Regnvott fólk tínist inn úr myrkrinu. Sumir hafa sýnt fyrirhyggju, klæðst regnkápum og varið sig með regnhlífum, en aðrir eru nánast niðurrigndir og setjast gegnblautir á stólana fyrir framan sviðið. Flestir koma þó akandi. Höfðu lent í sjaldgæfri umferðarteppu á einu umferðarljósum bæjarins. Úr henni leystist fljótt og nú sitja nokkur hundruð íbúar Þorlákshafnar saman undir blikandi jólaseríum í Versölum – stórum sal í ráðhúsi bæjarins.
Aðeins nokkrum klukkustundum áður hafði verið stiginn þarna dans fram á nótt. En þessi samkoma er alvöruþrungin þótt gestir skrafi á léttum nótum sín á milli á meðan þeir bíða eftir að fundur um fyrirhugaða verksmiðju í bænum þeirra hefjist.
Þeir hafa þegar margir deilt skoðun sinni á þeim áformum. Viðrað áhyggjur af hæð bygginga og umferð flutningabíla – af öllum 222 ferðum þeirra á dag. „Djöfull er þetta ljótt,“ hafði einn þeirra skrifað á Facebook-síðu íbúanna. „Talandi um að skemma heildarmynd heils bæjarfélags með einni ömurlegri byggingu.“
Efni fundarins í Versölum er móberg. Eða réttara sagt fyrirhuguð vinnsla þýska risafyrirtækisins Heidelberg Materials á því. Móbergið mun koma úr námum í Þrengslunum. Lambafelli þar sem þegar er starfrækt náma og Litla-Sandfelli þar sem náma er fyrirhuguð.
Hún yrði svo stór að á þremur áratugum myndi fjallið hverfa. Verða minningin ein. Hverfa mulið inn í steypuhrærivélar og breytast í uppistöður háhýsa, brúa og annarra mannvirkja á meginlandi Evrópu og víðar um heim.
Móberg þykir gott íblöndunarefni í sement. Það verður til við eldsumbrot undir jökli og er þess vegna brennt frá náttúrunnar hendi. Finnst af þessum sökum víða á Íslandi. En er fágætt á heimsvísu.
Og fleira en náman yrði stórt. Verksmiðjan sem Heidelberg hyggst reisa við höfnina í Þorlákshöfn yrði það sannarlega líka. Turnar hennar, sílóin, myndu blasa við víða. „Mér finnst þetta ömurlegt,“ skrifaði íbúi á Facebook-síðuna. „Á að gera Þorlákshöfn að einhvers konar þungaiðnaðarbæ?“
Því áform Heidelberg Materials eru ekki þau einu sem hafa verið í umræðunni. Einnig stendur til að flytja til hafnar í Þorlákshöfn yfir milljón tonn af Kötluvikri á ári. Vikri sem grafinn yrði úr Mýrdalssandi og myndu fullfermdir vörubílar aka á kortersfresti milli námu og hafnar. Og svo tómir til baka sömu leið. Þær hugmyndir urðu einnig til í kollum stjórnenda þýsks iðnrisa en voru nýverið seldar tékknesku stórfyrirtæki.
Ekki allir íbúar eru neikvæðir í garð verksmiðju Heidelberg Materials. „Þetta lítur nú nokkuð vel út og skapar vinnu og tekjur,“ skrifar einn á Facebook-síðuna. „Ertu að grínast?“ svarar þá annar.
Það er gömul saga og ný að áform um stórar framkvæmdir geta myndað gjá í samfélögum. Klofið þau jafnvel til langframa. Verða til þess að nágrannar deili. Hætti að talast við. Þetta eru samfélagsleg áhrif umdeildra framkvæmda sem lítið hefur verið horft til fram að þessu. Með þá vitneskju í farteskinu, sem og reynslu annarra bæjarfélaga af verksmiðjum sem áttu ekkert að menga en gerðu það svo, mæta Þorlákshafnarbúar til fundar í ráðhúsinu um móbergsverksmiðju Heidelberg.
