Úr einkasafni

Lítil ást heimamanna á náttúrunni stingur mest

Með Hnútuvirkjun í Skaftárhreppi yrði „kroppað í glassúrinn á kökunni“ og landslagsheild á heimsmælikvarða raskað. „Það er svo margt rangt við þetta,“ segir bóndinn og sveitarstjórnarfulltrúinn Heiða Guðný Ásgeirsdóttir sem greiddi atkvæði gegn útgáfu framkvæmdaleyfis virkjunarinnar en meirihluti sveitarstjórnar, þrír fulltrúar með atkvæði 141 kjósenda á bak við sig, samþykkti veitingu þess. Heiða trúir því ekki að virkjun í einu yngsta árgljúfri heims verði að veruleika – ekki fyrr en hún sér vélar hennar snúast. Stríðið er erfitt en það er ekki tapað, segir hún. „Það þýðir ekki að guggna.“

Það er alltaf jafn sárs­auka­fullt að upp­lifa það hversu kæru­lausir heima­menn eru gagn­vart nátt­úr­unni. Hversu ótrú­lega lítil ást þeirra er á þess­ari stór­kost­legu nátt­úru sem umlykur þá. Það er það sem stingur mig mest.“

Heiða Guðný Ásgeirs­dótt­ir, bóndi á Ljót­ar­stöðum í Skaft­ár­tungu, er þekkt fyrir bar­áttu sína gegn virkjun í Skaftá, svo­kall­aðri Búlands­virkj­un, fyrir um ára­tug síð­an. Hún skrif­aði grein­ar, kom fram í við­tölum og um hana sjálfa og bar­áttu hennar skrif­aði Stein­unn Sig­urð­ar­dóttir rit­höf­undur síðar vin­sæla bók: Heiða – fjall­dala­bónd­inn.

Bar­áttan kveikti áhuga Heiðu á póli­tík og í átta ár hefur hún setið í sveit­ar­stjórn Skaft­ár­hrepps sem full­trúi Z-list­ans, lista sem sett hefur umhverf­is­mál á odd­inn. Kæru­leysi gagn­vart nátt­úr­unni er Heiðu nú aftur ofar­lega í huga en vegna ann­arrar áform­aðrar virkj­unar í Skaft­ár­hreppi: Hnútu­virkj­unar.

Sam­þykkt var á síð­asta fundi sveit­ar­stjórn­ar­innar að gefa út fram­kvæmda­leyfi fyrir virkj­un­ina. Þriggja manna meiri­hluti, skip­aður full­trúum D-lista Sjálf­stæð­is­flokks, fram­kvæmdi þennan gjörn­ing, segir Heiða, sem er í minni­hluta ásamt sam­flokks­konu sinni, líf­fræð­ingnum Jónu Björk Jóns­dótt­ur. „Þetta er sárt. Það er svo margt rangt við þetta. Og þetta er svo þung­bært á þessu land­svæði hér.“

Og þar sem umhverf­is­mati er lokið og búið að breyta aðal­skipu­lagi og sam­þykkja deiliskipu­lag, er í raun fátt því lengur til fyr­ir­stöðu að hefja bygg­ingu henn­ar. Nema að ákvörðun sveit­ar­fé­lags­ins verði kærð. Sem á að gera.

Ragnar Jóns­son, eig­andi jarð­ar­innar Dals­höfða, er sá sem fer fyrir hinni fyr­ir­hug­uðu virkj­un. Ragnar vill virkja jök­ul­ána Hverf­is­fljót við Hnútu. Virkj­un­in, 9,3 MW að afli, yrði í hinu tæp­lega 240 ára gamla Eld­hrauni sem rann í Skaft­ár­eld­um, einu mesta eld­gosi Íslands­sög­unnar og þriðja mesta hrauni sem runnið hefur á jörð­inni frá ísald­ar­lok­um.

