Það er alltaf jafn sársaukafullt að upplifa það hversu kærulausir heimamenn eru gagnvart náttúrunni. Hversu ótrúlega lítil ást þeirra er á þessari stórkostlegu náttúru sem umlykur þá. Það er það sem stingur mig mest.“
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu, er þekkt fyrir baráttu sína gegn virkjun í Skaftá, svokallaðri Búlandsvirkjun, fyrir um áratug síðan. Hún skrifaði greinar, kom fram í viðtölum og um hana sjálfa og baráttu hennar skrifaði Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur síðar vinsæla bók: Heiða – fjalldalabóndinn.
Baráttan kveikti áhuga Heiðu á pólitík og í átta ár hefur hún setið í sveitarstjórn Skaftárhrepps sem fulltrúi Z-listans, lista sem sett hefur umhverfismál á oddinn. Kæruleysi gagnvart náttúrunni er Heiðu nú aftur ofarlega í huga en vegna annarrar áformaðrar virkjunar í Skaftárhreppi: Hnútuvirkjunar.
Samþykkt var á síðasta fundi sveitarstjórnarinnar að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina. Þriggja manna meirihluti, skipaður fulltrúum D-lista Sjálfstæðisflokks, framkvæmdi þennan gjörning, segir Heiða, sem er í minnihluta ásamt samflokkskonu sinni, líffræðingnum Jónu Björk Jónsdóttur. „Þetta er sárt. Það er svo margt rangt við þetta. Og þetta er svo þungbært á þessu landsvæði hér.“
Og þar sem umhverfismati er lokið og búið að breyta aðalskipulagi og samþykkja deiliskipulag, er í raun fátt því lengur til fyrirstöðu að hefja byggingu hennar. Nema að ákvörðun sveitarfélagsins verði kærð. Sem á að gera.
Ragnar Jónsson, eigandi jarðarinnar Dalshöfða, er sá sem fer fyrir hinni fyrirhuguðu virkjun. Ragnar vill virkja jökulána Hverfisfljót við Hnútu. Virkjunin, 9,3 MW að afli, yrði í hinu tæplega 240 ára gamla Eldhrauni sem rann í Skaftáreldum, einu mesta eldgosi Íslandssögunnar og þriðja mesta hrauni sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum.
Um þetta atriði fjallaði Skipulagsstofnun sérstaklega í áliti sínu á matsskýrslu Ragnars sem gefið var út sumarið 2020. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að virkjunin myndi hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun sem hefði mikið verndargildi bæði á landsvísu og heimsvísu. Ekki væri hægt að að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess líkt og gert væri í matsskýrslunni og bent á að um jarðminjar væri að ræða sem nytu sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Þeim skal ekki raska nema brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi. „Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni.“
Að sögn Heiðu breytti þessi „falleinkunn fagstofnunar“ þó ekki því, frekar en neikvæðar umsagnir stofnanna á borð við Umhverfis- og Náttúrufræðistofnun, að meirihlutinn hélt málinu til streitu og nú er komið að útgáfu framkvæmdaleyfis.
Náttúra Skaftárhrepps er einstök og vegna hennar blómstrar þar ferðaþjónusta sem er orðin stór tekjulind fyrir sveitarfélagið, segir Heiða. Landbúnaður sæki svo í sig veðrið samhliða ferðaþjónustunni þar sem fleira fólk er á svæðinu og þjónusta við íbúa þess vegna meiri og betri. „Og svo verður að muna að náttúran er gríðarlega verðmæt í sjálfri sér. Eldhraunið er ungt og gljúfrin í stöðugri mótun og það er einstakt á heimsvísu að sjá slíka krafta að verki.“
Hraunið hafi sérstakt verndargildi, fossarnir í Hverfisfljóti hafi það sömuleiðis. Framkvæmdin myndi því að ganga gegn náttúruverndarlögum. Svæðið er ennfremur órofin landslagsheild. „Þegar heildinni er raskað þá er búið að kroppa í glassúrinn á kökunni,“ segir Heiða. „Það er einfaldlega vandræðalegt að fólk sjái ekki hversu slæmt það er.“Virkjanakosturinn þurfti ekki að fara í gegnum ítarlegt ferli rammaáætlunar þar sem hann er innan við 10 MW að afli. Heiða gagnrýnir þau stærðarmörk og bendir á að 10 MW virkjun sé „engin smávirkjun“ heldur gríðarstór og hafi mikil umhverfisáhrif.
