Sjálfstæðisflokkurinn í frjálsu falli og Samfylkingin mælist stærst í Reykjavík
Sitjandi meirihluti í Reykjavík bætir við sig fylgi frá síðustu kosningum og gæti setið áfram kjósi hann svo. Framsóknarflokkurinn stefnir í að verða sigurvegari kosninganna og tekur nýtt fylgi sitt að mestu frá Sjálfstæðisflokknum. Sósíalistar eru í dauðafæri til að bæta við sig manni en Miðflokkurinn nær engu flugi. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspár Kjarnans.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að dala í fylgi samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Fylgi hans mælist nú 21,9 prósent, sem er 3,1 prósentustigi minna en það mældist fyrir tveimur vikum og 8,9 prósentustigum minna en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum vorið 2018, síðast þegar kosið var til borgarstjórnar. Frá því að síðasta kosningaspá var keyrð hefur Sjálfstæðisflokkurinn, líkt og aðrir flokkar, kynnt stefnumál sín í borginni fyrir komandi kosningar, sem fara fram eftir rúmar tvær vikur, eða laugardaginn 14. maí.
Fylgistap Sjálfstæðisflokksins virðist gagnast Framsóknarflokknum mest, en hann mælist nú með 12,6 prósent fylgi. Það er aðeins minna en hann mældist með í síðustu kosningaspá en margfalt það sem flokkurinn fékk 2018, hann hlaut einungis 1.870 atkvæði og 3,2 prósent atkvæða.
Í nýjustu könnun Prósents fyrir Fréttablaðið voru þátttakendur spurðir hvaða flokk þeir kusu 2018 og þar kom í ljós að aukið fylgi Framsóknarflokksins kemur einkum frá fyrrverandi kjósendum Sjálfstæðisflokksins.
Núverandi meirihluti í Reykjavík, sem samanstendur af Samfylkingunni, Pírötum, Viðreisn og Vinstri grænum, bætir við sig milli kosningaspáa. Alls segjast 51 prósent kjósenda í borginni ætla að kjósa einhvern þeirra flokka nú. Það er tæplega tveimur prósentustigum fleiri en sögðust styðja þá í kosningaspánni sem birt var um miðjan aprílmánuð og 4,6 prósentustigum fleiri en kusu þá í kosningunum 2018.
Samfylkingin mælist nú stærsti flokkurinn í borginni samkvæmt kosningaspánni en Sjálfstæðisflokkurinn, sem er stærstur í borgarstjórn eins og er, hefur verið í því sæti síðustu mánuði. Alls segjast 23,5 prósent kjósenda að þeir ætli að kjósa flokk Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Það er nánast sama hlutfall og í síðustu spá en 2,4 prósentustigum færri en kusu Samfylkinguna 2018.
Píratar bæta mest við sig af meirihlutaflokkunum. Þeir njóta nú stuðnings 14,6 prósent kjósenda sem er 1,8 prósentustigi fleiri en í síðustu kosningaspá og næstum tvisvar sinnum fleiri en kusu flokkinn í síðustu kosningum, þegar hann fékk 7,7 prósent atkvæða.
Stöðugleiki er í fylgi Viðreisnar, sem mælist með 6,7 prósent fylgi. Það er 1,5 prósentustigi minna en flokkurinn fékk síðast þegar kosið var. Vinstri græn, sem biðu afhroð 2018 og fengu einungis 4,6 prósent atkvæða, mælast nú með 6,2 prósent fylgi.
Samandregið tapa því Samfylking og Viðreisn lítillega frá síðustu kosningum, Píratar bæta verulega við sig og Vinstri græn hressast aðeins.
Sósíalistaflokkurinn stærri en Viðreisn
Sósíalistaflokkur Íslands mælist nú með meira fylgi í kosningaspánni en hann fékk í síðustu kosningum. Alls segjast 6,8 prósent kjósenda ætla að setja X við J en flokkurinn fékk 6,4 prósent atkvæða fyrir fjórum árum. Sósíalistaflokkurinn mælist nú stærri en bæði Viðreisn og Vinstri græn og yrði fimmti stærsti flokkurinn í borgarstjórn ef staðan í kosningaspánni nú yrði niðurstaða kosninganna eftir rúmar tvær vikur.
Flokkur fólksins bætir líka við sig frá síðustu kosningum og mælist nú með 5,9 prósent fylgi, en fékk 4,3 prósent árið 2018. Hann bætir við sig prósentustigi milli spáa.
Miðflokkurinn, sem hefur skipt um oddvita, er sá flokkur fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn sem tapað hefur mestu fylgi á kjörtímabilinu. Flokkurinn fékk 6,1 prósent atkvæða síðast þegar kosið var sem skilaði þáverandi oddvita, Vigdísi Hauksdóttur, örugglega inn í borgarstjórn. Ómari Má Jónssyni, sem tekið hefur við sem oddviti, virðist ekki vera að takast að hressa upp á ásýnd Miðflokksins, að minnsta kosti enn sem komið er, en fylgið mælist 1,8 prósent og hefur ekki komist yfir tvö prósent síðan um miðjan mars.