Um þetta atriði fjall­aði Skipu­lags­stofnun sér­stak­lega í áliti sínu á mats­skýrslu Ragn­ars sem gefið var út sum­arið 2020. Var nið­ur­staða stofn­un­ar­innar sú að virkj­unin myndi hafa nei­kvæð áhrif á Skaft­ár­elda­hraun sem hefði mikið vernd­ar­gildi bæði á lands­vísu og heims­vísu. Ekki væri hægt að að horfa til stærðar hrauns­ins og hlut­falls­legs rasks þess líkt og gert væri í mats­skýrsl­unni og bent á að um jarð­minjar væri að ræða sem nytu sér­stakrar verndar í nátt­úru­vernd­ar­lög­um. Þeim skal ekki raska nema brýna nauð­syn beri til og að almanna­hags­munir séu í húfi. „Skipu­lags­stofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauð­syn fyrir röskun á Skaft­ár­elda­hraun­i.“

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir er sauðfjárbóndi og fer svo um landið og telur fóstur í kindum annarra bænda. Mynd úr einkasafni

Að sögn Heiðu breytti þessi „fall­ein­kunn fag­stofn­un­ar“ þó ekki því, frekar en nei­kvæðar umsagnir stofn­anna á borð við Umhverf­is- og Nátt­úru­fræði­stofn­un, að meiri­hlut­inn hélt mál­inu til streitu og nú er komið að útgáfu fram­kvæmda­leyf­is.

Nátt­úra Skaft­ár­hrepps er ein­stök og vegna hennar blómstrar þar ferða­þjón­usta sem er orðin stór tekju­lind fyrir sveit­ar­fé­lag­ið, segir Heiða. Land­bún­aður sæki svo í sig veðrið sam­hliða ferða­þjón­ust­unni þar sem fleira fólk er á svæð­inu og þjón­usta við íbúa þess vegna meiri og betri. „Og svo verður að muna að nátt­úran er gríð­ar­lega verð­mæt í sjálfri sér. Eld­hraunið er ungt og gljúfrin í stöðugri mótun og það er ein­stakt á heims­vísu að sjá slíka krafta að verki.“

Hraunið hafi sér­stakt vernd­ar­gildi, foss­arnir í Hverf­is­fljóti hafi það sömu­leið­is. Fram­kvæmdin myndi því að ganga gegn nátt­úru­vernd­ar­lög­um. Svæðið er enn­fremur órofin lands­lags­heild. „Þegar heild­inni er raskað þá er búið að kroppa í glassúr­inn á kök­unn­i,“ segir Heiða. „Það er ein­fald­lega vand­ræða­legt að fólk sjái ekki hversu slæmt það er.“­Virkj­ana­kost­ur­inn þurfti ekki að fara í gegnum ítar­legt ferli ramma­á­ætl­unar þar sem hann er innan við 10 MW að afli. Heiða gagn­rýnir þau stærð­ar­mörk og bendir á að 10 MW virkjun sé „engin smá­virkj­un“ heldur gríð­ar­stór og hafi mikil umhverf­is­á­hrif.

Hverfisfljót rennur um gljúfur sem myndaðist í Skaftáreldunum. Mynd: Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi

En það eru ekki aðeins umhverf­is­á­hrifin sem Z-list­inn hefur varað við. Þær Heiða og Jóna full­yrða að þau rök meiri­hlut­ans að virkj­unin myndi bæta afhend­ingar­ör­yggi raf­orku í sveit­ar­fé­lag­inu stand­ist ekki. „Hverf­is­fljót ber með sér alveg gríð­ar­legt magn af fram­burði frá jöklun­um,“ útskýrir Heiða. Áin á upp­tök sín úr Síðu­jökli í vest­an­verðum Vatna­jökli. Þaðan fellur hún með­fram eystri jaðri Eld­hrauns niður á Fljóts­eyrar rétt vestan Skeið­ar­ár­sands. „Á sumrin þegar fram­burð­ur­inn er hvað mestur þá þarf að stöðva virkj­un­ina út af þessum aur­burði. Á vet­urna er svo aftur mjög lítið vatn í Hverf­is­fljóti. Þá þyrfti vænt­an­lega að stoppa hana líka. Einmitt þegar eft­ir­spurnin er mest.“

Þetta er ekk­ert leynd­ar­mál enda frá þessu greint í skýrslum um fram­kvæmd­ina. „Svo er afhend­ingar­ör­yggið hér víst með því besta sem fyr­ir­finnst á land­in­u,“ bætir hún við. Búið sé að leggja það í jörð að stærstum hluta og eins standi lag­fær­ingar á stóru spennu­virki við Prests­bakka fyrir dyr­um. „Og af því að þessi rök meiri­hlut­ans stand­ast ekki skoðun þá verða þau ákaf­lega létt­væg. Það er ákaf­lega miklu til fórnað fyrir litla hags­mun­i.“

Í bókun Z-list­ans á sveit­ar­stjórn­ar­fund­inum var vakin athygli á því að þrír full­trúar í sveit­ar­stjórn sem fengu sam­tals 141 atkvæði í síð­ustu kosn­ingum séu að taka stórar ákvarð­anir um fram­kvæmdir sem hafi óaft­ur­kræf umhverf­is­á­hrif í einni af nátt­úruperlum lands­ins. Þetta 141 atkvæði sé 0,08 pró­sent af greiddum atkvæðum á lands­vísu í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum 2018.

