Litla þorpið sem á að bjarga þýska risanum

Margt þarf að ganga eftir svo að móbergsvinnsla þýska sementsrisans Heidelberg Materials í Þorlákshöfn verði að veruleika. Leyfi þurfa að fást til að mylja niður heilt fjall. Semja þarf um nýja vegi á ósnortnu landi og stækkun hafnarinnar. Meta umhverfisáhrif verksmiðjunnar. Afla 60 MW af raforku, leggja háspennulínur. Og reisa vetnisverksmiðju – eigi ítrustu markmið að nást. En stærsta áskorun fyrirtækisins verður þó líklega að sannfæra Þorlákshafnarbúa um að það sé góð hugmynd að reisa risavaxna verksmiðju með 40-50 metra háum sílóum við lágreista byggðina í bænum. Tekjur myndu vissulega skapast fyrir sveitarfélagið en „erum við að menga okkar land þannig að þýskt fyrirtæki geti lækkað sitt kolefnisspor?“

Regn­vott fólk tín­ist inn úr myrkr­inu. Sumir hafa sýnt fyr­ir­hyggju, klæðst regnkápum og varið sig með regn­hlíf­um, en aðrir eru nán­ast nið­ur­rigndir og setj­ast gegn­blautir á stól­ana fyrir framan svið­ið. Flestir koma þó akandi. Höfðu lent í sjald­gæfri umferð­ar­teppu á einu umferð­ar­ljósum bæj­ar­ins. Úr henni leyst­ist fljótt og nú sitja nokkur hund­ruð íbúar Þor­láks­hafnar saman undir blik­andi jóla­ser­íum í Ver­sölum – stórum sal í ráð­húsi bæj­ar­ins.

Aðeins nokkrum klukku­stundum áður hafði verið stig­inn þarna dans fram á nótt. En þessi sam­koma er alvöru­þrungin þótt gestir skrafi á léttum nótum sín á milli á meðan þeir bíða eftir að fundur um fyr­ir­hug­aða verk­smiðju í bænum þeirra hefj­ist.

Þeir hafa þegar margir deilt skoðun sinni á þeim áform­um. Viðrað áhyggjur af hæð bygg­inga og umferð flutn­inga­bíla – af öllum 222 ferðum þeirra á dag. „Djöf­ull er þetta ljótt,“ hafði einn þeirra skrifað á Face­book-­síðu íbú­anna. „Ta­landi um að skemma heild­ar­mynd heils bæj­ar­fé­lags með einni ömur­legri bygg­ing­u.“

Efni fund­ar­ins í Ver­sölum er móberg. Eða rétt­ara sagt fyr­ir­huguð vinnsla þýska risa­fyr­ir­tæk­is­ins Heidel­berg Mater­i­als á því. Móbergið mun koma úr námum í Þrengsl­un­um. Lamba­felli þar sem þegar er starf­rækt náma og Litla-Sand­felli þar sem náma er fyr­ir­hug­uð.

Hún yrði svo stór að á þremur ára­tugum myndi fjallið hverfa. Verða minn­ingin ein. Hverfa mulið inn í steypu­hræri­vélar og breyt­ast í uppi­stöður háhýsa, brúa og ann­arra mann­virkja á meg­in­landi Evr­ópu og víðar um heim.

Litla-Sandfell í Þrengslum mun hverfa ef áform Heidelberg Materials verða að veruleika.

Móberg þykir gott íblönd­un­ar­efni í sem­ent. Það verður til við eldsum­brot undir jökli og er þess vegna brennt frá nátt­úr­unnar hendi. Finnst af þessum sökum víða á Íslandi. En er fágætt á heims­vísu.

Og fleira en náman yrði stórt. Verk­smiðjan sem Heidel­berg hyggst reisa við höfn­ina í Þor­láks­höfn yrði það sann­ar­lega líka. Turnar henn­ar, síló­in, myndu blasa við víða. „Mér finnst þetta ömur­leg­t,“ skrif­aði íbúi á Face­book-­síð­una. „Á að gera Þor­láks­höfn að ein­hvers konar þunga­iðn­að­ar­bæ?“

Því áform Heidel­berg Mater­i­als eru ekki þau einu sem hafa verið í umræð­unni. Einnig stendur til að flytja til hafnar í Þor­láks­höfn yfir milljón tonn af Kötlu­vikri á ári. Vikri sem graf­inn yrði úr Mýr­dals­sandi og myndu full­fermdir vöru­bílar aka á korters­fresti milli námu og hafn­ar. Og svo tómir til baka sömu leið. Þær hug­myndir urðu einnig til í kollum stjórn­enda þýsks iðn­risa en voru nýverið seldar tékk­nesku stór­fyr­ir­tæki.

Móbergsmyndanir í Litla-Sandfelli.

Ekki allir íbúar eru nei­kvæðir í garð verk­smiðju Heidel­berg Mater­i­als. „Þetta lítur nú nokkuð vel út og skapar vinnu og tekj­ur,“ skrifar einn á Face­book-­síð­una. „Ertu að grínast?“ svarar þá ann­ar.

Það er gömul saga og ný að áform um stórar fram­kvæmdir geta myndað gjá í sam­fé­lög­um. Klofið þau jafn­vel til lang­frama. Verða til þess að nágrannar deili. Hætti að tal­ast við. Þetta eru sam­fé­lags­leg áhrif umdeildra fram­kvæmda sem lítið hefur verið horft til fram að þessu. Með þá vit­neskju í fartesk­inu, sem og reynslu ann­arra bæj­ar­fé­laga af verk­smiðjum sem áttu ekk­ert að menga en gerðu það svo, mæta Þor­láks­hafn­ar­búar til fundar í ráð­hús­inu um móbergs­verk­smiðju Heidel­berg.

Bæklingur Heidelberg Materials vakti mikil viðbrögð í Þorlákshöfn.
Sunna Ósk Logadóttir

En þeir hafa fleira með­ferð­is. Mynd­skreyttan bæk­ling um áform sem­ents­ris­ans sem stungið var inn um bréfalúgur þeirra í síð­ustu viku. Sá fór væg­ast sagt öfugt ofan í marga. „Áformin eru liður í við­leitni Heidel­berg Mater­i­als til að stór­lækka kolefn­is­spor sitt á heims­vísu vegna sem­ents­fram­leiðslu,“ stóð þar skýrum stöf­um. Verk­smiðjan yrði „stór vinnu­veit­andi í sveit­ar­fé­lag­in­u,“ stóð þar líka. Og Heidel­berg skjallar svo bæj­ar­yf­ir­völd og íbúa: „Ölfus býr yfir nauð­syn­legum innvið­um, góðum hafn­ar­skil­yrðum og miklum mannauð­i.“ Af þessum sökum státi Þor­láks­höfn af „ótví­ræðum kostum sem gera stað­setn­ing­una ákjós­an­lega“.

Stór hluti þessa mannauðs er mættur til fund­ar­ins. Svo stór að stilla þarf upp miklu fleiri stól­um. Það verk­efni dæm­ist á fund­ar­stjór­ann, Þor­stein Víglunds­son, sem hraðar sér með stafla af stólum horna sal­ar­ins á milli. Það fá ekki allir sæti. Vel á fjórða hund­rað mann­eskj­ur, stór hluti hins vax­andi sam­fé­lags í Þor­láks­höfn, vilja vita hvað Þor­steinn hefur að segja.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og talsmaður Heidelberg Materials á Íslandi.
Sunna Ósk Logadóttir

„Gott að byrja þetta laf­móð­ur,“ segir þing­mað­ur­inn fyrr­ver­andi er hann ávarpar loks við­stadda. Hann er ekki fyrr byrj­aður að segja frá verk­efn­inu, að Heidel­berg eigi 53 pró­sent í Horn­steini, fyr­ir­tæk­inu sem hann stýri í dag, en að tæknin fer að stríða hon­um. Skruðn­ingar heyr­ast úr hljóð­nem­an­um. Hávært væl sem sker í eyru.

Þor­steinn Víglunds­son er vanur því að tala opin­ber­lega og tækni­leg vanda­mál setja hann ekki út af lag­inu. Hann var fram­kvæmda­stjóri Sam­taka atvinnu­lífs­ins en sett­ist svo á þing fyrir Við­reisn. Sagði hins vegar af sér þing­mennsku á vor­mán­uðum 2020 og hóf störf hjá eign­ar­halds­fé­lag­inu Horn­steini, sem á m.a. BM Val­lá, fyr­ir­tækið sem faðir hans stjórn­aði í ára­tugi.

Hann er því á heima­velli að tala um steypu. Talar rólega, skýrt og greini­lega. Jafn­vel þegar hann þarf að brýna raustina án vælandi hljóð­nem­ans.

„Það er mik­il­vægt að taka fram að móberg er auð­vitað hund­rað pró­sent nátt­úru­legt efn­i,“ byrjar Þor­steinn á að segja um hvað standi til að gera í verk­smiðj­unni. „Þar af leið­andi er ekki um að ræða losun af neinu tagi, hvorki ryk né lykt­ar­mengun og það er metn­aður að það verði í góðu lagi með hljóð­vist.“

Verk­smiðjan yrði byggð á 55 þús­und fer­metra lóð við höfn­ina. Skammt frá íbúa­byggð. Skammt frá áform­uðum mið­bæ. Og skammt frá einni helstu úti­vistar­para­dís Þor­láks­hafn­ar: Fjör­unni fögru. Þor­steinn ítrekar að engar ákvarð­anir um verk­efnið hafi verið tekn­ar, þetta sé kynn­ing­ar­fund­ur. Um mitt næsta ár eigi svarið að liggja fyr­ir: „Af eða á.“

Heidel­berg Mater­i­als er stærsti fram­leið­andi stein­efna í heim­in­um, annar stærsti fram­leið­andi sem­ents og þriðji stærsti fram­leið­andi stein­steypu. Fyr­ir­tækið er með starf­semi í um sex­tíu löndum og hjá því starfa þús­und­ir. Þetta er því sann­ar­lega risi á sínu sviði.

En af hverju að vinna móberg á Íslandi og flytja það út í heim?

Þorsteinn sýnir glæru með myndinni úr bæklingnum sem vakti úlfúð. Á myndinni sem hann sýndi er verksmiðjubyggingin reyndar grænlituð en var brún í bæklingnum.
Sunna Ósk Logadóttir

„Heidel­berg hefur sett það á odd­inn að ná fram kolefn­is­hlut­leysi í sinni sem­ents­fram­leiðslu,“ segir Þor­steinn. Stefnt sé að því að ná því mark­miði eigi síðar en 2050. Það á í fyrsta lagi að gera með föngun og förgun koltví­sýr­ings með nið­ur­dæl­ingu og í öðru lagi með notkun nýrra íblendi­efna í sem­ent. Og þar kemur íslenska móbergið til skjal­anna.

Í dag er svokölluð flugaska sem verður til við brennslu kola notuð í þessum sama til­gangi. En þar sem verið er að draga úr raf­orku­fram­leiðslu með kola­orku­verum á heims­vísu er Evr­ópa, að sögn Þor­steins, „að verða uppi­skroppa með hana á næstu fimm til tíu árum“.

Því hefur Heidel­berg leitað nýrra íblendi­efna og rann­sóknir síð­ustu ára hafa sýnt að malað og þurrkað móberg er fyr­ir­taks stað­geng­ill. Stað­geng­ill fyrir stað­gengil ef svo mætti segja. Því lengi var, og er reyndar í ein­hverjum mæli enn, notað sem­ents­gjall (klin­ker). Flugaskan leysti gjallið af hólmi og nú skal móbergið koma í hennar stað.

Grænlitaðar útlínur áformaðrar verksmiðju. Myndin á að sýna byggingarmagnið en ekki útlit verksmiðjunnar, segir Þorsteinn.
Heidelberg Materials

Til að ná lofts­lags­mark­miðum sínum ætlar Heidel­berg í þriðja lagi að leggja áherslu á orku­skipti í sam­göng­um. „Ágætt er að hafa í huga að í þessu til­tekna verk­efni er stefnt að kolefn­is­hlut­lausri vöru nán­ast frá byrjun og efnið flutt með far­ar­tækjum sem verða knúin end­ur­nýj­an­legu elds­neyt­i,“ segir Þor­steinn. Í athugun sé að þróa fyrsta vetnisknúna sem­ents­skipið í heim­in­um.

„Megin til­gangur verk­efn­is­ins er að lækka kolefn­is­spor sem­ents,“ ítrekar Þor­steinn og gerir til­raun til að útskýra með hvaða hætti:

Ef kolefn­is­spor sem­ents er í dag að með­al­tali 700-750 kíló á hvert tonn þá sparar móberg, malað saman við sem­ent­ið, 20 pró­sent af þessu kolefn­is­spori.

Og hann heldur áfram:

„Það má taka sem dæmi að ein milljón tonna af útfluttu móbergi myndi sam­svara 17 pró­sent af heild­ar­losun Íslands. Og ef við værum að tala hér um 2-3 millj­ónir tonna þá erum við að nálg­ast helm­ing­inn af heild­ar­losun Íslands. Þannig að verk­efnið væri í raun risa­stórt fram­lag Íslands til kolefn­is­jöfn­unar í Evr­ópu og mun skipta veru­legu máli í því heild­ar­sam­heng­i.“

Varla virð­ist til sú áform­aða stór­fram­kvæmd í dag sem ekki á að draga úr los­un, minnka kolefn­is­spor eða styðja hrein­lega við algjört kolefn­is­hlut­leysi. Að móbergs­vinnsla í Þor­láks­höfn smellpassi að lofts­lags­mark­miðum ætti því engum að koma á óvart.

Full­yrð­ingar um jákvæð lofts­lags­á­hrif þess að nota móberg í sem­ent hafa verið gagn­rýndar af íslenskum stofn­un­um. Þá gagn­rýni settu þær m.a. fram í umhverf­is­mats­skýrslu námu­vinnsl­unnar í Litla-Sand­felli. Þær vilja meina að útreikn­ing­arnir virð­ist miða við þá losun sem fylgi notkun hins meng­andi sem­ents­gjalls en ekki flug­ösku. Að þessum jákvæðu áhrifum hafi þegar verið náð, að minnsta kosti að ein­hverju marki. Um það hefur Kjarn­inn fjallað í nokkrum fréttum und­an­far­ið.

Stóra spurn­ingin

Síló Heidelberg Materials við verksmiðjuna í Malmö í Svíþjóð. Mynd: Wikipedia

„Hvernig mun verk­smiðjan líta út? Það er auð­vitað stóra spurn­ing­in,“ segir Þor­steinn og bregður upp á tjald mynd af verk­smiðju með háum turnum í Malmö í Sví­þjóð og segir Heidel­berg hafa reynslu af því að byggja verk­smiðjur inni í litlum bæj­ar­fé­lög­um. „Það er rétt að taka það fram að hönnun [verk­smiðj­unn­ar] hér er á algjöru frum­stig­i.“

Ákvarð­anir um hönn­un­ina verði teknar í sam­ráði við bæj­ar­yf­ir­völd og „auð­vitað við bæj­ar­búa sjálfa“.

Þvínæst varpar hann mynd af Þor­láks­höfn upp á tjaldið og inn á hana er búið að tölvu­teikna kassa­laga bygg­ingar sem eiga að sýna það bygg­ing­ar­magn sem um ræð­ir. „Þetta hefur mér verið sagt að hafi vakið mikla athygli – sem ég er ekk­ert hissa á,“ við­ur­kennir hann. Hann vilji ekki syk­ur­húða hlut­ina: „Það er alveg ljóst að hér er um stór mann­virki að ræða.“

Millj­ón­irnar

En hver er ávinn­ing­ur­inn fyrir sveit­ar­fé­lagið og nær­sam­fé­lag­ið, spyr Þor­steinn svo og svarar spurn­ingu sinni með þessum hætti: „Þetta hefur veru­leg jákvæð efna­hags­leg áhrif fyrir Ölf­us. Það er talað um 60-90 bein störf í fram­leiðslu og námu­vinnslu. Og það er ágætt að hafa það í huga að hér er verið að ræða um vel launuð störf.“

Miðað við útflutn­ing á 1,5 til 2,5 millj­ónum tonna af móbergi á ári yrðu hafn­ar­gjöld ein og sér „talin í hund­ruðum millj­óna,“ tekur hann sem dæmi.

Útsýnið af síló­unum

Heidel­berg vill verða „góður grann­i“, leggja sitt af mörkum til sam­fé­lags­ins í formi styrkja til menn­ing­ar- og íþrótta­starfs en „það er einnig ríkur vilji til þess að reyna að tengja svæðið eins og kostur er við umhverf­ið,“ segir Þor­steinn. „Það hefur ekk­ert verið úti­lokað þegar kemur að hönnun mann­virkja. Væri hægt að nýta bygg­ingar af þess­ari hæð sem útsýn­is­staði inn í ferða­þjón­ustu? Það kemur vel til álita af okkar hálf­u.“

Það er komið að spurn­ingum og Þor­steinn og jarð­fræð­ing­ur­inn Börge Wig­um, einu tals­menn Heidel­berg á fund­in­um, eru til svara.

Margar hendur fara þegar í stað á loft hér og hvar í saln­um. Karl­maður ríður á vaðið og segir að eitt af því sem valdi íbúum áhyggjum sé stað­setn­ing verk­smiðj­unn­ar. Hann spyr: „Væri mögu­leiki, til að reyna að sætta ólík sjón­ar­mið, að færa verk­smiðj­una vestan við þorp­ið?“

Fleiri eiga eftir að spyrja um hið sama. Þarf hún virki­lega að vera þarna?

„Við höfum í sjálfu sér ekki úti­lokað neitt en höfum á sama tíma sagt að nálægð við höfn er algjört lyk­il­at­rið­i,“ svarar Þor­steinn. „Það verður strax veru­lega kostn­að­ar­samt og flókið að flytja efnið full­unnið um langan veg. Ég ótt­ast að það myndi verða alltof dýrt og ég held að það sé ekki raun­hæft.“

Annar fund­ar­gestur vill vita hver ætli að bera kostn­að­inn af þeim miklu hafn­ar­fram­kvæmdum sem þyrfti að ráð­ast í.

„Það er alveg ljóst að við myndum þurfa að taka þátt í þeim kostn­að­i,“ segir Þor­steinn. „Við höfum þá gert ráð fyrir að það sé í formi fyr­ir­fram­greiddra hafn­ar­gjalda af ein­hverju tag­i.“

En hvað með hávaða­mengun frá höfn­inni, spyr kona. „Nú er íbúa­byggð nán­ast alveg við höfn­ina.“

Lest­un­in, frá sílóum út í skip, fer fram á lok­uðum færi­böndum og er ekki hávær, full­yrðir Þor­steinn. Sem­ents­skip séu stór en ekki hávær­ari en önnur skip. Þau verði svo hljóð­lát þegar þau gangi fyrir vetni, líkt og stefnt sé að.

Hvað ef henni verður lok­að?

Einnig var spurt um hvað myndi ger­ast ef loka þyrfti verk­smiðj­unni. Þor­steinn seg­ist telja það „ákaf­lega ólík­leg­t“. Horft sé til rekstrar til næstu ára­tuga.

„Það er ekki gott að segja „við höldum að þetta muni ganga vel“,“ segir þá annar fund­ar­gestur og vill vita hvort áætl­anir hafi verið gerðar ef lokun yrði fyrr en til stæði. Hver beri ábyrgð og kostnað af því?

Þor­steinn seg­ist „játa það fús­lega“ að slíkar áætl­anir hafi enn ekki verið gerð­ar. „Við hugsum þessa starf­semi til lang­frama. Við erum ekki að huga að lok­un­inni þegar við erum að fara af stað.“ Hins vegar sé ekki óal­gengt að slíkt sé sett inn í samn­inga milli fyr­ir­tækja og sveit­ar­fé­laga, „þannig að það er lítið mál að huga að því fyr­ir­fram“.

Lóðin sem Heidelberg hefur fengið úthlutað er rétt við höfnina. Rétt við fjöruna. Rétt við íbúabyggð. Og í nágrenni áformaðs miðbæjar Þorlákshafnar.
Ágústa Ragnarsdóttir

Þá er spurt: „Þetta er gíf­ur­legt magn sem á að flytja hingað niður eft­ir. Hvernig hygg­ist þið gera það?“

Þrír meg­in­kostir hafa verið skoð­að­ir, útskýrir Þor­steinn. Erlendis sé þekkt að flytja efni með færi­böndum frá námu og að vinnslu­stað. „Það er mjög dýrt og hefur auk þess áhrif á umhverfið að setja slíkan búnað upp,“ bætir hann við. Sá kostur virð­ist því út úr mynd­inni. „Númer tvö er að nýta þjóð­vega­kerfið sem til staðar er. Við höfum heyrt mjög skýrar raddir um að það sé ekki ríkur vilji til þess. Við höfum því verið að skoða sér­greinda [vegi] sem kæmu þá nálægt bæj­ar­mörkum en ekki inn í bæinn og efnið yrði þá flutt með færi­böndum síð­ustu 1-2 kíló­metrana.“

Fund­ar­gest­ur: „Hvar myndi sér­greind leið fyrir vöru­bíla liggja?“

Þor­steinn: „Það er eitt af því sem er til skoð­un­ar.“

Vænt­an­legt, mögu­legt og kannski

„Þið hafið talað um að þetta muni lækka kolefn­is­spor þessa þýska fyr­ir­tæk­is­ins,“ spyr karl­mað­ur. „Það er ekk­ert smá kolefni sem er verið að pústa út í loftið hér, með stórum vinnu­vélum í námu og flytja það svo hing­að. Svifryk og annað slíkt. Erum við þá að menga okkar land þannig að þýskt fyr­ir­tæki geti lækkað sitt kolefn­is­spor?“

Fullt var út úr dyrum á íbúafundinn í ráðhúsinu. Þorsteinn Víglundsson var fundarstjóri og svaraði flóði spurninga frá bæjarbúum.
Sunna Ósk Logadóttir

Þor­steinn ítrekar að stefnt sé að því að nota flutn­inga­bíla sem gangi fyrir end­ur­nýj­an­legu elds­neyti. „Metn­að­ur­inn er að þetta sé kolefn­is­hlut­laus vara, komin til við­skipta­vina í Evr­ópu. Bæði flutn­ing­ur­inn hér og skipa­flutn­ing­arn­ir.“

„Mér finn­ast þessi svör þín og þessar skýr­ingar ansi loðn­ar,“ segir þá kona. „Það er allt vænt­an­legt og mögu­legt og kannski. Skipið er svona stórt en það heyr­ist samt ekk­ert í því. Þetta verður yfir­þyrm­andi fyrir okkur sem búum næst höfn­inni. Fyrir utan að það þarf eng­inn að segja mér það að verk­smiðja alveg við bæj­ar­mörkin mengi ekki neitt. Að það komi eng­inn hávaði frá henni. Og það eru engir vöru­bílar sem geta flutt þessa þyngd sem eru vetnisknún­ir. Ég meina, Teslan dregur ekki einu sinni hesta­kerru í dag. Þetta er ekk­ert að ger­ast.“

Sal­ur­inn springur úr hlátri. Margir klappa.

Vænt­an­legir vetn­is­vöru­bílar

Þor­steinn bíður eftir hljóði og seg­ir: „Svo því sé til haga hald­ið: Þessir vöru­bílar eru komn­ir. Og þeir eru í mjög örri þró­un. Við erum að tala um fram­leiðslu sem færi af stað í fyrsta lagi árið 2025 eða 2026. En það er verið að bjóða okkur vetn­is­bíla til notk­unar á næsta ári. Þannig að þessi tækni er kom­in.“

En hvar er vetn­ið, er þá spurt. Því engin vetn­is­verk­smiðja er risin hér á landi þótt ein­hverjar slíkar séu á teikni­borð­inu. Þær eru mjög orku­frekar og þurfa virkj­an­anna við.

Þor­steinn bendir á að í orku­skipta­á­ætl­unum stjórn­valda séu hug­myndir um hvernig vetni verði fram­leitt hér til orku­skipta.

Mun þetta minnka losun Þor­láks­hafn­ar? Nei.

Lofts­lags­málin eru ekki afgreidd. Margir hafa rétt upp hönd.

„Er það bara þannig að þýska fyr­ir­tækið er að fara að jafna kolefn­is­spor sitt eða munu þau jákvæðu umhverf­is­á­hrif skila sér til íbúa Þor­láks­hafn­ar?“

„Ja, mun þetta minnka losun Þor­láks­hafn­ar? Nei. Það gerir það ekki en þannig virkar lofts­lags­bók­haldið okkar ekki,“ svarar Þor­steinn. „Það má alveg hafa það í huga að við sem þjóð erum að flytja inn langstærstan hluta af okkar kolefn­is­spori sem telur ekki inn í okkar lofts­lags­bók­hald. Þannig að við getum ekki heldur sagt að það ein­hverjir aðrir verði að hafa áhyggjur af því hvernig við afgreiðum málm­iðnað til að búa til Tesl­urnar okkar eða batt­er­íin í þær og svo fram­veg­is. Þetta er hnatt­rænn vandi. Þannig að vissu­lega erum við að segja: Já, við erum að leggja af mörkum hér veru­lega lækkun kolefn­is­spors sem kemur inn í lofts­lags­bók­hald ann­arra landa en það er samt hluti af lausn við hnatt­rænum vanda og við þurfum öll að taka þátt í að leysa hann.“

Nú er keppst um að kom­ast að með spurn­ing­ar. Þor­steinn stendur í ströngu við að for­gangs­raða.

„Það er hendi hérna! Hérna!“ Kona teygir hönd sína upp sem mest hún má. Og áfram er spurt um kolefn­is­sporið títt­nefnda. Gestir koma vel und­ir­búnir til fund­ar­ins. Hafa kynnt sér mál­in. Vilja skýr og afdrátt­ar­laus svör.

Hvaðan á heita vatnið að koma? En rafmagnið? Öllu er mótmælt, það er bara þannig. Fundargestir spurðu og spurðu á íbúafundinum.
Sunna Ósk Logadóttir

Græna hliðin ekki til­komin af góð­mennsku

Kolefn­is­spor bygg­ing­ar­iðn­að­ar­ins er gríð­ar­legt, bendir konan á. „Það á að leggja gríð­ar­lega skatta á þessa starf­semi ef hún gerir ekk­ert í sínum mál­um. Þannig að ég held, því mið­ur, að græna hliðin hjá Heidel­berg sé ekki af góð­mennsku og umhverf­is­sjón­ar­miðum einum saman heldur til þess að reyna að spara sér pen­ing.“

„Heyr heyr!“ er kallað á nokkrum stöðum í saln­um.

„Þetta er góðu punkt­ur,“ byrjar Þor­steinn svar sitt á. Innan Evr­ópu­sam­bands­ins eigi vissu­lega að fara að breyta kerfum sem útdeila los­un­ar­heim­ildum til iðn­fyr­ir­tækja, þar á meðal til sem­ents­fram­leið­enda. Þær verði ekki lengur ókeyp­is. „Það er verið að setja þá kröfu á þessi fyr­ir­tæki að þau hafi x mörg ár til að koma sér niður í kolefn­is­hlut­leysi ellegar legg­ist mjög þungur kostn­aður á þau. Það er alveg rétt. En fyr­ir­tæki eins og Heidel­berg styður líka þessar aðgerðir af því að þær eru að virka til að knýja stærri iðn­fyr­ir­tæki til að minnka kolefn­is­spor sitt.“

Nánd við námur og höfn er lykilatriði segir talsmaður Heidelberg Materials.
Heidelberg Materials

Hvað mun þetta nota mikið raf­magn, er svo spurt. Raf­magn er líka auð­lind sem keppst sé um.

„Það er gert ráð fyrir um það bil 40 mega­vatta raf­orku­notkun í fyrsta áfanga verk­efn­is­ins og það gæti auk­ist í 60 mega­vött í öðrum áfanga. Þetta er ekki risa orku­not­andi en vissu­lega stór, það er alveg rétt,“ svarar Þor­steinn.

Í þessu sam­hengi má nefna að Kröflu­virkjun er 60 mega­vött (MW) að afli.

„Er búið að tryggja þessa orku?“

„Ja, það er eitt af því sem er í umræð­unn­i,“ segir Þor­steinn og afsakar sig með þessum orð­um. „Og af því að talað var hér um að svörin væru loðin þá eru þau einmitt loðin af því að við erum bara hér á fyrstu metr­un­um.“

„Er til raf­orka í kerf­inu fyrir þetta verk­efn­i?“

„Það er til raf­magn í kerf­inu já, og það er til raf­magn hjá orku­fram­leið­end­um,“ svarar hann. „Þannig að við höfum bæði verið að ræða við Lands­net og raf­orku­fram­leið­endur varð­andi aðgang að raf­magni. Það er auð­vitað grund­vall­ar­for­senda þess að hægt sé að reisa verk­smiðju sem þessa.“

„Yes! Loks­ins komið að okk­ur!“ segir kona sem situr út á enda er Þor­steinn hefur loks bent á upp­rétta hönd henn­ar.

Hún vill vita meira um bygg­ing­arn­ar, jafn­vel þótt hönnun þeirra sé aðeins á frum­stigi.

„Þessi síló, hvað er þetta hátt?“

„End­an­leg hæð liggur í raun og veru ekki fyrir en við höfum sagt að þetta séu 40 til 50 metra há mann­virki,“ svarar Þor­steinn.