En það eru ekki aðeins umhverfisáhrifin sem Z-listinn hefur varað við. Þær Heiða og Jóna fullyrða að þau rök meirihlutans að virkjunin myndi bæta afhendingaröryggi raforku í sveitarfélaginu standist ekki. „Hverfisfljót ber með sér alveg gríðarlegt magn af framburði frá jöklunum,“ útskýrir Heiða. Áin á upptök sín úr Síðujökli í vestanverðum Vatnajökli. Þaðan fellur hún meðfram eystri jaðri Eldhrauns niður á Fljótseyrar rétt vestan Skeiðarársands. „Á sumrin þegar framburðurinn er hvað mestur þá þarf að stöðva virkjunina út af þessum aurburði. Á veturna er svo aftur mjög lítið vatn í Hverfisfljóti. Þá þyrfti væntanlega að stoppa hana líka. Einmitt þegar eftirspurnin er mest.“
Þetta er ekkert leyndarmál enda frá þessu greint í skýrslum um framkvæmdina. „Svo er afhendingaröryggið hér víst með því besta sem fyrirfinnst á landinu,“ bætir hún við. Búið sé að leggja það í jörð að stærstum hluta og eins standi lagfæringar á stóru spennuvirki við Prestsbakka fyrir dyrum. „Og af því að þessi rök meirihlutans standast ekki skoðun þá verða þau ákaflega léttvæg. Það er ákaflega miklu til fórnað fyrir litla hagsmuni.“
Í bókun Z-listans á sveitarstjórnarfundinum var vakin athygli á því að þrír fulltrúar í sveitarstjórn sem fengu samtals 141 atkvæði í síðustu kosningum séu að taka stórar ákvarðanir um framkvæmdir sem hafi óafturkræf umhverfisáhrif í einni af náttúruperlum landsins. Þetta 141 atkvæði sé 0,08 prósent af greiddum atkvæðum á landsvísu í sveitarstjórnarkosningunum 2018.
Er það þitt mat að lítil sveitarfélög eigi ekki að hafa skipulagsvald yfir náttúruauðlindum?
„Þetta þarfnast grundvallarendurskoðunar,“ svarar Heiða. Skaftárhreppur, nefnir hún sem dæmi, er sjö prósent af heildarflatarmáli Íslands. „Af hverju geta örfáar hræður heima í héraði ráðið yfir svo stórum hluta landsins? Yfir þjóðlendum sem eins og nafnið ber með sér eru eign þjóðarinnar? Þetta er ekki rétta leiðin. Þarna eru of fáir að fara með alltof mikla ábyrgð. Og það hefur sýnt sig ítrekað að fólk veldur þeirri ábyrgð ekki.“
Í bókun Z-listans er einmitt minnt á að valdi fylgir ábyrgð og Hnútuvirkjun sögð skýrt dæmi um að skipulagsvald sveitarfélaga án beinnar aðkomu fagstofnana þurfi að endurskoða þar sem „frændsemi, vinfengi og greiðasemi við nágranna geta leitt til ákvarðana með skelfilegum óafturkræfum afleiðingum fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar“.
Spurð um hvað átt sé nákvæmlega við með þessu segir Heiða að hættan á hagsmunatengslum í litlum sveitarfélögum sé alltaf fyrir hendi. „Og þó að þau séu ekki til staðar þá er grunur um þau alltaf fyrir hendi. Það skapar ekki traust. Fámennið veldur þessu.“
Búlandsvirkjun í Skaftá var áformuð í næsta nágrenni við bæinn hennar Heiðu, Ljótarstaði í Skaftártungu. Í ágúst 2016 lagði verkefnisstjórn rammaáætlunar til að kosturinn færi í verndarflokk. Margir héldu að þar með væri sú orrusta unnin – að ekkert yrði af virkjuninni. Málið væri dautt. En þannig er það þó ekki. Þingsályktunartillaga um þriðja áfanga rammaáætlunar, sem byggir á niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar, hefur enn ekki verið samþykkt, fimm og hálfu ári eftir að hún var fyrst lögð fram á Alþingi.
HS orka hefur ekki gefið Búlandsvirkjun upp á bátinn og sagði í svörum við fyrirspurn Kjarnans í byrjun árs að hún ætti „fullt erindi í nýtingarflokk“ rammaáætlunar. Endurmeta ætti þá þætti sem taldir voru neikvæðir og urðu til þess að virkjunin var sett í verndarflokk tillögunnar.