Er það þitt mat að lítil sveit­ar­fé­lög eigi ekki að hafa skipu­lags­vald yfir nátt­úru­auð­lind­um?

„Þetta þarfn­ast grund­vall­ar­end­ur­skoð­un­ar,“ svarar Heiða. Skaft­ár­hrepp­ur, nefnir hún sem dæmi, er sjö pró­sent af heild­ar­flat­ar­máli Íslands. „Af hverju geta örfáar hræður heima í hér­aði ráðið yfir svo stórum hluta lands­ins? Yfir þjóð­lendum sem eins og nafnið ber með sér eru eign þjóð­ar­inn­ar? Þetta er ekki rétta leið­in. Þarna eru of fáir að fara með alltof mikla ábyrgð. Og það hefur sýnt sig ítrekað að fólk veldur þeirri ábyrgð ekki.“

Í bókun Z-list­ans er einmitt minnt á að valdi fylgir ábyrgð og Hnútu­virkjun sögð skýrt dæmi um að skipu­lags­vald sveit­ar­fé­laga án beinnar aðkomu fag­stofn­ana þurfi að end­ur­skoða þar sem „frænd­semi, vin­fengi og greiða­semi við nágranna geta leitt til ákvarð­ana með skelfi­legum óaft­ur­kræfum afleið­ingum fyrir heild­ar­hags­muni þjóð­ar­inn­ar“.

Spurð um hvað átt sé nákvæm­lega við með þessu segir Heiða að hættan á hags­muna­tengslum í litlum sveit­ar­fé­lögum sé alltaf fyrir hendi. „Og þó að þau séu ekki til staðar þá er grunur um þau alltaf fyrir hendi. Það skapar ekki traust. Fámennið veldur þessu.“

Rennsli í Lambhagafossum í Hverfisfljóti mun skerðast með tilkomu Hnútuvirkjunar.
Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi

Búlands­virkjun í Skaftá var áformuð í næsta nágrenni við bæinn hennar Heiðu, Ljót­ar­staði í Skaft­ár­tungu. Í ágúst 2016 lagði verk­efn­is­stjórn ramma­á­ætl­unar til að kost­ur­inn færi í vernd­ar­flokk. Margir héldu að þar með væri sú orr­usta unnin – að ekk­ert yrði af virkj­un­inni. Málið væri dautt. En þannig er það þó ekki. Þings­á­lykt­un­ar­til­laga um þriðja áfanga ramma­á­ætl­un­ar, sem byggir á nið­ur­stöðum verk­efn­is­stjórn­ar­inn­ar, hefur enn ekki verið sam­þykkt, fimm og hálfu ári eftir að hún var fyrst lögð fram á Alþingi.

HS orka hefur ekki gefið Búlands­virkjun upp á bát­inn og sagði í svörum við fyr­ir­spurn Kjarn­ans í byrjun árs að hún ætti „fullt erindi í nýt­ing­ar­flokk“ ramma­á­ætl­un­ar. End­ur­meta ætti þá þætti sem taldir voru nei­kvæðir og urðu til þess að virkj­unin var sett í vernd­ar­flokk til­lög­unn­ar.

„Að heyra þetta var enn eitt höggið í kvið­inn,“ segir Heiða. Hún hafi hins vegar mátt eiga von á því þar sem til­laga ramma­á­ætl­unar sé enn óaf­greidd og svæðið þar með ekki verið frið­lýst. „Á meðan staðan er þannig þá er þetta yfir­vof­andi hætta. Þetta er ekki búið.“

Hinum megin við hana sé svo virkjun í Hólmsá áformuð en sá kostur er í bið­flokki til­lög­unn­ar. „Þannig að það er fast sótt að Skaft­ár­hreppi utan frá. En það er líka sótt að honum inn­an­frá og það er kannski það erf­ið­asta.“

Jafn umdeildum hug­myndum og virkj­unum fylgir gríð­ar­legt álag á lítil sam­fé­lög, segir Heiða. Það varð aug­ljóst þegar Búlands­virkjun var í hámæli. Fólk skipt­ist í fylk­ingar – eða var dregið í fylk­ing­ar. Gjá mynd­að­ist milli fólks. Nágranna. „Það jafn­aði sig tals­vert eftir því sem frá leið en svo sjálf­sagt blossar þetta aftur upp nún­a.“

Búlandsvirkjun er fyrirhuguð í Skaftá.
Landvernd

D-listi sagði í bókun sinni á fund­inum þar sem fram­kvæmda­leyfið var sam­þykkt að Hnútu­virkjun sam­ræm­ist aðgerð­ar­á­ætlun stjórn­valda varð­andi orku­skipti. Þessi rök hafa heyrst nokkuð oft upp á síðkastið í virkj­ana­mál­um. Er þetta þá ekki tapað stríð, að berj­ast gegn virkj­un­um?