Nú taka fund­ar­gestir að ræða sín á milli hversu há slík bygg­ing í raun sé, miðað við aðr­ar. „Kulda­boli er fimmtán metra hár,“ segir kona. „Þannig að þetta eru þrír Kulda­bol­ar,“ segir önn­ur.

Kulda­boli er þekkt kenni­leiti í Þor­láks­höfn. Frysti­vöru­hótel við höfn­ina sem þjónar mat­væla­fram­leið­endum jafnt sem inn­flytj­endum og útflytj­end­um. Eitt stærsta mann­virki bæj­ar­ins.

„Gætum við fengið myndir sem sýna verk­smiðj­una frá inn­keyrsl­unni inn í bæinn?“ er spurt.

„Mun þetta sjást frá Sel­fossi?“ spyr ann­ar.

Snyrti­leg mann­virki

„Held­urðu að þetta verði bara fal­leg­t?“ spyr kona um bygg­ing­arnar háu. Þor­steinn horfir á hana um stund þar til hún bætir við: „Nú er ég bara að spyrja af kurt­eisi.“

Þor­steinn bros­ir. Seg­ist ekki hafa tekið því öðru­vísi. „Já, þessi mann­virki geta verið mjög snyrti­leg. Þau eru stór. Ég er heldur ekki að reyna að draga dul á það.“

Verksmiðja Heidelberg í Brevik í Noregi. Þar eru nú gerðar tilraunir með föngun og förgun koltvísýrings.
Heidelberg Materials

„Ég er búin að hafa hend­ina á lofti lengi og ég nenni ekki meir,“ segir einn fund­ar­gesta. Það eru enn margir um hit­una.

„Þið talið um að þetta eigi að vera meng­un­ar­laus starf­sem­i,“ segir hann og rifjar upp lof­orð um sorp­brennslu­stöð á Ísa­firði sem átti ekk­ert að menga „þar til hún gerði það svo“. Gest­ur­inn vill vita hvernig það verði tryggt að starf­semin mengi ekki, „að við getum andað að okkur góðu loft­i“.

Þor­steinn lýsir vinnslu­ferl­inu. Móbergið komi til verk­smiðj­unnar og sé malað og þurrkað með heitu vatni og raf­magni. Engin skað­leg hjálp­ar­efni séu notuð í því ferli. Rykið sé auð­lindin og því hagur fyr­ir­tæk­is­ins að ekk­ert af því sleppi út. „Þetta á ekk­ert skylt við sorp­brennslu­stöð.“

Hann segir að gert hafi verið grín að sér fyrir að segja að verk­smiðjan verði meng­un­ar­laus. „En það er bara veru­leik­inn.“

„Þetta er þá fyrsta verk­smiðjan í heim­inum sem verður meng­un­ar­laus,“ er kallað utan úr saln­um.

Nú spyrja margir í einu.

„Hvað þurfið þið mikið af heitu vatni á sek­úndu og hvar ætlið þið að fá það?“

„Þið þurrkið efnið og þá verður til gufa. Hvað ætlið þið að gera við hana?“

„Verður kosn­ing um það meðal íbúa hvort þeir vilji þetta eða ekki?“

Þetta er spurn­ingin sem lík­lega flestir í salnum vilja fá svör við.

„Það er auð­vitað íbú­anna og sveit­ar­fé­lags­ins að ákveða það,“ svarar Þor­steinn.

„Og ef við myndum segja nei?“

„Ef þið mynduð segja nei? Ég geri ekki ráð fyrir því að verk­efni af þess­ari stærð­argráðu færi fram í harðri and­stöðu við íbú­a.“

Ása Berglind Hjálmarsdóttir.

Ása Berg­lind Hjálm­ars­dótt­ir, full­trúi Íbúa­list­ans í bæj­ar­stjórn, ólst upp í Þor­láks­höfn og er flutt þangað aftur með börn sín. „Mér líst ekk­ert á þetta,“ segir hún. „Ég var búin að sjá fyrir að þú myndir reyna að syk­ur­húða þetta eitt­hvað á þessum fundi en mér finnst þetta jafn­hræði­legt og þegar ég labb­aði hérna inn.“

„Sam­mála,“ heyr­ist þá ann­ars staðar úr saln­um.

Ása heldur áfram: „Ég er hérna með und­ir­skrifta­lista og hann hljómar svona: Und­ir­rituð skora á bæj­ar­stjórn Ölfus að hætta öllum við­ræðum við Heidel­berg Mater­i­als um að reisa bygg­ingar og vinnslu á þeim lóðum sem búið er að úthluta og falla frá stór­tækum hug­myndum um frek­ari námu­vinnslu í sveit­ar­fé­lag­inu Ölf­usi.“

Margir klappa. Sumir standa jafn­vel upp og klappa.