Önnur framboð sem skiluðu inn gildum framboðslistum, Ábyrg framtíð og Reykjavík – besta borgin, mælast ekki með fylgi.
Tveir flokkar fá meirihluta borgarfulltrúa
Ef fram fer sem horfir munu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur fá sex borgarfulltrúa hvor. Sjötti maður Sjálfstæðisflokksins er hins vegar síðasti maður inn eins og stendur.
Það þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn tapar tveimur milli kosninga en Samfylkingin einum. Flokkarnir gætu því tæknilega myndað tveggja flokka meirihluta, en engar praktískar líkur eru á því þar sem þeir stilla sér upp sem pólitískum andstæðum í höfuðborginni.
Píratar myndu fá fjóra borgarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn að óbreyttu þrjá. Viðreisn, Vinstri græn, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins næðu inn einum hver. Bæðir Sósíalistar og Viðreisn eru hársbreidd frá því að fella sjötta mann Sjálfstæðisflokks og ná inn öðrum manni sínum.
Sitjandi meirihluti fær tólf borgarfulltrúa kjörna samkvæmt kosningaspánni líkt og hann hefur nú og gæti því haldið samstarfi sínu áfram ef þetta yrðu niðurstöður kosninga. Þau þrjú sæti sem færast til í minnihlutanum og á meðal flokka utan borgarstjórnar raðast þannig að þau fara öll til Framsóknar.
Líkurnar á því að núverandi meirihluti haldi mælast nú 61 prósent og hafa aukist milli spáa. Ef Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn vildu skipta Viðreisn út fyrir hefðbundnari félagshyggjuflokk í Framsókn eru 91 prósent líkur á að sú blanda fái meirihluta. Það væri líka hægt að setja Viðreisn til hliðar fyrir Sósíalistaflokkinn fyrir meiri vinstrislagsíðu, en 62 prósent líkur eru á að slíkur meirihluti náist. Hins vegar er nokkuð langt í land að Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn nái þriggja flokka meirihluta. Líkurnar á því eru 25 prósent.
Væntingar Sjálfstæðisflokksins hafa staðið til þess að hægt verði að mynda meirihluta án Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Líkurnar á slíkum meirihlutum eru ekki góðar sem stendur. Einungis tíu prósent líkur eru á að hægt verði að mynda meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar eða fjögurra flokka meirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Flokks fólksins og Miðflokks. Líkurnar batna ef Viðreisn er skipt inn fyrir Miðflokk í fjögurra flokka lausninni en eru samt einungis 32 prósent sem stendur.
Líkurnar eru fengnar með því að framkvæma 100 þúsund sýndarkosningar. Í hverri sýndarkosningu er vegið meðaltal þeirra skoðanakannana sem kosningaspáin nær yfir hverju sinni líklegasta niðurstaðan en sýndarniðurstaðan getur verið hærri eða lægri en þetta meðaltal og hversu mikið byggir á sögulegu fráviki skoðanakannana frá úrslitum kosninga.
Kannanir í nýjustu kosningaspá fyrir borgarstjórnarkosningar 14. maí:
- Skoðanakönnun Maskínu 22. – 29. mars (15,7 prósent)
- Þjóðarpúls Gallup 14. mars. – 10. apríl (28,4 prósent)
- Skoðanakönnun Prósents 13. - 26. apríl (55,9 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira um borgarstjórnarkosningarnar:
-
21. desember 2022Kosningastjóri Samfylkingarinnar nýr aðstoðarmaður borgarstjóra
-
3. nóvember 2022Framsókn og Vinstri græn hafa tapað um átta prósentustigum af fylgi frá síðustu kosningum
-
31. ágúst 2022Vegglistaverk Libiu og Ólafs þótti óleyfilegur kosningaáróður í Hafnarfirði
-
20. ágúst 2022Laun 30 dýrustu bæjarstjóranna voru samtal 698 milljónir króna í fyrra
-
12. ágúst 2022Hildur varði 9,3 milljónum í prófkjörsslaginn og átti eina og hálfa milljón afgangs
-
11. ágúst 2022Hildur skilaði uppgjöri vegna prófkjörs í gær
-
6. júlí 2022Vigdís Hauksdóttir vill verða bæjarstjóri
-
18. júní 2022Flokkurinn sem útilokaði sjálfan sig
-
8. júní 2022Dagur ógnar
-
7. júní 2022Næstum fjórum af hverjum tíu kjósendum Framsóknar líst illa á samstarfið í borginni