„Nei. Það er ekki tapað stríð. En það er hins vegar ofsa­lega erfitt stríð. Það er ekk­ert grín að standa í þessu og það hefur tekið vel á. Það eru orðin tíu ára síðan að ég fór að standa í þess­ari bar­áttu. Á þessum tíu árum hefur tím­inn unnið mikið með okk­ur. Við­horf til nátt­úru­verndar hafa breyst til hins betra í sam­fé­lag­inu. Fleiri vilja staldra við og hugsa málin vel og vand­lega til enda. Meta sjón­ar­mið nátt­úr­unnar og sam­fé­lags­ins.“

En með umræð­unni um nauð­syn þess að fara í orku­skipti til að bregð­ast við lofts­lagsvá hefur orðið ákveðin við­horfs­breyt­ing. „Þá kemur stóra bakslag­ið,“ segir Heiða. „En þetta er alltaf svona. Þegar búið er að ná ákveðnum árangri þá kemur bakslag. Í allt. Og það er að ger­ast núna í þessum mál­u­m.“

Virkj­ana­að­ilar sjái sér leik á borði og mót­staðan veik­ist. Orku­mála­stjóri hefur hins vegar talað um nauð­syn þess að for­gangs­raða og nota ork­una skyn­sam­lega. Heiða segir í þessu sam­bandi þarft að muna að hér á landi er gríð­ar­lega mikið raf­magn fram­leitt og um 80 pró­sent þess fer til stórra við­skipta­vina á borð við stór­iðju og gagna­vera. „Stór hluti af starf­semi gagna­ver­anna felst í því að grafa eftir bitcoin. Viljum við það? Á að virkja meira til að halda áfram að leita að ein­hverju sem er ekki einu sinni til?“

Nýta þurfi betur það sem fram­leitt er, nýta þurfi betur þær virkj­anir sem fyrir eru „og bara róa sig aðeins,“ segir Heiða. „Það eru líka hraðar tækni­fram­farir í þessum geira eins og öllum öðr­um. Að fara að raska nátt­úru á morg­un, af því að það liggur svo rosa­lega á, er alveg ofboðs­lega skrítin nálg­un.“

Heiða hefur setið í sveit­ar­stjórn í tvö kjör­tíma­bil fyrir hönd Z-list­ans. En í kosn­ing­unum í vor er hún ekki í fram­boði. „Z-list­inn ákvað að bjóða ekki fram,“ segir hún. „Það var mjög erfitt að vinna með D-list­anum á kjör­tíma­bil­inu. Okkur var haldið mjög stíft frá öllum nefndum og ábyrgð­ar­stöðum framan af. Þetta hefur verið mik­ill slagur og fólk er ein­fald­lega þreytt.“

Hún segir afskiptum sínum af póli­tík þó „al­veg örugg­lega ekki“ lok­ið. „Ég held að það þekki það allir sem áhuga hafa á nátt­úru­vernd­ar­málum að þau algjör­lega hel­taka mann.“

Þegar sveit­ar­fé­lagið gefur út fram­kvæmda­leyfi vegna Hnútu­virkj­unar verður hægt að hefj­ast handa við að byggja hana. „En það næsta sem ger­ist er að þessi ákvörðun verður kærð,“ segir Heiða og vísar til þess að Eld­vötn – sam­tök um nátt­úru­vernd í Skaft­ár­hreppi, sem og fleiri nátt­úru­vernd­ar­sam­tök ætla að leggja fram kæru til úrskurð­ar­nefndar umhverf­is- og auð­linda­mála og fara fram á að ekki verði byrjað á fram­kvæmdum fyrr en nið­ur­staða fæst.

Það er því von­andi ekki þannig, segir Heiða, að gröf­urnar séu að fara af stað á morg­un.

Hún er enn á því að Hnútu­virkjun verði aldrei reist. „Ég trúi því ekki fyrr en vélar hennar fara að snú­ast. Það þýðir ekki að guggna.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal