Lögmenn ákærðra í hrun-málum, það er málum sem nú hafa verið dómtekin sem tengjast hruni bankanna og viðskiptagjörningum því tengdu, eru margir hverjir „í sjokki“, eins og einn þeirra komst að orði í samtali við Kjarnann, eftir dóm Hæstaréttar í Al Thani málinu í gær. Fæstir vilja tjá sig opinberlega um niðurstöðuna, en augljóst var á orðum margra þeirra að dómurinn virðist hafa vakið þá upp við vondan draum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir niðurstöðuna hins vegar vera í takt við það sem málatilbúnaður ákæruvaldsins hafi miðast við.
Í málinu voru allir ákærðu, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson, dæmdir sekir um umboðssvik og markaðsmisnotkun í Hæstarétti í gær, en málið tengdist kaupum Mohammed Sheikh Bin Kalifa Al Thani, frænda Emírsins frá Katar, á fimm prósenta hlut í Kaupþingi í lok september 2008. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur fjögur ár og Magnús fjögur og hálft ár.
Afdráttarlaust
Það sem kom lögmönnum á óvart sem Kjarninn ræddi við, var hversu afdráttarlaus dómurinn er. Ekki síst þar sem spjótunum er beint að „þolendum glæpanna“, almenningi. Orðrétt segir um þetta í dómnum: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot [...]Kjarninn í háttsemi ákærðu fólst í þeim brotum, sem III. kafli ákærunnar snýr að, en þau voru þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi.“
Vilja ekki tjá sig
Gestur Jónsson hrl., sem var lögmaður Sigurðar framan af Al Thani málinu, þar til hann sagði sig frá því, og hefur einnig gætt hagsmuna hans í öðrum málum þar sem hann er ákærður, vildi ekki láta hafa neitt eftir sér um dóminn þegar Kjarninn náði af honum tali. Það sögðu aðrir lögmenn ákærðu í málinu sem Kjarninn náði tali af einnig, þar á meðal Hörður Felix Harðarson hrl., lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar.
Almennt vildu lögmenn, sem hafa komið að hrun-málum sem verjendur, lítið segja um fordæmisgildi Al Thani dómsins, en sögðu hann „afgerandi“, hvað ákæruefnið varðar, og að dómurinn væri „einstakur“ á margan hátt. Þannig nefndu lögmenn sem Kjarninn ræddi við, að með Hæstaréttardómnum hefði héraðsdómnum í málinu, frá því í desember 2013, þar sem ákærðu voru allir sakfelldir og hlutu dóma á bilinu þriggja til fimm og hálfs árs fangelsis, verið „nær alveg vikið til hliðar“ og nýr rökstuðningur færður fram á borðið. Málsatvikalýsingin í Hæstaréttardómnum sé nákvæm upp úr gögnum málsins, sjálfstætt unnin, að því er virðist af Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Í það minnsta töldu viðmælendur Kjarnans úr lögmannastétt sig þekkja kjarnyrta framsetningu hans á dómnum og stílbrigði í texta. Dómarar í málinu voru auk Markúsar, Helgi I. Jónsson, Þorgeir Örlygsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi hæstaréttardómarar. Enginn skilaði sératkvæði í málinu.
Fordæmalaus lögbrot áttu sér í starfsemi Kaupþings skömmu fyrir hrun, í tengslum við viðskipti Al Thani með 5 prósent hlut í bankanum, samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Hvað með önnur mál?
Nú, þegar tæplega sex og hálft ár er liðið frá hruni fjármálakerfisins, eru ekki nándar nærri öll kurl komin til grafar sem varða hrun bankanna. Eins og Kjarninn greindi frá 16. janúar síðastliðinn, eru fjórtán svokölluð hrunmál full rannsökuð hjá embætti sérstaks saksóknara og bíða þess að ákvörðun verði tekin um hvort saksótt verði í þeim eða ekki. Til viðbótar eru 24 slík mál í rannsókn, og mörg þeirra mjög langt komið. Búist er við ákvörðun um hvort ákært verði í flestum málanna á þessu ári. Búist er við að minnsta kosti þrjú til fjögur ár í viðbót muni líða þar til málunum lýkur í dómskerfinu.
Þrjú mál til viðbótar sem tengjast fyrrverandi stjórnendum og starfsfólki Kaupþings, sem líkt og Al Thani málið eru fordæmalaus að umfangi, bíða þess að verða til lykta fyrir dómstólum. Þá eru einnig fleiri mál til rannsóknar, meðal annars í Lúxemborg, sem tengjast meintum brotum. Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli sem beinist að stjórnendum Kaupþings, meðal annars Hreiðari Má Sigurðssyni og Magnúsi Guðmundssyni, hefst 20. apríl næstkomandi og stendur til 20. maí, samkvæmt tímaramma sem henni hefur verið gefinn.