fara aftur að lána meira til íbúðarkaupa.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað í síðasta mánuði að stofna nýjan lánaflokk sjóðsfélagalána og lánar nú óverðtryggð lán til íbúðarkaupa með breytilegum vöxtum. Um er að ræða þá tegund lána sem notið hefur mestra vinsælda hjá íslenskum húsnæðiskaupendum síðastliðin ár. Vextirnir eru á pari við skaplegustu vexti sem bankarnir bjóða upp á, en lífeyrissjóðirnir njóta þess fram yfir banka að bera engan kostnað vegna fjármögnunar. Bankar þurfa að fá lánaða peninga, annað hvort hjá viðskiptavinum sínum í formi innlána eða frá fjárfestum með skuldabéfaútgáfu, og greiða vexti af því fé. Lífeyrissjóðir eru áskrifendur að fé almennings sem flæðir inn í hirslur þeirra um hver áramót án vaxta, þótt krafa sé gerð um að þeir ávaxti það fé. Það gefur sjóðunum tækifæri á að bjóða upp á betri viðskiptakjör.
Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, býður bestu óverðtryggðu kjörin sem stendur, 3,45 prósent vexti, og Brú lífeyrissjóður býður upp á 3,8 prósent vexti. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, er því eini af stærstu sjóðunum sem býður ekki upp á óverðtryggða breytilega vexti á sjóðsfélagslánum sem stendur. Saman eiga þessir þrír sjóðir: LSR, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi rúmlega helming af allri hreinni eign íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Stefnir í jákvæða útlánastöðu
Samdráttur í útlánum lífeyrissjóða var mestur í október og nóvember í fyrra þegar sjóðsfélagar greiddu upp lán hjá þeim upp á níu milljarða króna hvorn mánuðinn og fluttu sig annað.
Samdrátturinn hefur hins vegar degist hratt saman síðustu mánuði. Í júlí var hann rúmlega 1,5 milljarður króna og í ágúst um 1,1 milljarður króna. Í septembermánuði var hann einungis 83 milljón króna og ef þróun síðustu mánaða heldur áfram stefnir í að lífeyrissjóðir landsins hafi lánað meira í ný útlán í október en greitt var upp hjá þeim. Gangi það eftir yrði það í fyrsta sinn síðan í maí 2020 sem ný útlánastaða lífeyrissjóða vegna sjóðsfélagalána væri jákvæð innan mánaðar.
Breytingin er tilkomin vegna þess að áhugi almennings á töku óverðtryggðra lána hjá lífeyrissjóðum hefur tekið stökk upp á við frá því í sumar, en frá júníbyrjun og til loka september jukust óverðtryggð útlán lífeyrissjóða til sjóðsfélaga um rúmlega tíu milljarða króna.