Eftir árásirnar á Charlie Hebdo ítrekuðu stjórnvöld í Frakklandi að nú væri mikilvægasta verkefnið að styrkja eina helstu stoð lýðveldisins: tjáningarfrelsið. Allir yrðu að geta tjáð sig, hver með sínum hætti - jafnvel yrði að verja rétt fólks til þess að móðga fólk og særa. Opin og gagnrýnin umræða væri grundvöllur lýðræðissamfélags. En á sama tíma eru frönsk yfirvöld með í undirbúningi ný lög og átak gegn hatursumræðu og kynþáttþáttafordómum á netinu. Með því er hægt að loka ákveðnum vefsíðum sem þykja hatursfullar og særandi. Hvernig getur þetta tvennt farið saman? Aukið eftirlit samhliða auknu málfrelsi?
Dómsmálaráðherra Frakklands, Christine Taubira, fer fyrir þessu átaki. Hún segir kynþáttahatur fara ört vaxandi í landinu og Evrópu allri, sérstaklega gegn gyðingum og múslimum, og við því verði að bregðast. Aukið eftirlit yfirvalda með hatursumræðu á netinu verði framkvæmt á svipaðan hátt og eftirlit með barnaklámi. Fólk verði þefað uppi og því refsað.
Christiane Taubira fer fyrir átakinu gegn hatursumræðunni á netinu. Hún er afar umdeild í Frakklandi en ötul baráttukona fyrir mannréttindum.
Glæpur og refsing
Netið er sýndarheimur. Eru þá illvirki í slíkum heimi aðeins sýndarglæpir eða sýndarillvirki? Netið er orðið helsti grunnþáttur samfélagsins. Þar fara fram flest okkar samskipti, viðskipti, fréttir, umræður; þar kvikna ástir, þar geysa stríð. Netið er eitt risastórt þjóðartorg og heimsvöllur. Taubira, dómsmálaráðherra Frakklands, sagði nýlega að sömu lög ættu að gilda á netinu og annars staðar, og ef ofbeldi er bannað í raunheimi gildir það líka á netinu. Framundan væri miskunnarlaus barátta yfirvalda gegn gyðingahatri og öðrum kynþáttafordómum.
Mörgum brá í brún við þessari yfirlýsingu. Stríðsyfirlýsing gegn ákveðinni umræðu á netinu þykir brjóta í bága við almennar hugmyndir um óskorað málfrelsi – sem hamrað hefur verið á síðastliðin misseri. Má móðga múslima og birta myndir af Múhameð spámanni, en á sama tíma ekki gera grín að helförinni? Margir óttast ný lög sem leyfa eitt og banna annað og saka stjórnvöld um að þvinga fram ný lög í miklu umróti eftir morðin á ritstjórn Charlie Hebdo.
Átök í frönsku samfélagi
Frakkland er mesta fjölmenningarland Evrópu. Hér búa flestir gyðingar og múslimar. Hvergi í Evrópu búa fleiri innflytjendur. Það er ekki sjálfgefið að slíkt samfélag virki. Það kostar mikla vinnu og þrek að byggja upp slíkt samfélag og láta það ganga án árekstra. En fyrir vikið verður til kröftugt, litskrúðugt og jafnvel hagkvæmara samfélag; stórt og mikilvægt markaðs- og menningarsvæði; skemmtilegur samkomustaður með magvíslegum áhrifum sem dregur til sín viðskipti, listir, vísindi – og ferðamenn. Stærstu, mikilvægustu og ríkustu borgir heims: París, London, Istanbúl, Hong Kong, New York og fleiri eru einmitt dæmi um slík samfélög.
Á netinu og á samfélagsmiðlinum hefur geisað hatursumræða og hatursfullir íslamistar reynt í gegnum samfélagsmiðla og ýmsar lokaðar síður að lokka til sín ráðvillt ungt fólk.
Í margbreytileikanum verður alltaf núningur milli þjóðfélagshópa en meðan allt er í sátt getur hann jafnframt hreyfiafl þess og helsti kostur. Hins vegar er mjög auðvelt að brjóta samstöðuna niður og etja hópum saman. Það hefur því miður verið að gerast í Frakklandi og víða annars staðar undanfarin ár. Vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs hefur vaxið upp spenna sumra araba gegn gyðingum. Í mótmælum gegn stríðinu á Gaza síðastliðið sumar var til að mynda ráðist á bænahús og verslanir gyðinga í París. Margir gyðingar segjast upplifa aukið óöryggi, vaxandi hatur og hafa jafnvel íhugað að flytjast búferlum til Ísraels. Á sama tíma hafa múslimar kvartað undan ofsóknum og fordómum.
Á netinu og á samfélagsmiðlinum hefur geisað hatursumræða og hatursfullir íslamistar reynt í gegnum samfélagsmiðla og ýmsar lokaðar síður að lokka til sín ráðvillt ungt fólk. Þessi stigvaxandi spenna hefur síðan verið að brjótast upp á yfirborðið með óeirðum og ofbeldi á báða bóga.
Netið og förukonurnar
Átak yfirvalda gegn hatursumræðunni hefur vakið upp ýmsar spurningar: Verður málfrelsið skert? Er þetta yfirhöfuð hægt? Ná lög yfirleitt utan um slíkt? Stjórnvöld segjast vilja lægja öldurnar í samfélaginu. Minnka hatrið og draga úr ofbeldi og fordómum. Þess vegna sé brýnt að koma á reglum á netinu þar sem samtal samfélagsins fer að stórum hluta fram. Þegar franskir borgarar eru farnir vígbúast og myrða samlanda sína eins og gerðist í árásinni á Charlie Hebdo – verði yfirvöld og allt samfélagið að bregðast við. Það þurfi að reyna að uppræta hatrið og ráðast að upptökum umræðunnar — á netinu.