En þeir hafa fleira meðferðis. Myndskreyttan bækling um áform sementsrisans sem stungið var inn um bréfalúgur þeirra í síðustu viku. Sá fór vægast sagt öfugt ofan í marga. „Áformin eru liður í viðleitni Heidelberg Materials til að stórlækka kolefnisspor sitt á heimsvísu vegna sementsframleiðslu,“ stóð þar skýrum stöfum. Verksmiðjan yrði „stór vinnuveitandi í sveitarfélaginu,“ stóð þar líka. Og Heidelberg skjallar svo bæjaryfirvöld og íbúa: „Ölfus býr yfir nauðsynlegum innviðum, góðum hafnarskilyrðum og miklum mannauði.“ Af þessum sökum státi Þorlákshöfn af „ótvíræðum kostum sem gera staðsetninguna ákjósanlega“.
Stór hluti þessa mannauðs er mættur til fundarins. Svo stór að stilla þarf upp miklu fleiri stólum. Það verkefni dæmist á fundarstjórann, Þorstein Víglundsson, sem hraðar sér með stafla af stólum horna salarins á milli. Það fá ekki allir sæti. Vel á fjórða hundrað manneskjur, stór hluti hins vaxandi samfélags í Þorlákshöfn, vilja vita hvað Þorsteinn hefur að segja.
„Gott að byrja þetta lafmóður,“ segir þingmaðurinn fyrrverandi er hann ávarpar loks viðstadda. Hann er ekki fyrr byrjaður að segja frá verkefninu, að Heidelberg eigi 53 prósent í Hornsteini, fyrirtækinu sem hann stýri í dag, en að tæknin fer að stríða honum. Skruðningar heyrast úr hljóðnemanum. Hávært væl sem sker í eyru.
Þorsteinn Víglundsson er vanur því að tala opinberlega og tæknileg vandamál setja hann ekki út af laginu. Hann var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins en settist svo á þing fyrir Viðreisn. Sagði hins vegar af sér þingmennsku á vormánuðum 2020 og hóf störf hjá eignarhaldsfélaginu Hornsteini, sem á m.a. BM Vallá, fyrirtækið sem faðir hans stjórnaði í áratugi.
Hann er því á heimavelli að tala um steypu. Talar rólega, skýrt og greinilega. Jafnvel þegar hann þarf að brýna raustina án vælandi hljóðnemans.
„Það er mikilvægt að taka fram að móberg er auðvitað hundrað prósent náttúrulegt efni,“ byrjar Þorsteinn á að segja um hvað standi til að gera í verksmiðjunni. „Þar af leiðandi er ekki um að ræða losun af neinu tagi, hvorki ryk né lyktarmengun og það er metnaður að það verði í góðu lagi með hljóðvist.“
Verksmiðjan yrði byggð á 55 þúsund fermetra lóð við höfnina. Skammt frá íbúabyggð. Skammt frá áformuðum miðbæ. Og skammt frá einni helstu útivistarparadís Þorlákshafnar: Fjörunni fögru. Þorsteinn ítrekar að engar ákvarðanir um verkefnið hafi verið teknar, þetta sé kynningarfundur. Um mitt næsta ár eigi svarið að liggja fyrir: „Af eða á.“
Heidelberg Materials er stærsti framleiðandi steinefna í heiminum, annar stærsti framleiðandi sements og þriðji stærsti framleiðandi steinsteypu. Fyrirtækið er með starfsemi í um sextíu löndum og hjá því starfa þúsundir. Þetta er því sannarlega risi á sínu sviði.
En af hverju að vinna móberg á Íslandi og flytja það út í heim?
„Heidelberg hefur sett það á oddinn að ná fram kolefnishlutleysi í sinni sementsframleiðslu,“ segir Þorsteinn. Stefnt sé að því að ná því markmiði eigi síðar en 2050. Það á í fyrsta lagi að gera með föngun og förgun koltvísýrings með niðurdælingu og í öðru lagi með notkun nýrra íblendiefna í sement. Og þar kemur íslenska móbergið til skjalanna.