„Að heyra þetta var enn eitt höggið í kviðinn,“ segir Heiða. Hún hafi hins vegar mátt eiga von á því þar sem tillaga rammaáætlunar sé enn óafgreidd og svæðið þar með ekki verið friðlýst. „Á meðan staðan er þannig þá er þetta yfirvofandi hætta. Þetta er ekki búið.“
Hinum megin við hana sé svo virkjun í Hólmsá áformuð en sá kostur er í biðflokki tillögunnar. „Þannig að það er fast sótt að Skaftárhreppi utan frá. En það er líka sótt að honum innanfrá og það er kannski það erfiðasta.“
Jafn umdeildum hugmyndum og virkjunum fylgir gríðarlegt álag á lítil samfélög, segir Heiða. Það varð augljóst þegar Búlandsvirkjun var í hámæli. Fólk skiptist í fylkingar – eða var dregið í fylkingar. Gjá myndaðist milli fólks. Nágranna. „Það jafnaði sig talsvert eftir því sem frá leið en svo sjálfsagt blossar þetta aftur upp núna.“
D-listi sagði í bókun sinni á fundinum þar sem framkvæmdaleyfið var samþykkt að Hnútuvirkjun samræmist aðgerðaráætlun stjórnvalda varðandi orkuskipti. Þessi rök hafa heyrst nokkuð oft upp á síðkastið í virkjanamálum. Er þetta þá ekki tapað stríð, að berjast gegn virkjunum?
„Nei. Það er ekki tapað stríð. En það er hins vegar ofsalega erfitt stríð. Það er ekkert grín að standa í þessu og það hefur tekið vel á. Það eru orðin tíu ára síðan að ég fór að standa í þessari baráttu. Á þessum tíu árum hefur tíminn unnið mikið með okkur. Viðhorf til náttúruverndar hafa breyst til hins betra í samfélaginu. Fleiri vilja staldra við og hugsa málin vel og vandlega til enda. Meta sjónarmið náttúrunnar og samfélagsins.“
En með umræðunni um nauðsyn þess að fara í orkuskipti til að bregðast við loftslagsvá hefur orðið ákveðin viðhorfsbreyting. „Þá kemur stóra bakslagið,“ segir Heiða. „En þetta er alltaf svona. Þegar búið er að ná ákveðnum árangri þá kemur bakslag. Í allt. Og það er að gerast núna í þessum málum.“
Virkjanaaðilar sjái sér leik á borði og mótstaðan veikist. Orkumálastjóri hefur hins vegar talað um nauðsyn þess að forgangsraða og nota orkuna skynsamlega. Heiða segir í þessu sambandi þarft að muna að hér á landi er gríðarlega mikið rafmagn framleitt og um 80 prósent þess fer til stórra viðskiptavina á borð við stóriðju og gagnavera. „Stór hluti af starfsemi gagnaveranna felst í því að grafa eftir bitcoin. Viljum við það? Á að virkja meira til að halda áfram að leita að einhverju sem er ekki einu sinni til?“
Nýta þurfi betur það sem framleitt er, nýta þurfi betur þær virkjanir sem fyrir eru „og bara róa sig aðeins,“ segir Heiða. „Það eru líka hraðar tækniframfarir í þessum geira eins og öllum öðrum. Að fara að raska náttúru á morgun, af því að það liggur svo rosalega á, er alveg ofboðslega skrítin nálgun.“
Heiða hefur setið í sveitarstjórn í tvö kjörtímabil fyrir hönd Z-listans. En í kosningunum í vor er hún ekki í framboði. „Z-listinn ákvað að bjóða ekki fram,“ segir hún. „Það var mjög erfitt að vinna með D-listanum á kjörtímabilinu. Okkur var haldið mjög stíft frá öllum nefndum og ábyrgðarstöðum framan af. Þetta hefur verið mikill slagur og fólk er einfaldlega þreytt.“
Hún segir afskiptum sínum af pólitík þó „alveg örugglega ekki“ lokið. „Ég held að það þekki það allir sem áhuga hafa á náttúruverndarmálum að þau algjörlega heltaka mann.“
Þegar sveitarfélagið gefur út framkvæmdaleyfi vegna Hnútuvirkjunar verður hægt að hefjast handa við að byggja hana. „En það næsta sem gerist er að þessi ákvörðun verður kærð,“ segir Heiða og vísar til þess að Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sem og fleiri náttúruverndarsamtök ætla að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fara fram á að ekki verði byrjað á framkvæmdum fyrr en niðurstaða fæst.
Það er því vonandi ekki þannig, segir Heiða, að gröfurnar séu að fara af stað á morgun.
Hún er enn á því að Hnútuvirkjun verði aldrei reist. „Ég trúi því ekki fyrr en vélar hennar fara að snúast. Það þýðir ekki að guggna.“