Fórnarlamba hryðjuverkaárásanna minnst. Franska þingið þarf að takast á við það flókna verkefni að efla málfrelsi en hefta hatursumræðu.
Þegar Hallgerður Langbrók uppnefndi Njálssyni taðskegglinga bárust tíðindin að Berþórshvoli með förukonum sem flökkuðum um sveitir og fluttu tíðindi. Þessi rógur varð upphafið að ofbeldisverkum og vígaferlum sem enduðu um síðir í brennunni frægu. Eins og svo oft á þjóðveldisöld, og sem greint er frá í Íslendingasögum, er upphaf átaka oftar en ekki illmælgi, móðganir eða hatursumræða sem erfitt var að sækja refsingu fyrir samkvæmt lögum. Þá var gripið til vígaferla. Förukonurnar voru samfélagsmiðlar síns tíma; þær báru tíðindin á milli fólks og bæja án þess að bera sérstaka ábyrgð á þeim.
Þeir sem vilja koma böndum á netið segja hatursumræðuna þar vera ávísun á átök og ofbeldi. En eins og í Njálu er erfitt að koma lögum yfir slíkt athæfi; það er flókið og varasamt að fjalla um meiðyrði, þá eins og nú, og sú hætta alltaf fyrir hendi að í slíkri óreiðu taki fólk lögin í sínar hendur.
Og svo kom Charlie Hebdo árásin…
Blóðbaðið í byrjun árs minnti fólk á að ekki væri allt með felldu í Frakklandi. Þetta grimmdarverk íslam-fasistanna (eins og þeir eru nú kallaðir) virðist ætla verða vatn á myllu ýmissa öfgahópa. Síðan hefur verið ráðist á moskur og múslimum ógnað. Í janúar var tilkynnt um 199 árásir í garð múslima, sem er meira en á öllu síðasta ári. Á sama tíma hefur gyðingum verið hótað og í síðustu viku voru 250 legsteinar gyðinga vanhelgaðir í Austur-Frakklandi. Í flestum tilvikum er þetta ungt fólk sem frönsk yfirvöld vilja reyna hemja og temja með aðhaldi og eftirliti á Netinu sem gæti samt reynst þrautin þyngri.
Simon Wiesenthal-stofnunin sem rannsakað hefur helförina, nasista, hægri öfgamenn og hatursglæpi segir að gyðingahatur hafa farið vaxandi síðastliðin tuttugu ár. Með tilkomu samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter hafi hatrið fengið útrás og hafi náð hámarki á þessu ári.
Er hægt að banna hatursumræðu?
Margt er nú þegar bannað með lögum á netinu. Barnaklám, eiturlyfjasala, heimasíður og tengslanet barnaníðinga hafa verið upprætt – hvers vegna þá ekki haturssíður þar sem ráðist er sérstaklega á ákveðna hópa? - spyrja frönsk stjórnvöld. Málfrelsi fylgir ábyrgð og það eru alltaf ákveðin takmörk í öllum frjálsum ríkjum á því hvað má segja og hvað ekki. Frönsk yfirvöld segja nýju reglugerðina vernda grundvallarréttindi borgararanna og hún muni á engan hátt skerða eðlilegt tjáningafrelsi.
Frönsk stjórnvöld segjast vera full meðvituð um annmarka og vandkvæði við gerð slíkrar reglugerðar en láta það samt ekki stoppa sig og hvetja um leið önnur Evrópuríki til þess að fylgja fordæmi sínu.
Gagnrýnendur benda hins vegar að með þessu sé verið að feta vafasaman slóð. Þau ríki sem helst hafa beitt sér fyrir slíkum reglugerðum eru síst þekkt fyrir málfrelsi og lýðréttindi. Samtökin „No Hate Speech Movement“ sem berst gegn hatursumræðu á Netinu og er fjármögnuð af Evrópuráðinu segir slíkt nánast ógjörning og í raun tilgangslaust. Erfitt sé að koma böndum á það sem gerist á Netinu í krafti nafnleyndar og þar sem engin landamæri gildi.
Frönsk stjórnvöld segjast vera full meðvituð um annmarka og vandkvæði við gerð slíkrar reglugerðar en láta það samt ekki stoppa sig og hvetja um leið önnur Evrópuríki til þess að fylgja fordæmi sínu. Það verði að taka á vaxandi ofbeldi og kynþáttahatri í álfunni og það verði ekki gert nema með sameiginlegu átaki. Franskir ráðamenn áttu fund hjá Sameinuðu þjóðunum með ýmsum sérfræðingum og ráðamönnum Evrópu í lok janúar og ræddu aðgerðir til þess að sporna við hatursumræðu og kynþátttafordómum á samfélagsmiðlum. Í síðustu viku fór franski innanríkisráðherrann, Bernard Cazeneuve, í sérstaka ferð í Sílikondalin í Kaliforníu til þess að ráðfæra sig við helstu sérfræðinga hjá Facebook, Apple, Twitter og Google.
Ekki er enn ljóst hvers konar aðgerðir þetta beinlínis verða. Opnaður verður vefur þar sem hægt verður að tilkynna til lögreglu grunsamlegar og hatursfullar síður, ekki síst ef grunur leikur á um hryðjuverkastarfsemi. Foreldrar hafa verið hvattir til þessa að upplýsa börn og unglinga og ræða við þau alvarlega um ábyrgð og hættur á netinu.
Nú er spurning hvort skerða verði frelsið til að viðhalda jafnrétti og bræðralagi?