Í dag er svokölluð flugaska sem verður til við brennslu kola notuð í þessum sama tilgangi. En þar sem verið er að draga úr raforkuframleiðslu með kolaorkuverum á heimsvísu er Evrópa, að sögn Þorsteins, „að verða uppiskroppa með hana á næstu fimm til tíu árum“.
Því hefur Heidelberg leitað nýrra íblendiefna og rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að malað og þurrkað móberg er fyrirtaks staðgengill. Staðgengill fyrir staðgengil ef svo mætti segja. Því lengi var, og er reyndar í einhverjum mæli enn, notað sementsgjall (klinker). Flugaskan leysti gjallið af hólmi og nú skal móbergið koma í hennar stað.
Til að ná loftslagsmarkmiðum sínum ætlar Heidelberg í þriðja lagi að leggja áherslu á orkuskipti í samgöngum. „Ágætt er að hafa í huga að í þessu tiltekna verkefni er stefnt að kolefnishlutlausri vöru nánast frá byrjun og efnið flutt með farartækjum sem verða knúin endurnýjanlegu eldsneyti,“ segir Þorsteinn. Í athugun sé að þróa fyrsta vetnisknúna sementsskipið í heiminum.
„Megin tilgangur verkefnisins er að lækka kolefnisspor sements,“ ítrekar Þorsteinn og gerir tilraun til að útskýra með hvaða hætti:
Ef kolefnisspor sements er í dag að meðaltali 700-750 kíló á hvert tonn þá sparar móberg, malað saman við sementið, 20 prósent af þessu kolefnisspori.
Og hann heldur áfram:
„Það má taka sem dæmi að ein milljón tonna af útfluttu móbergi myndi samsvara 17 prósent af heildarlosun Íslands. Og ef við værum að tala hér um 2-3 milljónir tonna þá erum við að nálgast helminginn af heildarlosun Íslands. Þannig að verkefnið væri í raun risastórt framlag Íslands til kolefnisjöfnunar í Evrópu og mun skipta verulegu máli í því heildarsamhengi.“
Varla virðist til sú áformaða stórframkvæmd í dag sem ekki á að draga úr losun, minnka kolefnisspor eða styðja hreinlega við algjört kolefnishlutleysi. Að móbergsvinnsla í Þorlákshöfn smellpassi að loftslagsmarkmiðum ætti því engum að koma á óvart.
Fullyrðingar um jákvæð loftslagsáhrif þess að nota móberg í sement hafa verið gagnrýndar af íslenskum stofnunum. Þá gagnrýni settu þær m.a. fram í umhverfismatsskýrslu námuvinnslunnar í Litla-Sandfelli. Þær vilja meina að útreikningarnir virðist miða við þá losun sem fylgi notkun hins mengandi sementsgjalls en ekki flugösku. Að þessum jákvæðu áhrifum hafi þegar verið náð, að minnsta kosti að einhverju marki. Um það hefur Kjarninn fjallað í nokkrum fréttum undanfarið.
Stóra spurningin
„Hvernig mun verksmiðjan líta út? Það er auðvitað stóra spurningin,“ segir Þorsteinn og bregður upp á tjald mynd af verksmiðju með háum turnum í Malmö í Svíþjóð og segir Heidelberg hafa reynslu af því að byggja verksmiðjur inni í litlum bæjarfélögum. „Það er rétt að taka það fram að hönnun [verksmiðjunnar] hér er á algjöru frumstigi.“
Ákvarðanir um hönnunina verði teknar í samráði við bæjaryfirvöld og „auðvitað við bæjarbúa sjálfa“.
Þvínæst varpar hann mynd af Þorlákshöfn upp á tjaldið og inn á hana er búið að tölvuteikna kassalaga byggingar sem eiga að sýna það byggingarmagn sem um ræðir. „Þetta hefur mér verið sagt að hafi vakið mikla athygli – sem ég er ekkert hissa á,“ viðurkennir hann. Hann vilji ekki sykurhúða hlutina: „Það er alveg ljóst að hér er um stór mannvirki að ræða.“
Milljónirnar
En hver er ávinningurinn fyrir sveitarfélagið og nærsamfélagið, spyr Þorsteinn svo og svarar spurningu sinni með þessum hætti: „Þetta hefur veruleg jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ölfus. Það er talað um 60-90 bein störf í framleiðslu og námuvinnslu. Og það er ágætt að hafa það í huga að hér er verið að ræða um vel launuð störf.“
Miðað við útflutning á 1,5 til 2,5 milljónum tonna af móbergi á ári yrðu hafnargjöld ein og sér „talin í hundruðum milljóna,“ tekur hann sem dæmi.
Útsýnið af sílóunum
Heidelberg vill verða „góður granni“, leggja sitt af mörkum til samfélagsins í formi styrkja til menningar- og íþróttastarfs en „það er einnig ríkur vilji til þess að reyna að tengja svæðið eins og kostur er við umhverfið,“ segir Þorsteinn. „Það hefur ekkert verið útilokað þegar kemur að hönnun mannvirkja. Væri hægt að nýta byggingar af þessari hæð sem útsýnisstaði inn í ferðaþjónustu? Það kemur vel til álita af okkar hálfu.“
Það er komið að spurningum og Þorsteinn og jarðfræðingurinn Börge Wigum, einu talsmenn Heidelberg á fundinum, eru til svara.
Margar hendur fara þegar í stað á loft hér og hvar í salnum. Karlmaður ríður á vaðið og segir að eitt af því sem valdi íbúum áhyggjum sé staðsetning verksmiðjunnar. Hann spyr: „Væri möguleiki, til að reyna að sætta ólík sjónarmið, að færa verksmiðjuna vestan við þorpið?“
Fleiri eiga eftir að spyrja um hið sama. Þarf hún virkilega að vera þarna?
„Við höfum í sjálfu sér ekki útilokað neitt en höfum á sama tíma sagt að nálægð við höfn er algjört lykilatriði,“ svarar Þorsteinn. „Það verður strax verulega kostnaðarsamt og flókið að flytja efnið fullunnið um langan veg. Ég óttast að það myndi verða alltof dýrt og ég held að það sé ekki raunhæft.“
Annar fundargestur vill vita hver ætli að bera kostnaðinn af þeim miklu hafnarframkvæmdum sem þyrfti að ráðast í.
„Það er alveg ljóst að við myndum þurfa að taka þátt í þeim kostnaði,“ segir Þorsteinn. „Við höfum þá gert ráð fyrir að það sé í formi fyrirframgreiddra hafnargjalda af einhverju tagi.“
En hvað með hávaðamengun frá höfninni, spyr kona. „Nú er íbúabyggð nánast alveg við höfnina.“
Lestunin, frá sílóum út í skip, fer fram á lokuðum færiböndum og er ekki hávær, fullyrðir Þorsteinn. Sementsskip séu stór en ekki háværari en önnur skip. Þau verði svo hljóðlát þegar þau gangi fyrir vetni, líkt og stefnt sé að.
Hvað ef henni verður lokað?
Einnig var spurt um hvað myndi gerast ef loka þyrfti verksmiðjunni. Þorsteinn segist telja það „ákaflega ólíklegt“. Horft sé til rekstrar til næstu áratuga.
„Það er ekki gott að segja „við höldum að þetta muni ganga vel“,“ segir þá annar fundargestur og vill vita hvort áætlanir hafi verið gerðar ef lokun yrði fyrr en til stæði. Hver beri ábyrgð og kostnað af því?
Þorsteinn segist „játa það fúslega“ að slíkar áætlanir hafi enn ekki verið gerðar. „Við hugsum þessa starfsemi til langframa. Við erum ekki að huga að lokuninni þegar við erum að fara af stað.“ Hins vegar sé ekki óalgengt að slíkt sé sett inn í samninga milli fyrirtækja og sveitarfélaga, „þannig að það er lítið mál að huga að því fyrirfram“.
Þá er spurt: „Þetta er gífurlegt magn sem á að flytja hingað niður eftir. Hvernig hyggist þið gera það?“
Þrír meginkostir hafa verið skoðaðir, útskýrir Þorsteinn. Erlendis sé þekkt að flytja efni með færiböndum frá námu og að vinnslustað. „Það er mjög dýrt og hefur auk þess áhrif á umhverfið að setja slíkan búnað upp,“ bætir hann við. Sá kostur virðist því út úr myndinni. „Númer tvö er að nýta þjóðvegakerfið sem til staðar er. Við höfum heyrt mjög skýrar raddir um að það sé ekki ríkur vilji til þess. Við höfum því verið að skoða sérgreinda [vegi] sem kæmu þá nálægt bæjarmörkum en ekki inn í bæinn og efnið yrði þá flutt með færiböndum síðustu 1-2 kílómetrana.“
Fundargestur: „Hvar myndi sérgreind leið fyrir vörubíla liggja?“
Þorsteinn: „Það er eitt af því sem er til skoðunar.“
Væntanlegt, mögulegt og kannski
„Þið hafið talað um að þetta muni lækka kolefnisspor þessa þýska fyrirtækisins,“ spyr karlmaður. „Það er ekkert smá kolefni sem er verið að pústa út í loftið hér, með stórum vinnuvélum í námu og flytja það svo hingað. Svifryk og annað slíkt. Erum við þá að menga okkar land þannig að þýskt fyrirtæki geti lækkað sitt kolefnisspor?“
Þorsteinn ítrekar að stefnt sé að því að nota flutningabíla sem gangi fyrir endurnýjanlegu eldsneyti. „Metnaðurinn er að þetta sé kolefnishlutlaus vara, komin til viðskiptavina í Evrópu. Bæði flutningurinn hér og skipaflutningarnir.“
„Mér finnast þessi svör þín og þessar skýringar ansi loðnar,“ segir þá kona. „Það er allt væntanlegt og mögulegt og kannski. Skipið er svona stórt en það heyrist samt ekkert í því. Þetta verður yfirþyrmandi fyrir okkur sem búum næst höfninni. Fyrir utan að það þarf enginn að segja mér það að verksmiðja alveg við bæjarmörkin mengi ekki neitt. Að það komi enginn hávaði frá henni. Og það eru engir vörubílar sem geta flutt þessa þyngd sem eru vetnisknúnir. Ég meina, Teslan dregur ekki einu sinni hestakerru í dag. Þetta er ekkert að gerast.“
Salurinn springur úr hlátri. Margir klappa.
Væntanlegir vetnisvörubílar
Þorsteinn bíður eftir hljóði og segir: „Svo því sé til haga haldið: Þessir vörubílar eru komnir. Og þeir eru í mjög örri þróun. Við erum að tala um framleiðslu sem færi af stað í fyrsta lagi árið 2025 eða 2026. En það er verið að bjóða okkur vetnisbíla til notkunar á næsta ári. Þannig að þessi tækni er komin.“
En hvar er vetnið, er þá spurt. Því engin vetnisverksmiðja er risin hér á landi þótt einhverjar slíkar séu á teikniborðinu. Þær eru mjög orkufrekar og þurfa virkjananna við.
Þorsteinn bendir á að í orkuskiptaáætlunum stjórnvalda séu hugmyndir um hvernig vetni verði framleitt hér til orkuskipta.
Mun þetta minnka losun Þorlákshafnar? Nei.
Loftslagsmálin eru ekki afgreidd. Margir hafa rétt upp hönd.
„Er það bara þannig að þýska fyrirtækið er að fara að jafna kolefnisspor sitt eða munu þau jákvæðu umhverfisáhrif skila sér til íbúa Þorlákshafnar?“
„Ja, mun þetta minnka losun Þorlákshafnar? Nei. Það gerir það ekki en þannig virkar loftslagsbókhaldið okkar ekki,“ svarar Þorsteinn. „Það má alveg hafa það í huga að við sem þjóð erum að flytja inn langstærstan hluta af okkar kolefnisspori sem telur ekki inn í okkar loftslagsbókhald. Þannig að við getum ekki heldur sagt að það einhverjir aðrir verði að hafa áhyggjur af því hvernig við afgreiðum málmiðnað til að búa til Teslurnar okkar eða batteríin í þær og svo framvegis. Þetta er hnattrænn vandi. Þannig að vissulega erum við að segja: Já, við erum að leggja af mörkum hér verulega lækkun kolefnisspors sem kemur inn í loftslagsbókhald annarra landa en það er samt hluti af lausn við hnattrænum vanda og við þurfum öll að taka þátt í að leysa hann.“
Nú er keppst um að komast að með spurningar. Þorsteinn stendur í ströngu við að forgangsraða.
„Það er hendi hérna! Hérna!“ Kona teygir hönd sína upp sem mest hún má. Og áfram er spurt um kolefnissporið títtnefnda. Gestir koma vel undirbúnir til fundarins. Hafa kynnt sér málin. Vilja skýr og afdráttarlaus svör.
Græna hliðin ekki tilkomin af góðmennsku
Kolefnisspor byggingariðnaðarins er gríðarlegt, bendir konan á. „Það á að leggja gríðarlega skatta á þessa starfsemi ef hún gerir ekkert í sínum málum. Þannig að ég held, því miður, að græna hliðin hjá Heidelberg sé ekki af góðmennsku og umhverfissjónarmiðum einum saman heldur til þess að reyna að spara sér pening.“
„Heyr heyr!“ er kallað á nokkrum stöðum í salnum.
„Þetta er góðu punktur,“ byrjar Þorsteinn svar sitt á. Innan Evrópusambandsins eigi vissulega að fara að breyta kerfum sem útdeila losunarheimildum til iðnfyrirtækja, þar á meðal til sementsframleiðenda. Þær verði ekki lengur ókeypis. „Það er verið að setja þá kröfu á þessi fyrirtæki að þau hafi x mörg ár til að koma sér niður í kolefnishlutleysi ellegar leggist mjög þungur kostnaður á þau. Það er alveg rétt. En fyrirtæki eins og Heidelberg styður líka þessar aðgerðir af því að þær eru að virka til að knýja stærri iðnfyrirtæki til að minnka kolefnisspor sitt.“
Hvað mun þetta nota mikið rafmagn, er svo spurt. Rafmagn er líka auðlind sem keppst sé um.
„Það er gert ráð fyrir um það bil 40 megavatta raforkunotkun í fyrsta áfanga verkefnisins og það gæti aukist í 60 megavött í öðrum áfanga. Þetta er ekki risa orkunotandi en vissulega stór, það er alveg rétt,“ svarar Þorsteinn.
Í þessu samhengi má nefna að Kröfluvirkjun er 60 megavött (MW) að afli.
„Er búið að tryggja þessa orku?“
„Ja, það er eitt af því sem er í umræðunni,“ segir Þorsteinn og afsakar sig með þessum orðum. „Og af því að talað var hér um að svörin væru loðin þá eru þau einmitt loðin af því að við erum bara hér á fyrstu metrunum.“
„Er til raforka í kerfinu fyrir þetta verkefni?“
„Það er til rafmagn í kerfinu já, og það er til rafmagn hjá orkuframleiðendum,“ svarar hann. „Þannig að við höfum bæði verið að ræða við Landsnet og raforkuframleiðendur varðandi aðgang að rafmagni. Það er auðvitað grundvallarforsenda þess að hægt sé að reisa verksmiðju sem þessa.“
„Yes! Loksins komið að okkur!“ segir kona sem situr út á enda er Þorsteinn hefur loks bent á upprétta hönd hennar.
Hún vill vita meira um byggingarnar, jafnvel þótt hönnun þeirra sé aðeins á frumstigi.
„Þessi síló, hvað er þetta hátt?“
„Endanleg hæð liggur í raun og veru ekki fyrir en við höfum sagt að þetta séu 40 til 50 metra há mannvirki,“ svarar Þorsteinn.
Nú taka fundargestir að ræða sín á milli hversu há slík bygging í raun sé, miðað við aðrar. „Kuldaboli er fimmtán metra hár,“ segir kona. „Þannig að þetta eru þrír Kuldabolar,“ segir önnur.
Kuldaboli er þekkt kennileiti í Þorlákshöfn. Frystivöruhótel við höfnina sem þjónar matvælaframleiðendum jafnt sem innflytjendum og útflytjendum. Eitt stærsta mannvirki bæjarins.
„Gætum við fengið myndir sem sýna verksmiðjuna frá innkeyrslunni inn í bæinn?“ er spurt.
„Mun þetta sjást frá Selfossi?“ spyr annar.
Snyrtileg mannvirki
„Heldurðu að þetta verði bara fallegt?“ spyr kona um byggingarnar háu. Þorsteinn horfir á hana um stund þar til hún bætir við: „Nú er ég bara að spyrja af kurteisi.“
Þorsteinn brosir. Segist ekki hafa tekið því öðruvísi. „Já, þessi mannvirki geta verið mjög snyrtileg. Þau eru stór. Ég er heldur ekki að reyna að draga dul á það.“
„Ég er búin að hafa hendina á lofti lengi og ég nenni ekki meir,“ segir einn fundargesta. Það eru enn margir um hituna.
„Þið talið um að þetta eigi að vera mengunarlaus starfsemi,“ segir hann og rifjar upp loforð um sorpbrennslustöð á Ísafirði sem átti ekkert að menga „þar til hún gerði það svo“. Gesturinn vill vita hvernig það verði tryggt að starfsemin mengi ekki, „að við getum andað að okkur góðu lofti“.
Þorsteinn lýsir vinnsluferlinu. Móbergið komi til verksmiðjunnar og sé malað og þurrkað með heitu vatni og rafmagni. Engin skaðleg hjálparefni séu notuð í því ferli. Rykið sé auðlindin og því hagur fyrirtækisins að ekkert af því sleppi út. „Þetta á ekkert skylt við sorpbrennslustöð.“
Hann segir að gert hafi verið grín að sér fyrir að segja að verksmiðjan verði mengunarlaus. „En það er bara veruleikinn.“
„Þetta er þá fyrsta verksmiðjan í heiminum sem verður mengunarlaus,“ er kallað utan úr salnum.
Nú spyrja margir í einu.
„Hvað þurfið þið mikið af heitu vatni á sekúndu og hvar ætlið þið að fá það?“
„Þið þurrkið efnið og þá verður til gufa. Hvað ætlið þið að gera við hana?“
„Verður kosning um það meðal íbúa hvort þeir vilji þetta eða ekki?“
Þetta er spurningin sem líklega flestir í salnum vilja fá svör við.
„Það er auðvitað íbúanna og sveitarfélagsins að ákveða það,“ svarar Þorsteinn.
„Og ef við myndum segja nei?“
„Ef þið mynduð segja nei? Ég geri ekki ráð fyrir því að verkefni af þessari stærðargráðu færi fram í harðri andstöðu við íbúa.“
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, fulltrúi Íbúalistans í bæjarstjórn, ólst upp í Þorlákshöfn og er flutt þangað aftur með börn sín. „Mér líst ekkert á þetta,“ segir hún. „Ég var búin að sjá fyrir að þú myndir reyna að sykurhúða þetta eitthvað á þessum fundi en mér finnst þetta jafnhræðilegt og þegar ég labbaði hérna inn.“
„Sammála,“ heyrist þá annars staðar úr salnum.
Ása heldur áfram: „Ég er hérna með undirskriftalista og hann hljómar svona: Undirrituð skora á bæjarstjórn Ölfus að hætta öllum viðræðum við Heidelberg Materials um að reisa byggingar og vinnslu á þeim lóðum sem búið er að úthluta og falla frá stórtækum hugmyndum um frekari námuvinnslu í sveitarfélaginu Ölfusi.“
Margir klappa. Sumir standa jafnvel upp og klappa.
„Við erum ekki hér til að reyna að sykurhúða hluti,“ segir Þorsteinn. „Starfsemi sem þessi er ekki sætt í sveitarfélaginu ef að ekki er um hana víðtæk sátt og ekki er haft gott samráð við íbúa. Þá er verkefninu bara að sjálfsögðu sjálfhætt.“
„Ég er líka sannfærð um að íbúum í Reykjanesbæ var sagt að kísilverksmiðjan yrði mengunarlaus,“ segir þá annar fundargestur. „Það er bara mjög erfitt að treysta slíku. Þetta er risavaxin verksmiðja í túnfætinum. Hún er nokkra metra frá heimilinu mínu, frá heimilum margra annarra. Frá nýrri íbúabyggð sem á að byggja ...“
„... og við hliðina á nýja miðbænum sem á að koma,“ botnar enn einn gesturinn.
„Ég þekki ágætlega til starfsemi kísilvera og þessi starfsemi á ekkert skylt við þá starfsemi,“ svarar Þorsteinn.
„Auðvitað komu mótmæli. Það er öllu mótmælt,“ segir eldri karlmaður sem segist vera frægur fyrir það að rífa kjaft. „Við þurfum að skoða þessi mál nánar. Það er alltof snemmt að koma með stórar yfirlýsingar núna. Þetta er bara eins og fóstur í móðurkviði á þriðju viku.“
Einhverjir hlæja.
Næstur fær karlmaður orðið sem segist hafa orðið neikvæður í garð framkvæmdarinnar er bæklingurinn kom heim til hans. „En mér finnst að við verðum að fá heildarmyndina áður en við ákveðum að henda einhverjum í burtu. Síðan setjum við þetta í íbúakosningu og fáum já eða nei.“
„Á þá að lofa íbúakosningu?“ kallar kona og beinir orðum sínum til fulltrúa úr meirihluta bæjarstjórnar sem er á fundinum.
„Það er bara ekkert flókið að standa upp og lofa því,“ segir fulltrúinn og formaður bæjarráðs, Grétar Ingi Erlendsson, hátt og snjallt. Hann stendur upp.
„Lofaðu því þá!“ segir maður hinum megin í salnum.
„Ef það kemur til þess að [Heidelberg] ætli að vinna þetta áfram, að sjálfsögðu fer þetta í íbúakosningu,“ segir Grétar með þunga. „Að sjálfsögðu!“
Það er klappað. Þetta hefur mögulega róað taugar einhverra. Og nú hefur fundurinn staðið í tæpa tvo tíma og fólk er farið að læðast út úr salnum. Vill komast heim til barna og bús.
Kolefnisspor er mikilvægt en nærumhverfið líka, segir kona á meðan stólum er ýtt til og úlpum rennt upp í kringum hana. Hún spyr um náttúruperlur í nágrenni hinnar fyrirhuguðu verksmiðju. Til dæmis fjöruna sem margir nýta sér til heilsubótar. „Við höfum hugsað um það að okkar starfsemi hafi sem minnst truflandi áhrif,“ svarar Þorsteinn. Verksmiðjan sé við fjöruna en ekki í henni.
Ásýnd verkefnisins, umferðin sem því tengist og möguleg losun frá starfseminni „er það sem ræður örlögum verkefnis sem þessa,“ heldur hann áfram. „Við viljum gera eins vel og við getum og eiga samtöl við bæjarbúa og stjórnvöld um það hvaða kröfur yrðu gerðar. Og það er þá á endanum það sem ræður úrslitum um hvort af henni verður eða ekki. Við erum ekki að koma hér til að reyna að hola niður einhverri starfsemi í andstöðu við byggðarlagið.“
Vilji sveitarfélagsins og bæjarbúa sé „auðvitað sá vilji sem við hlítum á endanum“.
Þorláksbúar klappa kurteisislega. Þeir hafa um margt að hugsa eftir fundinn. Regnkápum er hneppt upp í háls. Regnhlífar settar á loft. Fólk röltir heim á leið.
Við höfnina er ekkert flóðlýst síló eins og í Malmö.
Það er enn sem komið er bara hugmynd.