Þorsteinn: „Ef þið mynduð segja nei? Ég geri ekki ráð fyrir því að verkefni af þessari stærðargráðu fyrir fram í harðri andstöðu við íbúa.“
Sunna Ósk Logadóttir

„Við erum ekki hér til að reyna að syk­ur­húða hlut­i,“ segir Þor­steinn. „Starf­semi sem þessi er ekki sætt í sveit­ar­fé­lag­inu ef að ekki er um hana víð­tæk sátt og ekki er haft gott sam­ráð við íbúa. Þá er verk­efn­inu bara að sjálf­sögðu sjálf­hætt.“

„Ég er líka sann­færð um að íbúum í Reykja­nesbæ var sagt að kís­il­verk­smiðjan yrði meng­un­ar­laus,“ segir þá annar fund­ar­gest­ur. „Það er bara mjög erfitt að treysta slíku. Þetta er risa­vaxin verk­smiðja í tún­fæt­in­um. Hún er nokkra metra frá heim­il­inu mínu, frá heim­ilum margra ann­arra. Frá nýrri íbúa­byggð sem á að byggja ...“

„... og við hlið­ina á nýja mið­bænum sem á að kom­a,“ botnar enn einn gest­ur­inn.

„Ég þekki ágæt­lega til starf­semi kís­il­vera og þessi starf­semi á ekk­ert skylt við þá starf­sem­i,“ svarar Þor­steinn.

Að fundi loknum skrifuðu margir nöfn sín á undirskriftalista þar sem bæjaryfirvöld eru hvött til að hætta viðræðum við Heidelberg um byggingu verksmiðjunnar.
Sunna Ósk Logadóttir

„Auð­vitað komu mót­mæli. Það er öllu mót­mælt,“ segir eldri karl­maður sem seg­ist vera frægur fyrir það að rífa kjaft. „Við þurfum að skoða þessi mál nán­ar. Það er alltof snemmt að koma með stórar yfir­lýs­ingar núna. Þetta er bara eins og fóstur í móð­ur­kviði á þriðju viku.“

Ein­hverjir hlæja.

Næstur fær karl­maður orðið sem seg­ist hafa orðið nei­kvæður í garð fram­kvæmd­ar­innar er bæk­ling­ur­inn kom heim til hans. „En mér finnst að við verðum að fá heild­ar­mynd­ina áður en við ákveðum að henda ein­hverjum í burtu. Síðan setjum við þetta í íbúa­kosn­ingu og fáum já eða nei.“

Grétar Ingi Erlendsson.

„Á þá að lofa íbúa­kosn­ing­u?“ kallar kona og beinir orðum sínum til full­trúa úr meiri­hluta bæj­ar­stjórnar sem er á fund­in­um.

„Það er bara ekk­ert flókið að standa upp og lofa því,“ segir full­trú­inn og for­maður bæj­ar­ráðs, Grétar Ingi Erlends­son, hátt og snjallt. Hann stendur upp.

„Lof­aðu því þá!“ segir maður hinum megin í saln­um.

„Ef það kemur til þess að [Heidel­berg] ætli að vinna þetta áfram, að sjálf­sögðu fer þetta í íbúa­kosn­ing­u,“ segir Grétar með þunga. „Að sjálf­sögð­u!“

Það er klapp­að. Þetta hefur mögu­lega róað taugar ein­hverra. Og nú hefur fund­ur­inn staðið í tæpa tvo tíma og fólk er farið að læð­ast út úr saln­um. Vill kom­ast heim til barna og bús.

Kolefn­is­spor er mik­il­vægt en nærum­hverfið líka, segir kona á meðan stólum er ýtt til og úlpum rennt upp í kringum hana. Hún spyr um nátt­úruperlur í nágrenni hinnar fyr­ir­hug­uðu verk­smiðju. Til dæmis fjör­una sem margir nýta sér til heilsu­bót­ar. „Við höfum hugsað um það að okkar starf­semi hafi sem minnst trufl­andi áhrif,“ svarar Þor­steinn. Verk­smiðjan sé við fjör­una en ekki í henni.

Ásýnd verk­efn­is­ins, umferðin sem því teng­ist og mögu­leg losun frá starf­sem­inni „er það sem ræður örlögum verk­efnis sem þessa,“ heldur hann áfram. „Við viljum gera eins vel og við getum og eiga sam­töl við bæj­ar­búa og stjórn­völd um það hvaða kröfur yrðu gerð­ar. Og það er þá á end­anum það sem ræður úrslitum um hvort af henni verður eða ekki. Við erum ekki að koma hér til að reyna að hola niður ein­hverri starf­semi í and­stöðu við byggð­ar­lag­ið.“

Vilji sveit­ar­fé­lags­ins og bæj­ar­búa sé „auð­vitað sá vilji sem við hlítum á end­an­um“.

Þor­láks­búar klappa kurt­eis­is­lega. Þeir hafa um margt að hugsa eftir fund­inn. Regnkápum er hneppt upp í háls. Regn­hlífar settar á loft. Fólk röltir heim á leið.

Við höfn­ina er ekk­ert flóð­lýst síló eins og í Mal­mö.

Það er enn sem komið er bara hug­mynd.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar